Þokunni lyft af rauðviðnum

Þoka meðfram ströndum Kaliforníu á vesturströnd Bandaríkjanna hefur minnkað umtalsvert síðastliðin 100 ár. Það er talið geta haft áhrif á vöxt og viðgang rauðviðar (Sequoia sempervirens) sem er háður köldu röku sumri – samkvæmt nýrri rannsókn. 

Rauðviður (sequoia) vex á mjóu belti með fram ströndum Kaliforníu. Á því svæði eru köld og rök sumur vegna þoku.

Frá 1901 þá hefur meðalþokutími við ströndina yfir sumartíman minnkað frá því að vera 56 % og yfir í að vera 42% – sem þýðir minnkun um þrjár klukkustundir á dag. Köld strönd og heitt innlandið er eitt af því sem einkennir loftslag við strönd Kaliforníu – þessi hitamunur er að minnka – og er afleiðingin minni sumarþoka.

Aukinn hiti, með meiri uppgufun og minni þoka þýðir að vistkerfi við ströndina þurfi að höndla meiri þurrka. Þokan kemur í veg fyrir að rauðviðurinn missi vatn yfir sumartíman sem er mjög mikilvægt fyrir trén og skóginn í heild.

Gögn voru greind, sem söfnuð höfðu verið í tengslum við innanlandsflug ná 60 ár aftur í tíman – skýjahula (og skýjahæð), skyggni, vindur og hiti. Á tveimur flugvöllum voru upplýsingar um þoku sem náðu allt til ársins 1951 og með þeim gögnum gátu þeir tengt saman strandþokuna við hitamun milli strandar og innlandsins. Hitagögn frá mælistöðvum við ströndina og inn til landsins sýndu að hitamunur hafði minnkað um 3°C á síðustu öld. Á þeim tíma hafði tíðni þokunnar minnkað um 33%.

Tíðni þokunnar er tengd breytingum í sjávarstraumum – fyrirbærum eins og PDO (Pacific Decadal Oscillation) – en einnig breytingum í loftstraumum en norðlægir vindar af landi leiða til þess að meira af köldum sjó streymir upp á yfirborðið við ströndina. Einnig, eins og áður var sagt, þá skiptir hitamunur lands og sjávar miklu máli. 

Þessi minnkandi þoka er ekki talin hafa alvarleg áhrif strax á viðgang rauðviðarins, en þetta gæti haft þau áhrif með tíð og tíma að minni endurliðun verður í rauðviðnum. Þá er talið líklegt að þetta geti hjálpað til við að túlka trjáhringjagögn til að skilja hitabreytingar og túlka fornloftslag. Rauðviðurinn verður allt að 2000 ára, en erfitt hefur reynst að túlka áhrif loftslags á vöxt þeirra trjáa. Hægt er að gera samsætumælingar til að sjá hvort vatnið hefur verið tekið úr þokunni með laufunum eða með rótunum frá rigningavatni. Það er því mögulegt í framtíðinni að nota rauðviðinn til að kortleggja breytingar í loftslagskerfum, þúsund ár eða meir aftur í tímann.

Heimildir og ítarefni

Greinina sjálfa má finna hér: Johnstone og Dawson 2010 – Climatic context and ecological implications of summer fog decline in the coast redwood region

Umföllun um greinina má finna á heimasíðu Berkeley háskóla: Fog has declined in past century along California’s redwood coast

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál