Lausnir og mótvægisaðgerðir

Lausnir

Það hafa ýmsir möguleikar verið viðraðir sem mögulegar lausnir við loftslagsvandanum. Hægt er að skipta mótvægisaðgerðunum (lausnunum) í þrjá hluta. Í fyrsta lagi eru lausnir sem stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda,  svo er það kolefnisbinding og í þriðja lagi eru það loftslagsverkfræðilegar (geoengineering) aðferðir sem snúa að því að kæla jörðina.

Minni losun

Í fyrsta lagi eru lausnir sem stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Eitt af grunnatriðum kenningarinnar um gróðurhúsaáhrifin gerir ráð fyrir því að gróðurhúsalofttegundir valdi hækkandi hitastigi.  Þar af leiðandi eru t.d. lausnir þar sem gert er ráð fyrir minni losun gróðurhúsalofttegunda  mikilvægar í mótvægisaðgerðunum vegna hlýnunar jarðar. Betri nýting orkunar er t.d. einn af þeim þáttum sem nefndir eru, þar sem það myndi leiða til minni losunar. Önnur tækni við raforkuframleiðslu er mikilvægur hluti þessarar lausnar. Stór hluti orkuframleiðslu í heiminum í dag verður til í orkuverum sem losa mikið magn koldíoxíðs. Þar af leiðandi eru miklir möguleikar til að minnka losun þar, með því m.a. að auka skilvirkni raforkuveranna. Til lengri tíma er mikilvægt að nýta enn betur aðra orkugjafa, t.d. vind-, vatns- og sólarorku. Kjarnorkan hefur einnig verið nefnd sem hugsanleg lausn, þar sem losun koldíoxíðs með notkun kjarnorku er hverfandi. Aukin og betri skilvirkni samgangna er einnig hluti þessara mótvægisaðgerða. Það má því segja að aukin skilvirkni í öllum geirum og breytingar á orkugjöfum þeim sem notaðir verða, séu lykilatriði til minnkandi losunar í framtíðinni.

losun

Kolefnisbinding

Í öðru lagi eru mótvægisaðgerðir sem felast í að koma gróðurhúsalofttegundum úr andrúmsloftinu aftur, t.d. með kolefnisbindingu. Þær lausnir ganga m.a. út á að koma gróðurhúsalofttegundum aftur í jörðina, t.d. í borholur, samanber CarbFix verkefni OR. Önnur atriði af þessu meiði eru m.a. skógrækt og breytingar í landbúnaði sem leiða til aukinar upptöku koldíoxíðs í jarðvegi.

Loftslagsverkfræði

Í þriðja lagi er litið til lausna þar sem svokölluð loftslagsverkfræði (e. geoengineering) er notuð. Hugsunin með þessum aðferðum er að breyta loftslaginu með vilja. Þær hugmyndir sem skotið hafa upp kollinum þar eru m.a. að búa til ský með skipum á heimshöfunum og að reyna að líkja eftir þeim ögnum sem eldgos senda frá sér upp í himinhvolfið. Báðar þessar aðferðir ættu samkvæmt kenningunni að minnka sólarljósið og hafa kælandi áhrif. Þessar aðferðir taka þó ekki til annarra þátta eins og t.d. súrnun sjávar vegna aukningar koldíoxíðs í hafinu. Hugsanlegur kostur svona aðferða er að hægt væri að halda aftur að hlýnuninni með tiltölulega afgerandi og fljótlegum hætti og jafnvel væri hægt að kæla jörðina, ef ekki koma upp önnur ófyrirséð vandamál.

lausnir_adlogun

Lausnirnar og aðlögunina þarf að samtvinna

Mótvægisaðgerðir

Til að þessar lausnir séu framkvæmanlegar, þá þarf að koma til mótvægisaðgerða fólks, fyrirtækja og stofnana. Þessi aðgerðir fela m.a.  í sér ný markmið sem fela í sér breytta ákvarðanatöku í m.a. fjárfestingum. Breytingar á fjárfestingarstefnu gætu stuðlað að minnkandi losun koldíoxíðs til framtíðar. Þarna er rætt um að langtímamarkmið t.d. fyrirtækja feli einnig í sér einhverskonar losunarmarkmið á gróðurhúsalofttegundum.

Hér verða skoðuð nánar atriði sem eru athyglisverð úr þessari skýrslu, með útgangspunkti í skýrslu vinnuhóps 3. Fyrst og fremst þá eru helstu niðurstöður skýrslu vinnuhópsins varðandi mótvægisaðgerðir eftirfarandi:

 • Hægt er að ná áþreifanlegum árangri til minnkunar losunar gróðurhúsalofttegunda og kostnaður við mótvægisaðgerðir virðist vera viðráðanlegur
 • Allar stærstu losunar þjóðirnar verða að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
 • Aðgerðir þurfa að hefjast sem fyrst til að hægt sé að ná árangri til minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda og þar með koma í veg fyrir að hitastig stígi um of
 • Mótvægisaðgerðir snúast fyrst og fremst um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda, þá aðalega koldíoxíðs
 • Maðurinn hefur valdið hættulegum loftslagsbreytingum – maðurinn getur lagað það

Mótvægisaðgerðir í ýmsum geirum

Nokkrar mótvægisaðgerðir sem fram koma í skýrslu Vinnuhóps 3, hjá Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) og eru taldar upp í eftirfarandi upptalningu:

 • Raforkumál: Meðal atriða sem nefnd eru: Aukning í skilvirkni; skipt á milli eldsneytistegunda; notkun kjarnorku; endurnýjanleg orka (vatns-, sólar-, vindafl, o.þ.h.); byrja að dæla koltvíoxíði aftur í jarðskorpuna (CCS – carbon capture and storage). Í framtíðinni er einnig gert ráð fyrir að hægt sé að dæla fleiri efnum í jarðskorpuna; nútímalegri kjarnorku verum; nútímalegri endurnýjanleg orka (virkjun sjávarfalla og betri sólarorkuver)
 • Samgöngur: Meðal atriða sem nefnd eru: Farartæki sem eru með betri nýtingu eldsneytis; bílar sem nota hybrid tækni; notkun bio-eldsneytis; meiri notkun almenningssamgangna og miðla eins og reiðhjóla; betra skipulag samgöngumála. Í framtíðinni er einnig gert ráð fyrir enn betri bio-eldsneytis farartækjum; skilvirkari flugvélum; endurbættum útgáfum af rafmagns og hybrid farartækjum.
 • Iðnaður: Meðal atriða sem nefnd eru: Meiri skilvirkni í rafbúnaði; orku og hita nýting verði betri; endurnýting efnis; betri stjórnun lofttegunda frá iðnaðinum. Í framtíðinni: enn betri skilvirkni þar sem tæknin er betri; CCS fyrir fleiri efni.
 • Byggingar: Meðal atriða sem nefnd eru: Skilvirkni í lýsingu og öðrum rafmagnstækjum; betri einangrun bygginga; sólar upphitun og –kæling. Í framtíðinni er einnig gert ráð fyrir enn betri hönnun bygginga, m.a. þar sem gervigreindar byggingar; samþætt notkun sólarorku í nýbyggingum.
 • Landbúnaður: Meðal atriða sem nefnd eru: Notkun lands til að auka inntöku koltvíoxíðs í jarðvegi; bætt tækni við ýmiskonar ræktunar aðferðir; bætt notkun áburðar. Í framtíðinni verða væntanlega umbætur varðandi hvað uppskeran gefur af sér.
 • Skógrækt: Meðal atriða sem nefnd eru: Skógrækt, endurnýjun skóga; betri stjórnun skógarsvæða; minni eyðing skóga; notkun skógarafurða í bio-eldsneyti. Í framtíðinni er einnig gert ráð fyrir hugsanlega bættri notkun tegunda og kvæma.

Mótvægisaðgerðir almennings

En hvernig getum við (almennir borgarar) komið að þessu núna? Upplýsingaflæði til almennings er mikilvægt, upplýsingaflæði varðandi t.d. hugsanlegar afleiðingar hækkunar hitastigs og um mikilvægi þess að mótvægisaðgerðir byrji sem fyrst. Þetta eru hlutir sem þarf að koma betur til skila. Hvað getur fólk þá gert, ef við gefum okkur að upplýsingar um afleiðingar og mikilvægi mótvægisaðgerða séu þeim kunnar?

Í skýrslu vinnuhóps 3 hjá IPCC er talað um það hvernig fjárfestingar næstu ára í ýmsum atvinnugreinum þurfi að taka mið af mótvægisaðgerðum í loftslagmálum. Þ.e. að velja þarf þá fjárfestingarkosti og tækni sem tekur tillit til þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá því sem nú er. Þetta getur einnig átt við um einstaklinga, þegar neytendur kaupa vörur (eða þjónustu) í dag. Þeir geta hugað að því hvort að vörur séu umhverfisvænar með tilliti til losunar koldíoxíðs. Á Íslandi getur þetta t.d. átt vel við um vörur eins og bíla sem losa koldíoxíð við notkun og vörur sem fluttar eru um langan veg til landsins. Þetta er hluti af því sem kallað er breytingar á lífsstíl og hegðunarmynstri eins og talað er um í skýrslu vinnuhóps 3 hjá IPCC. Þ.e. þegar breyttur hugsunarháttur leiðir til breyttrar hegðunar og lífsstíls. Fleiri dæmi um hluti sem almennt er hægt að gera ráð fyrir að geti breyst við breyttan hugsunarhátt eru t.d.:

 • Breytingar í hegðun íbúa, menningarleg mynstur og val á staðsetningu heimilis og vinnu
 • Breytingar í notkun bíla ásamt því að haga keyrslu (vali á bílum) þannig að losun koldíoxíðs verði minni
 • Skipulag bæjarfélaga og samgangna þannig að almenningssamgöngur hafi meira rými
 • Hegðun fólks í atvinnulífinu, með tilliti til umhverfisins

Allar ákvarðanir í samfélaginu eru teknar af einstaklingum sem búa í samfélaginu, þ.a.l. mun breytt viðhorf varðandi loftslagsmál verða til þess að breytingar munu verða í ákvarðanatöku innan samfélagsins. Það má á sömu lund færa rök fyrir því að breyting á hugsunarhætti geti haft áhrif á val fyrirtækja við fjárfestingu til framtíðar, þar sem valið (sem tekið er af einstaklingum sem vinna innan fyrirtækisins) lendi fremur á fjárfestingarleiðum sem leiði til minni losunar gróðurhúsalofttegunda.

Á vef umhverfisráðuneytisins eru mótvægisaðgerðir gerðar að umfjöllunarefni og m.a. má lesa eftirfarandi þar varðandi kostnað þeirra:

“Kostnaður við mótvægisaðgerðir er mismikill en ljóst er að ódýrar aðgerðir geta skilað umtalsverðum árangri. Kostnaðurinn spannar allt frá aðgerðum sem gefa hreinan fjárhagslegan ávinning svo sem aukin áhersla á göngu og hjólreiðar, eða aukin notkun sparneytnari bifreiða, til mótvægisaðgerða sem eru fremur dýrar, t.d. raf- eða vetnisvæðing samgangna.”

Framboð og eftirspurn

frambod_eftirspurn

Þessi breyting getur vart átt sér stað nema að upplýsingar varðandi hugsanlegar afleiðingar hækkunar hitastigs og mikilvægi mótvægisaðgerða komist til skila til sem flestra. Svona breytingar eru ekki gerðar á einni nóttu, en því fyrr sem fólk fer að að huga að þessum málum og skipuleggja framtíðar kaup og atferli út frá þessum forsendum, þeim mun auðveldara verður að ná markmiðunum. Það góða við þessar hugmyndir um breyttan hugsunarhátt er að þær kosta ekki svo mikið þar sem þær leiða fyrst og fremst til breyttra viðhorfa og þar með breytinga í atferli. Sem dæmi getur svona viðhorfsbreyting orðið til þess að eftirspurn eftir vörum breytist, í átt að vörum sem valda minni losun gróðurhúsalofttegunda. Það verður svo til þess að framboð eftir vörum breytist til að anna breyttri eftirspurn almennings.

Almenn aðlögun til framtíðar

Almennar mótvægisaðgerðir er hluti þeirrar almennu aðlögunar sem þarf að verða, vegna þeirra breytinga sem fylgt geta hækkandi hitastigi. Aðlögun að hækkandi sjávarstöðu, breytingum í vatnsbúskap, fólksflutningum og fleiru í þeim dúr eru dæmi um hluti sem við þurfum að huga að. Almennt þá þarf að líta fram á veginn og sjá fyrir hvar byggð verður til lengri tíma litið. Hvaða svæði getum við ekki nýtt á sama hátt og áður, hvaða svæði munu verða búsældarlegri o.s.frv. Þetta er hluti að því gera ráðstafanir til lengri tíma og byrja skipulagningu sem miðar að breyttum heimi. Það eru lönd sem ekki eru hátt yfir sjávarmáli, hvernig ætlum við að taka á þeim vanda í framtíðinni? Þessar spurningar og vangaveltur hljóta að þurfa að vera hluti þess langtímaskipulags sem við viljum bjóða börnum og barnabörnum uppá. Þó að langt sé í sumar breytingar ef miðað er við æviskeið fólks, þá getur verið um stuttan tíma að ræða í jarðfræðilegum skilningi. Þeim mun fyrr sem farið verður að huga að þessum málum, þeim mun léttari verða lausnirnar.

About the Author

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.