Hokkíkylfan er röng.

Mýta: Hokkíkylfan er röng.

Þessi mýta miðar að því að gera Micheal Mann og félaga á hitabreytingum síðustu þúsund árin (nú síðustu 1800 árin) torkennileg. Ástæðan fyrir því gæti verið af því  að línuritið er mjög sterk vísbending um að hlýnunin, síðan iðnbyltingin hófst, sé fordæmalaus síðustu árhundruði. Þessi mýta er því oft notuð samhliða öðrum mýtum sem segja að hlýnunin nú sé hluti af náttúrulegum sveiflum í hitastigi. Mann hefur einnig verið sakaður um falsanir á vísindagögnum, að hann og línuritið hans sé partur af stóru samsæri vísindamanna. Einnig hafa menn notað veikleika í hokkíkylfunni til að koma höggstaði á skýrslu IPCC og hafa menn þá fullyrt að skýrslan standi og falli með að hokkíkylfan sé röng.

Hokkíkylfan hin fyrri

Hokkístafurinn sem gerður var 1999 og birtist í skýrslu IPCC 2001.

Hokkíkylfan sem gerð var 1999 og birtist í skýrslu IPCC 2001.

Hokkíkylfan er viðurnefni sem línurit nokkuð hefur fengið og fékkst út úr viðamiklum rannsóknum sem Micheal Mann og fleiri gerðu, oft eingöngu kennt við Micheal Mann sem er sérfræðingur í fornloftlagsfræðum (paleoclimatology). Línuritið sýnir fornhitastig síðustu 1000 árin og er gert með samanburði á ýmsum ferlum sem voru í gangi til forna og hvernig þessi ferli eru nú – og þannig fengið svokallað proxý hitastig (nálgunarhitastig – óbeinar hitamælingar). Í þessu tilfelli voru notuð trjáhringagögn, vöxtur kórala og borkjarnar úr jöklum og það borið saman við hitastigsferil samkvæmt beinum mælingum.

Þetta línurit fékk verðskuldaða athygli á sínum tíma, vegna þess að það sýndi skýrt og greinilega að hitinn nú væri mun meiri en hann hefur verið síðastliðin þúsund ár. Þetta línurit þótti því undirstrika það sem vísindamenn töldu sig vita, að ástandið nú væri óvenjulegt – hlýnunin væri langt umfram það sem eðlilegt gæti talist.

Gagnrýni

Þetta línurit fékk einnig þó nokkra gagnrýni, enda sýndu menn fram á að galli væri á tölfræðinni sem Mann og félagar notuðust við. Einnig þóttu gögnin sem notuð voru ófullnægjandi (t.d. of mikið af trjáhringagögnum). Þessar aðferðir gerðu það að verkum að línuritið varð minna sveiflukennt en það ætti eflaust að vera (þ.e. það sýndi minni hitabreytingar en hefðu orðið).

Meðal annars fékk hann gagnrýni á aðferðafræðina frá vísindanefnd í USA (US National Academy of Science).   Eða eins og einn úr vísindanefndinni orðaði það:

“Röng aðferð + rétt niðurstaða = léleg vísindi”.

Sem sagt, menn deildu ekki á niðurstöðuna þannig séð, en aðferðafræðin þótti þó ekki til fyrirmyndar. Mann hófst því handa við að lagfæra aðferðafræðina.

Hokkíkylfan hin nýrri

Í september í fyrra kom síðan út grein þar sem Mann og fleiri endurskoðuðu línuritið og notuðu til þess tvær nýjar tölfræðiaðferðir (aðrar en í upphafi) og bættu með viðbótar gögnum (setlögum o.fl).  Þessi grein styðst því minna við árhringjarannsóknir en fyrri rannsóknir hans.

Micheal Mann og félagar endurgerðu semsagt línuritið og bættu um betur og lengdu það, svo nú sýnir það áætlað hitastig síðustu 1800 árin á norðurhveli jarðar.

Hokkístafurinn hinn nýji (Mann og fleiri 2008). Hann sýnir hitastig síðustu 1800 ár. Rauða línan sínar beinar mælingar en ýmsar óbeinar mælingar (proxý) í ýmsum litum.

Hokkístafurinn hinn nýji (Mann og fleiri 2008). Hann sýnir hitastig síðustu 1800 ár. Rauða línan sínar beinar mælingar en ýmsar óbeinar mælingar (proxý) í ýmsum litum.

Sagan endalausa

Menn eru þó byrjaðir að leita að villum í aðferðafræði höfunda og byrjaðir að gagnrýna hokkíkylfuna nýju (Mcintyre og McKitrick), en þeirri gagnrýni hefur verið svarað af Mann og félögum.

Það sem styður hvað mest við niðurstöðu Manns og félaga eru breytingar í náttúrufari. Jöklar eru að hopa, hafís að bráðna, snjóalög að minnka, blómgun plantna byrjar fyrr að vori og farflug fugla hefur breyst mikið síðustu rúmlega hundruð árin.

Á það skal bent að skýrsla IPCC stóð ekki né féll með hokkíkylfunni, eins og ofangreindar breytingar í náttúrufari benda til. Hokkíkylfan var samt sterk vísbending um að hlýnunin væri óumdeilanleg – enda hefur komið á daginn að nýja endurbætta hokkíkylfa styður þá vísbendingu nokkuð vel. Vissulega eru sveiflurnar meiri að því er virðist í hinni nýju – en hlýnunin undanfarin ár virðist umdeilanleg og óvenjuleg síðustu rúmlega 100 ár.

Nú nýlega birtist svo nýtt línurit sem sýnir hitastig á Norðurslóðum eftir Kaufman og fleiri í Science, sem styður niðurstöður hinnar nýju hokkíkylfu. Þótt það línurit sýni hitabreytingar eingöngu á svæðinu norðan við 60. breiddargráðu, þá er það sláandi.

Myndin sýnir langvarandi kólnun á Norðurskautinu, sem endaði snögglega við upphaf iðnbyltingarinnar og með mikilli hlýnun síðastliðin 50 ár. Bláa línan sýnir mat á hitastig út frá proxýgögnum úr vatnaseti, ískjörnum og trjáhringum. Græna beina línan sýnir að leitnin var í átt til kólnunar. Rauða línan sýnir bein mæligögn á hitastigi. Mynd úr Science, breytt af UCAR.

Myndin sýnir langvarandi kólnun á Norðurskautinu, sem endaði snögglega við upphaf iðnbyltingarinnar og með mikilli hlýnun síðastliðin 50 ár. Bláa línan sýnir mat á hitastig út frá proxýgögnum úr vatnaseti, ískjörnum og trjáhringum. Græna beina línan sýnir að leitnin var í átt til kólnunar. Rauða línan sýnir bein mæligögn á hitastigi. Mynd úr Science, breytt af UCAR.

 

Nýjar deilur og nýjar rannsóknir

Háværustu mótmælin gegn hokkíkylfunni nú virðast miða að því að gera hluta af gögnunum ómerk (sjá Er hokkíkylfan ónýt?). Það snýst í fyrsta lagi um trjáhringjagögn frá Yamal skaga í Síberíu (sem er eitt af mörgum nálgunarhitastigunum sem notuð eru í hokkíkylfunni). Komið hefur í ljós að gögnin sem Yamal nálgunarhitastigið er byggt á frekar tölfræðilega litlu sýni (12 sýni) og að töluverður hluti af öðrum sýnum, fyrir þetta tiltekna svæði, voru ekki notuð vegna þess að þau kvörðuðu ekki vel við mælt hitastig í nágrenninu. Það er vissulega eðlilegt að nota ekki gögn sem sýna ekki samsvarandi hitastigsbreytingar og þekkt mæld gögn, en eflaust er þetta full lítið af gögnum til að byggja á – tölfræðilega séð.

Nú er nýútkomin grein sem eflaust fær marga til að halda að nú sé búið að strauja hokkíkylfuna endanlega. En trjáhringjagögn á Skotlandi benda til þess að tengsl trjáhringja við geimgeisla sé mun sterkari en tengsl við hitastig – og þar af leiðandi er komin vafi um það hvort nálgunarhitastig gert með trjáhringjarannsóknum séu ómerk (sjá Vöxtur trjáa í takti við munstur geimgeisla). Það á reyndar eftir að koma í ljós hvort þetta sé einstakt fyrir þetta gagnasafn og hvort eitthvað sé að aðferðafræðinni.

Um svipað leiti og þessi mýta var uppfærð þá fengum við á loftslag.is eftirfarandi athugasemd frá íslenskum árhringjasérfræðingi:

Vöxtur trjáa við skógarmörk, t.d í Svíþjóð, Alaska og Síberíu stjórnast aðalega af sumarhita meðan tré sem vaxa t,d í mið Evrópu (t.d eik) stjórnast af úrkomu á vaxtartíma, en þar hefur hitafar lítið að segja um vöxtinn(alltaf nógu heitt). Á bretlandseyjum er samspil trjávaxtar líklega mun flóknara (samspil margra umhverfisþátta). Árhringjagögnin sem notuð eru í skl, hokkíkylfu eru í öllum tilvikum frá trjám sem vaxa við skógarmörk (þar sem vöxtur er háður sumarhita). (Ólafur Eggertsson)

En hvað gerist ef við dæmum trjáhringjagögn, við gerð nálgunarhitastigs fyrir fornloftslag, úr sögunni? Hvaða áhrif hefur það á hokkíkylfuna?

Trjáhringjagögn skipta ekki öllu máli

Staðsetning sýnatökustaða. Mismunandi tákn fyrir mismunandi tegund gagna og mismunandi litur eftir hvenær þau byrja (Mann o.fl. 2008)

Staðsetning sýnatökustaða. Mismunandi tákn fyrir mismunandi tegund gagna og mismunandi litur eftir hvenær þau byrja (Mann o.fl. 2008)

 Það sem hefur vantað í umræðuna allavega hér á Íslandi er það að Mann sá fyrir að einhverjir myndu gagnrýna notkun hans á trjáhringjagögnum og því prófaði hann að plotta fornhitastigið án trjáhringjagagna:

Hokkíkylfan. Öll gögnin (græn lína), án trjáhringjagagna (blá lína). Mann o.fl. 2008.

Hokkíkylfan. Öll gögnin (græn lína), án trjáhringjagagna (blá lína). Mann o.fl. 2008.

Eins og sést á myndinni hér fyrir ofan þá er ekki mikill munur á gögnunum með og án trjáhringjagagna – en ástæða þess að Mann o.fl. ákváðu þó að nota þau – var að án trjáhringjanna varð skekkjan, fyrir árin 700 og fyrr, mun meiri.

Það er því langt í frá komin ástæða til að afskrifa hokkíkylfuna, þrátt fyrir einhvern vafa um trjáhringjagögn – hvort heldur vafinn um þau eigi eftir að reynast réttur eða ekki.

Niðurstaða

Niðurstaðan er enn sú sama, að það er heitara nú en síðastliðin þúsund ár (1800 ár) að minnsta kosti. Sem stendur er því hokkíkylfan aftur kominn á þann byrjunarreit að hún er besta nálgunin sem við höfum varðandi hitastig síðustu þúsund árin fyrir norðurhvel jarðar.

Heimildir og frekari upplýsingar

Hér má sjá greinina eftir Micheal Mann og fleiri frá því í fyrra (Viðbótargögn sem fylgdu greininni: Supplementary material) og hér má sjá svarið frá Mcintyre og McKitrick. Hér er einnig mótsvar Mann og félaga.

Hér má sjá ágrip af greininni nýju eftir Kaufmann og fleiri.

Greinin úr RealClimate: Hey Ya! (mal)
  

About the Author

Áhyggjumaður um loftslagsmál