Þekking er nokkuð góð á loftslagi Jarðar, þ.e. á sumum sviðum þess. Því miður er jafnvægissvörun loftslags ekki eitt af þeim sviðum og töluverð óvissa þar um. Jafnvægissvörun loftslags er mat á því hversu mikið lofthiti Jarðar muni aukast að meðaltali ef CO2 í andrúmsloftinu myndi tvöfaldast. Þetta er mikilvægt vegna þess að ef það er lágt, eins og sumir efasemdamenn telja, þá mun Jörðin ekki hitna mikið. Aftur á móti ef að jafnvægissvörunin er há, þá er útlitið ekki gott fyrir menn og dýr, vistkerfi og samfélög.
Það eru tvær aðferðir til að finna út jafnvægissvörun loftslags (þriðji möguleikinn er eiginlega ekki möguleiki – þ.e. að bíða í öld og sjá hvað hefur gerst þá). Fyrsta aðferðin er með líkönum:
Loftslagslíkön spá því að lægri mörk hækkunar hitastigs verði a.m.k. að meðaltali um 1.65°C , en efri mörk eru mun breytilegri eða að meðaltali um 5.2°C . Besta mat á jafnvægissvörun loftslags er talið vera um 3°C og líklegt hámark um 4,5°C.
Hin aðferðin er að mæla jafnvægissvörun loftslags beint út frá ýmsum mælingum:
Þeir útreikningar eru á gögnum frá t.d. borkjörnum úr jöklum, fornloftslagi, gleypni sjávar á hita og sólarsveiflum. Þ.e. áætlað er hversu miklar breytingar hafa orðið, miðað við þekktar breytingar – til að finna út hversu mikinn auka hita, tvöföldun á gróðurhúsalofttegundum muni valda. Lægsta gildi þessara útreikninga er líkt og hjá líkönunum um 1,8°C að meðaltali – en efri mörkin er stöðugra eða að meðaltali um 3,5°C.
Gráður skipta máli
Hægt er að flækja þetta enn frekar með því að ræða hversu lengi það tekur loftslagið að bregðast við auknu magni gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu, en við sleppum því í bili. Þrátt fyrir allt þá er jafnvægissvörun ekki bara tölfræði sem er eingöngu fyrir vísindamenn. Jafnvægissvörun gefur okkur vísbendingu um hvaða loftslagsbreytingar börn okkar og barnabörn eiga eftir að upplifa.
Tökum sem dæmi sjávarstöðubreytingar. Spár um hækkun sjávarstöðu eru á bilinu örfáir tugir sentimetra og upp í marga metra og endanleg hækkun sjávarstöðu mun stjórnast fyrst og fremst af jafnvægsissvörun loftslags. Samkvæmt IPCC 2007 þá var mat á hækkun sjávarstöðu stillt upp miðað við mismunandi hækkun hitastigs, en nú er talið að það hafi vanmetið hækkun sjávarstöðu framtíðarinnar, að hluta til vegna skorts á gögnum um hvernig Grænland og Suðurskautið myndu bregðast við auknum hita.
Núverandi mat á hækkun sjávarstöðu, vegna tveggja gráðu hækkun hitastigs, veldur eðlilega áhyggjum. Meiri áhyggjur veldur það að núverandi mat tekur ekki inn í stöðuna aukna bráðnun á heimskautunum. Tveggja gráða hækkun hefur einnig í för með sér aðrar afleiðingar en hækkun sjávarstöðu.
Öll líkön og gögn, benda til lágmarks hækkun hitastigs um 2°C við tvöföldun CO2 í andrúmsloftinu, þar sem líklegasta talan er um 3°C og möguleiki á allt að 4,5°C hækkun (jafnvel meiri). Þessi lága hitastigshækkun mun valda mikilli röskun á vistkerfum Jarðar. Í því ljósi eru öll rök gegn minnkandi losun CO2 sem byggð eru á lægri gildum fyrir jafnvægissvörun ákveðið fjárhættuspil. Minnihlutaálit þeirra sem segja jafnvægissvörun loftslags sé lægra en almennt er talað um eru notuð sem rök fyrir óbreyttu ástandi – þ.e. að ekkert verði að gert varðandi losun CO2 út í andrúmsloftið og að lausnir þar um séu óþarfar. Aðrir vilja halda því fram að þar sem við vitum ekki með vissu hver jafnvægissvörunin sé, þá ættum við að bíða og sjá til.
Í raun og veru veit enginn hversu mikið hitastig mun hækka, en vitað er að það mun hækka. Aðgerðaleysi eða kæruleysi eykur áhættuna og er í raun fjárhættuspil þar sem lagt er undir allt vistkerfi Jarðar og velfarnaður allra sem Jörðina búa.
Heimildir og tengt efni
Þessi færsla er þýðing á færslu af Skeptical Science, þar sem reynt hefur verið að einfalda textann fyrir almenna lesendur. Einnig er til upprunalegur texti um það sama (einnig til hér á loftslag.is á íslensku – Jafnvægissvörun loftslags er lág og bendum við á þá færslu með frekari heimildir). Að lokum er færsla á skeptical science þar sem farið er ýtarlega í sama efni.
Tengdar færslur á loftslag.is
- Jafnvægissvörun Lindzen
- Afsanna loftslagsbreytingar fyrri tíma, hlýnun jarðar af mannavöldum?
- Hver er jafnvægissvörun loftslags?
- Vatnsgufa er öflugasta gróðurhúsalofttegundin
- Geta vísindamenn spáð fyrir um loftslag?
Leave a Reply