Vinnuhópur 1 fær toppeinkun

Nýlega birtist samantekt og gagnrýni á fjórðu úttekt IPCC frá árinu 2007 – gagnrýnin er sú að fjórða úttektin innihaldi allt að 30% af óritrýndum greinum (sjá NOconsensus.org). Það skal tekið fram að hér er á ferðinni gagnrýni frá efasemdamönnum um hnattræna hlýnun af mannavöldum.

Það sem þeir virðast ekki hafa áttað sig á er, að með því að flokka niður skýrslurnar eftir vinnuhópum, þá gáfu þeir vinnuhópi 1 toppeinkun. Vinnuhópur 1 (wg1) sá um að skrifa um vísindalega þekkingu á veðurfari og loftslagsbreytingum – eða eins og við höfum áður skrifað hér á loftslag.is:

Það helsta sem verið er að gagnrýna IPCC fyrir, er í kafla um afleiðingar og áhrif á samfélög. Þar er þekkingin götótt og svo virðist vera sem að inn í skýrslu vinnuhóps 2 (wg2) hafi ratað heimildir sem ekki eru ritrýndar – oft skýrslur sem unnar eru upp úr ritrýndum greinum, en þar hefur greinilega slæðst inn villa varðandi jökla Himalaya. Skýrsla vinnuhóps 1 (wg1) sem fór í gegnum ástand jarðarinnar, vísindalega og ritrýnt, hefur sýnt sig að er byggð á ansi góðum grunni – þótt eflaust megi gagnrýna mat þeirra á sumu – t.d. má benda á að jökulbreiður Grænlands og Suðurskautsins eru að bráðna hraðar en búist var við í skýrslunni (og samfara var vanmat á hækkun sjávarstöðu) – einnig hefur bráðnun hafíss verið hraðari en búist var við af IPCC og fleira má nefna.

Í úttekt NOconsensus.org kemur fram að yfir 93% af þeim 6226 greinum sem eru notaðar í vinnuhóp 1 eru ritrýndar. Það þýðir samkvæmt þeim að vinnuhópur 1 fær einkunina A – ekki slæmt – þ.e. hin vísindalega þekking á veðurfari og loftslagsbreytingum er samkvæmt þeim mjög vel unnin af IPCC. Þ.e. þeir hljóta því að taka undir eftirfarandi niðurstöðu:

Megin niðurstaða fjórðu úttektar milliríkjanefndarinnar er að breytingar í ýmsum náttúruþáttum í lofthjúpnum, hafinu og í jöklum og ís bera óumdeilanleg merki hlýnunar jarðar.  – Það er mjög líklegt að meðalhiti á norðuhveli jarðar hafi á síðari hluta 20. aldar verið hærri en á nokkru öðru 50-ára tímabili síðustu 500 árin, og líklega sá hæsti í a.m.k. 1300 ár. – Það er afar ólíklegt að þá hnattrænu hlýnun sem orðið hefur á síðustu fimm áratugum megi útskýra án ytri breytinga. Samanlögð áhrif náttúrulegra þátta, þ.e. eldgosaösku og breytinga á styrk sólar, hefðu líklega valdið kólnun á tímabilinu (úr skýrslu sem unnin var fyrir Umhverfisráðuneytið um Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi).

Fleiri slíkar vel ígrunaðar niðurstöður má finna í skýrslu vinnuhóps 1 (sjá wg1). Vel af sér vikið hjá NOconcensus.org að sýna fram á hversu sterk gögn eru á bak við hinn vísindalega grunn bakvið kenninguna um að Jörðin sé að hlýna af mannavöldum. Að sama skapi má hrósa IPCC fyrir vel unnið starf.

Tengdar færslur af loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál