Mýta: Aukning CO2 í andrúmsloftinu er góð.
Þessi mýta er því fyrst og fremst notuð sem rök til að koma í veg fyrir mótvægisaðgerðir, þar sem þeir sem halda þessu fram fullyrða að aukið CO2 í andrúmsloftinu sé jákvætt og þá sérstaklega fyrir plöntur – að aukin losun muni hafa góð áhrif á landbúnað víða um heim.
Jákvæð áhrif
Plöntur eru mismunandi – sumar eru með innbyggt kerfi sem eykur magn CO2 í plöntuvef þeirra og aukið CO2 hefur ekki áhrif á þær plöntur. Aðrar plöntur þurfa vatn til að ná í CO2 og þar sem vatn er af skornum skammti þá getur þetta haft jákvæð áhrif – en minni en búist hefði verið við fyrirfram, en rannsókn bendir til að uppskera geti aukist um 13% við aukið CO2(Long o.fl 2006).
Á móti kemur að hærri hiti eykur uppgufun og við það minnkar vatn. Einnig bendir margt til þess að þessi jákvæðu áhrif vari yfirleitt í örfá ár, eftir það fara aðrir þættir að hafa meiri áhrif (skortur á vatni og köfnunarefni).
Neikvæð áhrif
Þó að plöntuvöxtur geti aukist á kaldari slóðum, þá er margt sem bendir til þess að lítil hitaaukning í hitabeltinu geti haft neikvæð áhrif á plöntuvöxt þar. Rannsóknir benda t.d. til þess að þetta hafi neikvæð áhrif á hitabeltisskóga í Panama, en þær rannsóknir hafa staðið yfir í tvo áratugi samfellt og sýna að vöxtur trjáa hefur minnkað um 25%, við 1°C hitastigshækkun (Fox 2007).
Þá má benda á grein um gömlu trén í Yosomite, en samkvæmt henni þá eru þau að drepast og eru nýlegar loftslagsbreytingar – hlýnun jarðar – talinn helsti orsakavaldurinn. Þau tré hafa lifað af talsverðar sveiflur undanfarnar aldir, en hitaaukningin síðustu áratugi virðist hafa dregið úr þeim mátt (Lutz o.fl. 2009).
Hvað varðar uppskeru við matvælaframleiðslu, þá er hún töluvert flókin. Mikið af þeirri uppskeru sem ræktuð er þarfnast sérstakrar tegundar jarðvegs, loftslags, rakastigs, veðurs og fleira. Ef loftslag breytist það mikið að uppskera brestur ítrekað, þá þarf að færa framleiðsluna annað – en það er ekki víst að það sé alltaf hægt.
Nýleg rannsókn bendir til þess að fæðuöryggi í vanþróuðum löndum heims minnki töluvert og allt að 25 milljónir fleiri börn verða hungri að bráð árið 2050 ef ekkert er gert til að sporna við loftslagsbreytingum. Stærstu áhrifin verða á uppskeru hveitis og hrísgrjóna. Talið er að uppskera hveitis geti dregist saman um 20-35% árið 2050 miðað við óbreyttar áherslur í losun gróðurhúsalofttegunda. Sjá nánari umfjöllun á vef Nature.
Niðurstaða
Miðað við þær neikvæðu afleiðingar sem fyrirsjáanlegar eru í framtíðinni vegna aukins magns CO2 í andrúmsloftinu, þá þyrfti jákvæði þáttur losunar CO2 að vera mikill. Fátt bendir til þess og margt sem spilar inn í sem lítið er vitað um.
Spár gera ráð fyrir miklum úrkomubreytingum með þurrkum víða um heim og flóðum, hækkun sjávarstöðu með tilheyrandi sjávarflóðum, óbærilegan hita í sumum löndum og landsvæðum, vatnsskort í mörgum löndum vegna minnkandi vatnsforðabúra, t.d. vegna bráðnunar jökla. Ekki má gleyma súrnun sjávar, sem er bein afleiðing aukins CO2 í andrúmsloftinu og getur haft áhrif á lífríki sjávar. Þetta allt getur þýtt uppskeru- og aflabrest, hungursneyð og búferlaflutninga í mörgum af þeim löndum sem fjölmennust eru – farsóttir og stríð gætu fylgt í kjölfarið á slíkum aðstæðum.
Því er erfitt að sjá fyrir að jákvæði þáttur aukinnar losunar CO2 vegi upp á móti neikvæðum afleiðingum þess.
Heimildir
Grein um vaxtarhraða planta við aukið CO2: Long o.fl. 2006 – Food for Thought: Lower-Than-Expected Crop Yield Stimulation with Rising CO2 Concentrations
Grein um vöxt trjáa í Panama: Fox 2007 – Saved by the trees?
Grein um trén í Yosomite Park: Lutz o.fl. 2009 – Twentieth-century decline of large-diameter trees in Yosemite National Park, California, USA