Í grein sem birt var fyrir stuttu í Proceedings of the National Academy of Sciences er sagt frá nýjum gögnum, þar sem kalsíum samsætur hafa verið greindar í Kínverskum kalkstein.
Á mörkum Perm og Trías varð mikil eldvirkni af völdum heits reits þar sem nú er Síbería og myndaði svokölluðu Síberíu tröppuhraun (Siberian Traps). Við það jókst styrkur CO2 gríðarlega í andrúmsloftinu, sem síðan leystist upp í hafinu – sýrustig þess jókst, sem leiddi síðan til mesta útdauða sjávarlífvera til þessa.
Þessi samsetning aukins styrk CO2 í andrúmsloftinu og súrnun sjávar af sömu völdum er talið að hafi þurrkað út 90% sjávarlífvera og um 70% lífvera á landi – í lok Perm fyrir 250 milljónum ára.
Fyrir þennan atburð þá var sjórinn iðandi af kóröllum, þörungum, skeljum og kuðungum. Stuttu á eftir þá bendir setmyndun til þess að sjórinn hafi verið slímkenndur og bakteríuríkur.
Höfundar skoðuðu kalkstein í Guizou fylki í Suðaustur Kína, til að leita að ástæðum útdauðans. Hingað til hafa verið margar kenningar um ástæður hans, allt frá lofttsteinaregni, eldvirkni og yfir í lækkandi styrks súrefnis í sjónum.
Ástæða þess að kalksteinninn var skoðaður er að mismunandi samsætur kalsíums geta gefið vísbendingar um hvers kyns atburð var um að ræða. Kalksteinninn var malaður – bæði fyrir og eftir atburðinn og greindur til að skoða hlutfall mismunandi samsæta kalsíums.
Þeir fundu út að hlutfall samsætanna reyndist svipað og búist var við, ef útdauðinn hefði orðið vegna súrnunar sjávar og samsætugreining á kolefni setlagsins benti til þess að CO2 aukningin hefði orðið vegna eldvirkni. Höfundar telja líklegast að að CO2 aukningin hafi orðið vegna eldvirkninnar í Síberíu.
Útreikningar benda til að eldvirknin, sem að varði í milljónir ára, hafi losað á milli 13-43 þúsund gígatonn af kolefni út í andrúmsloftið – til samanburðar þá áætla vísindamenn að heildarmagn losunar á CO2 út í andrúmsloftið af völdum manna geti orðið allt að 5 þúsund gígatonn ef við klárum allt jarðefnaeldsneyti sem mögulegt er að ná úr jörðu. Það er mun minni losun en varð af völdum eldvirkninnar í lok Perm – en þó á mun meiri hraða, sem getur leitt til þess að súrnun sjávar nái töluverðum hæðum ef áfram heldur sem horfir.
Heimildir og ítarefni
Greinina sjálfa má finna hér: Payne o.fl. 2010 – Calcium isotope constraints on the end-Permian mass extinction
Umfjöllun um rannsóknina má finna á heimasíðu Stanford: Stanford scientists link ocean acidification to prehistoric mass extinction
Tengt efni á loftslag.is
- Fjöldaútdauði lífvera
- Súrnun sjávar – hinn illi tvíburi
- Súrnun sjávar eykst í Norður Kyrrahafi
- Súrnun sjávar hraðari en fyrir 55 milljónum ára
Leave a Reply