Greining Evrópsku veðurspáreiknimiðstöðvarinnar ECMWF staðfestir methita. Þetta kemur fram í nýrri frétt á vef Veðurstofunnar. Í kjölfar mikils áhuga fjölmiðla á hitabylgjum og öðrum fréttum um að hitastig Jarðar sé hátt í sögulegu samhengi, er kannski áhugavert að birta þessa frétt Veðurstofunnar, sem er þýðing á þessari frétt sem birtist á vef reiknimiðstöðvarinnar 16. ágúst 2010.
Í samræmi við umfjöllun fjölmiðla um hitabylgjur og neikvæðar afleiðingar af þeirra völdum, benda nýjustu niðurstöður ERA-Interim endurgreiningarinnar til þess að meðalhiti landsvæða á norðurhveli jarðar utan hitabeltisins hafi slegið met í júlí 2010. Maí og júní 2010 voru einnig óvenjulega heitir eins og sjá má á mynd 1.
Hiti er ekki sá sami frá einu ári til annars vegna náttúrulegs breytileika í lofthjúpi jarðar. Hann getur einnig lækkað um nokkurra missera skeið vegna agna sem berast upp í andrúmsloftið frá eldgosum eins og t.d. gosinu í Pinatubo á Filippseyjum í júní 1991. Ekki er unnt að rekja einstakar hitabylgjur til langtímabreytinga á veðurfari en tólf mánaða meðalhiti á mynd 2 sýnir skýrt óreglulegar hitabreytingar á milli ára en í bakgrunni hæga hlýnun sem árlegi hitinn sveiflast um.
Samkvæmt ERA greiningunni er meðalhiti jarðarinnar síðustu 12 mánuði, til og með júní 2010, sá næsthæsti frá upphafi tímaraðarinnar sem sýnd er á mynd 2. Hann er svolítið lægri en meðalhiti ársins 2005 en munurinn er þó ekki marktækur. Meðalhitinn lækkar lítillega undir lok raðarinnar vegna nýlegra breytinga á hafstraumum í suðaustanverðu Kyrrahafi (La Nina) og fremur lágs hita á landsvæðum hitabeltis og suðurhvels. Þessar breytingar koma á móti hlýindum á landsvæðum norðurhvels (mynd 1) þannig að meðalhiti jarðarinnar allrar lækkar svolítið, þó landsvæði norðurhvels hafi hlýnað á sama tíma.
Endurgreining veðurathugana með aðferðum sem þróaðar hafa verið til þess að reikna veðurspár er mikilvæg til samanburðar við hefðbundnar raðir mánaðameðaltala til þess að greina breytingar og breytileika í veðurfari. Niðurstöður ERA-40 endurgreiningar voru bornar saman við niðurstöður sem byggja beint á mæligögnum frá veðurstöðvum í grein sem birtist á síðasta ári í tímaritinu Journal of Geophysical Research (doi:10.1029/2009JD012442). Rannsóknirnar sem þar birtust og hér er lýst voru unnar í samstarfi Bresku veðurstofunnar og Climatic Research Unit við Háskólann í Austur Anglíu.
Á vef Veðurstofunnar má nálgast nánari upplýsingar um hvað ERA-40 og ERA-Interim eru, sjá fyrir neðan sjálfa fréttina á vef Veðurstofunnar.
Tengdar færslur á loftslag.is:
- Er að verða hnattræn veðurfarsbreyting?
- Hitastig | Júlí 2010
- Tíðni hitabylgja gæti aukist í Bandaríkjunum
- Hitabylgjur í Evópu
- Eru tengsl loftslagsbreytinga og öfga í veðri?
- Er hnattræn hlýnun góð?
Leave a Reply