Niðurstaða rannsókna, sem farið hafa fram við Beauforthaf við norðurströnd Alaska, hafa gefið beinar mælingar sem sýna fram á tengsl milli hnignandi hafíss og afkomu ísbjarna.
Í grein sem birtist í Ecological Applications þá könnuðu höfundar ýmis atriði sem tengjast afkomu ísbjarna við Beaufort haf, en hafís á þeim slóðum hefur hnignað töluvert á tímabilinu sem rannsóknin nær yfir, þ.e. frá 1982-2006.
Það sem gerði rannsóknina erfiða er sú staðreynd að þó að það sé fylgni milli breytinga í ísbjarnastofninum og hafíss, þá er það engin ávísun á að þar með hafi fundist orsök og afleiðing. Lykillinn að lausninni reyndist vera tengsl næringar og líkamstærðar. Vel þekkt tengsl eru til milli fæðuúrvals annars vegar og þyngdar sem og stærðar beinagrindar hins vegar, hjá björnum. Hvað varðar ísbirni, þá er hafísinn mikilvægur þáttur í fæðuöflun.
Aðalfæða ísbjarna er hringanóri og kampselur við Alaskaströnd Beauforthafs og eina leiðin til að nálgast hann er á hafís. Ef hafís er ekki nægur, þá fá ísbirnir ekki nóg að éta og það hefur áhrif á fæðingartíðni og afkomu húnanna.
Það kom í ljós að bæði fjöldi einstaklinga og stærð þeirra minnkaði við hnignandi hafís. Að sama skapi minnkaði afkoma ísbjarna milli áranna 1982 og 2006, bæði hvað varðar stærð og fjölda húna. Ein niðurstaða virðist stangast á við heildarniðurstöðuna, en þyngd kvendýra með hún eða húna jókst á sama tíma. Höfundar benda á að það bendi frekar til þess að þau kvendýr sem að eru í besta ástandi nái að ala upp húna. Sú niðurstaða tengist að nokkru leiti athyglisverðustu niðurstöðunni, sem var sú að hnignun hafíssins virtist hafa mest áhrif á yngri birni – þeir uxu hægar.
Heimildir og ítarefni
Greinina má finna hér (ágrip): Rode o.fl 2010 – Reduced body size and cub recruitment in polar bears associated with sea ice decline
Umfjöllun um greinina má síðan finna hér: Sea ice decline linked with reduced polar bear size and reproduction
Leave a Reply