Hinn týndi hiti

Svo virðist sem mælitæki séu bara að mæla um helming af þeim hita sem búist er við að hafi verið að magnast upp á Jörðinni síðustu ár, samkvæmt nýrri sjónarmiðsgrein (perspective) sem birtist í Science.

Vísindamennirnir benda á að það geti þurft að bæta næmni gervihnetta, auka umfang sjávarhitamælinga og annarra mælitækja, til að mæla hinn týnda hita sem ætti að vera að byggjast upp á Jörðinni, sérstaklega í djúpsjónum. Vísindamennirnir telja að þessi hiti eigi eftir að koma í bakið á okkur síðar.

“Sú minnkandi hlýnun sem hefur orðið síðustu ár mun ekki halda áfram. Því er nauðsynlegt að geta fylgst með því hvernig orkan hleðst upp í loftslagskerfi jarðar, svo við getum skilið hvað er að gerast og spá fyrir um loftslag framtíðar” segir Kevin Trenberth annar höfunda greinarinnar.

Ójafnvægi er í orkubúskap Jarðarinnar: Meiri hiti kemur inn í loftshjúpinn en yfirgefur hann, vegna gróðurhúsaáhrifanna. Mynd frá NASA.

Þrátt fyrir að gervihnattagögn sýni að gróðurhúsalofttegundir hafa haldið áfram að festa sólarorku (hita) í lofthjúp jarðar, þá hefur vísindamönnum ekki tekist að sýna fram á hvert allur hitinn er að fara. Það eru tveir möguleikar sem höfundar sjá. Annars vegar að gervihnattamælingarnar séu rangar eða hins vegar að hitinn sé að byggjast upp á svæðum sem erfitt er að mæla, líkt og í djúpsjónum. Höfundar hallast að síðari möguleikanum.

Hluti af vandamálinu er það að hnattrænt yfirborðshitastig hefur ekki verið að aukast eins hratt undanfarin ár og búist var við – en á sama tíma hefur bráðnun jökla og hafís haldið áfram, auk hækkandi sjávarstöðu – sem bendir til þess að hitinn sé að byggjast upp á Jörðinni, þótt hann mælist ekki eins hraður og áður. Því sé nauðsynlegt að bæta mælitæknina til að ná yfir þann hita sem er að byggjast upp á Jörðinni og sérstaklega í sjónum.

Aukin þekking á orkuinnihaldi lofthjúpsins og sjávar myndi enn frekar hjálpa til við að skilja veðrakerfi, líkt og ollu óvenjulegum staðbundnum kulda í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu – á sama tíma og hnattrænn hiti eykst.

Við aukningu gróðurhúsalofttegunda, þá sýna gervihnattagögn aukið orkuójafnvægi milli þeirrar orku sem kemur inn í lofthjúpinn og þess sem yfirgefur hann. Þetta ójafnvægi er ástæða hinnar langtíma hnattrænu hlýnunar sem er í gangi.

Sjórinn gleypir um 90% af sólarorkunni sem að gróðurhúsaáhrifin festa í loftslagskerfum Jarðar. Auk þess fer hluti af orkunni í að bræða jökla og hafís, auk þess sem lítill hluti orkunnar fer í að hita upp lofthjúp Jarðar og yfirborð.

Á meðan orkuójafnvægið hefur aukist samkvæmt gervihnattagögnum síðustu ár, þá hefur hitaaukningin hægt á sér í efsta kílómetra sjávar. Orkan er talin samsvara um 1 watti á fermetra (eða meira) á sama tíma og mæligögn sem mæla sjóinn benda til að orkan sem sé að byggjast upp í sjónum sé um 0,5 wött á fermetra. Það þýðir að töluverður hluti af hitanum hefur týnst eða kemur ekki fram á mælum. Hluti af því getur verið villa í mæligögnum eða nemum gervihnattanna segja höfundar. Annar hluti hitans geti verið að fara í hina auknu bráðnun á Grænlandi og Suðurskautinu sem nýlegar rannsóknir benda til að hafi farið vaxandi.

Áætlað hitamagn sjávar, sýnir hvernig orka hleðst upp í loftslagskerfum Jarðar. Mynd NCAR/Science

En mikill hluti hins týnda hita, virðist vera í sjónum. Mæligögn í sjónum eru dreifð og ná einungis niður á einn kílómetra í þokkalegri upplausn, en auk þess eru dreifðari mælar sem mæla niður á tveggja kílómetra dýpi – en neðar ná mælar ekki. Höfundar vilja fá auknar mælingar niður á meira dýpi – auk meiri upplausnar.

Það skal tekið fram, að þrátt fyrir að hitastigsaukningin sé minni en búist er við, þá er það nú svo að síðustu 12 mánuðir eru heitustu 12 mánuðir frá upphafi mælinga hnattrænt séð, samkvæmt tölum frá NASA – sem að hluta til má útskýra vegna El Nino, en er þó í mótsögn við þá minnkandi inngeislun sólar sem verið hefur undanfarna áratugi.

Að lokum er hér stutt myndband þar sem Kevin Trenberth útskýrir þetta í stuttu máli:

Heimildir og ítarefni

Sjónarmiðsgreinina má finna hér: Kevin E. Trenberth and John T. Fasullo 2010 – Tracking Earth’s Energy

Góð umfjöllun er um greinina á heimasíðu National Science Foundation: “Missing” Heat May Affect Future Climate Change

Tengdar færslur af loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál