Loftslag.is

Tag: Skýrsla

  • Hitastig á heimsvísu í október og þróun fyrir árið 2010

    Hitastig á heimsvísu í október og þróun fyrir árið 2010

    NOAA hefur gefið út mánaðaryfirlit hitastigs í heiminum fyrir október 2010. Mánuðurinn var 8. heitasti október á heimsvísu síðan mælingar hófust árið 1880. Fyrir tímabilið janúar til október er hitafrávikið það hæsta og jafnt sama tímabili fyrir árið 1998 miðað við hitafrávik fyrir bæði haf og land. Ef aðeins er tekið hitastigið yfir landi, þá er hitafrávikið fyrir tímabilið, janúar til október, það næst heitasta, á eftir 2007, en hitafrávik fyrir sjó er það næst hæsta (jafnt 2003) á eftir 1998.

    Eins og vænta má, þá hefur La Nina (sem er náttúrulegt fyrirbæri sem hefur, öfugt við El Nino, almennt áhrif til kólnunar) sett mark sitt til kólnunar hér að undanförnu. Samkvæmt loftslags spá miðstöð NOAA, þá er gert ráð fyrir að La Nina eigi enn eftir að auka styrk sinn og verða viðloðandi allavega fram á vormánuði 2011. Áhrifin á hitastigið á heimsvísu eru talin verða til kólnunar það sem eftir er árs, svipað og gerðist árið 1998.

    Hér undir má sjá þessa keppni ársins við fyrri ár. Athugið hvernig sjá má á myndinni að árið 2010 var líklegt framan af til að setja nýtt hitamet, þar til áhrif La Nina kólnunarinnar byrjuðu að sjást að marki. Það er þó enn ekki loku fyrir það skotið að árið geti orðið það hlýjasta frá því mælingar hófust, sjá t.d. vangaveltur varðandi það í gestapistli eftir Halldór Björnsson, Og árið verður…

    Á þessari mynd má lesa út hitafráviksþróun fyrir nokkur síðustu ár til samanburðar við árið í ár.

    Október 2010 og árið

    Helstu atriði sýnd á myndum og gröfum, bæði fyrir mánuðinn október og tímabilið janúar – október.

    Í töflunni hér fyrir neðan má lesa helstu tölur varðandi hitastigsfrávikin fyrir októbermánuð 2010.

    Október Frávik Röð
    (af 131 ári)
    Heitasti/næst heitasti ágúst
    samkv. skrám
    Á heimsvísu
    Land +0,91°C 6. heitasti 2005(+1,07°C)
    Haf +0,40°C 10. heitasti 2003 (+0,58°C)
    Land og haf +0,54°C 8. heitasti 2003 (+0,71°C)
    Norðuhvel jarðar
    Land +1,11°C 3. heitasti 2003 (+1,20°C)
    Haf +0,40°C 11. heitasti 2006 (+0,64°C)
    Land og Haf +0,67°C 5. heitasti 2003 (+0,85°C)
    Suðurhvel jarðar
    Land +0,39°C 21. heitasti 2002 (+1,09°C)
    Haf +0,42°C 9. heitasti 1997 (+0,59°C)
    Land og Haf +0,41°C 11. heitasti 1997 (+0,61°C)

    Og nú að hitafrávikunum fyrir tímabilið janúar til september 2010:

    Janúar – október Frávik Röð
    (af 131 árí)
    Heitasta/næst
    heitasta tímabilið
    Á heimsvísu
    Land +0,98°C 2. heitasta 2007 (+1,00°C)
    Haf +0,51°C 2. heitasta 1998 (+0,53°C)
    Land og Haf +0,63°C Heitasta 1998 (+0,63°C)

    Í grafinu hér undir má sjá þessi gögn í öðru ljósi:

    Og svo hitafrávikin fyrir tímabilið janúar – október eftir árum.

    Samkvæmt tölum frá NASA er tímabilið janúar til október einnig það heitasta frá því mælingar hófust, sjá hér samanburð NASA á milli þriggja heitustu áranna fyrir tímabilið janúar til október.

    Eins og sést hefur hitastigið það sem af er árinu verið í hæstu hæðum, sjá einnig Enn mælist hitastig í heiminum í hæstu hæðum.

    Heimildir og annað efni af loftslag.is:

  • La Nina og veðurfar

    La Nina og veðurfar

    Kaldara hitastig í Kyrrahafinu sem tengist La Nina ástandi hafsins þar, gæti haft mikil áhrif á veðurfar í vetur. Í eftirfarandi myndbandi frá ClimateCentral.org eru sýnd hugsanleg áhrifa La Nina fyrir veðurfar vetrarins í BNA. Nýjar spár hafa verið gefnar út, þar sem spár gera ráð fyrir hærra hitastigi í vetur (í BNA), með meiri þurrkum í Suðvestri og votari Norðvestri. Þrátt fyrir að hitastig ársins sé það heitasta á heimsvísu hingað til, þá gæti verið að kólnun samfara La Nina (á heimsvísu), muni hafa þau áhrif að minni líkur eru á að 2010 endi sem heitasta árið frá því mælingar hófust. En lítum nú á myndbandið þar sem farið er yfir þetta í örstuttu máli.

    Heimildir:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • NOAA – ástand Norðurskautsins 2010

    NOAA – ástand Norðurskautsins 2010

    Hér fyrir neðan er áhugavert myndband um ástand Norðurskautsins 2010. Hér er farið myndrænt yfir helstu niðurstöður skýrslu NOAA, sem byggt er á 17 greinum eftir 69 höfunda.

    Heimildir og frekari upplýsingar

    Nálgast má skýrslu NOAA og fleira á heimasíðu NOAA: Arctic Report Card

    Tengt efni á loftslag.is

  • Áhætta þjóða misjöfn

    Áhætta þjóða misjöfn

    Áhugaverð úttekt var gerð á vegum fyrirtækisins Maplecroft, sem er breskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í áhættugreiningu. Gerð var úttekt á því hvaða þjóðir væru í mestri áhættu af völdum loftslagsbreytinga á næstu 30 árum. Þeir tóku saman gögn úr yfir 40 rannsóknum og litu á ýmsa þætti sem geta haft áhrif við þær loftslagsbreytingar sem búist er við. Þættir eins og loftslagstengdar náttúruhamfarir, þéttleiki byggðar, fátækt og hversu háðar þjóðir eru landbúnaði – auk þess hversu vel yfirvöld eru undir það búin að aðlagast loftslagsbreytingum.

    Þær þjóðir þar sem áhætta er mest og minnst af völdum loftslagsbreytinga (mynd: Maplecroft 2010). Hægt er að smella á myndina til að stækka.

    Sem dæmi þá er Bangladesh ein af þeim þjóðum sem lenda í þeim hópi sem eru hvað viðkvæmust gagnvart komandi loftslagsbreytingum – þá vegna þéttleika byggðar, fátæktar og miklum líkum á flóðum (sjá t.d. sjávarstöðubreytingar). Indland lendir í öðru sæti vegna þéttleika byggðar – en mörg ríki Asíu lenda í flokki þeirra sem eru viðkvæmust.

    Meðal þjóða sem taldar eru líklegastar til að þola loftslagsbreytingar eru Norður- Evrópuþjóðir, þar á meðal Ísland.

    Heimildir og frekari upplýsingar

    Á heimasíðu Maplecroft er umfjöllun um áhættugreininguna, sjá Big economies of the future – Bangladesh, India, Philippines, Vietnam and Pakistan – most at risk from climate change

    Tengt efni á loftslag.is

  • Hitastig í september og árið fram til þessa í hæstu hæðum

    Hitastigið á árinu fram til loka september er í hæstu hæðum á heimsvísu. Septembermánuður er ekki meðal allra hlýjustu septembermánaða, en þó er hitastigið fyrir árið í heild enn hátt. Hvort að árið verður það hlýjasta fram að þessu er enn mjög óljóst, en það mun þó væntanlega enda ofarlega á lista.

    Helstu atriðið varðandi hitastig septembermánaðar á heimsvísu

    • Sameinað hitastig fyrir bæði land og haf fyrir september 2010 var það 0,50°C yfir meðalhitastig 20. aldarinnar (15,0°C), það áttunda heitasta samkvæmt skráningum fyrir mánuðinn.
    • Hitastig á landi á heimsvísu fyrir septembermánuð var það níunda heitasta samkvæmt skráningum, með hitafrávik upp á 0,66°C yfir meðaltali 20. aldar (12,0°C).
    • Hitastig við yfirborð sjávar var það 9. heitasta samkvæmt skráningum, með hitafrávik upp á 0,44°C yfir meðaltali 20. aldar (16,2°C).
    • Sameinað hitastig fyrir bæði land og haf fyrir tímabilið janúar-september 2010 var það heitasta (ásamt 1998) samkvæmt skráningum, með hitafráviki upp á 0,65°C yfir meðalhitastigi 20. aldarinnar (14,1°C).
    • Hitastig á landi á heimsvísu fyrir tímabilið janúar til september var það næst heitasta fyrir tímabilið samkvæmt skráningum, aðeins árið 2007 var heitara.
    • Hitastig við yfirborð sjávar fyrir janúar-september var einnig næst heitasta samkvæmt skráningum, aðeins 1998 var heitara.

    September 2010 og árið

    Helstu atriði sýnd á myndum og gröfum, bæði fyrir mánuðinn september og tímabilið janúar – september.

    Í töflunni hér fyrir neðan má lesa helstu tölur varðandi hitastigsfrávikin fyrir ágústmánuð 2010.

    September Frávik Röð
    (af 131 ári)
    Heitasti/næst heitasti ágúst
    samkv. skrám
    Á heimsvísu
    Land +0,66°C 9. heitasti 2005(+1,02°C)
    Haf +0,44°C 9. heitasti 2003 (+0,57°C)
    Land og haf +0,50°C 8. heitasti 2005 (+0,66°C)
    Norðuhvel jarðar
    Land +0,71°C 6. heitasti 2005 (+1,18°C)
    Haf +0,50°C 7. heitasti 2003 (+0,66°C)
    Land og Haf +0,57°C 6. heitasti 2005 (+0,83°C)
    Suðurhvel jarðar
    Land +0,55°C 12. heitasti 2007 (+1,09°C)
    Haf +0,41°C 12. heitasti 1997 (+0,58°C)
    Land og Haf +0,43°C 11. heitasti 1997 (+0,65°C)

    Og nú að hitafrávikunum fyrir tímabilið janúar til september 2010:

    Janúar- September Frávik Röð
    (af 131 árí)
    Heitasta/næst
    heitasta tímabilið
    Á heimsvísu
    Land +1,00°C 2. heitasta 2007 (+1,01°C)
    Haf +0,52°C 2. heitasta 1998 (+0,55°C)
    Land og Haf +0,65°C Heitasta 1998 (+0,65°C)

    Í grafinu hér undir má sjá þessi gögn í öðru ljósi:

    Og svo hitafrávikin fyrir tímabilið janúar – september eftir árum.

    Samkvæmt tölum frá NASA er tímabilið janúar til september einnig það heitasta frá því mælingar hófust, sjá hér samanburð NASA á milli þriggja heitustu áranna fyrir tímabilið janúar til september.

    Eins og sést hefur hitastigið það sem af er árinu verið í hæstu hæðum, sjá einnig Heitustu 12 mánuðir síðan mælingar hófust.

    Heimildir og annað efni af loftslag.is:

  • Hagfræði og loftslagsbreytingar

    Hagfræði og loftslagsbreytingar

    Endurbirting færslu frá því í júní hér af loftslag.is.

    Inngangur

    Það er nokkuð almenn einning meðal vísindamanna sem vinna að loftslagstengdum rannsóknum, um að athafnir mannsins og þá sérstaklega bruni jarðefnaeldsneytis hafi áhrif að loftslagið á hnattræna vísu. Eftir áratuga rannsóknir og umræður, m.a. hjá nefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) og mikið átak við að miðla þekkingunni áfram til almennings, þá er það almennt álit þeirra sem vinna að þessu á vísindalegum grunni að aðgerða sé þörf og að draga þurfi úr losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið.

    Minna er hinsvegar vitað um hvort þetta er einnig tilfellið meðal hagfræðinga (og viðskiptamenntaðra) sem rannsaka loftslagsmál, þ.e. um hugsanleg áhrif gróðurhúsalofttegunda og afleiðingar hækkandi hitastigs á hagkerfið. Umfangsmikil fjölmiðlaumfjöllun um kostnaðinn við aðgerðir við að taka á loftslagsvandanum, getur auðveldlega leitt til þess að utanaðkomandi hafi það á tilfinningunni að hagfræðingar séu á móti reglugerðum varðandi loftslagsmál eða að ekki sé um mikla ógn að ræða fyrir hagkerfið, þó svo losun gróðurhúsalofttegunda haldi áfram nú sem áður. Í þessari skýrslu sem um er rætt í þessari færslu skoða þeir J. Scott Holladay, Jonathan Horne og Jason A. Schwarts hvernig þessi mál standa. Með því að fylgjast með því hvað sérfræðingar á sviðinu eru að gera, reyna þeir að komast að niðurstöðu varðandi málið. Útkoman er sláandi. Hagfræðingar eru almennt sammála um að loftslagsbreytingar séu ógn við hagkerfi heimsins. Það sem meira er, þá eru flestir á því að það sé hagur í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að sá hagur geti réttlætt kostnaðinn við það. Flestir styðja einhverskonar markaðskerfi þar sem hægt væri að draga úr losun, með t.d. Cap and Trade eða einhverskonar sköttum. Það eru líka svið þar sem hagfræðingar eru ekki sammála um hvernig á að standa að verki, m.a. um það hvernig á að standa að því að skoða ábyrgð núverandi kynslóðar gagnvart kynslóðum framtíðarinnar. Þar skiptust svörin jafnt á milli aðferða. En heilt yfir þá er myndin skýr; það ríkir almennt samkomulag meðal hagfræðinga sem vinna að rannsóknum tengdum loftslagsmálum, að losun gróðurhúsalofttegunda sé raunveruleg ógn við hagkerfið og að ef rétt er að verki staðið við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þá muni það skila fjárhagslegum ávinning fyrir hagkerfið í heild. Þó umræðan sé sífellt í gangi, þá getur þessi skýrsla hjálpað til við að beina augum á þær spurningar sem nauðsynlegt er að spyrja varðandi þessa hlið málsins.

    Helstu atriði skýrslunnar

    Í rannsókninni voru skoðuð gögn frá mörgum hagfræðingum sem einnig eru sérfræðingar í efnahagslegum áhrifum loftslagsbreytinga. Þetta var gert með spyrja sérfræðingana lykilspurninga er varða ákvarðanatöku og stefnu varðandi loftslagsmál. Hópurinn var valinn þannig að leitað var í 25 vinsælustu efnahagstímaritunum að greinum, skrifuðum síðustu 15 árin og fjölluðu um loftslagsbreytingar. Það var haft samband við þá u.þ.b. 300 greinarhöfunda sem fundust við þessa leit og þeir spurðir spurninganna. Meira en helmingur þeirra svaraði. Niðurstaðan sýnir að það var nokkuð gott samkomulag manna á milli varðandi sumar spurningarnar en hvatt er til áframhaldandi umræðu um aðrar.

    Hlutfall svara varðandi "umhverfisleg áhrif losunar gróðurhúsalofttegunda, eins og henni er lýst af leiðandi vísindamönnum, geti valdið marktækri hættu í mikilvægum efnahagslegum geirum Bandaríkjanna og heimsins"

    Niðurstöðurnar eru m.a. eftirfarandi:

    • 84% þeirra sem svöruðu voru annað hvort sammála eða mjög sammála að “umhverfisleg áhrif losunar gróðurhúsalofttegunda, eins og henni er lýst af leiðandi vísindamönnum, geti valdið marktækri hættu í mikilvægum efnahagslegum geirum  Bandaríkjanna og heimsins”.
    • 75% voru annað hvort sammála eða mjög sammála því að “óvissa sem tengist umhverfis- og efnahagslegum áhrifum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda eykur gildi þess að stjórna losun, ef gert er ráð fyrir einhverri áhættustýringu”.
    • Landbúnaður var sá innlendi (BNA) efnahagsgeiri sem flestir sögðu að væri “líklegur til að verða fyrir neikvæðum áhrifum vegna loftslagsbreytinga”, þar sem 86% völdu þann geira.
    • 91,6% vildu heldur eða vildu mikið heldur “markaðsfræðilegar aðferðir, svo sem kolefnisskatta eða markað fyrir kolefnislosun” fram yfir fyrirskipanir og stjórn (command-and-control) reglugerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
    • 80,6% vildu heldur uppboð á kolefnisleyfum heldur en að úthluta þeim frítt
    • 97,9% voru sammála eða mjög sammála því að “setja “verð á kolelfni” með sköttum eða hafa markað fyrir kolefnislosun myndi vera hvataaukandi til skilvirkari orkunotkunnar og til þróunnar á lausnum sem draga úr kolefnislosun.
    • 57% voru sammála því að stjórnvöld í BNA ættu að skuldbinda sig til minni losunar gróðurhúsalofttegunda “hvað sem líður þátttöku annara landa”, á meðan 15,5% í viðbót voru sammála því að þau ættu að gera það “ef stjórnvöld næðu að bindast marghliða sambandi við önnur lönd um að minnka losun” og 21,8% voru sammála því að BNA ættu að vera framarlega “ef aðrar stórar losunar þjóðir gerðu víðtækar skuldbindingar á heimsvísu”. Aðeins 0,7% vildu bíða þar til öll önnur lönd myndu skuldbinda sig til aðgerða og 2,1% telja að BNA ættu að fara út í aðgerðir hvað sem líður aðgerðum annarra þjóða.
    • 92,3% voru sammála eða mjög sammála því að “flest umhverfis- og efnahagsleg áhrif af losun gróðurhúsalofttegunda muni lenda á kynslóðum framtíðarinnar”
    • 37,5% svöruðu “hag komandi kynslóða” ætti að meta “með því að reikna hann út sem fasta ávöxtunarkröfu” á meðan 36,8% vildu að meta ætti hann “með öðrum mögulegum leiðum (eins og t.d. hyperbolic discounting)”
    • Miðgildið fyrir ávöxtunarkröfuna vegna mats áhrifa fyrir kynslóðir framtíðarinnar, ef ávöxtunarkrafa yrði notuð, var 2,4%, en þess má geta að það var mikill breytileiki, sem hægt er að túlka sem svo að ekki hafi verið almennt samkomulag um það atriði.
    • Miðgildið fyrir þjóðfélagslegan kostnað af kolefni var áætlaður $50, en einnig þar var einnig mikill breytileiki, sem er þá hægt að túlka sem vöntun á samkomulagi um hversu yfirgripsmikil skaði geti orðið vegna hverrar einingar af losun gróðurhúsalofttegunda.
    80,6% sérfræðinga vilja heldur uppboð á kolefnisleyfum heldur en að úthluta þeim frítt

    Niðurstaða

    Það tekur oft furðu langan tíma þar til fjölmiðlar bera kennsl á skoðanir sérfræðinga og einnig þar til það kemst áleiðis til þeirra sem taka ákvarðanir svo og almennings. Mörgum árum eftir að meirihluti loftslagsvísindamanna náði einingu um að hnattræn hlýnun væri í gangi og gæti haft alvarlegar afleiðingar, þá koma enn fram fréttir þar sem málið er sett fram eins og að enn séu deilur meðal þeirra um efnið. Það var haldin ráðstefna svo seint sem í september 2009 á vegum Sameinuðu þjóðanna til að ræða hvers vegna fjölmiðlum hefði mistekist að koma einingu vísindamanna varðandi loftslagsbreytingar í meðvitund almennings. Svipuð mistök í boðskiptum virðast ætla að koma í veg fyrir að fjölmiðlar, ákvarðanatakendur og almenningur komist að því að það er eining meðal þeirra sem skoða hagfræðilegu hlið lofslagsmálanna.

    • Meira að segja í grein þar sem rætt var um að flestir Bandaríkjamenn styddu “Cap and Trade” lausn, sem er markaðsfræðileg lausn, sem 92% af hagfræðingum styðja – var talað um “umdeilanlega” lausn.
    • Öldungardeildarþingmenn halda áfram að deila um það hvort að loftslagsbreytingar muni hafa áhrif á efnahagskerfi og landbúnað í BNA, jafnvel þó að yfir 80% sérfræðinga telji að hnattræn hlýnun muni hafa neikvæð áhrif í báðum tilfellum.
    • Löggjafarþingið hefur farið í þá áttina að gefa losunarheimildir, þó svo yfir 80% sérfræðinga telji að uppboð á þeim sé betri möguleiki í efnahagslegum skilningi.
    • Bandarískur almenningur er enn að velta fyrir sér hvort að það þurfi frekari rannsóknir áður en farið er í aðgerðir, kannski vegna þess að hann er ómeðvitaður um að þrír fjórðu hlutar sérfræðingum í hagfræði telja að með því að með því að draga málin á langin, með tilliti til óvissunar varðandi áhrif loftslagsbreytinga, geri það að verkum að meira virði sé að aðgerðum í dag en síðar.
    • Þingið heldur áfram að vera órólegt yfir efnahagslegum afleiðingum þess að hefja aðgerðir án þess að hafa allt alþjóðasamfélagið með, á meðan mikill meirihluti er meðal sérfræðinga sem telja að einhliða aðgerðir séu réttlætanlegar og að næstum allar aðrar þjóðir myndu styðja aðgerðir í BNA í samhengi við alþjóðlega samninga.

    Hagfræðingar (og aðrir viðskiptamenntaðir) er örugglega ekki sammála um allt þegar kemur að því að meta loftslagsbreytinga og lagalega möguleika varðandi þær. En jafnvel á þeim sviðum þar sem umræður eru um aðferðir, þá gæti nákvæmari lýsing af þeim möguleikum sem uppi eru koma ákvarðanatakendum vel. Með tíð og tíma munu sérfræðingarnir væntanlega ná enn meiri sátt um málið. En varðandi loftslagsbreytingar, þá getur verið að við höfum ekki þann lúxus að geta beðið eftir því að sérfræðingarnir verði smám saman sammála um öll atriði sem hafa áhrif á ákvarðanatökuna. Sú opnun sem við höfum til að finna kostnaðarhæfa (e. cost effective) möguleika til mótvægisaðgerða, gæti lokast hratt á næstunni. Þessi skýrsla sýnir að hagfræðingar hafa mikið að segja um kostnað og ávinning af því að grípa til aðgerða vegna loftslagsbreytinga. Sérfræðingar eru byrjaðir að tala með nokkuð samhljóða rödd um málið. Nú verðum við að vona að fjölmiðlar, stjórnvöld og almenningur hlusti.

    Heimildir:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Loftslag.is á afmæli – eitt ár liðið

    Það er ótrúlegt til þess að hugsa fyrir okkur á ritstjórn að nú er komið eitt ár síðan loftslag.is fór í loftið. Okkur hefur fundist tíminn líða full geyst, því ekki hefur okkur gefist færi á að skrifa um nærri því allt það efni sem við hefðum viljað gera skil. Ein helsta ástæða þess er sú að síðan er í raun áhugamál okkar og ekki endilega alltaf í forgangi hvað varðar tíma (vinna, skóli og fjölskylda hefur ávalt haft forgang eins og gefur að skilja). Til upprifjunar eru opnunarpistlar okkar listaðir í ítarefninu, ef einhver vill rifja þá upp 🙂

    Þrátt fyrir takmarkaðan tíma, þá er ýmislegt sem við höfum áorkað á þessu eina ári og teljum við okkur hafa staðið okkur ágætlega í því að kynna fyrir lesendum ýmis atriði sem skipta máli varðandi loftslagsmál. Einnig teljum við okkur hafa lært mikið um efnið og ekki síst á helstu tilsvör lesenda varðandi loftslagsmál. Fyrir nýja lesendur og þá sem hafa rétt litið yfir efni síðunnar á hundavaði, þá er rétt að benda á Leiðakerfi síðunnar – en eins og sjá má þar, þá er gnótt af efni á síðunni og seint full lesið allt það sem hér stendur.

    Frá því loftslag.is hóf göngu sína, þá hefur magn CO2 í andrúmsloftinu haldið áfram að aukast jafnt og þétt og ekki er útlit fyrir breytingu þar á samanber niðurstöðu COP15 í lok síðasta árs, en það virðist ætla að reynast flókið að gera Samninga þjóða á milli um minni losun CO2. Hitastig heldur áfram að aukast (Lofthiti og Sjávarhiti), þrátt fyrir minni Sólvirkni. Náttúrulegar sveiflur loftslags hafa haldið sýnu striki samanber t.d. El Nino og La Nina. Á sama tíma koma ýmsar fréttir af Afleiðingum þessarar hitaaukningar, auk Nýrra rannsókna og er það ekki allt dans á rósum sem þar kemur fram. Hafís á Norðurskautinu minnkar, Jöklar um allan heim bráðna og þar á meðal stóru jökulbreiðurnar á Grænlandi og Suðurskautinu, en samfara aukinni hlýnun og bráðnun jökla, þá hækkar einnig Sjávarstaða. Hlýnunin hefur því margvísleg áhrif á  Lífríki og Vistkerfi Jarðar m.a. hér á Íslandi. Aðrar afleiðingar aukinnar losunnar manna á CO2 er svokölluð Súrnun sjávar – en það er oft kallað hitt vandamálið og er síður en svo vægt vandamál.

    Þrátt fyrir að út komi Greinar og Skýrslur og haldnar séu Ráðstefnur og Fyrirlestrar sem styrkja vísindamenn í því að loftslag Jarðar sé að breytast vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum, þá eru sífellt í gangi Mýtur meðal þeirra sem að Afneita því sem vísindamenn segja. Ýmis “Heit málefni” koma reglulega fram þar sem reynt er að bera brygður á það sem loftslagsvísindamenn segja, en oftar en ekki er lítill fótur í þeim – svo reyndist einnig raunin hvað varðar Climategate sem margir kannast kannski við. Flestar af tilraunum “efasemdamanna til að draga Umræðuna á dreif virðast fyrst og fremst miða að því að halda í horfinu í stað þess að vinna að Lausnum til að koma í veg fyrir þá óvænlegu Framtíðarsýn sem vísindamenn telja að geti átt sér stað.

    En það er engin ástæða til að örvænta, við vonumst til að geta komið upplýsingum varðandi þessi mál og skrifað Hugleiðingar um Lausnir sem koma fram í umræðunni. Nýlega byrjuðum við að setja inn Mánaðargögn þar sem að við skoðum m.a. gögn frá NASA og NOAA varðandi Hitastig og Hafís. Fastir liðir á síðunni hafa m.a. verið Myndbönd, m.a. frá þeim félögunum Greenman3610 og Potholer54 ásamt fleira efni. Með því að fara í samstarf við Skeptical Science höfum við fengið aðgang að enn meira efni, sem m.a. var gott innlegg í mýtusafnið okkar.

    Við viljum einnig nota tækifærið og þakka gestapistlahöfundum sérstaklega fyrir fróðlega Gestapistla á þessu fyrsta ári. Við vonumst til þess að fá enn fleiri í framtíðinni. Við höldum því áfram inn í nýtt tímabil sem vonandi mun innihalda mörg Blogg, kannski eitthvað um Fornloftslag og hugsanlega eilítið Léttmeti einnig. Loftslag.is er í stöðugri þróun og vonumst við til að geta kynnt nýjungar til sögunnar í framtíðinni.

    Við viljum enda á að þakka hinum fjölmörgu lesendum fyrir sinn þátt – Takk fyrir okkur!

    Ítarefni á loftslag.is, frá opnuninni fyrir ári síðan:

  • Hitastig | Ágúst 2010 og þróun hitastigs það sem af er ári

    Helstu atriðið varðandi hitastig ágústmánaðar á heimsvísu

    • Sameinað hitastig fyrir bæði land og haf fyrir ágúst 2010 var það þriðja heitasta samkvæmt skráningum, með hitafráviki upp á 0,60°C yfir meðalhitastigi 20. aldarinnar (16,2°C).
    • Hitastig á landi á heimsvísu fyrir ágústmánuð 2010 var það næst heitasta samkvæmt skráningum, með hitafrávik upp á 0,90°C yfir meðaltali 20. aldar (13,8°C).
    • Hitastig við yfirborð sjávar var það 6. heitasta samkvæmt skráningum, með hitafrávik upp á 0,50°C yfir meðaltali 20. aldar (16,4°C).
    • Sameinað hitastig fyrir bæði land og haf fyrir tímabilið júní-ágúst 2010 var það næst heitasta samkvæmt skráningum, með hitafráviki upp á 0,64°C yfir meðalhitastigi 20. aldarinnar (15,6°C), aðeins árið 1998 hefur verið heitara fyrir það tímabil.
    • Hitastig á landi á heimsvísu fyrir tímabilið júní til ágúst 2010 var það heitasta fyrir tímabilið samkvæmt skráningum, með hitafrávik upp á 1,00°C yfir meðaltali 20. aldar (13,8°C), sem er aðeins heitara en 1998 sem er númer 2 núna.
    • Hitastig við yfirborð sjávar fyrir júní-ágúst var það 5. heitasta samkvæmt skráningum, með hitafrávik fyrir tímabilið upp á 0,51°C yfir meðaltali 20. aldar (16,4°C).
    • Fyrir tímabilið janúar til ágúst 2010 þá var sameinað hitastig fyrir bæði land og haf  jafnheitt og 1998, og þar með jafn sem það heitasta samkvæmt skráningum, með hitafráviki fyrir tímabilið upp á 0,67°C yfir meðalhitastigi 20. aldarinnar (14,7°C).

    Ágúst  2010

    Helstu atriði sýnd á myndum og gröfum, bæði fyrir mánuðinn ágúst og tímabilið janúar – ágúst.

    Í töflunni hér fyrir neðan má lesa helstu tölur varðandi hitastigsfrávikin fyrir ágústmánuð 2010.

    Ágúst Frávik Röð
    (af 131 ári)
    Heitasti/næst heitasti ágúst
    samkv. skrám
    Á heimsvísu
    Land +0,90°C 2. Heitasti 1998(+0,95°C)
    Haf +0,50°C 6. heitasti 2009 (+0,57°C)
    Land og haf +0,60°C 3. Heitasti 1998 (+0,67°C)
    Norðuhvel jarðar
    Land +1,15°C Heitasti 1998 (+0,96°C)
    Haf +0,59°C 4. heitasti 2005 (+0,64°C)
    Land og Haf +0,79°C Heitasti 2003 (+0,72°C)
    Suðurhvel jarðar
    Land +0,28°C 22. heitasti 2009 (+1,31°C)
    Haf +0,43°C 9. heitasti 1998 (+0,57°C)
    Land og Haf +0,40°C 11. heitasti 2009 (+0,65°C)

    Og nú að hitafrávikunum fyrir tímabilið janúar til ágúst 2010:

    Janúar- Ágúst Frávik Röð
    (af 131 árí)
    Heitasta/næst
    heitasta tímabilið
    Á heimsvísu
    Land +1,04°C Heitasta 2007 (+1,02°C)
    Haf +0,53°C 2. heitasta 1998 (+0,56°C)
    Land og Haf +0,67°C Heitasta 2002 (+0,62°C)

    Í grafinu hér undir má sjá þessi gögn í öðru ljósi:

    Og svo hitafrávikin fyrir tímabilið janúar – ágúst eftir árum.

    Samkvæmt tölum frá NASA er tímabilið janúar til ágúst einnig það heitasta frá því mælingar hófust, sjá hér samanburð NASA á milli þriggja heitustu áranna fyrir tímabilið janúar til ágúst.

    Eins og sést hefur hitastigið það sem af er árinu verið í hæstu hæðum, sjá einnig Heitustu 12 mánuðir síðan mælingar hófust.

    Heimildir og annað efni af loftslag.is:

  • Jöklar Himalaya og álitshnekkir IPCC

    Í tilefni nýrra frétta af skýrslu um endurskipulagningu starfa Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC), þá viljum við endurbirta færslu af loftslag.is síðan í janúarmánuði. Við munum ræða skýrsluna um endurskipulagningu IPCC fljótlega, en það virðist vera margt gott í þeirri skýrslu sem mun væntanlega styrkja störf IPCC í framtíðinni. Loftslagsnefndin hefur starfað í um 22 ár, án mikilla breytinga á stjórn og skipulagi og er því barn síns tíma. Það má kannski segja að hvatinn að þessum hugsanlegu breytingum hafi verið sú gagnrýni sem kom fram m.a. varðandi villuna um jökla Himalaya, en það er þó ljóst í mínum huga að þessar breytingar hafi í raun verið óhjákvæmilegar óháð þessari villu. Öll fyrirtæki og stofnanir fara í gegnum skipulagsbreytingar þegar fram líða stundir, þannig að það er svo sem ekkert nýtt í því. Vísindin á bak við fræðin eru nú sem fyrr traust, hvað sem verður um Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna í framtíðinni eða hvaða skipulag sem þar er. Það má lesa aðeins nánar um þessa skipulagsbreytingu á vef New Scientist, en þar kemur m.a. fram:

    Shapiro told reporters: “An organisation like the IPCC needs to have its leadership constantly changed” to maintain its “overall virility”. He said that the suggested changes “were not motivated by or connected with Dr Pachauri or any other leader”.

    Þannig að ekki er hægt að túlka það sem svo að væntanlegar breytingar séu til höfuðs Dr. Pachauri, heldur hluti eðlilegrar þróunnar.

    En til að koma sér að efninu, þá er hér undir endurbirting færslu síðan í janúar.

    Álitshnekkir IPCC

    Trúverðugleiki loftslagsvísindanna og þá sérstaklega IPCC varð fyrir álitshnekki þegar fram kom villa í 4. matsskýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Villan er tiltölulega mikilvæg og er sú að í skýrslunni er sagt að það sé líklegt (sem merkir 66-90% líkur) að jöklar Himalaya muni minnka úr 500.000 í 100.000 ferkílómetra fyrir árið 2035. Einnig er nefndur möguleikinn á því að þeir verði horfnir fyrir 2035. (IPCC, vinnuhópur II, 2007).

    Samkvæmt fréttum, þá er villan upphaflega komin úr grein New Scientist frá 1999, sem byggð var á stuttu tölvupóstsviðtali við þekktan Indverskan jöklafræðing (Syed Hasnian) sem sagði að miðað við þáverandi bráðnun þá myndu jöklar í Mið- og Austur Himalaya hverfa fyrir árið 2035. Svo virðist sem WWF (World Wide Fund for Nature) hafi síðar skrifað skýrslu – þar sem þessum ummælum var haldið á lofti, en þar segir:

    The prediction that “glaciers in the region will vanish within 40 years as a result of global warming” and that the flow of Himalayan rivers will “eventually diminish, resulting in widespread water shortages” (New Scientist 1999; 1999, 2003) is equally disturbing

    Sem lauslega þýðist: Sú spá að “jöklar á svæðinu muni hverfa innan 40 ára vegna hlýnunar jarðar” og að fljót sem renna frá Himalaya muni “að lokum verða hverfandi, svo það verður viðamikill vatnsskortur” (New Scientist 1999; 1999, 2003) er truflandi.

    IPCC vísaði í þessa skýrslu WWF (sem ekki var ritrýnd), en í IPCC segir meðal annars:

    Glaciers in the Himalaya are receding faster than in any other part of the world (see Table 10.9) and, if the present rate continues, the likelihood of them disappearing by the year 2035 and perhaps sooner is very high if the Earth keeps warming at the current rate. Its total area will likely shrink from the present 500,000 to 100,000 km2 by the year 2035 (WWF, 2005).

    Sem lauslega þýðist: Jöklar Himalaya eru að hopa hraðar en jöklar annarsstaðar í heiminum og ef núverandi hraði bráðnunar helst þá eru miklar líkur á að þeir verði horfnir fyrir 2035 eða jafnvel fyrr ef jörðin heldur áfram að hlýna á núverandi hraða. Heildar flatarmál þeirra mun líklega minnka frá núverandi 500.000 km2 og að 100.000 km2 árið 2035 (WWF, 2005).

    En staðreyndin er sú að engar rannsóknir birtar í ritrýndum greinum staðfesta þessa setningu. Því miður þá hefur verið vitnað í þessa skýrslu í öðrum vísindagögnum og því hefur villan dreifst víðar.

    Röð mistaka

    En hvað sýnir þetta atvik okkur?

    Hér hafa greinilega orðið röð mistaka:

    Fyrstu mistökin hljóta að liggja hjá Indverska vísindamanninum – en þau eru ekki alvarleg, hverjum sem er hlýtur að vera leyfilegt að koma með svona fullyrðingar í viðtali við New Scientist (sem er vísindarit fyrir almenning) og það er þeirra að meta hvort það sé birtingarhæft. Nema vísindamaðurinn hafi síðan fylgst með þróun mála og séð hvernig orð hans hafa hlotið meira og meira vægi – og ekki gert neitt í málinu.

    Næstu mistökin eru stærri, en það að WWF notaði orð í tímaritsgrein New Scientist í skýrslu sinni. WWF skýrslan er þó augljóslega ekki ritrýnd, auk þess sem það virðist vera sem að þar sé meira verið að velta vöngum yfir þessum orðum frekar en að taka þau sem vísindalegar staðreyndir. Það er þó greinilegt að WWF gerði mistök, sem hefðu átt að koma fram í ferlinu þegar skýrslan var undirbúin til birtingar. Höfundar sem fóru yfir skýrsluna eftir á hefðu átt að skoða frumgögnin og hefðu átt að sjá villuna – en skýrslan er ekki ritrýnd, þannig að þar liggja ekki stærstu mistökin.

    Stærstu misstökin hljóta að liggja hjá IPCC. Setningin sem skýrsla IPCC notaði er augljóslega ekki byggð á neinum ábyggilegum gögnum og það hefði ritrýningakerfi IPCC átt að sjá. Þar sem skýrsla WWF er ekki ritrýnd, þá hefðu þeir átt að skoða heimildir WWF en ekki taka það hrátt upp sem að stóð í þeirri skýrslu – þótt mögulega hafi menn það á tilfinningunni að mögulegt sé að stór hluti jökla Himalaya sem þekja um 30.000 ferkílómetra geti horfið fyrir árið 2035, þá er það engin afsökun á meðan gögn liggja ekki á baki þeirri fullyrðingu. Ábyrgð IPCC er mikil.

    Í fyrstu drögum af 4. matsskýrslu IPCC var notað mun varfærnara orðalag um bráðnun þessara jökla, þar kom t.d. fram “jöklar í háum fjöllum Asíu hafa almennt hopað á breytilegum hraða” og því óljóst hvernig þetta kom allt í einu inn í skýrsluna.

    Umbætur og eftirköst

    Þetta eru eftirsjáarverð mistök, sem sýna það helst að það er pláss fyrir umbætur á ferli og rýni á skýrslum IPCC. Samkvæmt fréttum fer væntanlega fram einhvers konar rannsókn og endurmat á þessum hluta skýrslunnar – en ekki hefur verið sýnt fram á sambærileg mistök í öðrum hlutum IPCC skýrslanna. Það er reyndar kominn tími á endurmat á öllu sem viðkemur bráðnun jökla – en frá því skýrslurnar komu út hafa hlaðist upp vísbendingar um að bráðnun jökla sé mun hraðari en kemur fram í IPCC skýrslunum, enda hefur það sýnt sig ef skoðuð eru gögn um sjávarstöðubreytingar – að IPCC hefur vanmetið þátt bráðnunar jökla.

    Það má samt segja að það sé nokkuð góður árangur fyrir jafn viðamiklar skýrslur og 4. matskýrsla IPCC er,  að fyrst núna, næstum þremur árum eftir birtingu hennar hafi fundist áberandi galli í henni þar sem ofmat á afleiðingum hlýnunar jarðar kemur fram. Sérstaklega þar sem vísindamenn hafa aðallega séð galla í henni hvað varðar vanmat á t.d. bráðnun jökla og hafíss.

    Það verður þó að rekja það hvernig mistökin urðu og læra af þeim, enda er það ein sterkasta hlið vísindanna að þau leiðrétta sig á einhvern hátt þegar nýjar upplýsingar koma fram. Það hlýtur t.d. að teljast alvarlegt mál að jörðin sé að hitna með þeim afleiðingum að jöklar í Himalaya séu að bráðna hratt, jafnvel þó sú bráðnun taki kannski yfir 100 ár (í stað þessara 30 sem talað er um í skýrslu IPCC).

    Þetta mál á væntanlega eftir að gefa efasemdarmönnum byr í seglin, þar sem þeir munu væntanlega taka djúpt í árina og oftúlka merkingu þessa atviks. Jafnvel mun verða reynt að tengja þetta Climategate málinu svokallaða, þar sem ummæli vísindamanna í tölvupóstum voru oftúlkuð og rangtúlkuð í mörgum tilfellum og af ýmsum talin grafa undan sjálfum vísindunum, sem þó er fjarri lagi.

    Frétt á visir.is í gær ber merki um það að höfundur hafi sterkar skoðanir á málinu og þar af leiðandi virðist sem hinn málefnalegi grundvöllur fari forgörðum þegar sú frétt er lesin. Þetta virðist stundum vera sá farvegur sem fréttir um loftslagsmál lenda í, jafnvel hjá reyndum fréttamönnum. Það væri virðingarvert ef hægt hefði verið að segja frá villunni og reyna að brjóta upp hvað þetta þýðir, hvaða orsakir upplýsingarnar hafa og hvernig sviðsmyndin breyttist við þessar breyttu upplýsingar.

    Jöklar Himalaya

    bhutanHver örlög jöklanna í Himalaya verða er mjög mikilvægt fyrir alla þá sem búa á vatnasvæði Himalaya. Þrátt fyrir mikilvægi jöklanna hefur alþjóðleg stofnun um vöktun jökla, World Glacier Monitoring Service, bent á að of lítið sé gert af mælingum og rannsóknum á jöklum Himalaya, með það fyrir augum að fylgjast með þróun þeirra.

    Ljóst er að bráðnun jöklanna í Himalaya er hröð ef marka má þær rannsóknir og mælingar sem gerðar hafa verið. Þó er hluti af umfangi þessara breytinga og hraða þeirra enn sem komið er á huldu, vegna of lítilla mælinga og rannsókna.

    Tafla um ástand jökla úr skýrslu vísindanefndar IPCC, vinnuhóps 2.

    Jökull Tímabil Hop á Meðaltal hops
    jaðrinum
    (metrar)
    jökulsins
    (m/ári)
    Triloknath Glacier (Himachal Pradesh) 1969 to 1995 400 15.4
    Pindari Glacier (Uttaranchal) 1845 to 1966 2,840 135.2
    Milam Glacier (Uttaranchal) 1909 to 1984 990 13.2
    Ponting Glacier (Uttaranchal) 1906 to 1957 262 5.1
    Chota Shigri Glacier (Himachal Pradesh) 1986 to 1995 60 6.7
    Bara Shigri Glacier (Himachal Pradesh) 1977 to 1995 650 36.1
    Gangotri Glacier (Uttaranchal) 1977 to 1990 364 28.0
    Gangotri Glacier (Uttaranchal) 1985 to 2001 368 23.0
    Zemu Glacier (Sikkim) 1977 to 1984 194 27.7

    Heimildir:

    Grein af vef Guardian: A mistake over Himalayan glaciers should not melt our priorities

    Grein af vef NZHerald: Himalayan global warming claim ‘based on dated, obscure source’

    Skýrsla vinnuhóps II hjá IPCC: Kafli 10.6.2 The Himalayan glaciers

    Grein af vef Guardian: UN climate scientists review Himalayan glaciers claim

    Grein af vef New Scientist: Debate heats up over IPCC melting glaciers claim

    Tengt efni á Loftslag.is:

  • Hitastig | Júlí 2010

    Helstu atriðið varðandi hitastig júlímánaðar á heimsvísu

    • Sameinað hitastig fyrir bæði land og haf fyrir júlí 2010 var það næst heitasta samkvæmt skráningum á eftir 1998, með hitafráviki upp á 0,66°C yfir meðalhitastigi 20. aldarinnar (15,8°C).
    • Hitastig á landi á heimsvísu fyrir júlímánuð 2010 var það heitasta samkvæmt skráningum, með hitafrávik upp á 1,03°C yfir meðaltali 20. aldar.
    • Hitastig við yfirborð sjávar var það 5. heitasta samkvæmt skráningum, með hitafrávik upp á 0,54°C yfir meðaltali 20. aldar. Hátt hitastig var mest áberandi í Atlantshafinu.
    • La Nina ástand þróaðist í júlí 2010, þegar hitafrávik yfirborðs sjávar (SST – sea surface temperature) í Kyrrahafi hélt áfram að lækka í júlí 2010. Samkvæmt loftslagsmiðstöð NOAA þá er gert ráð fyrir að La Nina ástandið haldi áfram að styrkjast og standa yfir veturinn 2010-2011.
    • Fyrir árið fram til loka júlí, þá var sameinað hitastig fyrir land og haf það heitasta fyrir tímabilið janúar – loka júlí, samkvæmt skráningum, með hitafráviki upp á 0,68°C yfir meðalhitastigi 20. aldarinnar

    Júlí 2010

    Helstu atriði sýnd á myndum og gröfum, bæði fyrir mánuðinn júlí og tímabilið janúar – júlí.

    Í töflunni hér fyrir neðan má lesa helstu tölur varðandi hitastigsfrávikin fyrir júlímánuð 2010.

    Júlí Frávik Röð
    (af 131 ári)
    Heitasti/næst heitasti júlí
    samkv. skrám
    Á heimsvísu
    Land +1,03°C Heitasti 1998(+1,02°C)
    Haf +0,54°C 5. heitasti 2009 (+0,58°C)
    Land og haf +0,66°C 2. Heitasti 1998 (+0,70°C)
    Norðuhvel jarðar
    Land +1,18°C Heitasti 1998 (+1,04°C)
    Haf +0,61°C 3. heitasti 2009 (+0,64°C)
    Land og Haf +0,82°C Heitasti 2005 (+0,74°C)
    Suðurhvel jarðar
    Land +0,63°C 6. heitasti 1998 (+0,96°C)
    Haf +0,49°C 5. heitasti 1998 (+0,60°C)
    Land og Haf +0,51°C 7. heitasti 1998 (+0,66°C)

    Og svo hitafrávikin fyrir tímabilið janúar til júlí 2010:

    Janúar- Júlí Frávik Röð
    (af 131 árí)
    Heitasta/næst
    heitasta tímabilið
    Á heimsvísu
    Land +1,07°C Heitasta 2007 (+1,06°C)
    Haf +0,54°C 2. heitasta 1998 (+0,56°C)
    Land og Haf +0,68°C Heitasta 1998 (+0,67°C)

    Í grafinu hér undir má sjá þessi gögn í öðru ljósi:

    Og svo að lokum hitafrávikin fyrir tímabilið janúar – júlí eftir árum.

    Eins og sést hefur hitastigið það sem af er árinu verið í hæstu hæðum, sjá einnig Heitustu 12 mánuðir síðan mælingar hófust.

    Heimildir og annað efni af loftslag.is: