Kostir og gallar hnattrænnar hlýnunar (eða hnattrænna loftslagsbreytinga) er talin verða mjög breytileg milli svæða á hnettinum. Ef hlýnunin verður mild þá er erfitt að meta hvaða svæði muni dafna og hvaða svæði verða fyrir áföllum, en eitt er víst að því meiri sem loftslagsbreytingarnar verða, því alvarlegri verða afleiðingarnar. Áframhaldandi loftslagsbreytingar munu að öllum líkindum gera afkomu meirihluta mannkyns erfiðari – aðallega vegna þess að við höfum nú þegar byggt upp samfélag sem er aðlagað því loftslagi sem verið hefur undanfarnar aldir.
Það útilokar þó ekki að sum svæði, sérstaklega á kaldtempruðu beltunum, muni dafna betur við mildari vetur, meiri úrkomu og stærri svæði til ræktunar – á það meðal annars við um Ísland (þó sum loftslagslíkön bendi til þess að hlýnunin verði einna minnst á hafsvæðinu umhverfis Ísland). Þó er talið víst að samfélög manna á öðrum svæðum, sem sum eru þéttbýlustu svæði Jarðar, muni verða fyrir aukinni tíðni hitabylgja, landrofi, hærri sjávarstöðu, úrhellisrigningum og þurrkum.
Uppskera, náttúrulegur gróður, búfé og vilt dýr (ásamt sjávarfangi) sem viðhalda samfélögum manna, geta mögulega ekki aðlagast staðbundnum og svæðisbundnum loftslagsbreytingum. Umfang svæða, þar sem sjúkdómar og skordýraplágur eru einskorðaðar við hitastig, gætu stækkað ef aðrir þættir í umhverfinu eru hagstæðar fyrir þau.
Vandamálið virðist augljóst á svæðum þar sem þróun samfélaga er nú þegar á niðurleið:
- á sama tíma og sjávarstaða er að rísa, þá eykst mannfjöldi hvað mest á svæðum sem eru viðkvæm fyrir flóðum og á lágt liggjandi strandsvæðum;
- svæði þar sem hungur og fæðuöryggi er lítið í dag, munu ekki verða fyrir jákvæðum áhrifum mildari vetra, heldur eru það svæði þar sem úrkoma verður stopulli og uppskera er talin muni minnka;
- þau lönd sem talin eru viðkvæmust fyrir verstu afleiðingum hnattrænna loftslagsbreytinga eru einnig meðal þeirra fátækustu og eiga erfiðara með að greiða fyrir auknum kostnaði vegna heilsugæslu eða tæknilegra lausna sem nauðsynleg eru til að aðlagast loftslagsbreytingum.
Í heildina séð, þá benda niðurstöður rannsókna að heildarkostnaður af loftslagsbreytingum eigi eftir að verða umtalsverður og aukast samfara auknum loftslagsbreytingum.
Heimildir og ítarefni
Unnið upp úr færslu á heimasíðu NASA Earth Observatory: Why is global warming a problem?
Til að lesa um afleiðingar hnattrænna loftslagsbreytinga hér á Íslandi, þá er skýrsla Umhverfisráðuneytisins frá 2008 líklega besta skjalið til þessa: Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi
Tengdar færslur á loftslag.is
- Nokkrar skýrslur um loftslagsmál
- 10 vísar hnattrænnar hlýnunar
- Afleiðingar
- Aukning CO2 í andrúmsloftinu er góð (mýta)
- CO2 er ekki mengun (mýta)
- Vistkerfi
Leave a Reply