Hlýnun djúpsjávar og sjávarstaða

Vísindamenn sem greint hafa mælingar á hita djúpsjávar, sem farið hafa fram undanfarna tvo áratugi, hafa greint hlýnun sem hefur átt stóran þátt í hækkun sjávarstöðu, sérstaklega í kringum Suðurskautið.

Aukið magn gróðurhúsalofttegunda, líkt og CO2, hefur valdið aukinni hlýnun Jarðar. Síðastliðna áratugi, þá hefur allavega 80% af þeirri varmaorku hitað upp úthöfin. Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að efri lög sjávar hafa verið að hitna, en þessi greining sýnir hversu mikið hitaflæðið hefur náð niður í neðri lög sjávar.

Þessi rannsókn sýnir að djúpsjór – neðan við um 1.000 m – er að gleypa um 16% af þeirri hitaorku sem efri lög sjávar eru að gleypa. Höfundar benda á að nokkrir möguleikar séu fyrir ástæðum þessarar djúpsjávarhlýnunar, þ.e breytingar í loftstraumum yfir Suður-Íshafinu, breyting í eðlisþyngd neðri laga sjávar og hröðun á flæði hlýrri yfirborðsvatns niður í djúpsjávarlögin.

Vísindamennirnir fundu að hlýnunin væri mest í kringum Suðurskautið og minni eftir því sem lengra er frá Suðurskautinu. Hlýnunin er ekki mikil (um 0,03°C á áratug við Suðurskautið – minna annars staðar), en vegna þess hversu mikið rúmmál af sjó er um að ræða, þá er um mikla varmaorku að ræða. Ef þessi djúpsjávarhlýnun færi eingöngu í að hita upp lofthjúpinn – sem er eðlisfræðilega ómögulegt – þá myndi hlýna um 3°C á áratug.

Það er á tvo vegu sem hlýnun Jarðar hefur áhrif til hækkunar sjávarstöðu, annars vegar vegna þess að hlýnunin hitar sjóin þannig að hann þenst út og hins vegar vegna bráðnunar jökla og jökulbreiða þ.e. meira vatn bætist við sjóinn.

Sjávarstaða hefur verið að hækka um sirka 3 mm á ári síðan 1993 og er helmingur þess talin vera vegna þenslu vegna hlýnunar sjávar og hinn helmingurinn er talinn vera vegna meiri bráðnunar jökla. Ein af niðurstöðum þessarar rannsóknar er að hlýnun djúpsávar í Suður-Íshafinu hafi valdið um 1,2 mm hækkun sjávastöðu á ári umhverfis Suðurskautið undanfarna áratugi.

Þessar nákvæmu mælingar á djúpsjávarhita koma frá mælitækjum sem eru um borð í skipum og mæla leiðni með seltu, hitastig og dýpi. Þessar mælingar voru fyrst gerðar á tíunda áratug síðustu aldar og reglulega síðan þá.

Heimildir og ítarefni

Greinin mun birtast í næsta hefti Journal of Climate og höfundar þess eru Sarah G. Purkey og Gregory C. Johnson: Warming of Global Abyssal and Deep Southern Ocean Waters between the 1990s and 2000s: Contributions to Global Heat and Sea Level Rise Budgets.

Umfjöllun um greinina má lesa á heimasíðu NOAA: Scientists Find 20 Years of Deep Water Warming Leading to Sea Level Rise

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál