Mýta: Aukningin í CO2 í andrúmsloftinu er náttúruleg.
Þessi mýta virðist fyrst og fremst miða að því að segja að maðurinn hafi ekkert með aukningu CO2 í andrúmsloftinu að gera – aukningin sé náttúruleg og þar með sé hlýnunin nú af völdum náttúrulegra ferla.
Af mannavöldum
Vitað er að gróðurhúsalofttegundirnar hafa aukist mikið frá upphafi iðnbyltingunnar (miðað við 1750). Styrkur CO2 er nú 37% meiri en fyrir iðnbyltingu og styrkur CO2 og metans er nú meiri en hann hefur verið í a.m.k. 650 þúsund ár (jafnvel milljónir ára). Aukninguna má að mestu rekja til bruna jarðefnaeldsneytis, en hún er einnig að hluta vegna breytinga í landnotkun (eyðing skóga t.d.). CO2 magn hefur verið mælt skipulega frá því á sjötta áratug síðustu aldar (en fyrri tíma gögn fást með óbeinum mælingum – t.d. mælingar á magni CO2 í loftbólum ískjarna):
Það fer ekki milli mála ef skoðuð eru línuritin hér fyrir ofan að losun CO2 vegna bruna jarðefnaeldsneytis hefur töluverða samsvörun við magn CO2 í andrúmsloftinu.
En það er ekki sjónrænt sem vísindamenn vita að aukningin er tilkomin af völdum losunar manna á CO2. Það hefur verið staðfest með svokölluðum samsætumælingum – þ.e. mælingum á hlutfalli milli samsæta (e. isotopes) kolefnis (C), en í náttúrunni finnst það í stöðugri mynd sem samsæturnar 12C (98,9%) og 13C (1,1%) en einnig finnst samsætan 14C í snefilmagni og er hún geislavirk. Helmingunartími 14C er um það bil 5750 ár og hefur þessi samsæta meðal annars verið notuð til aldursgreiningar á lífrænum efnum (í jarðfræði og fornleifafræði).
Hlutfall þessara kolefnissamsæta í andrúmsloftinu hefur breyst á þann veg að ekki fer á milli mála hvaðan CO2 í andrúmsloftinu kemur – þ.e. frá bruna jarðefnaeldsneytis að mestu leiti, en einnig frá eyðingu skóga og jarðvegs. Jarðefnaeldsneyti er laust við 14C sökum aldurs (en jarðefnaeldsneyti er tugir ef ekki hundruða milljón ára gamlar jarðmyndanir) og því hefur hlutfall þess minnkað í andrúmsloftinu í kjölfar bruna jarðefnaeldsneytis.
Eldvirkni
Fyrir fáeinum árum reiknuðu vísindamenn magn útblásturs CO2 frá eldfjöllum (bæði á landi og á botni sjávar) og útreiknað magn þess sem eldfjöll gefa frá sér, er samtals um 130-250 milljón tonn af CO2 á ári – sem er slatti. Menn losa um 29 milljarða tonna á ári í allt (tölur frá árinu 2006).
Eldfjöll gefa því frá sér tæplega 1 % af því sem menn gefa frá sér af CO2. Þau hafa því sáralítil áhrif miðað við menni.
Sjórinn
Þrátt fyrir þá staðreynd að kalt vatn geymir CO2 betur en heitt vatn og að sjórinn er að hitna eins og öll jörðin, þá er ljóst að aukningin í CO2 er ekki að koma frá sjónum. Málið er að við aukningu CO2 í andrúmsloftinu hefur sjórinn dempað þau áhrif og sogið í sig meira af CO2. Það hefur meðal annars leitt til þess að sjórinn hefur súrnað meira undanfarin sirka 200 ár en nokkurn tíman síðan fyrir 55 milljón árum. Það er því ljóst að CO2 hefur verið að aukast í sjónum en ekki minnka og því er aukningin í andrúmsloftinu ekki sjónum að kenna.
Niðurstaða
Það er því ljóst að aukning CO2 í andrúmsloftinu er af völdum manna, en ekki náttúrulegra þátta.
Heimildir og frekari upplýsingar
Hér má fræðast um útreikninga á losun CO2 vegna eldvirkni, svo er heimasíðan Nordvulk góð byrjunarstöð til að fræðast um eldvirkni.
Peter Sinclair hefur gert gott myndband um CO2 í andrúmsloftinu: Climate Denial Crock of the Week – Sense from Deniers on CO2? Don’t hold your breath….