Endurbirting fréttar sem birtist fyrst hér á loftslag.is í marsmánuði.
Í nýrri grein sem birtist í Geophysical Research Letters er velt upp þeirri spurningu hvaða áhrif það myndi hafa á loftslag ef sólin færi yfir í tímabil lítillar virkni, líkt og gerði á sautjándu öld og hafði áhrif til kólnunar (ásamt öðrum þáttum) á svokallaðri Litlu Ísöld. Samkvæmt höfundum þá hefði sambærilegt skeið á næstu áratugum og öld, væg áhrif til mótvægis við hlýnun jarðar.
Virkni sólar hefur farið minnkandi undanfarna áratugi og þó það sé ólíklegt að sólin fari í sambærilega niðursveiflu og á sautjándu öldinni, þá velta höfundar greinarinnar upp þeim möguleika . Höfundar greinarinnar beittu fyrir sér loftslagslíkönum til að skoða áhrif þess ef virknin minnkar enn frekar. Þeir gerðu ráð fyrir því að virkni sólar yrði sambærileg við það sem gerðist á Maunder lágmarkinu, en á því tímabili varð vart við fyrrnefnda kólnun Litlu Ísaldar, sem talið er að hafi byrjað um miðja sautjándu öld (fer eftir skilgreiningu, kólnunin byrjaði t.d. fyrr hér á landi). Útkoman var sú að fyrir árið 2100 yrði hitastig jarðar einungis um 0,3°C lægri þá í samanburði við útreikninga þar sem sólvirknin yrði eins og í dag.
Niðurstaðan er því sú að sólvirkni sambærileg við Maunder lágmarkið myndi að öllum líkindum aðeins minnka hlýnunina lítillega og að auki að sú minnkun myndi líklega aðeins vara í nokkra áratugi.
Heimildir og ítarefni
Greinina sjálfa má finna hér (áskrift): Feulner og Rahmstorf 2010 – On the effect of a new grand minimum of solar activity on the future climate on Earth
Góða umfjöllun um greinina má finna á heimasíðu Discovery: The Sun Can’t Save Us From Global Warming
Tengt efni á loftslag.is:
- Mýta – Lítil ísöld eða kuldaskeið er á næsta leiti
- Mýta – Aðrar reikistjörnur í sólkerfinu eru að hlýna
- Mýta – Hlýnunin nú er af völdum Sólarinnar
- Frétt – Vegur niðursveifla í virkni sólar upp á móti hlýnun jarðar af mannavöldum?
þótt þetta innleg fjalli ekki um greinina fyrir ofan, langaði mig að fylgja link á mjög athyglsiverða frétt um braðnun á Grænlandsjökli. En á einum degi hörfaði 3kílometrar af ís!!!
http://www.cbsnews.com/8301-501465_162-20010213-501465.html
Takk fyrir tengilinn Pálmi, ég hafði ekki séð þessa frétt. Persónulega, myndi ég fara varlega í að túlka út frá svona einstökum atburði sem eiga sér stað þegar sumarbráðnun stendur yfir. En það er þó alveg ljóst í mínum huga að það á sér stað og hefur átt sér stað mikil bráðnun í Grænlandsjökli á undanförnum árum. Það sýna mælingar á jöklinum, m.a. mælingar NASA. Ef fram heldur sem horfir þá getum við hugsanlega átt von á meiri tíðni svona atburða í framtíðinni.