Enn ein staðfesting methita

Greining Evrópsku veðurspáreiknimiðstöðvarinnar ECMWF staðfestir methita. Þetta kemur fram í nýrri frétt á vef Veðurstofunnar. Í kjölfar mikils áhuga fjölmiðla á hitabylgjum og öðrum fréttum um að hitastig Jarðar sé hátt í sögulegu samhengi, er kannski áhugavert að birta þessa frétt Veðurstofunnar, sem er þýðing á þessari  frétt sem birtist á vef reiknimiðstöðvarinnar 16. ágúst 2010.

Í samræmi við umfjöllun fjölmiðla um hitabylgjur og neikvæðar afleiðingar af þeirra völdum, benda nýjustu niðurstöður ERA-Interim endurgreiningarinnar til þess að meðalhiti landsvæða á norðurhveli jarðar utan hitabeltisins hafi slegið met í júlí 2010. Maí og júní 2010 voru einnig óvenjulega heitir eins og sjá má á mynd 1.

Mynd 1. Vik meðalhita maí, júní og júlí (°C) fyrir landsvæði norðan tuttugustu gráðu norðlægrar breiddar.

Hiti er ekki sá sami frá einu ári til annars vegna náttúrulegs breytileika í lofthjúpi jarðar. Hann getur einnig lækkað um nokkurra missera skeið vegna agna sem berast upp í andrúmsloftið frá eldgosum eins og t.d. gosinu í Pinatubo á Filippseyjum í júní 1991. Ekki er unnt að rekja einstakar hitabylgjur til langtímabreytinga á veðurfari en tólf mánaða meðalhiti á mynd 2 sýnir skýrt óreglulegar hitabreytingar á milli ára en í bakgrunni hæga hlýnun sem árlegi hitinn sveiflast um.

Samkvæmt ERA greiningunni er meðalhiti jarðarinnar síðustu 12 mánuði, til og með júní 2010, sá næsthæsti frá upphafi tímaraðarinnar sem sýnd er á mynd 2. Hann er svolítið lægri en meðalhiti ársins 2005 en munurinn er þó ekki marktækur. Meðalhitinn lækkar lítillega undir lok raðarinnar vegna nýlegra breytinga á hafstraumum í suðaustanverðu Kyrrahafi (La Nina) og fremur lágs hita á landsvæðum hitabeltis og suðurhvels. Þessar breytingar koma á móti hlýindum á landsvæðum norðurhvels (mynd 1) þannig að meðalhiti jarðarinnar allrar lækkar svolítið, þó landsvæði norðurhvels hafi hlýnað á sama tíma.

Mynd 2: Tólf mánaða hlaupandi meðaltal yfirborðshita jarðar (vik hita í 2 m hæð frá meðaltali tímabilsins 1989-2001) í °C. Meðalhiti yfir alla jörðina og meðalhiti yfir hafi er óvissari en hiti á landsvæðum norðurhvels sem sýndur er á mynd 1. Blái borðinn sýnir ±0.1 °C óvissubil til beggja átta frá meðalhitanum.

Endurgreining veðurathugana með aðferðum sem þróaðar hafa verið til þess að reikna veðurspár er mikilvæg til samanburðar við hefðbundnar raðir mánaðameðaltala til þess að greina breytingar og breytileika í veðurfari. Niðurstöður ERA-40 endurgreiningar voru bornar saman við niðurstöður sem byggja beint á mæligögnum frá veðurstöðvum í grein sem birtist á síðasta ári í tímaritinu Journal of Geophysical Research (doi:10.1029/2009JD012442). Rannsóknirnar sem þar birtust og hér er lýst voru unnar í samstarfi Bresku veðurstofunnar og Climatic Research Unit við Háskólann í Austur Anglíu.

Á vef Veðurstofunnar má nálgast nánari upplýsingar um hvað ERA-40 og ERA-Interim eru, sjá fyrir neðan sjálfa fréttina á vef Veðurstofunnar.

Tengdar færslur á loftslag.is:

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.