Mýta: Aðrar reikistjörnur í sólkerfinu eru að hlýna.
Þessi mýta miðar að því að halda því fram að þar sem aðrar reikistjörnur (og tungl) í sólkerfinu séu að hlýna, þá hljóti utanaðkomandi öfl að valda hlýnuninni þar og á jörðinni – þ.e. Sólin.
Það er þrennt sem er rangt við þessa mýtu:
- Ekki eru allar reikistjörnur að hlýna, sumar eru að kólna.
- Sólin hefur ekki sýnt aukna virkni.
- Það eru aðrar skýringar á því af hverju sumar reikistjörnur eru að hlýna.
Ekki eru allar reikistjörnur að hitna:
Mars, Júpiter, Neptúnus, Plútó auk Jarðarinnar eru taldar vera að hitna. Úranus er að kólna og ekki hefur verið staðfest að Merkúríus, Venus eða Satúrnus séu að hitna. Af þeim tunglum sem vitað er um í sólkerfinu hefur hlýnun aðeins verið staðfest á einu tungli, þ.e. Tríton sem er eitt af tunglum Neptúnus.
Sólin hefur ekki sýnt aukna virkni:
Virkni sólar hefur verið að minnka, en jörðin heldur áfram að hlýna.
Það eru til aðrar skýringar á hlýnun reikistjarna
Jörðin. Rannsóknir á jörðinni, eina staðnum sem áreiðanlegar mælingar eru til, sýna að sólin hefur haft lítið að gera með þá hlýnun. Það er talið að 90-95% líkur séu á því að aukning gróðurhúsalofttegunda vegna athafna mannkyns valdi megninu af þeirri hnattrænu hlýnun sem átt hefur sér stað síðan um miðja síðustu öld. Án kælandi áhrifa loftarða er líklegt að gróðurhúsalofttegundirnar einar sér hefðu valdið enn meiri hlýnun. Einnig er talið að 1-5% líkur séu á því að þessa hnattrænu hlýnun megi útskýra með nátturulegum þáttum. Náttúrlegir þættir hefðu átt að leiða til kólnunar frá því um miðja síðustu öld samkvæmt gögnum vísindamanna, meðal annars vegna minnkandi virkni sólar.
Mars. Það er óljóst með Mars þ.e. hvort það er að hlýna eða ekki. Fátt bendir til þess og þá er helst talað um að sandstormar geti haft áhrif til hlýnunar (þ.e. dökkur sandur dreyfir sig yfir ljósara svæði og dregur í sig meiri hita). Á stjörnufræðivefnum segir ennfremur:
Að undanförnu hafa efasemdarmenn um hlýnun jarðar bent á að á Mars virðist vera hlýna af völdum gróðurhúsaáhrifa líkt og jörðin. Á Mars eru gróðurhúsaáhrif sem hækka hitastigið um tæplega 5°C en nýleg hlýnun á lítið skylt við hlýnun jarðar. Á Mars virðist nýleg hlýnun vera staðbundin en ekki hnattræn eins og á jörðinni og á líklegast rætur að rekja til stórra svartra basalthraunbreiða á yfirborðinu sem draga í sig meiri varma á daginn heldur en ljósari svæðin og einnig miklu magni ryks í lofthjúpnum sem dregur líka í sig varma.
Mikilvægt er að hafa í huga að við vitum einfaldlega of lítið um lofthjúp Mars til að draga ályktanir um mögulega hlýnun hans. Um þessar mundir er loftslagsmælitæki um borð í Mars Reconnaissance Orbiter sem kanna á sérstaklega loftslag Mars en það er einnig hlutverk komandi leiðangra á borð við Phoenix.
Júpiter. Hitabreytingar á Júpiter eru taldar vera vegna breytinga í hitakerfi Júpiters sjálfs. Júpiter býr til tvöfallt meira af orku en það fær frá sólinni. Að auki er það ekki hnattræn hlýnun, þar sem miðbaugur Júpiters er að hlýna en pólarnir að kólna. Á stjörnufræðivefnum segir:
Varmaburðurinn í innviðum Júpíters ber hlýrra loft frá heitari stað að kaldari. Hitinn flæðir þar af leiðandi upp í gegnum lofthjúpinn og út í geiminn. Það þýðir að neðri lög lofthjúpsins eru hlýrri en þau efri. Innrauðar mælingar staðfesta að svo sé og sýna hvernig hitastigið eykst eftir því sem innar dregur.
Varmaburður í lofthjúpi Júpíters ber loft og vinda upp á við en auk þeirra blása láréttir svæðisvindar í austur- eða vesturátt. Þegar Galíleó lofthjúpskanninn féll í gegnum lofthjúp Júpíters mældist vindhraðinn nokkuð stöðugur um 180 m/s sem rennir stoðum undir þá kenningu að vindarnir séu drifnir áfram af innri hita Júpíters. Væri sólarhitun aðaldrifkraftur vindanna, líkt og á jörðinni, hefði smám saman dregið úr vindhraðanum með aukinni dýpt.
Neptúnus. Á stjörnufræðivefnum segir:
Vegna mikillar fjarlægðar frá sól nýtur Neptúnus helmingi minni sólarorku en Úranus. Engu að síður er lofthjúpurinn óvenju virkur, mun virkari en lofthjúpur Úranusar. Það þýðir að einhver innri orka er til staðar í Neptúnusi. Margt bendir til þess að Neptúnus geisli frá sé meiri orku en hann fær frá sólinni, líkt og Júpíter. Líklega er Neptúnus enn að dragast saman en við það breytist þyngdarorkan í varmaorku sem veldur því að kjarninn hitnar. Þessi samblanda hlýrra innviða og kalds ytri lofthjúps veldur iðustraumum í Neptúnusi sem færir gas upp og niður innan reikistjörnunnar og við það verður skýja og stormamyndun.
Enn fremur eru gögnin sem notuð hafa verið til að tengja á milli virkni sólar og hita á Neptúnus eru röng, þ.e. virkni sólar helst ekki í hendur við hita á Neptúnus:
– Tríton. Þetta tungl Neptúnus fær að fylgja með, þar sem oft er minnst á það í tengslum við umræðu um hlýnun jarðar, en það er að hlýna að því er talið er vegna þess að tunglið er að nálgast suðurskautssumar, sem gerist á nokkur hundrað ára fresti.
Plútó. Á Plútó er um tvær mælingar að ræða, með fjórtán ára millibili, sem mælidu þykkt lofthjúpsins og gefur það í skyn að Plútó hafi hlýnað í millitíðinni. Ástæða þess er talin vera vegna skekkju í sporbaug Plútós, en seinni mælingin var tekin meðan áhrifin af sólnánd eru talin hafa varað enn. Á stjörnufræðivefnum má ennfremur lesa þessa lýsingu á Plútó, sem skýrir þetta nokkuð vel:
Braut Plútós um sólina hefur meiri miðskekkju og brautarhalla en brautir reikistjarnanna í sólkerfinu. Miðskekkjan er svo mikil að stundum er Plútó nær sólu en Neptúnus, þá um 20 ára skeið. Seinast fór Plútó inn fyrir braut Neptúnusar 21. janúar 1979 og var næst sólu 5. september 1989. Tæplega tíu árum síðar eða 11. febrúar 1999 fór Plútó aftur út fyrir braut Neptúnusar og verður fjær sólu en Neptúnus þar til í september 2226.
Þegar Plútó nálgast sólnánd hitnar hrímlagið og gufar að einhverju leyti upp. Þá myndast örþunnur lofthjúpur sem frýs síðan aftur eftir því sem Plútó færist fjær sólu, og þá snjóar lofthjúpurinn á yfirborðið. Þannig er lofthjúpurinn mestmegnis frosinn þegar Plútó er hvað fjærst sólu.
Heimildir og frekari upplýsingar
Á stjörnufræðivefnum eru töluverðar upplýsingar til um sólkerfið okkar og meðal annars um loftslag ýmissa reikistjarna (myndskreytingar í þessari færslu eru flestar af stjörnufræðivefnum).
Um mýtuna að Sólin sé að valda hlýnun á jörðinni má finna á öðrum stað hér á loftslag.is: Hlýnunin nú er af völdum Sólarinnar
Skeptical Science er með góða síðu þar sem farið er yfir þessa mýtu og tilvísanir yfir í frekari upplýsingar: Global warming on other planets in the solar system, en einnig er til ágætt myndband eftir Greenman um þessa mýtu: Mars Attacks remix