Röksemdir efasemdamanna…
Maður heyrir oft að sjávarstaða fari rísandi og að bráðlega muni borgir fara í kaf. Það mætti halda að þeir sem haldi því fram viti ekki að land er víða að sökkva í sæ. Einnig er ljóst að ef það var eitthvert ris í sjávarstöðunni, þá hefur það stöðvast. Ef einhver sjávarstöðubreyting er í gangi, þá hef ég ekki orðið var við það á allri minni ævi.
Það sem vísindin segja…
Ris í sjávarstöðu er mælt á margskonar hátt og sýna þær mælingar töluvert samræmi – setkjarnar, sjávarfallamælingar, gervihnattamælingar. Það sem þær mælingar sýna er að ris sjávarstöðu er stöðugt og hefur farið vaxandi síðustu öld.
Algeng villa í loftslagsumræðunni er að draga upplýsingar úr litlum hluta gagna og taka ekki tillit til heildarmyndarinnar. Gott dæmi er þegar menn halda því fram að ris sjávarstöðu hafi hægt á sér. Þá eru gjarnan sýnd gervihnattagögn af meðalsjávarstöðubreytingum síðastliðinna 16 ára (mynd 1). 60 daga meðaltalslína (blá lína) virðist benda til þess að hækkun sjávar hafi náð hæstu hæðum árið 2006. Þannig að það er hægt að rökstyðja það að sjávarstaða hafi ekki risið í þrjú ár. Er hægt að draga þá ályktun að langtíma ris í sjávarstöðu hafi hætt?
Mynd 1: Gervihnattamælingar sem sýna sjávarstöðubreytingar án leiðréttingar fyrir loftþrýstingsmun (University of Colorado).
Til að svara ofangreindri spurningu, þá þarf að skoða öll 16 árin. Í gögnunum er suð eða flökt á sama tíma og langtímaleitni sjávarstöðunnar rís. Sem dæmi má benda á árin 1993 til 1996 og 1998 til 2000. Með öðrum orðum þá hafa orðið nokkur stutt tímabil á síðustu 16 árum þar sem hið stöðuga ris sjávarstöðu virðist ekki vera í gangi.
Þetta er óhjákvæmlegt þar sem mikið er um suð eða flökt þar sem langtímaleitni er þó stöðug. Það sama má sjá þegar skoðuð eru hitagögn (sem gerir það að verkum að við fáum sömu villu í ályktunum hvað það varðar). Lærdómurinn af þessu er sá að sýna efasemdir gagnvart öllum þeim sem að draga ályktanir um það hver leitnin er í gögnum með slíku suði, yfir svona stutt tímabil.
Að auki, þá er mynd 1, með einstaklega mikið af suði, þar sem ekki er búið að leiðrétta gögnin. Loftþrýstingur hefur áhrif á sjávarstöðu (svokölluð Inverse Barometer effect), en hár loftþrýsingur hefur þau áhrif að sjávarstaða lækkar og hann hækkar þegar loftþrýstingur er lágur. Því þarf að leiðrétta fyrir loftþrýstingi og þegar það er búið þá minnkar suðið og skýrari mynd af sjávarstöðubreytingunum birtist.
Mynd 2: Gervihnattamælingar sem sýna sjávarstöðubreytingar með leiðréttingu fyrir loftþrýstingsmun (University of Colorado).
Horft lengra aftur í tímann
Meðalsjávarstöðubreytingar (þ.e. hnattrænt meðalhæð sjávar) hafa í gegnum tíðina verið reiknaðar út frá mælingum á sjávarföllum á föstum stöðum víðsvegar um heim. Þessir mælar, mæla hæð sjávar miðað við fasta punkta við sjávarsíðuna. Vandamálið við þá mæla er að hæð lands er ekki alltaf fasti. Skorpuhreyfingar geta haft áhrif á þá, auk þess sem fargbreytingar af völdum jökla hafa einnig töluverð áhrif (líkt og á Íslandi – en þar er t.d. töluvert landris við Suðausturströndina vegna bráðnunar jökla. á sama tíma og landsig er við Suðvesturströndina).
Til að búa til línurit með hnattrænum sjávarstöðubreytingum, þá eru sjávarfallamælar valdir þar sem langt er í flekaskil og lítið um fargbreytingar. Þetta var gert í greininni A 20th century acceleration in global sea-level rise (Church 2006), þar sem dregin var mynd að sjávarstöðubreytingum síðustu aldar út frá sjávarfallamælum. Uppfærð útgáfa af myndinni má sjá á mynd 3:
Mynd 3: Hnattrænar sjávarstöðubreytingar frá árinu 1870 til 2006, með einu staðalfráviki (Church 2008).
Mat á sjávarföllum út frá setkjörnum ná allt aftur til fjórtundu aldar. Á þeim tíma þá voru sjávarstöðubreytingar nánast engar. Þar kemur einnig í ljós að á nítjándu og tuttugustu öldinni eykst ris sjávarstöðunnar. Þar sem setkjarnar og sjávarföll skarast sést að gott samræmi er á milli þessarra tveggja gagnasafna (Donnelly 2004, Gehrels 2006).
Það sem vekur mestan áhuga þeirra sem að spá í sjávarstöðubreytingum, er langtímaleitni þeirra. Mynd 4 sýnir 20 ára leitni gagnanna út frá sjávarfallagögnunum. Frá 1880 til byrjun tuttugustu aldarinnar reis sjávarstaða um einn mm á ári. Mestalla tuttugustu öldina hefur sjávarstaða risið um tæpa tvo mm á ári og á seinnihluta aldarinnar náði risið um 3 mm á ári. Síðustu fimm 20 ára leitnilínur eru þær hæstu frá upphafi þessa tímabils.
Mynd 4: Leitni sjávarstöðubreytinga miðað við 20 ára tímabil með einu staðalfráviki.Frá 1963 til 1991 þá var töluverð eldvirkni og kólnun af þeim völdum í efri lögum sjávar. Þetta hægði á sjávarstöðubreytingunum tímabundið.
Þannig að þegar gögn um sjávarstöðubreytingar eru skoðaðar, þá er sjávarstaða ekki bara að rísa – heldur er hún að rísa mun hraðar nú en í lok nítjándu aldar.