Eðlur á undanhaldi

Sceloporus eðla

Ný rannsókn bendir til að árið 2080, þá muni um 20% allra eðlutegunda verða útdauðar.

Þótt notaðar séu bjartsýnustu sviðsmyndir hvað varðar minnkandi losun á CO2 í framtíðinni, þá bendir greining alþjóðlegs teymis vísindamanna til þess að allt að 6% eðlutegunda muni deyja út fyrir árið 2050.

Nú þegar hafa loftslagsbreytingar orðið til þess að stofnstærð hinnar svokölluðu Sceloporus eðlu hefur minnkað um 12% frá árinu 1975.

Ef losun CO2 heldur áfram óheft, þá er því spáð að fyrir árið 2080 þá muni 39% af heildarfjölda eðla í heiminum hafa horfið – sem samsvarar að um 20% allra eðlutegunda deyji út. Grein um rannsóknina birtist í Science fyrir skömmu (sjá Sinervo o.fl. 2010).

Sinervo, einn aðalhöfunda ætlaði sér ekki að rannsaka útdauða eðlutegunda – upphaflega ætlaði hann að kanna hlutverk litabrigða í þróun eðla. Á nokkrum stöðum, í Evrópu og í Mexíkó – þar sem hann bjóst við að finna eðlur, þá hafði þeim fækkað það mikið að erfitt reyndist að finna þær. Hann safnaði því saman hóp vísindamanna til að rannsaka þetta frekar – hnattrænt. Niðurstaðan er sú að vandamálið er útbreitt.

Svæði voru könnuð á verndarsvæðum, til að útiloka áhrif á búsvæði af völdum breyttrar landnotkunar manna.

Eins og allar lífverur, þá verða eðlur að forðast það að ofhitna og halda líkamshita sínum innan vissra marka til að lifa af. Vandamálið virðist vera, samkvæmt rannsókninni, hærri hiti á vorin – frekar en hæsti hiti yfir hádaginn eða yfir sumartímann. Hærri hiti á vorin þýðir að dýrin eyða minni tíma yfir fengitíman til fæðuöflunar og meiri tíma í skugga. Á þessum tíma þurfa kvendýrin hámarksfæðu til að viðhalda orkuþörfinni og tímanum sem varið er í skugganum nýtist illa og vannærð kvendýrin eiga í erfiðleikum með að geta af sér afkvæmi.

Vistfræðilegar afleiðingar hugsanlegs útdauða eðlanna er óþekktur, en ef rétt reynist þá gætu þær orðið nokkrar – en aðalfæða eðla eru ýmis skordýr, auk þess sem þær sjálfar eru megin fæða ýmissa dýrategunda.

Heimildir og ítarefni

Grein Sinervo o.fl. 2010 sem birtist í Science (ágrip): Erosion of Lizard Diversity by Climate Change and Altered Thermal Niches

Þessi færsla er byggð á frétt í Nature News: Lizards succumb to global warming

Aðra góða umfjöllun má finna á heimasíðu NewScientist: Lost lizards validate grim extinction predictions

Tengdar færslur á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál