Tímabil lítillar virkni Sólarinnar, leiðir af sér breytingar í lofthjúp jarðar sem verða til þess að það verður óvenjulega kalt í Norður Evrópu, samkvæmt nýrri rannsókn sem birtist í Environmental Research Letters fyrir stuttu.
Vísindamenn greindu 350 ára gögn frá mið Englandi sem ná aftur til ársins 1659 og báru saman við sólblettagögn á sama tímabili. Með því að sía í burtu hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda, þá kom í ljós að vetur í Evrópu voru um 0,5°C kaldari, þegar lítil virkni var í sólinni.
Svo sterk er fylgnin að þrátt fyrir að hnattrænn hiti Jarðar árið 2009 hafi verið sá fimmti hæsti frá upphafi mælinga, þá var veturinn á Englandi sá 18. kaldasti síðastliðin 350 ár.
Þessi tölfræðilega greining þykir nokkuð góð og mun betri en aðrar greiningar af sama meiði – en ástæður þessarar fylgni er þó enn frekar óljós.
Höfundar telja þó að hún tengist áhrifum útfjólublás sólarljóss á heiðhvolf Jarðar í um 20-50 kílómetra hæð. Óson í heiðhvolfinu gleypi útfjólublátt ljós frá Sólinni, sem verndar yfirborð Jarðar, en hitar um leið heiðhvolfið. Þau áhrif eru mest í hitabeltinu, þar sem inngeislun sólar er mest. Hitamismunur á milli hærri breiddargráða og lægri, myndar vindakerfi í efri lögum lofthjúpsins, svokallaða Norður- og Suðurhvelsvindstrengi (e. Northern and Southern Hemisphere jet streams).
Einföld líkön sýna að minní sólvirkni breytir þessum vindstrengjum og færir þá nær Miðbaug. Þetta er talið hafa þau áhrif að hiti tengdur vindakerfum Atlantshafins nær ekki að hita upp Norður Evrópu og um leið eykur líkur á að kalt loft berst frá Rússlandi og Norðurskautinu.
Þetta munstur má sjá í veðurgögnum allt aftur til miðrar sautjándu aldar, en þá byrjaði svokallað Maunder minimum þegar óvenju lítið var af sólblettum. Austlægir vindar voru einmitt ríkjandi á þeim tíma, þegar óvenjukalt var á veturna.
Fylgnin er þó ekki fullkomin, því það skiptust á óvenjuköld og óvenjuhlý ár á sama tíma og sólvirknin var í lágmarki, samanber að árið 1684 var kaldasta ár gagnanna frá Englandi – en næsta ár var það þriðja heitasta.
Höfundar benda ennfremur á að þó að núverandi niðursveifla í sólvirkni haldi áfram þá muni það ekki hafa áhrif á hina hnattrænu hlýnun – áhrifin séu mjög svæðabundin og þá nær eingöngu Evrópskt fyrirbæri. Því megi allt eins búast við að Evrópa verði kaldari yfir vetrartíman á næstunni – þ.e. ef að niðursveifla í virkni Sólar heldur áfram.
Heimildir og ítarefni
Greinina má finna hér: Lockwood o.fl. 2010 – Are cold winters in Europe associated with low solar activity?
Góða umfjöllun um greinina má sjá á Nature News: Ebbing sunspot activity makes Europe freeze
Tengdar færslar á loftslag.is
- Mýta: lítil ísöld eða kuldaskeið er á næsta leiti
- Mýta: hlýnunin nú er af völdum Sólarinnar
- Við minni virkni sólar
- Loftslagsbreytingar og áhrif manna
Leave a Reply