Röksemdir efasemdamanna…
Það sem vísindin segja…
Neikvæð áhrif hlýnunar Jarðar á landbúnað, heilsu og umhverfi yfirskyggja jákvæðu áhrif hlýnunarinnar.
Hér fyrir neðan er farið yfir ýmis konar áhrif hlýnunar Jarðar og sýnir þessi upptalning nokkuð vel að fæstar afleiðingar loftslagsbreytinga eru ríkulegum kostum búnar, þvert á móti geta afleiðingarnar orðið slæmar og kostnaðarmiklar.
Landbúnaður
Þótt CO2 sé nauðsynlegt fyrir vöxt plantna, þá krefst allur landbúnaður stöðugs framboðs af vatni, en loftslagsbreytingar munu að öllum líkindum raska því framboði með auknum flóðum og þurrkum. Því hefur verið haldið fram að á hærri breiddargráðum – t.d. í Síberíu – muni landbúnaður dafna við hlýnun Jarðar. Því fer fjarri, því jarðvegur á Norðurskautinu og aðliggjandi landsvæðum er frekar snauður til ræktunar, auk þess sem magn sólarljóss sem nær yfirborðinu yfir sumartímann mun ekki breytast sökum möndulhalla Jarðar. Auk þess getur landbúnaður orðið fyrir röskun vegna skógarelda og breytinga í árstíðarsveiflum í náttúrunni. Breytingar í grasvexti og vatnsframboði getur einnig haft áhrif á beit og velfarnað búfénaðs. Aukin hlýnun getur sérstaklega haft slæm áhrif á þau lönd þar sem hitastig er nú þegar við mörk þess sem uppskera getur dafnað við – t.d. í hitabeltinu.
Heilsa
Hlýrri vetur mun þýða færri dauðsföll, sérstaklega meðal þeirra samfélagshópa sem eru viðkvæmir fyrir kulda, t.d. hjá öldruðum. Hins vegar eru aldraðir einnig viðkvæmir fyrir auknum hita og dauðsföll tengd hitabylgjum eru talin munu aukast um fimm sinnum hraðar en þau dauðsföll sem að hlýrri vetur koma í veg fyrir. Einnig er talið líklegt að heitara loftslag muni auka útbreiðslu á pestum af völdum skordýra, líkt og moskítóflugna, en malaría er nú þegar farin að finnast á stöðum sem það hefur áður verið óþekkt.
Bráðnun á skautunum
Á meðan íslaust Norðurskaut, gæti orðið jákvætt fyrir siglingar milli Atlantshafsins og Kyrrahafsins, þá munu neikvæðu þættirnir yfirskyggja það. Skaðvænlegir þættir eru t.d. hvarf búsvæða ísbjarna og aukin hreyfing borgaríss sem getur skapað hættu fyrir skipaferðir. Minni útgeislun frá hafís (e. ice albedo) sem gerir það að verkum að sjórin dregur í sig meiri hita, veldur einnig magnandi svörun, þ.e. aukinn hiti sjávar eykur bráðnun grænlandsjökuls (hækkun sjávarstöðu). Auk þess þá eykst hitastig á norðurslóðum sem aftur getur orðið til þess að sífreri þiðnar hraðar og fer að losa metangas í auknu mæli (sem er áhrifamikil gróðurhúsalofttegund). Bráðnun jökulbreiðunnar á Suðurskautinu er enn fremur talin muni auka enn frekar á hækkun sjávarstöðu sem hefur enga sjáanlega kosti í för með sér.
Súrnun sjávar
Súrnun sjávar er eitt af því sem vísindamenn hafa áhyggjur af – en það eru engir sjáanlegir kostir við breytingu á sýrustigi sjávar. Súrnun sjávar er að verða vegna þess að úthöfin eru að taka til sín CO2 úr andrúmsloftinu og er talið að það geti haft skaðvænleg áhrif á fæðukeðjur sjávar.
Jöklabráðnun
Bráðnun jökla hefur ýmsa ókosti í för með sér og er stærsti ókosturinn sá að um einn sjötti jarðarbúa reiða sig á ferskvatnhringrás sem byggist á bráðnun yfir sumartímann og vöxt jökla á veturna. Sú hringrás – til drykkjar og fyrir landbúnað – getur brugðist.
Sjávarstöðubreytingar
Stór hluti yfirborðs jarðarinnar er á láglendi sem mun verða fyrir áhrifum á smávægilegri hækkun sjávarstöðu. Inn í hrísgrjónaakra seitlar sjór, sem getur eyðilagt uppskeru. Sjór getur mengað ár og fljót, eftir því sem það blandast ferskvatninu innar í landið og að auki mengast ferskvatnsbrunnar. Ef tekið er mið að því að síðasta skýrsla IPCC tók ekki með í reikninginn spálíkön um aukna bráðnun jökulbreiðanna á Grænlandsjökli og Suðurskautslandinu, sökum óvissu þegar hún var skrifuð, þá er talið líklegt að um vanmat hafi verið að ræða hjá þeim. Það eru engir sjáanlegir kostir við hækkun sjávarstöðu.
Umhverfisbreytingar
Jákvæð áhrif loftslagsbreytinga geta orðið í átt til grænni regnskóga og aukinn vöxt planta í Amazon, auk meiri gróðurs á norðlægum breiddargráðum. Einnig er talið að það verði meiri þörungablómi á sumum hafsvæðum. Neikvæðu áhrifin eru meðal annars enn meiri stækkun súrefnisfirtra hafsvæða, mengun eða skortur á ferskvatni, aukin tíðni náttúrulegra skógarelda, miklir þurrkar sem valda skemmdum á gróðri, aukin hætta á útdauða kórals, hnattræn minnkun jurtasvifdýra, breytingar í fari fugla og dýra, breytingar í árstíðabundnum atburðum (varpi, blómgun), truflun á fæðukeðjum og útdauði dýra.
Efnahagur
Neikvæð efnahagsleg áhrif loftslagsbreytinga gætu orðið töluverðar, en ekki hefur verið sýnt fram á jákvæð áhrif þeirra. Hin svokallaða Stern skýrsla sýndi skýrt hina efnahagslegu lægð sem gæti orðið við frekari loftslagsbreytingar. Þótt deilt sé um hversu nákvæmar tölur um neikvæðu áhrif loftslagsbreytinga yrðu, þá yrði kostnaðurinn við að draga úr loftslagsbreytingum mun minni. Í sumum sviðsmyndum síðustu skýrslu IPCC, er útlit fyrir mikla fólksflutninga vegna hækkandi sjávarstöðu. Truflun á hnattrænni verslun, samgöngum, orkuframboði og vinnuframboði, bankastarfsemi og almennri fjármálastarfsemi, auk fjárfestinga og trygginga gæti skapað óstöðugleika hjá bæði þróuðum og vanþróuðum ríkjum. Markaðir eru taldir geta orðið óstöðugir svo og opinberar fjárfestingar, líkt og lífeyrissjóðir auk tryggingafyrirtækja sem gætu orðið fyrir skakkaföllum.
Vanþróuðu ríkin, sem sum hver eru nú þegar í stríðsátökum, gætu dregist enn frekar inn í deilur yfir auðlindum líkt og vatni, orku og fæðu, sem myndi enn frekar trufla efnahagslegan vöxt á sama tíma og þau væru að aðlagast loftslagsbreytingum. Það er almennt talið að skaðvænleg áhrif loftslagsbreytinga muni verða mest í þeim ríkjum sem hafa minnsta getu til að aðlagast.
Heimildir, frekari upplýsingar og tengt efni
Þessi færsla er þýðing á færslu af Skeptical Science, þar sem reynt hefur verið að einfalda textann fyrir almenna lesendur. Einnig er til upprunalegur texti um það sama og bendum við á þá færslu með frekari heimildir.
Á heimasíðu National Geographic má sjá áhugaverðan lista yfir jákvæð og neikvæð áhrif hlýnunar Jarðar á Grænlandi
Tengdar færslur á loftslag.is
Leave a Reply