Nú nýverið kom út skýrsla NOAA (National Oceanic and Atmospheric Administration) um ástand loftslags fyrir árið 2009. Í henni koma meðal annars fram 10 greinileg ummerki þess að hitastig Jarðar sé að hækka. Yfir 300 vísindamenn, frá 160 rannsóknateymum í 48 löndum tóku þátt í gerð skýrslunnar – en þar er einnig staðfest að síðasti áratugur hafi verið sá heitasti frá upphafi mælinga.
Skýrslan er byggð á umfangsmiklum gögnum frá ýmsum áttum (gervihnettir, veðurbelgir, veðurstöðvum á landi, skip, baujur og staðbundnar rannsóknir) og skilgreina höfundar tíu mælanlega þætti sem vísa á hnattrænar breytingar í hitastigi. Hver þessara vísa hefur breyst í samræmi við hnattræna hlýnun. Sjö eru að aukast: lofthiti yfir landi, yfirborðshiti sjávar, lofthiti yfir sjó, sjávarstaða, hitainnihald sjávar, raki og hitistig í veðrahvolfinu. Þrír þeirra sína minnkun: hafís Norðurskautsins, jöklar og snjóhula að vori á Norðurhveli Jarðar.
Í skýrslunni kemur fram að samfélag manna hefur þróast í þúsundir ára við svipað ástand loftslags og að nú sé nýtt ástand að myndast. Það ástand sé mun heitara en hið fyrra og fyrir sum svæði þá sé líklegt að öfgaatburðir verði algengari, líkt og alvarlegir þurrkar, óhemju úrkoma og ofsafengnir stormar.
Þrátt fyrir skammtímabreytileika í loftslagi, þá sýna fyrrnefndir vísar að langtímaþróunin er í átt til hlýnunar. Náttúrulegur breytileiki í loftslagi, sem stafa af sveiflum líkt og El Nino/La Nina, breyta meðalhitastiginu milli ára – en breytingar frá áratugi til áratugs, sína mun betur langtímaleitnina. Það kemur einnig í ljós ef skoðaðir eru síðustu þrír áratugir, en hver þeirra hefur verið mun heitari en næsti áratugur þar á undan.
Fleiri og fleiri verða vitni að loftslagsbreytingum í sínu nánasta umhverfi, lengra tímabil í vexti gróðurs, færsla lífvera á hærri breiddargráður, sjávarstöðubreytingar, flóð og úrhellisrigningar, snjór hverfur fyrr að vori og stöðuvötn eru íslaus lengur. Samkvæmt þessari skýrslu þá stemmir það heim og saman við mælanlegar breytingar sem sýna greinilega að hnattræn hlýnun er óumdeilanleg.
Heimildir og ítarefni
Skýrsluna má lesa hér: State of the Climate in 2009
Fréttatilkynning frá NOAA má lesa hér: NOAA: Past Decade Warmest on Record According to Scientists in 48 Countries
Umfjöllun bresku Veðurstofunnar (Met Office) má lesa hér: Unmistakable signs of a warming world
Áhugavert myndband um stöðu loftslags 2009 frá NOAA má horfa á hér: Video – State of the Climate in 2009
Tengdar færslur á loftslag.is
- Yfirlýsing frá Vísindaráði Bandaríkjanna
- NASA | Heitasta 12 mánaða tímabilið
- Hitastig árið 2009
- Hitamet mun fleiri en kuldamet í Bandaríkjunum
- Heitasti áratugurinn frá því mælingar hófust
- Yfirlýsing GSA um loftslagsbreytingar
- Sameiginleg yfirlýsing þriggja breskra stofnana
Leave a Reply