Aðrar gróðurhúsalofttegundir, t.d. vatnsgufa eru mun áhrifameiri til hlýnunar.

Mýta: Aðrar gróðurhúsalofttegundir, t.d. vatnsgufa eru mun áhrifameiri til hlýnunar.

Þessi mýta virðist til þess fallin að gera lítið úr sambandi CO2 og þeirrar hlýnunar sem orðið hefur orðið við losun CO2. Hún er því fyrst og fremst notuð af þeim sem vilja afsökun til að halda áfram að losa CO2 út í andrúmsloftið, en einnig af þeim sem vilja efast um að hlýnunin sé af mannavöldum.

CO2 í andrúmsloftinu

Rétt er það að CO2 er í mun minna magni en vatnsgufa – en þetta litla magn CO2 ásamt öðrum gróðurhúsalofttegundum hefur þó leitt til þess að meðalhitastig á jörðinni er 33°C hærri en án þeirra og því þarf ekki mikla lógík til þess að sjá að sú aukning sem hefur orðið á gróðurhúsalofttegundum frá upphafi iðnbyltingunnar  leiðir til hærra hitastigs á jörðinni.

Vatnsgufa

Magn vatnsgufu í lofthjúpnum er í raun í beinu sambandi við hita andrúmsloftsins. Ef þú gætir einhvern vegin aukið magn vatns í lofthjúpnum, án þess að breyta hitastigi þá færi væntanlega að rigna, einnig ef það væri fjarlægt á einhvern hátt úr lofthjúpnum þá myndi hann fljótt ná aftur sama rakastigi vegna uppgufunar. Loftslagsfræðingar tala því vissulega um að vatnsgufa sé mjög mikilvæg gróðurhúsalofttegund og það er tekið með í loftslagslíkönum, en það er svörun (e. feedback – sjá magnandi svörun) en ekki kraftur sem stýrir hita.

Hringrás vatns (mynd af ga.water.usgs.gov)

Hringrás vatns (mynd af ga.water.usgs.gov)

Því hefur vatnsgufa áhrif til mögnunar á hitastigi jarðar sem er í beinu sambandi við magn CO2 í andrúmsloftinu, en ekki áhrif eitt og sér.

Um Vatnsgufu segir heimasíða Veðurstofunnar:

Vatnsgufa (H2O) í lofthjúpnum er einnig öflug gróðurhúsalofttegund. Hún er þó venjulega ekki talin til hefðbundinna gróðurhúsalofttegunda því magn hennar er mjög breytilegt frá einu svæði til annars, ólíkt fyrrgreindum lofftegundum en magn þeirra er mjög álíka alls staðar í lofthjúpnum.

Á flestum stöðum á Jörðinni breytist magn vatnsgufu í lofti líka mjög hratt með tíma. Hringrás vatns í lofthjúpnum er mjög hröð, líftími vatnsgufu er mældur í dögum meðan framantaldar lofftegundir hafa líftíma sem er mældur í árum, áratugum, árhundruðum eða jafnvel árþúsundum.

Ský

Um ský segir Veðurstofan:

Þegar vatnsgufa þéttist getur hún myndað ský og þó að ský séu ekki gróðurhúsalofttegund þá geta þau haft sambærileg áhrif. Eftir heiðskíra nótt er að jafnaði mun kaldara í morgunsárið en eftir skýjaða nótt. Munurinn liggur í því að skýin gleypa í sig varmageislun frá Jörðinni og endurgeisla svo hluta hennar til baka að yfirborði jarðar, rétt eins og gróðurhúsalofttegundirnar.

Ský hafa einnig mikil áhrif á orkujafnvægi Jarðar með því að spegla sólargeislun til baka út í geiminn. Skýin eiga því stóran hluta í endurspeglunarstuðlinum, sem er 0,3 eða 30% fyrir Jörðina. Fyrir Jörðina í heild vega speglunaráhrif þyngra en „gróðurhúsaáhrif” tengd skýjum, þ.e. skýin lækka yfirborðshita Jarðar.

Reiknaðar hafa verið áhrif mismunandi breyta til hlýnunar og kólnunar og þar sjást áhrif CO2 greinilega, en einnig áhrif til kólnunar vegna skýja. Vatnsgufa er ekki með því þar er á ferðinni svörun (feedback) vegna aukins hita af völdum CO2 eins og útskýrt var hér að ofan:

Geislunarálag (í W/m2) frá upphafi iðnbyltingar og helstu orsakaþættir. Rauðar súlur sýna áhrif til hlýnunar jarðar en bláar til kólnunar (mynd úr skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi).

Geislunarálag (í W/m2) frá upphafi iðnbyltingar og helstu orsakaþættir. Rauðar súlur sýna áhrif til hlýnunar jarðar en bláar til kólnunar (mynd úr skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi).

Aðrar gróðurhúsalofttegundir

Aðrar gróðurhúsalofttegundir eins og t.d. tvínituroxíð (N2O) og metan (CH4) eru mun öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2, en þær eru líka í mun minna magni. Því miður þá er möguleiki á að það geti breyst, því kenningar eru uppi um að við bráðnun sífrera á norðurhveli þá geti mikið magn metans losnað út í andrúmsloftið og að það muni hafa skelfilegar afleiðingar í átt til enn meiri hlýnunar jarðar.

Niðurstaða

Niðurstaðan er sú að aðrar gróðurhúsalofttegundir eru öflugri en CO2, t.d. metan sem er um 25 sinnum áhrifameira. Þær eru þó í litlu magni eða þá eins og í tilfelli vatnsgufu að magn vatnsgufu er í beinu hlutfalli við hitastig og því svörun við hlýnun af völdum CO2. 

Heimildir og frekari upplýsingar

Heimasíða Veðurstofunnar um gróðuhúsaáhrifin er góð og skýrsluna Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi má lesa hér,

About the Author

Áhyggjumaður um loftslagsmál