Sýna gervihnattamælingar hækkandi hitastig?

Lofthjúpur jarðar er lagskiptur og þykkastur næst jörðu en smám saman fellur loftþrýstingur eftir því sem ofar dregur. Hitastigullinn á myndinni sýnir hvernig hitastigið vex og minnkar til skiptir í hinum mismunandi lögum lofthjúpsins (af stjornuskodun.is - smella á til að stækka)

 

Sumir halda því fram að gervihnattamælingar sýni enga hlýnun í veðrahvolfi lofthjúps Jarðar frá því þær mælingar hófust. Það er alrangt, gervihnattamælingar sýna að veðrahvolfið er að hlýna – líkt og við yfirborð Jarðar.    

Það voru þeir John Christy og Roy Spencer frá Háskólanum í Alabama sem komu fyrst fram með þær fullyrðingar að gervihnattamælingar bentu til þess að veðrahvolfið væri að hitna mun hægar en yfirborðsmælingar og loftslagslíkön bentu til (Spencer og Christy – 1992). Jafnvel héldu þeir því fram á tímabili að gögnin sýndu kólnun (Christy o.fl. 1995).     

Í kjölfarið fóru nokkrir hópar vísindamanna að kanna hverjar væru ástæðurnar fyrir þessu misræmi. Þar sem flestar vísbendingar bentu til þess að það væri að hlýna, þá þótti ólíklegt að veðrahvolfið væri ekki að hlýna. Það kom fljótlega í ljós að villa var í aðferðinni sem þeir félagar höfðu notað til að leiðrétta gögnin. Gervihnettir á ferð um sporbraut Jarðar verða að fara yfir sama punkt á sama tíma til að mæla meðalhita. Í raun gengur það ekki eftir og gervihnettir reka af sporbraut sinni smám saman. Til að leiðrétta fyrir þeim breytingum og öðrum breytingum á braut gervihnattanna þá verður að leiðrétta gögnin.  

MSU gervihnattagögnin (sem notuð eru við mælingar á hitastigi) eru söfnuð saman frá nokkrum gervihnöttum á sporbraut um Jörðu og safna daglega gögn fyrir um 80% af flatarmáli Jarðar. Sporbraut gervihnattanna færast á hverjum degi og næst 100% þekja yfir alla jörðina á sirka 3-4 dögum. Nemar gervihnattanna mæla ekki beint hitastig, heldur útgeislun sem súrefni gefur frá sér úr lofthjúp Jarðar. Útgeislunin er í beinu sambandi við lofthita og er því eins konar mat á hnattrænum hita.  

Það er einnig munur á nemum þeim sem eru um borð í hverjum gervihnetti og að tvinna gögnin saman í einn samhangandi hitaferil er flókið ferli. Það var næstum 13 árum eftir að upprunalega grein Christy og Spencers kom út að það kom í ljós að leiðréttingar þeirra voru rangar Mears o.fl (2003) og Mears o.fl (2005).  Þegar rétt leiðrétting var notuð kom í ljós að gervihnattagögnin sýndu sambærilega hlýnun og búist var við af loftslagslíkönum. Gögnin voru einnig í takt við þau gögn sem veðurbelgir höfðu sýnt um hitastig veðrahvolfsins. Eftir því sem betri aðferðir hafa komið fram við að leiðrétta fyrir villum í mælitækjum og breytingum í sporbrautum, þá hefur munurinn milli mælds yfirborðshita og hita veðrahvolfsins (mælt með gervihnöttum) stöðugt minnkað. 

Tvö önnur teymi fylgjast með hitastigi veðrahvolfsins með hjálp gervihnatta og ber þeim saman við hlýnun við yfirborð Jarðar. Að auki þá sýna gögn frá gervihnöttum að heiðhvolfið er að kólna í takt við það sem búast má við af auknum gróðurhúsaáhrifum. 

Hitastig jarðar mælt með gervihnöttum (rauð og græn lína). Bláa línan sýnir yfirborðsmælingar. Þess ber að geta að gögn ársins 2010 eru ekki á myndinni, en það ár er talið verða eitt af heitustu árunum frá því mælingar hófust.

 

Öll þrjú teymin sem mæla hitastig í veðrahvolfinu hafa fengið út hækkandi leitni í hitastigi. Verkefniið The U.S. Climate Change Science Program sendi frá sér skýrslu í apríl 2006. Einn aðalhöfunda skýrslunnar var áðurnefndur John Christy frá UAH og Ben Santer. Á fyrstu blaðsíðunni kemur eftirfarandi fram:  

Fyrri niðurstöður um misræmi milli hlýnunar við yfirborð Jarðar og hærra í lofthjúpnum hafa verið notaðar sem rök gegn áreiðanleika loftslagslíkana og kenninguna um hlýnun Jarðar af mannavöldum… Þetta töluverða misræmi er ekki lengur til staðar þar sem villur í gervihnöttum og veðurbelgjum hafa verið uppgötvaðar og leiðréttar. Ný gagnasett hafa einnig verið unnin sem sýna ekki þetta misræmi.  

Enn er eitthvert misræmi á milli hitastigs sem mælt er með gervihnöttum og þess sem mælt er með veðurbelgjum í hitabeltinu. Flestir vísindamenn í þessum fræðum telja að það sé vegna villu í mælitækjum.  

Upphaflega misræmið er athyglisvert dæmi um það hvernig vísindi og gagnrýnin hugsun virka hvað best. Þar sem flest önnur gögn sýndu að það væri að hlýna, þá stóðst það varla að veðrahvolfið væri að kólna – þótt gervihnettir bentu til þess. Misræmið var þó tekiðö alvarlega af vísindasamfélaginu og nákvæmni gagnanna rannsökuð ofan í kjölinn.  

Niðurstaðan er aukin þekking á því hvernig mæla skuli hitastig veðrahvolfsins utan úr geim og samræmi um áframhaldandi hlýnun Jarðar.  

Heimildir, frekari upplýsingar og tengt efni

Þessi færsla er þýðing á færslu af Skeptical Science, þar sem reynt hefur verið að einfalda textann fyrir almenna lesendur. Einnig er til upprunalegur texti um það sama og bendum við á þá færslu með frekari heimildir.  

Mynd færslunnar var upprunalega búin til fyrir Global Warming Art, óhætt að mæla með þeirri síðu.  

Maður að nafni Scott Church hefur skrifað ansi nákvæmt yfirlit um tæknileg atriði varðandi gervihnattagögn: Climate Change & Tropospheric Temperature Trends   

Tamino hefur skrifað ágrip um gagnavinnslu út frá gervihnöttum sjá: MSU.  

Tengdar færslur á loftslag.is  

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál