Það er að kólna en ekki hlýna.

Mýta: Það er að kólna en ekki hlýna.

Það þarf ekki að taka fram hvert markmið þessarar mýtu er – eða hvað? Hún virðist enn nokkuð notuð, en virðist þó vera á undanhaldi enda heldur hún ekki vatni. Meira að segja hafa þekktir efasemdar/afneitunarmenn varað við því við félaga sína að nota þessa mýtu – þar sem hún gæti komið málstaðinum illa. Vinsælast núna er að nota árið 1998 sem viðmiðunarár – þ.e. “það er búið að vera að kólna frá árinu 1998”.

Hvað er loftslag?

Til að geta rætt um hlýnandi og kólnandi loftslag, þá verðum við að vita hvað loftslag er. Almenna skilgreiningin á loftslagi er svona:

Loftslag í þröngum skilningi er yfirleitt skilgreint sem „meðaltalsveður“, eða á nákvæmari máta sem tölfræðileg lýsing (sem tekur til meðaltals og breytileika) á viðeigandi stærðum og eiginleikum yfir lengra tímabil, sem getur varað frá mánuðum til þúsunda eða milljóna ára. Hefðbundið viðmiðunartímabil er 30 ár, eins og það er skilgreint af stofnuninni World Meteorological Organization. Viðeigandi eiginleikar eru oftast yfirborðshitastig, úrkoma og vindur. Loftslag í víðari skilningi er, auk tölfræðilegrar lýsingar, almennt ástand veðurfarskerfisins.

Að velja gögn sem hentar málstaðinum (e. cherry picking)

Hitastig jarðar frá því mælingar hófust.

Hitastig jarðar frá því yfirborðsmælingar á hitastigi jarðar hófust.

 Það fer ekki milli mála ef línuritið hér fyrir ofan er skoðað, að það er búið að vera að hlýna töluvert frá því mælingar hófust. Þeir sem afneita hlýnun jarðar einblína á smá bút efst í horninu til hægri – þar eru hlutirnir að gerast. Reyndar nota margir sem rök að mælingar með yfirborðsmælingum sem þessum, séu ekki marktækar – að gervihnattamælingar séu nákvæmari – þau gögn ná sirka 30 ár aftur í tímann:

Hitastig jarðar mælt með gervihnöttum frá 1975 til ársins í ár. Takið eftir uppsveiflunni árið 1998 af völdum El Nino og niðursveiflunni eftir 1991 af völdum eldgossins í Mount Pinatobo.

Hitastig jarðar mælt með gervihnöttum frá 1975 til ársins í ár, borið saman við yfirborðsmælingar (bláa línan). Takið eftir uppsveiflunni árið 1998 af völdum El Nino og niðursveiflunni eftir 1991 af völdum eldgossins í Mount Pinatobo.

Þeir sem afneita hlýnun jarðar horfa á þetta línurit, að því er virðist á þennan hátt: 

Það er spurning - er ekki bara að kólna?

Það er spurning - er ekki bara að kólna?

Náttúrulegur breytileiki

Loftslagssérfræðingar vita af töluverðum fjölda þátta sem valda náttúrulegum breytileika eða sveiflum í hitastigi jarðar, t.d. sólin og suðurhafssveiflan (ENSO).

Á myndinni hér fyrir ofan sést meðal annars toppur sem tengist El Nino hlýnun árið 1998 (hlýi partur suðurhafssveiflunnar í Kyrrahafi). Einnig er hluti af niðursveiflunni 2007-2008 talið tengjast La Nina (kaldi partur suðurhafssveiflunnar í Kyrrahafi).

Það er margt rangt við að nota toppa eins og El Nino veldur til að sýna fram á loftslagsbreytingar. Í fyrsta lagi er það alls ekki vísindalegt að nota hámark sem þetta sem viðmiðun, í öðru lagi þá segja 11 ár lítið til um loftslagsbreytingar (of stuttur tími) og þar af leiðandi er verið að álykta margt út frá allt of litlum gögnum og ónýtum viðmiðunum.

Búin hafa verið til línurit sem taka mið af þessum tímabundnu fyrirbærum og leiðrétt fyrir þeim. Þá lítur þetta nokkuð öðruvísi út:

Hér eru sýndir hitastigsferlar frá tveimur mismunandi rannsóknum og þykku línurnar sýna leiðréttingu fyrir suðurhafssveiflunni (frá realclimate.org).

Hér eru sýndir hitastigsferlar frá tveimur mismunandi rannsóknum og þykku línurnar sýna leiðréttingu fyrir suðurhafssveiflunni (frá realclimate.org).

Þegar þessir ferlar eru skoðaðir þá er ekki hægt að sjá að það hafi kólnað síðastliðin ár, þessar sveiflur voru enda af náttúrulegum toga.

Hægt væri að leiðrétta fyrir öðrum náttúrulegum sveiflum, eins og núverandi niðursveiflur sem er á sólvirkninni. Ef það yrði gert yrði hlýnunin enn meira áberandi en hún í raun er.

Auk þess hefur verið bent á að það sé nánast alltaf hægt að finna nokkur ár í röð í svona sveiflukenndu ferli sem sýnir afturhvarf frá ráðandi ferli.

Það er reyndar spurning hvort nokkur pása sé í hlýnuninni, þótt ekki sé leiðrétt fyrir ENSO. Ef skoðað er hnattrænt hitastig frá GISS stofnuninni (Goddard Institute for Space Studies) þá er ekki hægt að sjá að nokkur pása hafi orðið. Kosturinn við GISS gögnin eru að þau mæla hitastig yfir allan hnöttinn og þar með Norðurskautið, sem undanfarin nokkur ár hefur verið óvenju heitt – fyrir vikið færist metárið yfir á 2005:

Hnattrænt hitastig samkvæmt GISS gögnum frá árinu 1980. Rauða línan sýnir árleg gögn, stóri rauði kassinn sýnir bráðabirgðagögn fyrir árið 2009 úr frá hitastigi frá janúar-ágúst. Græna línan sýnir 25 ára leitnilínu (0,19°C á áratug). Bláa línurnar sýna síðustu tvær tíu-ára leitnilínur (0,18°C á áratug fyrir 1998-2007, 0,19°C fyrir 1999-2008).

Hnattrænt hitastig samkvæmt GISS gögnum frá árinu 1980. Rauða línan sýnir árleg gögn, stóri rauði kassinn sýnir bráðabirgðagögn fyrir árið 2009 úr frá hitastigi frá janúar-ágúst. Græna línan sýnir 25 ára leitnilínu (0,19°C á áratug). Bláa línurnar sýna síðustu tvær tíu-ára leitnilínur (0,18°C á áratug fyrir 1998-2007, 0,19°C fyrir 1999-2008).

 Með því að greina tíu ára leitnilínur fyrir öll árin (þ.e. 1990-1999, 1991-2000 o.sv.frv), þá hafa þær allar verið á milli 0,17 og 0,34°C hlýnun á áratug – sem er svipað og búist er við að sé vegna hlýnunar af mannavöldum.

Möguleg hlýnun

Hvað ef hlýnunin í framtíðinni verður eins og næsta graf sýnir? Verða þá háværar raddir árið 2030 um að það sé ekki að hlýna heldur að kólna?

 

Hugsanlegar sveiflur í hlýnun jarðar í framtíðinni, mér skilst að þetta sé bara spurning með grafíska framsetningu, ekki sé eiginleg spá þarna á bakvið (Mynd tekin af heimasíðunni scienceblogs.com/islandofdoubt)

Hugsanlegar sveiflur í hlýnun jarðar í framtíðinni. Ekki er um eiginlega spá að ræða (Easterling 2009).

Það er því nánast sama hvernig litið er á þessi gögn ef notaðar eru viðurkenndar aðferðir, að augljóst er að það er að hlýna. En ekki nóg með það – mikill hluti hitans verðum við ekki var við í þessum hitamælingum sem eru gerðar við yfirborð jarðar.

Hafið er að gleypa orku

Hnattræn hlýnun er – hnattræn. Öll jörðin er að gleypa í sig hita vegna orkuójafnvægis. Lofthjúpurinn er að hitna og hafið er að gleypa orku, sem og landið undir fótum okkar. Einnig er ís að taka til sín hita til bráðnunar. ‘Til að skilja heildarmyndina hvað varðar hnattræna hlýnun, þá verðum við að skoða þá varmaorku sem jörðin í heild er að taka til sín.

Skoðað hefur verið orkujafnvægi jarðarinnar frá 1950-2003, þar sem lögð eru saman hitainnihald hafsins, lofthjúpsins, lands og íss. Hafið sem er langstærsti hitageymirinn var mældur í efstu 700 metrunum, að auki var tekið með gögn niður á 3000 metra dýpi. Hitainnihald lofthjúpsins var reiknaður út frá yfirborðsmælingum og hitainnihaldi veðrahvolfsins. Hitainnihald lands og íss (þ.e. orkan sem þarf að bræða ís) var einnig tekið með:

Hitainnihald jarðar frá 1950-2003 (mynd frá Skeptical Science).

Hitainnihald jarðar frá 1950-2003 (mynd frá Skeptical Science).

Það er nokkuð greinilegt á þessari mynd að hlýnun jarðar hefur verið töluverð frá 1950 til allavega 2003 – samt má sjá nokkuð af náttúrulegum sveiflum. Þessi gögn ná þó ekki lengra en til ársins 2003, en eins og sést á myndinni þá er hafið langstærsti hitageymirinn og því rétt að skoða hvað er búið að vera að gerast í hafinu síðan 2003.

Frá 2003 hafa farið fram hitamælingar með Argos-baujunum, sem er kerfi bauja sem að mæla hitastig sjávar (ásamt seltu og fleira), niður á 2000 metra dýpi. Upphaflega héldu menn að þessar baujur væru að sýna kólnun. Það rekja menn nú til skekkju vegna þrýstings, en þessar baujur sökkva niður á ákveðið dýpi með vissu millibili og fljóta til yfirborðs og mæla gögn í leiðinni – senda þau síðan til gervihnatta sem skrásetja gögnin. Fyrir þessari skekkju er nú leiðrétt og því sýnir úrvinnsla gagnanna greinilega hlýnun.

Hvernig vitum við að sú úrvinnsla, sem sýnir hlýnun, er réttari? Gervihnettir sem mæla þyngdarafl, styðja þetta auk þess sem sjávarstaða hefur hækkað töluvert frá árinu 2003 en stór hluti sjávarstöðuhækkana er vegna varmaþennslu sjávar. Einnig sýna mælingar á inngeislum (til jarðar) og útgeislun (frá jörðinni) ójafnvægi sem ekki verður túlkað öðruvísi en sem hlýnun.  

Eitt af þeim teymum vísindamanna, sem mælt hefur hitainnihald sjávar frá 2003-2008 út frá gögnum Argo-baujanna hafa kortlagt hitadreifingu niður á 2000 metra síðustu ár. Þeir hafa gert eftirfarandi línurit sem sýnir hnattrænan hita sjávar:

Línurit sem sýnir þann hita

Línurit sem sýnir hnattræna hitageymslu sjávar frá árinu 2003-2008 (mynd af skeptical science).

Samkvæmt þessari mynd þá hefur hafið haldið áfram að safna í sig hita fram til loka ársins 2008. Ef þetta er síðan sett í samhengi við gögnin í næstu mynd þar fyrir ofan þá hefur hlýnunin verið stöðug frá árinu 1970 og fram til síðustu áramót allavega. 

Niðurstaða og framtíðin

Loftslag er ekki að kólna. Hér ræðum við um loftslag sem er tölfræðileg úttekt á veðri og til að það sé hægt að segja að loftslagsbreytingar stefni í átt til kólnunar þá þurfum við gögn sem spanna 20-30 ár, en ekki 11 ár eða skemur. Það má þó alltaf búast við því í sveiflukenndri hlýnun að fullyrt sé að það sé að kólna – rétt er þá að muna að það er munur á loftslagi og veðurfari.

Aðalpunkturinn sem hafa þarf í huga þegar menn tala um skammtímakólnun í yfirborðshita jarðar, er að þar ráða náttúrulegir ferlar sem geta náð að yfirgnæfa hlýnun jarðar af mannavöldum, yfir svo stuttan tíma. Aðal hlýnunin er samt að mestu falin í hafinu  – en þar hefur hlýnunin haldið áfram óhindruð í næstum 40 ár.

Beinar mælingar sýna því að jörðin er enn að taka til sín hita í auknu magni, hún sankar að sér meiri orku en hún geislar aftur út í geiminn.

Hlýnun jarðar heldur því áfram – því miður.

Heimildir og frekari upplýsingar

Grein um sveiflukennda hlýnun: Is the climate warming or cooling? (Easterling 2009)

Bloggfærsla RealClimate um hlýnun og Enso: Global trends and ENSO

Peter Sinclair hefur gert gott tvö góð myndbönd um þessa mýtu:  Climate Denial Crock of the Week – Party like it’s 1998 og 1998 Revisited

Í nýlegum færslum frá RealClimate (A warming pause?) og Skeptical Science (How we know global warming is still happening og How we know global warming is happening, Part 2) eru einnig töluverðar upplýsingar. Þessar síður fara nánar í saumana á þessu og þar er einnig að finna tengla yfir í frekari upplýsingar.

About the Author

Áhyggjumaður um loftslagsmál