Hafís yfirlit fyrir september ásamt umfjöllun um hafíslágmörkin tvö

Endanlega fjöllum við um hafísútbreiðslu septembermánaðar. Í septembermánuði náði hafísútbreiðslan hinu árlega lágmarki. Reyndar urðu tilkynningarnar um hafíslágmark ársins tvær í ár. Fyrsta tilkynningin um hafíslágmark ársins kom frá NSIDC þann 15. september, umfjöllun loftslag.is má finna hér, það lágmark átti sér stað þann 10. september. Sú tilkynning reyndist ótímabær, enda byrjaði hafísútbreiðslan að minnka aftur nokkrum dögum síðar, sem endaði með nýju og endanlegu hafíslágmarki ársins þann 19. september sem var einnig 1. árs afmæli loftslag.is. Til upprifjunar þá leit hafíslágmarkið 2010 svona út:

Nokkuð viðburðarík sumarbráðnunin hafís er lokið á Norðurskautinu. Hafísútbreiðslan varð það þriðja lægsta frá því gervihnattamælingar hófust. Bæði Norðurvestur- og Norðuausturleiðin voru opnar um tíma í september, sem varð til þess að 2 skip náðu þeim áfanga, fyrst allra, að sigla báðar leiðirnar á sama sumri.

Þess má geta að getspakir aðilar voru búnir að giska á útkomu ársins í athugasemdum hér á loftslag.is og lentu spár þeirra á bilinu 4,1 – 4,9 miljón km2, sjá nánar í athugasemdum við færsluna Spár um lágmarksútbreiðslu hafíss í ár. Samkvæmt þeim spám varð Emil H. Valgeirsson getspakastur (miðað við hafíslágmarkið), með sína ágiskun upp á 4,5 miljón ferkílómetra (lágmarkið endaði í 4,6 milljón ferkílómetrum).

Ýmsar myndir og gröf af ástandinu í september

Meðal hafísútbreiðsla fyrir september 2010 var 4,9 milljón ferkílómetra, sem er 2,14 milljón ferkílómetrum undir meðaltalinu fyrir 1979-2000, en 600.000 ferkílómetrum hærra en meðaltalið í september 2007, sem var það lægsta frá því gervihnattamælingar hófust.

Eftir hafíslágmarkið, sem var 4,60 milljón ferkílómetrar þann 19. september, hefur vetrar frostið bitið sig fast og útbreiðslan hefur aukist hratt og örugglega.

Samanburður við septembermánuði fyrri ára. Meðaltal mánaðarins var það þriðja lægsta fyrir mánuðinn, aðeins 2007 og 2008 var útbreiðslan minni.

Til að átta sig á þróuninni á útbreiðslu hafíss, er oft gott að átta sig á því hvernig aldursskipting hafíssins er. Eldri ís er yfirleitt þykkari en sá yngri sem er eins og tveggja ára. Á þessari mynd sést að hlutfall eldri hafíss hefur minnkað hratt á síðustu árum. Við lok sumarsins voru undir 15% af hafísnum eldri en 2 ára, en eins og sést hefur hlutfallið á þeim ís verið á bilinu 40-60% fram að árinu 2007. Það er einnig lítið eftir af elsta ísnum, sem er eldri en 5 ára. Núna er elsti ísinn um eða undir 60.000 ferkílómetrum, sem er mun minna en á 9. áratugnum þegar sá ís náði yfir um 2 milljón ferkílómetrar.

Hér má sjá mynd af NewScientist, sem sýnir mat á þróun rúmmáls hafíssins á Norðurskautinu síðan 1979, þegar gervihnattamælingar hófust. Rúmmálið segir okkur hugsanlega meira um ástand hafíss en flatarmál (útbreiðsla) hafíssins og eins og sjá má hér, þá er breytingin í rúmmáli talin vera nokkuð mikil á þessu tímabili.

Heimildir:

Tengt efni á loftslag.is:

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.