Rökleysur loftslagsumræðunnar

Á undanförnum mánuðum hefur umræðan varðandi loftslagsmál í kjölfar hins svokallaða Climategate-máls farið á undarlegt stig. Í því máli var tölvupóstum loftslagsvísindamanna stolið og í kjölfarið byrjuðu samsæriskenningar og rangtúlkanir út frá fullyrðingum um hvað það væri sem tölvupóstarnir voru taldir innihalda. Þetta hefur verið mikið í umræðunni síðustu mánuði og margskonar rökleysur orðið til í kjölfarið. Fjölmiðlafólk, bæði erlendis og hérlendis virðist hafa fallið í þá gryfju að draga umræðuna á plan afneitunar, sem helst virðist eiga uppruna sinn hjá ýmsum þrýstihópum með önnur viðmið en vísindin að leiðarljósi. En hvers vegna dregst umræða alvöru blaðamanna á þetta stig?

Nýlega birti Morgunblaðið grein eftir Kristján Leósson („Góð vísindi, slæm vísindi, sjúk vísindi og gervivísindi“, 4. apríl 2010, bls. 34-35) þar sem fjallað var um loftslagsvísindin á afar villandi hátt. Þar var því gert í skóna að falsanir loftslagsvísindamanna eigi sér almennt stað og í kjölfarið voru nefnd ýmis tilfelli þar sem vísindamenn (ekki loftslagsvísindamenn) falsa niðurstöður. Þessi tenging var gerð á þann hátt að lesandanum var talin trú um að loftslagsvísindin séu byggð á fölsunum og svindli. Þetta var gert þrátt fyrir að engin gögn liggi fyrir um að þetta eigi sér almennt stað eða að gögn vísindamanna séu fölsuð. Tvær nýlegar rannsóknir vísindanefndar breska þingsins komu nýverið út, sú fyrri (sem kom út fyrir grein Morgunblaðsins) bar sakir af vísindamanninum Phil Jones, sem er einn af þeim sem verst varð úti í hinu svokallaða Climategate-máli og í hinni seinni kom fram að loftslagsvísindin væru traust og byggðu ekki á fölsuðum niðurstöðum. Niðurstaða nefndarinnar varðandi Phil Jones og CRU var nokkuð skýr. Samt er nánast fullyrt í greininni að falsanir loftslagsvísindamanna eigi sér almennt stað;

„ …sem þóttu sanna að nokkrir vísindamenn innan stofnunarinnar og samstarfsmenn þeirra hefðu breytt gögnum um hitastigsbreytingar…“

„ … vísindaleg kenning er smíðuð en mælingum sem ganga gegn henni er hafnað, breytt eða stungið undir teppi. Tilfellið hjá CRU er því miður ekki einsdæmi […] þar sem margir keppa um frægð og frama…“

Það hafa ekki komið fram gögn sem sýna fram á að þessar staðhæfingar standist, þó svo margir haldi því fram og þá sérlega á ýmsum bloggsíðum erlendis sem styðja sjónarmið „efahyggjunnar“. Það má því segja að þetta sé bein heimfærsla staðhæfinga þrýstihópa sem hafa önnur markmið en að sýna fram á gildi rökstuddra vísindaniðurstaðna. Á Loftslag.is höfum við tvisvar sinnum fjallað um loftslagsfréttir íslenskra fjölmiðla, sjá nánari umfjöllun þar.

Í þessu ljósi eru það rökleysur þegar staðhæfingum er haldið fram án þess að á bak við þær liggi gögn byggð á rannsóknum gerðar með vísindalegum aðferðum eða fullyrðingar sem haldið er á lofti, þó svo búið sé að hrekja niðurstöður varðandi það eða hreinlega rangfærslur sem maður hefur jafnvel á tilfinningunni að séu settar fram af ráðnum hug eða í besta falli af vankunnáttu.

Yfirlýst efahyggja er vinsæl vafans aðferð til að grafa undan vísindunum. Það virðist vera einhverskonar markmið loftslagsefahyggjunnar að snúa varfærni hinnar vísindalegu orðræðu gegn sjálfri sér. Kenning verður, að mati efahyggjunnar seint eða aldrei fyllilega sönnuð. Þar af leiðandi má nánast engu halda fram og alltaf verður réttlætanlegt að efast um allt. Á sama tíma er reynt að setja fram nýjar kenningar sem eiga út frá mjög einhliða rökum að fella viðteknar vísindaniðurstöður. Það virðist vera sem efahyggjumenn séu að bíða eftir næsta Kepler eða Einstein eða Galíleó, vísindamanninum sem snýr loftslagsfræðunum á hvolf og setur allt í sitt rétta samhengi, sem væntanlega mun þá smellpassa við heimssýn þeirra. Það væri fróðlegt að sjá íslenska fjölmiðla skoða rökleysur þeirra sem afneita niðurstöðum vísindanna.

Þetta leiðir mig því að spurningunni úr inngangi greinarinnar: Hvers vegna dregst umræða alvöru fjölmiðlafólks niður á þetta stig? Það er ekki til einfalt svar við því, en ætli þeim finnist ekki eins og mörgum öðrum að þetta sé málaflokkur sem erfitt er að setja sig inní. Það tekur aðeins um 15 sekúndur að henda fram fullyrðingu sem ekki stenst skoðun, en það getur tekið langan tíma að hrekja rökleysuna, þar sem til þess þarf oft að benda á gögn vísindamanna og útskýra þau.

Það verður að teljast ábyrgðarhluti að fjalla um þessi mál á forsendum þrýstihópa en ekki vísindamanna. Það er merkilegt til þess að vita að ætlast er til þess að loftslagsvísindin hafi alltaf 100% rétt fyrir sér og ef það kemur upp smávægileg villa í gögnunum þá eru vísindamenn settir í hóp falsara. Aftur á móti þurfa loftslagsefahyggjumenn aðeins að hafa rétt fyrir sér í 0,1% tilfella, til að stuðningsmenn þeirra sjái fyrir sér sannanir þess að loftslagsvísindin séu byggð á fölsunum.

Það er ósk mín að loftslagsumræðan komist á hærra plan í framtíðinni, þar sem við skoðum loftslagsvísindin á málefnalegan hátt en ekki út frá upphrópunum þeirra sem rangtúlka og afneita vísindunum.

Höfundur er Sveinn Atli Gunnarsson

About the Author

Áhyggjumaður um loftslagsmál