Orkusetur | Ný reiknivél

Bifreiðakaup eru ein allra stærsta ákvörðun sem einstaklingar taka í umhverfismálum. Ríki heims keppast nú við að setja sér markmið í loftslagsmálum þ.e.a.s hversu mikið eigi að takmarka útblástur gróðurhúsalofttegunda.  Meginuppsretta gróðurhúsalofttegunda er vegna bruna jarðefnaeldsneytis eins og olíu. Ísland er ríkt af grænni orku sem gefur kolefnisfrítt rafmagn og hita og því er bruni jarðefnaeldsneytis hjá einstaklingum bundinn við samgöngur.  Ef ná á árangri í samdrætti á útblæstri verða allir að leggja sig fram, fyrirtæki sem og einstaklingar.  Þar sem einkabíllinn er stærsta útblástursuppspretta heimila er brýnt að beina sjónum að því hvernig minnka megi útblástur og þar með jarðefnaeldsneytiseyðslu fólksbifreiða á Íslandi.

Árið 2020 hefur verið notað sem viðmiðun í áætlunum ríkja í loftlagsmálum og stefna ríki að mismunandi miklum samdrætti fyrir þann tíma. Ef miðað er við meðallíftíma bifreiða þá er ljóst að langstærstum hluta bifreiða sem nú er á götum landsins verður skipt út fyrir árið 2020.  Ef neytendur velja bifreiðar með t.d. 20% lægra útblástursgildi þá er ljóst að samdráttur í útblæstri frá samgöngum verður kringum 20% minni fyrir árið 2020.

Jákvæð þróun í hönnun bifreiða hjá framleiðendum hjálpar mikið til að gera slíkan árangur raunhæfan. En neytendur verða að þekkja eyðslu- og útblásturgildi bifreiða til að geta tekið þetta skref við næstu bifreiðakaup.  Orkusetur kynnir nú nýja reiknivél sem aðstoða á neytendur til að velja betri bifreiðar með tilliti til útblásturs.  Neytandinn þarf einungis að slá inn skráningarnúmer eigin bifreiðar og þá koma upplýsingar um eyðslu og útblástur bifreiðarinnar. Einnig kemur upp einföld einkunnargjöf sem raðar bifreiðum eftir útblástursgildum.  Því næst getur neytandinn valið hversu mikið hann hyggst draga úr útblæstri við næstu bifreiðakaup.  Neytandinn velur bifreiðaflokk sem sýnir glöggt að auðvelt er að draga verulega úr útblæstri án þess að nauðsynlegt sé að skipta um stærðarflokk. Reiknivélinni er ætlað að slá tvær flugur í einu höggi þ.e. kynna fyrir neytendum lykilstærðir um eyðslu- og útblástursgildi og aðstoða um leið við að finna eyðsluminni bifreiðar.

Smíði reiknivélarinnar er fjármögnuð með styrk frá Norrænu ráðherranefndinni og verður reiknivélin því aðgengileg á öllum tungumálum Norðurlanda. Það er fróðlegt að velta upp tölum um hvaða áhrif smávægilegar breytingar á bílaflota Norðurlanda hafa á útblástur.  Fólksbifreiðar á Norðurlöndum eru um tíu milljónir talsins og ef meðalútblástursgildi færi úr 180 niður í 150 CO2 g/km á næstu tíu árum myndi útblástur frá bifreiðum minnka um 5 milljón CO2 tonn  á ári. Árlegur heildarútblástur gróðurhúsaloftegunda á Íslandi er einmitt í kringum 5 milljónir tonna þannig að segja má að skynsamlegar ákvarðanir bifreiðaeiganda á Norðurlöndum geti hreinsað út ígildi alls Íslands í útblástursbókhaldi heimsins.  Það er vonandi að reiknivélin komist í notkun á Norðurlöndunum og hafi áhrif á einhverja þeirra 10 milljón ákvarðanna sem teknar verða um bifreiðakaup á Norðurlöndum fyrir 2020.

Reiknivélina má prófa á eftirfarandi slóð:  Reiknivél

Tengt efni á loftslag.is:

Athugasemdir

ummæli

About Sigurður Ingi Friðleifsson

Sigurður Ingi Friðleifsson er framkvæmdastjóri á orkusetur.is