Loftslag.is

Tag: Norðurskautið

  • Með styrk frá Noregi?

    Með styrk frá Noregi?

    Í vikunni fagnaði formaður Vinstri Grænna, Steingímur J. Sigfússon, þátttöku Norðmanna í fyrirhugaðri olíuleit á Drekasvæðinu. Hann telur það styrkja verkefnið.

    Það gefur því aukið vægi og það er styrkur í að hafa Norðmenn okkur við hlið í þessu. Þeir búa enda yfir mikilli reynslu á þessu sviði, þá ekki síst í öllu sem snýr að öryggis- og umhverfismálum í tengslum við olíu- og gasvinnslu á hafi úti. Þannig að ég held að það sé akkur í því, auk þess sem við eigum náttúrlega mikið samráð við Noreg og erum með samkomulag við Norð- menn um skiptingu á Drekasvæðinu,“

    sagði Steingrímur J. í viðtali við Morgunblaðið.

    Norska fyrirmyndin?
    Olíuríkið Noregur hefur að undanförnun fengið á sig gagnrýni fyrir að tala með tungum tveim í loftslagsmálum og sitt með hvorri.

    Á sama tíma og norsk stjórnvöld verja gríðarlega háum fjárhæðum til bjargar regnskógum REDD+ og CDM-fjárfestingarverkefni í hreinni tækni í þriðja heims ríkjum sýna ný gögn að markmið norskra stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda eru enn langt undan.

    Noregur hefur stært sig af að skattleggja olíutekjur sínar til að fjármagna REDD+ og CDM-verkefni, að viðbættri rausnarlegri þróunaraðstoð. Nýjar tölur frá Alþjóðlegu orkumálastofnuninni (International Energy Agency, IEA) sýna að losun gróðurhúsalofttegunda í Noregi hefur aukist umtalsvert.

    Bård Vegar Solhjell, umhverfisráðherra, mun lenda í Doha síðar í vikunni á 18. loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna, til að kynna metnaðarfull markmið ríkisstjórnar sinnar til að vinna á loftslagsbreytingum, þ.m.t. 20 prósent samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda innan landamæra Noregs fyrir árið 2020, skuldbindingar um 500 milljóna dollara framlag á ári til að styðja við vernd regnskóga (REDD+), fjárframlög til að styrkja nýtingu endurnýjanlegrar orku í þróunarríkjum (CDM) og nokkrar milljónir dollara til að auðvelda aðlögun að breyttum heimi í kjölfar loftslagsbreyting; hin fátækari ríki heims augljóslega eiga bágt með að taka á vandamálum í kjölfar veðuratburða á borð við Sandy af sömu festu og Bandaríkin geta gert.

    Hvað sem því líður þá fela tölur IEA í sér að Noregur hefur fallið af stalli sem ofurhetja í umhverfismálum. Losun koltvísýrings frá eldsneytisbrennslu hefur aukist um 38 prósent frá árinu 1990 (viðmiðunar ár Kyoto-bókunarinnar), meira en öll önnur OECD-ríki nema Ástralía, sem lengi vel taldist meðal helstu loftslagsbófa.

    Meiri áhyggjum veldur að losunarspár fram til ársins 2020 sýna að losun gróðurhúsalofttegunda mun aukast og orsökin er losun frá olíu- og gasvinnslu og að brennslu þess konar eldsneytis hefur aukist verulega. Á móti kemur að annar iðnaðar á landi hefur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda.

    Þessi þróun mun skaða hið góða orðspor Noregs í umhverfismáum. Vilji Noregur láta taka mark á sér duga ekki bara metnaðarfullar yfirlýsingar á alþjóðlegum ráðstefnum um hversu ábyrgir heimsborgarar Norðmenn séu. Slíkum yfirlýsingum verður að fylgja aðgerðir heima fyrir; aðgerðir sem fela í sér verulegan samdrátt í losun koltvísýrings.

    Steingrímur J. Sigfússon veit betur en við flest eftir marga og erfiða daga í fjármálaráðuneytinu að Ísland er ekki aflögufært um peninga í sama mæli og Noregur, jafnvel ekki samkvæmt höfðatölureglunni. Hvað varðar loftslagsstefnu væri óskandi að hann sækti fyrirmyndir sínar annað en til Noregs; að hann hefði siðferðisstyrk til að segja kjósendum sínum fyrir norðan að samkvæmt skýrslu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar geti mannkyni einungis nýtt þriðjung nýtanlegs jarðefniseldsneytis sem vitað er um fyrir árið 2050. Það er að segja, eigi mannkyninu að takast að halda hækkun hitastigs andrúmsloftsins innan við 2 gráður á Celsíus að meðaltali. Eru ekki Vinstri græn með okkur í því verkefni?

  • Haparanda – Málþing um olíu- og gasvinnslu á Norðurslóðum

    Haparanda – Málþing um olíu- og gasvinnslu á Norðurslóðum

    Mér hefur boðist einstakt tækifæri til að taka þátt í málþingi (e. workshop) um framtíð olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum sem haldið er í Haparanda í Svíþjóð. Í gögnum varðandi málþingið sem mér hafa borist kemur m.a. eftirfarandi fram (þýðing úr ensku):

    Það er áætlað að undir hafsbotni á norðurslóðum megi finna allt að fjórðung allra óupgötvaðra olíu- og gasbirgða í heiminum. Hratt hop eldri og þykkari hafíss ásamt meiri eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti hefur dregið athygli að Norðurskautinu sem aldrei fyrr. Jafnvel á sama tíma og heimurinn ræðir um nauðsyn þess að skipta í loftslagsvænni orku, þá eru öflugir efnahagshvatar fyrirtækja og stjórnvalda til að hrinda af stað könnun Norðurslóða, til að mynda könnun staða eins og í Alaska, Vestur Kanada, Grænlands- og Barentshafi ásamt Norður-Rússlandi.

    Málþinginu er ætlað til að auka þekkingu og byggja upp getu meðal frjálsra félagasamtaka (NGOs) á sviði olíu- og gas notkunar og bjóða upp á tækifæri fyrir viðkomandi samtök til stefnumótunar um málefnið.

    Ráðstefnudögunum tveimur verður skipt í þrjá þematengda fundi/efni, þar sem eftirfarandi efni verða höfð að leiðarljósi.

    1. Olía og gas á norðurslóðum í hnattrænu samhengi – umfangið í dag og þróun til framtíðar, ásamt umræðu um þá hvata sem að baki liggja
    2. Tekist á við áskoranir – dæmi um núverandi stefnu og frumkvæði
    3. Horft fram á við –  hlutverk frjálsra félagasamtaka og hvernig hægt er að hafa áhrif á umræðuna

    Málþingið verður haldið dagana 12.-13. nóvember og mun ég skrifa um upplifun mína hér á loftslag.is undir liðnum Haparanda. Þetta er einstakt tækifæri fyrir mig (og vonandi fyrir lesendur líka) til að setja mig inn í hvernig umræðan um þetta málefni er að þróast. Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi núverandi umræðu hér á landi um hugsanlega olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Ég kem að þessu sem óbundinn einstaklingur og vona að ég geti komið boðskapi fundarins á framfæri hér á loftslag.is. Ég fer á fundinn í boði UNEP GRID-Arendal, en milliliður og aðal hvatamaður að þátttöku minni á málþinginu er Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.

    Á málþinginu verða aðilar frá frjálsum félagasamtökum, iðnaðinum, stjórnvöldum, háskólum, sjóðum og öðrum áhugasömum einstaklingum. Þátttökulistinn inniheldur m.a. fólk frá Shell, Greenpeace, Háskólum frá m.a. Laplandi og Danmörku og opinberum stofnunum frá ýmsum löndum.

    Nýjung, núna er einnig hægt að bæta við ummælum á loftslag.is í gegnum Facebook, sjá hér undir.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Sumarhiti á Svalbarða ekki verið hærri í 1800 ár

    Sumarhiti á Svalbarða ekki verið hærri í 1800 ár

    Sumarhiti á Svalbarða hefur undanfarna áratugi verið hærri en nokkurn tíman áður síðastliðin 1800 ár, samkvæmt nýrri rannsókn.

    Í rannsókninni voru skoðaðar leyfar þörunga í botni stöðuvatns, en hópur vísindamanna boruðu í setlög og tóku sýni. Með því að skoða hlutfall transfitu í setinu,  sem þörungar framleiða, þá gátu þeir áætlað hitastig síðastliðin 1800 ár. Hlutfall mettaðrar og ómettaðrar transfitu breytist við það hitastig sem er sem þörungarnir lifa í. Því hærra hitastig sem er, því hærra er hlutfall mettaðrar transfitu.

    Í  ljós kom að sumarhiti á Svalbarða hefur verið að meðaltali 2-2,5°C hærri  síðastliðin 25 ár, en á hlýjustu áratugum miðalda (MWP – Medievel Warm Period), sem skilgreint er sem tímabilið um það bil 950-1250. Til aldursgreininga voru notaðar efnavísar (e. chemical marker) úr öskulögum þekktra eldgosa frá Íslandi.

    Þó aðeins sé um staðbundna rannsókn að ræða, þá er hér enn ein vísbending þess að miðaldarhlýnunin svokallaða hafi ekki verið eins mikil og útbreidd og áður var talið.

     

    Heimildir og ítarefni

    Góð umfjöllun um greinina er á heimasíðu Háskólans í Columbíu: High-Arctic Heat Tops 1,800-Year High, Says Study

    Greinin birtist í fagtímaritinu Geology (ágrip):  Mild Little Ice Age and unprecedented recent warmth in an 1800 year lake sediment record from Svalbard

    Tengt efni á loftslag.is

     

  • Hafíslágmarkið 2012 – nýtt met, 18% undir metinu frá 2007

    Hafíslágmarkið 2012 – nýtt met, 18% undir metinu frá 2007

    Það eru liðnar þó nokkrar vikur síðan ljóst varð að hafíslágmarkið í ár myndi slá öll fyrri met, með minni útbreiðslu en áður hefur mælst. Það stendur heima og vel það, þar sem metið frá því 2007 var slegið rækilega og var hafís útbreiðslan í ár 18% undir metinu frá því þá, eða 3,41 milljón ferkílómetrar (metið árið 2007 var 4,17 milljón ferkílómetrar) – sjá töflu hér undir.

    Þann 16. september 2012 fór hafísútbreiðslan í 3,41 milljón ferkílómetra. Þetta virðist vera lágmark ársins í ár. Vegna kólnandi veðurs og lækkandi sólarstöðu mun hafísútbreiðslan líklega byrja að aukast að venju, þó slá megi þann varnagla að veður og vindar gætu enn ýtt lágmarkinu aðeins neðar.

    Hafíslágmarkið í ár er 760 þúsund ferkílómetrum lægra en fyrra met frá 2007, sem átti sér stað 18. september 2007. Þetta jafngildir um það bil 7,6 sinnum stærð Íslands. Lágmarkið í ár er 3,29 milljón ferkílómetrum undir meðaltali hafíslágmarksins fyrir tímabilið 1979 – 2000. Lágmarkið í ár er því 18% undir 2007 mælingunum og 49% undir meðaltali tímabilsins 1979 til 2000.

    Í allt var heildar bráðnun hafíssins í ár um 11,83 milljón ferkílómetrar af hafís, frá því hámarkinu var náð þann 20. mars í ár og þar til lágmarkinu var náð. Þetta er mesta hafísbráðnun frá því gervihnattamælingar hófust og meira en 1 milljón ferkílómetrum meiri en mælingar frá fyrri árum hafa sýnt. Á myndinni hér til hliðar má sjá hvernig aðstæður eru í ár, borið saman við miðgildi áranna 1979 til 2000 – klikkið á myndina til að stækka hana.

    Sex lægstu lágmörk hafísútbreiðslu hafa öll mælst á síðustu 6 árum (2007 til 2012). Hér undir má sjá samanburð á nokkrum árum og tímabilum.

    Í töflunni hér undir má sjá samanburðinn á milli ára og tímabila í tölugildum:

    Tafla 1. Fyrri hafís lágmörk á Norðurskautinu
     ÁR LÁGMARKS HAFÍS DAGSSETNING
    MILLJÓN FERKÍLÓMETRAR
    2007 4,17 18. september
    2008 4,59 20. september
    2009 5,13 13. september
    2010 4,63 21. september
    2011 4,33 11. september
    2012 3,41 16. september
    1979 – 2000 meðaltal 6,70 13. september
    1979 – 2010 meðaltal 6,14 15. september

    Sá veruleiki sem við blasir er undir þeim framtíðarspám sem hafa verið gerðar, sjá mynd hér undir. Það má jafnvel spá í það hvort að verstu spár varðandi þróun hafísútbreiðslu geti orðið að veruleika. Þess má geta að hafísinn er þynnri en áður og það bendir til að það geti orðið stutt í að við upplifum Norðuskaut án hafíss á þessum tíma árs.

    Nánari upplýsingar, heimildir og ítarefni:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Öfgavetur í kjölfar mikillar bráðnunar hafíss á norðurslóðum

    Öfgavetur í kjölfar mikillar bráðnunar hafíss á norðurslóðum

    Í kjölfar mikillar bráðnunar hafíssins á Norðurskautinu nú í sumar, má búast við röskun í veðrakerfi norðurhvelsins í vetur og þá sérstaklega í Bandaríkjunum og Evrópu. Þetta er mat Jennifer Francis sem er sérfræðingur í lofthjúpi jarðar í háskólanum Rutgers í New Jersey. Aukinn hiti á Norðurskautinu er þannig talinn geta haft áhrif á skotvinda (e. jet stream) sem gæti aukið tíðni öfgaatburða á fyrrnefndum svæðum.

    Hin mikla bráðnun sem orðið hefur á þessu ári, svo slegið hefur fyrri met, er að auka hitainnihald Norður-Íshafsins og andrúmsloftsins, að sögn Jennifer og líkt og að bæta við nýrri orkuuppsprettu fyrir lofthjúpinn.

    Hafísútbreiðslan þann 3. sept 2012 (mynd: nsidc.org)

    Þann 26. ágúst náði útbreiðsla hafíss nýjum lægðum, en fyrra metið var slegið í september 2007 og enn er útbreiðsla hafíssins að minnka þegar þetta er skrifað. Þessi bráðnun veldur magnandi svörun sem þekkt er sem Norðurskautsmögnunin (e. Arctic amplification). Því meira sem bráðnar af hafís, því meiri orku dregur Norðurskautið til sín – því þar sem áður var hafís sem speglar sólarljósinu aftur út í geim, er nú opið og dökkt haf. Þetta eykur hitastig sjávar og lofthjúpsins á Norðurskautinu – sem svo bræðir enn meiri hafís.

    Á haustin, þegar sólin sest yfir Norður-Íshafinu og það byrjar að frjósa aftur, þá losnar hitinn aftur út í lofthjúpinn. Þar sem fyrrnefndir skotvindar eru knúðir áfram af hitamismun milli Norðurskautsins og svæða sunnar á hnettinum, þá hafa allar breytingar á þeim hitamismun áhrif á vindana – með tilheyrandi afleiðingum.

    Samkvæmt Francis, þá virðist sem sveiflan aukist í skotvindakerfinu þ.e. í stefnu norður-suður – með öðrum orðum þá eykst bylgjulengd skotvindanna á haustin og yfir vetrartímann. Aukin bylgjulengd getur valdið auknum öfgum í veðri, en öfgar í veðri eru oft tengdir veðrakerfum sem eru lengi að breytast. En þó vísbendingar séu um að skotvindar séu að hægja á sér og auka bylgjulengd sína, þá er erfitt að segja til um hvaða áhrif það hefur á komandi vetur.

    Staðsetning skotvindanna ræðst af öðrum þáttum, samkvæmt Francis – meðal annars Kyrrahafssveiflunni (ENSO) og Atlantshafssveiflunni (AO) – en líklega megi þó búast við mjög óvenjulegu veðri í vetur. Óvenjulega kaldur og snjóþungur vetur árið 2009-1010 og 2010-2011 á austurströnd Bandaríkjanna og í Norður-Evrópu, er samkvæmt Francis, nátengdur hlýnun Norðurskautsins. Það að veturinn 2011-2012 var ekki eins öfgakenndur veldur því að efasemdir eru uppi um þessi tengsl meðal sumra loftslagsfræðinga. Aðrir hafa bent á, meðal annars Jim Overland hjá NOAA, að ekki sé hægt að útiloka tilgátu Francis út af einum vetri – ekki sé alltaf beint samband á milli orsaka og afleiðinga.

    Það verður því áhugavert að fylgjast með þróuninni í haust og fram á vetur.

    Heimildir og ítarefni

    Þýtt og staðfært úr frétt Climate Central:  ‘Astonishing’ Ice Melt May Lead to More Extreme Winters

    Hafísmetið fellur: Arctic sea ice extent breaks 2007 record low

    Ástand hafíssins í ágúst: Arctic sea ice falls below 4 million square kilometers

    Áhugavert viðtal við Jón Egil Kristjánsson í speglinum um öfgakennt veðurfar

    Tengt efni á loftslag.is

  • Opinbert met – Hafís á Norðurhveli hefur aldrei mælst minni – 2-3 vikur eftir af bráðnunartímabilinu

    Opinbert met – Hafís á Norðurhveli hefur aldrei mælst minni – 2-3 vikur eftir af bráðnunartímabilinu

    Nýtt met í útbreiðslu hafíss var opinberlega staðfest af NSIDC í dag (Arctic sea ice extent breaks 2007 record low). Útbreiðsla hafíss hefur aldrei mælst minni og enn ættu alla jafna að vera 2-3 vikur eftir af bráðnunartímabilinu. Það er því líklegt að metið frá því 2007 verði slegið rækilega í ár.

    Hafísútbreiðslan fór í 4,1 miljón ferkílómetra þann 26. ágúst 2012. Það er um 70.000 ferkílómetrum undir metinu frá því 18. september 2007, þegar útbreiðslan fór í 4,17 ferkílómetra þegar minnst var. Það virðast því vera nokkrar vikur eftir að bráðnunartímabilinu.

    Að þessu ári meðtöldu þá eru 6 lægstu gildin fyrir hafísinn á síðustu 6 árum (2007 til 2012).

    Eftir að útbreiðslan þróaðist með svipuðum hætti í júlí í ár eins og í júlí 2007, gerðust hraðar breytingar í ágúst þar sem útbreiðslan minnkaði hratt. Síðan þá hefur eitthvað hægt á bráðnuninni, sem er nú um 75 þúsund ferkílómetrar á dag – bráðnunin á degi hverjum er því svipuð og 3/4 af stærð Íslands. Þetta er samt sem áður mun meiri bráðnun en er venjuleg á þessum tíma árs, sem er venjulega um 40 þúsund ferkílómetrar á dag.

    Ekki virðist þessi frétt almennt rata í fjölmiðla – þó mikilvæg sé, en Veðurstofan hefur gert þessu skil á vedur.is (Hafís á norðurhveli aldrei mælst minni). Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:

    Undanfarna áratugi hefur flatarmál [hafís]breiðunnar minnkað í takt við hlýnun norðurheimskautssvæðisins.

    [..]

    Þótt næstu ár hafi útbreiðslan að sumarlagi verið langt undir meðallagi varð hún aldrei jafnlítil og árið 2007. Útbreiðsla hafíssins segir heldur ekki alla söguna um ísmagnið á norðurheimskautssvæðinu því að ísinn er þynnri en áður og því er heildarrúmmál íssins minna.

    (áherslur eru höfundar)

    Nánari upplýsingar, heimildir og ítarefni:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Óæskilegt met, styrkur yfir 400 ppm á Norðurskautinu

    Óæskilegt met, styrkur yfir 400 ppm á Norðurskautinu

    VÍ © NOAA. Styrkur koltvísýrings í andrúmslofti á Stórhöfða í Vestmannaeyjum: mæliröð bandarísku loftrannsókna-stofnunarinnar NOAA frá 1992 í samvinnu við Veðurstofu Íslands. Staðan á sama tíma í fyrra.

    Í fyrsta skipti í sögu mannkyns* hefur styrkur CO2 í andrúmsloftinu mælst yfir 400 ppm á Norðurskautinu í heild, en í fyrra fóru mælingar á styrk CO2 við Stórhöfða yfir það mark.  Hnattrænt er styrkurinn nú um 395 ppm, en mikil árstíðasveifla er milli norður- og suðurhvels.  Talið er að hnattrænt muni styrkurinn ná 400 ppm í kringum árið 2016.

    Árstíðasveiflan stafar af því að þegar plöntur vaxa að sumarlagi draga þær CO2 úr loftinu en þegar þær falla á haustin og rotna skila þær CO2 til baka. Ástæða þess að árstíðasveifla CO2 er meiri eftir því sem norðar dregur er einfaldlega sú, að á norðurhveli eru stærri landsvæði með gróðurþekju. Styrkur CO2 á Norðurskatuinu nær því venjulega hámarki á vorin, áður en gróður fer að taka við sér, en er svo í lágmarki á haustin áður en rotnun hefst.

    Fyrir iðnbyltinguna var CO2 í kringum 280 ppm og því hefur styrkurinn aukist um sirka 40 %.

    *Reyndar er alltaf miðað við síðastliðin 800 þúsund ár eða eins langt aftur og hægt er að mæla CO2 í ískjörnum. Enn lengra er síðan talið að styrkur hafi verið jafn hár og hann er orðinn nú.

    Heimildir og ítarefni

    NOAA: Carbon dioxide levels reach milestone at Arctic sites

    Tengt efni á loftslag.is

  • Uppfærsla á hitagagnaröð HadCRUT

    Uppfærsla á hitagagnaröð HadCRUT

    Eins og margir vita, þá eru margar hitagagnaraðir í gangi sem mæla þróun hnattræns hitastigs (sjá t.d. GISTEMP, NCDC og Berkeley Earth). Fyrir stuttu kom út ný útgáfa á gagnasettinu frá bresku veðurstofunni (Met Office) og háskólanum í East Anglia – svokölluð HadCRUT gagnaröð. Sú gagnaröð hefur verið mikið notuð og nær allt aftur til 1850, en hefur þótt takmörkuð vegna lélegrar útbreiðslu mælistöðva nálægt Norðurskautinu.

    Nýjasta útgáfan sem kölluð er HadCRUT4 hefur aukið við fjölda mælistöðva – sérstaklega á norðurskautinu (400 stöðvar við Norðurskautið, Síberíu og Kanada). Einnig er búið að lagfæra gögnin vegna breytinga sem urðu á mælingum sjávarhita, sérstaklega þær sem teknar voru eftir seinni heimstyrjöldina (munur var á hvort hent var út fata og hitinn mældur í henni eða hvort mælt var vatn sem tekið var beint inn í vélarúmið).

    Munurinn á HadCRUT3 og HadCRUT4.

    Þrátt fyrir breytingar er heildarmyndin svipuð, frá árinu 1900 hefur hlýnað um 0,75°C.  Þrjú heitustu árin hafa þó sætaskipti en 1998 dettur niður í þriðja sætið yfir heitustu árin – munurinn er þó ekki mikill á þessum árum nú, því hitafrávik heitustu áranna (2010 og 2005) er 0,53°C en 1998 hefur frávikið 0,52°C.

    Hér fyrir neðan útskýrir Peter Stott breytingarnar:

    Heimildir og ítarefni

    Fréttatilkynning Met Office má lesa hér: Updates to hadCRUT global temperature dataset

    CRUTEM4 gögnin má nálgast hér og hér, ásamt tenglum í  hrá gögn og kóða við úrvinnsluna.

    RealClimate er með ítarlega umfjöllun um nýja gagnasettið, sjá: Updating the CRU and HadCRUT temperature data.

    Tengt efni á loftslag.is

  • Leysing Grænlandsjökuls árið 2011

    Leysing Grænlandsjökuls árið 2011

    Eins og flestir vita þá er Grænland hulið ís að mestu leiti. Á veturna hylur snjór Grænland, en á sumrin eftir leysingar koma í ljós jaðrar Grænlands – þar sem há fjöll og klettótt rísa upp úr jöklinum og jökulstraumar renna út í firðina.  Undanfarinn áratug hefur þessi leysing aukist töluvert. Leysingavatn rennur í stríðum straumum um jöklana og niður í hann, eins og vísindamenn urðu vitni að fyrr á þessu ári:

    Samkvæmt skýrslu NOAA um leysingu Grænlands, þá sló leysingin 2011 ekki metið frá árinu 2010 – en hún var samt nokkuð yfir langtíma meðaltali. Kortið hér fyrir neðan sýnir glögglega hvar yfirborðsleysing var meiri (appelsínugult) og minni (blátt) en meðaltal (í dögum), samkvæmt gervihnöttum.

    Fjöldi leysingadaga á Grænlandi 2011 samanborið við meðaltal (mynd NOAA).

    Það fer eftir hvaða nálgun er notuð í gagnavinnslunni hvort leysing árið 2011 var þriðja eða sjötta mesta frá því gervihnattamælingar byrjuðu árið 1979.  Eins og sést á myndinni þá stóð leysing yfir sérstaklega lengi á suðvestanverðri bungunni. Sums staðar varði þessi leysing 30 dögum lengur en meðaltal. Í þriðja skiptið frá árinu 1979 var leysingin á meira en 30% af yfirborði Grænlandsjökuls.

    Bláu punktarnir við jaðrana sýna villu sem er vegna mikilla leysinga. Snjórin hverfur þar gjörsamlega og jökulísinn stendur ber eftir og gervihnettirnir ná ekki að gera greinarmun á vatni og jökli þar sem snjólaust er. Vísindamenn vita þrátt fyrir það, með því að mæla aðstæður á þessum svæðum, að þessi jaðarsvæði eru líka að bráðna.

    Heimildir og ítarefni

    Umfjöllun í Earth Observatory NASA: 2011 Greenland Melt Season: Image of the day

    NOAA skýrsla um Norðurskautið: Highlights of the 2011 Arctic Report Card

    Tengt efni á loftslag.is

  • Hafís Norðurskautsins síðastliðin 1450 ár

    Hafís Norðurskautsins síðastliðin 1450 ár

    Nákvæm gögn eru söfnuð um útbreiðslu hafíss síðastliðin rúm 30 ár byggð á gervihnattagögnum, en auk þess eru nothæfar upplýsingar til um útbreiðslu hafíss síðustu öld, byggt á upplýsingum frá skipum og flugvélum. Gögnin sýna greinilega að bráðnunin undanfarna áratugi er mun meiri en öldina þar á undan. Nýleg greining á þeirri þekkingu sem til er um hafís Norðurskautsins (Polyak o.fl. 2010), bendir til þess að bráðnun hafíss nú sé meiri en verið hefur síðastliðin nokkur þúsund ár og ekki hægt að útskýra með náttúrulegum breytileika.

    Nú nýlega kom síðan út grein um ástand hafíssins á Norðurskautinu. Þar er ítarleg greining á þeim vísum (e. proxys) sem til eru um útbreiðslu hafíss síðastliðin 1450 ár (sjá Kinnard o.fl. 2011).

    Kinnard og félagar söfnuðu saman 69 gagnasettum sem vísa í útbreiðslu hafíss á Norðurskautinu, ýmist beint eða óbeint. Mest voru notaðir borkjarnar í jökulís, en einnig trjáhringjarannsóknir, vatnaset og söguleg gögn þar sem minnst var á hafís. Mikið af vísunum geyma vísbendingar eða merki sem eru önnur en frá útbreiðslu hafíss – þá sérstaklega hitastig – en tölfræðilega greiningin sem notuð er veitir höfundum möguleika á að einangra frá breytileika í gögnunum sem þá er frábrugðinn hitamerkinu.

    Sú tölfræðilega greining sýndi góða fylgni við hafísútbreiðslu síðsumars (ágúst), bæði fyrir allt Norðurskautið sem og fyrir gögn sem tengdust sérstaklega hafisútbreiðslu við Rússland. Samkvæmt greiningunni þá voru gögnin nægilega nákvæm til að áætla um útbreiðslu hafíss síðastliðin 1450 ár.

    Áhugavert er að skoða útlit línuritsins, en glöggir lesendur loftslag.is kannast kannski við útlitið – en það minnir mjög á hokkíkylfur sem orðnar eru fjölmargar (sjá Hokkíkylfa eða hokkídeild?).

     

    Meiri óvissa er eftir því sem farið er lengra aftur í tíman – þá aðallega vegna þess að þau gögn sem nothæf eru fækkar. Engu að síður er augljóst að í lok tuttugustu aldar er niðursveiflan fordæmalaus – allavega síðastliðin 1450 ár – bæði hvað varðar magn og lengd tímabils.

    Heimildir og ítarefni

    Byggt á umfjöllun Tamino í Open Mind: 1400+Years of Arctic Ice

    Greinin birtist í Nature, Kinnard o.fl. 2011 (ágrip): Reconstructed changes in Arctic sea ice over the past 1,450 years

    Yfirlitsgreinin um sögu hafíss birtist í Quaternary Science Review, Polyak o.fl. 2010: History of sea ice in the Arctic

    Tengt efni á loftslag.is