Röksemdir efasemdamanna…
Ís á Suðurskautinu er að aukast, ef að það væri að hlýna þá myndi hann minnka. Línurit sýna að hann hefur farið stöðugt vaxandi á sama tíma og hann minnkar á Norðurskautinu.
Það sem vísindin segja…
Á meðan jökulbreiðan þykknar á hálendi Austur Suðurskautsins, þá er jökulbreiða Suðurskautsins í heild að minnka og á auknum hraða. Hafís umhverfis Suðurskautið er aftur á móti að aukast þrátt fyrir hlýnun Suðuríshafsins.
Það er mikilvægt að halda því til haga að það er munur á ís á landi, jökulbreiðunni á Suðurskatutinu (e. ice sheet) og hafís (e. sea ice). Flestir gera sér grein fyrir þeim mun, en oft sést þó að menn rugla því saman þegar verið er að ræða Suðurskautið.
Í stuttu máli þá er staðan þannig með Suðurskautið:
-
Jökulbreiða Suðurskautsins er að minnka og sú minnkun er að auka hraðann
-
Hafís umhverfis Suðurskautið er að aukast, þrátt fyrir hlýnun Suður Íshafsins
Jökulbreiða Suðurskautsins er að minnka
Að mæla breytingar í jökulbreiðu Suðurskautsins hefur verið erfitt verk, vegna stærðar breiðunnar og hversu flókin hún er. En frá árinu 2002 þá hefur gervihnötturinn Gravity Recovery and Climate Experiment (GRACE) mælt alla jökulbreiðuna. Gervihnötturinn mælir breytingar í þyngdarhröðun til að áætla massabreytingar jökulbreiðunnar. Fyrst um sinn kom í ljós að megnið af minnkun í massa jökulbreiðunnar var á Vestur Suðurskautinu (Velicogna 2007). Á sama tíma, þ.e. frá 2002-2005, þá var Austu Suðurskautið um það bil í massajafnvægi. Þ.e. ákoma á söfnunarsvæðum jökulbreiðunnar inn til landsins var svipuð og leysing út við jaðrana. Þetta má sjá greininlega á mynd 1 og muninn á massabreytingum á Vestur Suðurskautinu (rautt) og Austur Suðurskautinu (grænt):
Mynd 1: Massabreytingar Suðurskautsins (heildregnar línur með hringjum) og besta leitnilína (brotalínur) fyrir jökulbreiður Vestur Suðurskautsins (rauð) og Austur Suðurskautsins (græn) frá apríl 2002 til ágúst 2005 (Velicogna 2007).
Eftir því sem meira af gögnum koma frá GRACE, því meira hefur skilningur á jökulbreiðu Suðurskautsins aukist. Mynd 2 sýnir massabreytingu á Suðurskautinu á tímabilinu apríl 2002 til febrúar 2009 (Velicogna 2009). Blá línan/krossarnir sýna ósíuð mánaðarleg gildi, Rauðu krossarnir sýna þróunina þegar árstíðabundnar sveiflur hafa verið fjarlægðar og græna línan bestu leitnilínu.
Mynd 2: Massabreytingar í jökulbreiðu Suðurskautsins frá apríl 2002 til febrúar 2009.Ósíuð gögn eru bláar línur/krossar. Gögn sem síuð hafa verið til að fjarlægja árstíðarbundnar breytingar eru með rauðum krossum. Besta annars stigs leitnilína er sýnd með grænni línu (Velicogna 2009).
Eftir því sem tímabilið sem skoðað er hefur lengst, hefur tölfræðilega áreiðanleg leitnilína birst. Jökulbreiður Suðurskautsins eru ekki eingöngu að missa massa, heldur er massabreytingin að aukast, en hröðunin er um 26 Gigatonn/ári2. Það hefur að auki sýnt sig að Austur Suðurskautið er ekki lengur í massajafnvægi, heldur einnig að missa massa (Chen 2009). Þær niðurstöður vöktu undrun, því hingað til hefur Austur Suðurskautið verið talið stöðugt vegna þess hve svæðið er kalt, en þetta bendir til þess að jökulbreiða Austur Suðurskautsins sé kvikulli en áður var talið.
Það sem gerir þessa bráðnun á Austur Suðurskautinu enn mikilvægari er sú staðreynd að jökulbreiðan þar er mun massameiri en á Vestur Suðurskautinu. Austur Suðurskautið inniheldur nógu mikinn ís til að hækka sjávarstöðu hnattrænt um 50-60 metra á meðan vestari jökulbreiðan myndi hækka sjávarstöðuna um 5-7 metra. Jökulbreiður Suðurskautsins spilar mikilvæga rullu í heildarframlagi til sjávarstöðubreytinga og það framlag fer stöðugt vaxandi.
Hafís Suðurskautsins eykst
Hafís Suðurskautsins hefur sýnt langtímavöxt í útbreiðslu frá því að mælingar með gervihnöttum hófst árið 1979. Þetta eru mæliniðurstöður sem oft er bent á sem rök gegn kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum. Þrátt fyrir það, virðist spurningin um það af hverju hafísinn er að aukast sjaldan spurð. Rökréttast virðist vera að álykta sem svo að það hafi kólnað í kringum Suðurskautið, en það hefur verið sýnt fram á að svo er ekki. Í raun er Suður Íshafið að hlýna hraðar en önnur úthöf jarðar. Hnattrænt hlýnuðu höf jarðarinnar um 0,1°C á áratug frá 1955 til 1995. Til samanburðar hefur Suður Íshafið hlýnað um 0,17°C á hverjum áratug – Suður Íshafið er sem sagt ekki bara að hlýna, heldur er það að hlýna hraðar en önnur höf.
Mynd 3: Yfirborðshiti yfir hafísþekju Suðurskautsins (efri mynd). Hafís útbreiðsla samkvæmt gervihnattamælingum (neðri mynd).(Zhang 2007)
En ef Suður Íshafið er að hlýna, hvers vegna er þá hafís Suðurskautsins að aukast? Það eru nokkrir þættir sem sjá til þess.
Einn af þáttunum er gatið í ósonlaginu yfir Suðurskautinu. Gatið hefur valdið kólnun í heiðhvolfinu (Gillet 2003). Það hefur aftur aukið á lægðagang umhverfis meginland Suðurskautsins (Thompson 2002), sem veldur því að aukinn vindur hefur ýtt ísnum til og myndað vakir (e. polynyas) í ísnum. Þessar vakir hjálpa til við að auka hafísmyndun (Turner 2009).
Annar þáttur eru breytingar í haftstraumum. Við yfirborð Suður Íshafsins er lag með köldum sjó og neðar heitara lag. Streymi vatns frá heitara laginu rís upp á yfirborðið til að bræða hafísin að neðan. Við hlýnun hefur úrkoma einnig aukist. Við það verður efsta lagið ferskvatnsblandaðra, sem gerir það eðlisléttara og blöndun við heitara lagið minnkar. Þar með minnkar hitastreymi til yfirborðs frá heitara laginu. Þar með bráðnar hafísinn minna (Zhang 2007).
Ef við tökum það saman, þá er hafís Suðurskautsins háð flóknum og einstökum þáttum. Einfaldasta túlkunin um að hafísinn sé að aukast vegna þess að það hljóti að vera að kólna í kringum Suðurskautið á ekki við rök að styðjast. Hlýnun er í gangi – en hvernig það hefur áhrif á mismunandi svæði – er flókið.
Þýðing af heimasíðu Skeptical Science. Sjá upprunalegu útgáfuna