Hækkun sjávarstöðu er ein af verri afleiðingum hækkandi hitastigs og því eitt af því sem margir vísindamenn eru að fylgjast með ítarlega. Við hækkun sjávarstöðu geta þéttbýl landsvæði farið undir sjó, sjávarflóð geta aukist og haft verri afleiðingar, með tilheyrandi mengun grunnvatnsstöðu og strandrofi. En hvað mun sjávarstaða hækka mikið það sem af er þessari öld?
Líkleg hækkun sjávaryfirborðs til loka aldarinnar er háð því hversu mikið hlýnar, en varmaþennsla veldur um 70% af hækkuninni. Stór óvissuþáttur í sjávaryfirborðshækkun felst í hugsanlegum breytingum á ísflæði í stóru íshvelunum á Grænlandi og Suðurskautslandinu. Þessi óvissuþáttur er ekki tekinn inn í útreikninga IPCC, en gæti aukið við sjávaryfirborðshækkunina. Hér að neðan verður því miðað efri mörk hækkunarinnar sem kemur fram hjá IPCC. Þetta er ófullkomin aðferð við að vega saman óþekkta óvissu vegna hugsanlegrar aukningar ísflæðis og þekktrar óvissu vegna annarra þátta, og mikilvægt er að hafa í huga að ekki er hægt að útiloka mun meiri sjávaryfirborðshækkun (Úr skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi – gefin út af Umhverfisráðuneytinu árið 2008).
Með því að taka hæstu gildi IPCC skýrslunnar fást allt að 0,6 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100 (frá árinu 1990) miðað við 4°C hækkun hitastigs. Í skýrslunni sem ég vitna í hér fyrir ofan kemur einnig fram að frá 1904-2003 hafi sjávarborð hækkað um 1,74 mm á ári (eða um 17 sm á öld), en einnig kemur fram að frá 1997-2007 hafi sjávarborð hækkað um 3,4 mm á ári og því ljóst að hækkun yfirborðs sjávar hefur sótt í sig veðrið, þá vegna aukinnar hlýnunar sjávar og aukinnar bráðnunar jökla.
Það skal tekið fram að allar sjávarstöðubreytingar hér er um rætt, eru hnattrænar breytingar fengnar út með mælingum á sjávarföllum á síðustu öld og síðar með gervihnattamælingum. Þá er búið að leiðrétta fyrir landrisi og landsigi, en það flækir málið víða, t.d. hér á Íslandi. Sem dæmi þá er land að rísa á Suðausturlandi vegna minna jökulfargs og er það frá 10-15 mm á ári. Á móti kemur að landsig er víða annars staðar, t.d. er það um 3,4 mm á ári í Reykjavík og allt að 8 mm á ári yst á Reykjanesi. Hugsið það bara þannig að þegar talað er um hækkun sjávarstöðu í kringum aldamótin 2100, þá má bæta 0,34 m við sjávarstöðuhækkunina í Reykjavík og 0,8 m við hækkunina á Reykjanesi, en draga 1,0-1,5 m frá hækkuninni á Suðausturlandi.
Í skýrslu sem gefin var út sem niðurstaða ráðstefnu í Kaupmannahöfn í vor (mars 2009), kemur einnig fram að hækkun sjávarstöðu hafi sótt í sig veðrið undanfarin ár:
Sjávarstöðubreytingar meiri en búist var við?
Nýlegar rannsóknir um mögulega hækkun sjávarstöðu eru nokkuð hærri en áætlanir IPCC gerir ráð fyrir, t.d. gerir ein rannsókn ráð fyrir möguleikanum á 0,5-1,4 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100. Önnur rannsókn gerir ráð fyrir 0,8-2,0 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100.
Eitt eiga allar tilgátur um hækkun sjávarstöðu sameiginlegt og það er að jafnvægi muni ekki nást fyrr en eftir nokkur hundruð til þúsund ár og að sjávarstaða muni hækka töluvert á þeim tíma. Nýleg rannsókn bendir til þess að þessi jafnvægisstaða muni nást þegar sjávarstaða verður um 25 m hærri en hún er nú, það er þó ekki líklegt að það gerist á næstu áratugum – frekar næstu þúsund ára eða svo. Það er svipað og hærri sjávarstöður sem eru um 3ja milljón ára gamlar og eru í 15-25 m hæð yfir núverandi sjávarmáli – en á þeim tíma var magn CO2 svipað og það er í dag.
Við getum svo sem huggað okkur við það að menn telja að þetta gerist ekki fyrr en eftir þúsund ár eða svo, nema hvað að nýleg rannsókn bendir til þess að jökulbreiður geti hörfað hraðar en menn töldu áður og þar með hraða því að jafnvægi sjávarstöðuhækkana náist – það geti jafnvel gerst á örfáum hundruðum ára, með tilheyrandi hröðun í hækkandi sjávarstöðu. Samkvæmt þessu, þá gæti verið styttra í að sjávarstaða í vesturhluta Reykjavíkur verði eins og þessi mynd sýnir:
Sjávarstöðubreytingar svipaðar og búist var við?
Að ofan voru færð rök fyrir því að hækkun sjávar geti orðið mun hraðari en spár IPCC segja til um en nýleg rannsókn vísar því á bug.
Með því að bera saman hvernig sjávarstöðubreytingar urðu miðað við hitabreytingar við lok síðasta jökulskeiðs (fyrir um 10 þús árum), þá fundu þeir út að IPCC hefði verið nokkuð nærri lagi í sínum útreikningum. Samkvæmt þeirra niðurstöðum þá þýðir 1,1-6,4°C hækkun í hitastigi um 7-82 sm hækkun sjávarstöðu árið 2100, sem er mun minna en spár undanfarin misseri hafa bent til og líkt tölum IPCC sem hljóðar upp á 18-76 sm.
Það skal á það bent að aðferðafræðin sem ofangreind rannsókn byggir á, hefur verið dregin í efa. Auk þess er á það bent að nánast útilokað sé að sjávarstöðubreyting upp á 7 sm geti staðist, því miðað við núverandi hraða sjávarstöðubreytinga þá er ljóst að hækkunin verður allavega 34 sm um næstu aldamót.
Uppfært: Nú er búið að draga þessa grein til baka sökum villu í útreikningum (sjá guardian: Climate scientists withdraw journal claims of rising sea levels).
Niðurstaða
Hver svo sem niðurstaðan verður um næstu aldamót, þá er nokkuð ljóst að sjávarstöðubreytingar munu hafa gríðarlega neikvæð áhrif í framtíðinni. Láglend og fjölmenn svæði, eins og t.d. Bangladesh eru nú þegar farin að finna fyrir áhrifum hærri sjávarstöðu.
Einungis 40 sm hækkun í sjávarstöðu við Bengalflóa, mun færa 11 prósent af strandsvæðum viðkomandi landa í kaf og hrekja 7-10 milljón manns á flótta undan loftslagsbreytingum.
Staðbundin áhrif af völdum breytinga í sjávarstraumum og vegna áhrifa þyngdaraflsins geta einnig aukið á sjávarstöðuhækkunina á þeim stöðum, t.d. er talið að aukningin verði meir við Vesturströnd Norður Ameríku vegna breytinga í sjávarstraumum.
Að auki verða hættuleg sjávarflóð algengari – þó sjávarstaða hækki um eingöngu 50 sm þá munu sjávarflóð sem hafa orðið einu sinni á öld, verða einu sinni á áratug.
Auk þess geta fljót í farvegum sem eru í jafnvægi við núverandi sjávarborð farið að dreifa úr sér fyrr ef sjávarstaða hækkar og jafnvæginu er raskað.
Eitt er víst að sjávarhiti í júlí síðastliðnum var sá hæsti frá upphafi mælinga í júlí (sjá frétt NOAA), þannig að ein aðalorsök hækkunar sjávarstöðu er í fullum gangi og mun halda áfram að auka hækkun sjávarstöðu, hver svo sem hraðinn verður á henni. Einnig hafa jöklar heims bráðnað hraðar undanfarna áratugi.
Tengdar afleiðingar
Afleiðingar sem hafa áhrif til hækkunar sjávarstöðu eru annars vegar hlýnun sjávar og bráðnun jökla. Einnig hefur bráðnun jökla óbein áhrif til lækkunar sjávarstöðu nálægt þeim jöklum sem bráðna, þ.e. staðbundnar jarðskorpuhreyfingar. Breytingar á hafstraumum eru einnig taldar geta aukið staðbundin áhrif hækkandi sjávarstöðu.
Afleiðingar sjávarstöðubreytinga eru t.d landeyðing/strandrof , alvarlegri afleiðingar storma og fellibylja, vatnsmengun, alvarlegri sjávarflóð og flóð í fljótum. Vegna ofangreindra afleiðinga er síðan búist við auknum fæðuskorti, vatnskorti og eins er búist við miklum búferlaflutningum sökum eyðileggingar búsvæða manna.
Heimildir og frekari upplýsingar
Skýrsluna Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi má lesa hér. Skýrsla ráðstefnunnar í Kaupmannahöfn má sjá hér.
Nýleg grein á RealClimate er ítarleg um nýlegar rannsóknir og tilgátum um sjávarstöðubreytingar framtíðar.