Það var hlýrra á miðöldum.

Mýta:  Það var hlýrra á miðöldum.

Þessi mýta virðist fyrst og fremst miða að því að segja, að það hafi verið hlýrra á miðöldum (eða jafnhlýtt) og því hljóti hlýnunin nú að vera af völdum náttúrulegra ferla – líkt og það hlýtur að hafa verið þá.

Staðbundin hlýnun

Á tímabilinu frá sirka árinu 800-1300 var nokkuð hlýtt í Norður Evrópu og þar sem fyrstu rannsóknirnar á fornloftslagi voru gerðar þar, þá fékk þetta tímabil nafnið Miðaldahlýskeiðið (e. Medieval Warm Period – MWP). Svipað var upp á teningnum hvað varðar kalt loftslag í Norður Evrópu sem nefnt hefur verið Litla Ísöld (e. Little IceAge) og stóð frá 1300 – 1850 (sumir segja að það hafi byrjað síðar).

Skilningur manna á hitastigi síðustu þúsund ára var einhvern vegin svona.

Skilningur manna á hitastigi síðustu þúsund ára var einhvern vegin svona fyrir Evrópu og héldu menn að þetta ætti einnig við hnattrænt.

Upphaflega töldu menn að um væri að ræða hnattræna hlýnun að ræða í tilfelli Miðaldahlýskeiðsins og þá samsvarandi hnattræna kólnun í tilfelli Litlu Ísaldar, en það hefur verið dregið ákveðið í efa. Í skýrslu IPCC frá 2001 segir (lauslega þýtt):

“… núverandi gögn styðja ekki hnattræn og einsleit skeið af óvenjulegu köldu eða hlýju loftslagi á þessu tímabil og hugtökin Litla Ísöld og Miðaldahlýskeiðið hafa takmarkaðan tilgang við að lýsa breytingu í hitastigi hnattrænt síðustu alda”.

Sérfræðingar í fornloftslagsfræðum hafa þó ekki hætt að nota þessi hugtök og er t.d. hugtakið MWP ekki endilega lengur tengt við hlýnun heldur frekar loftslagstengdan atburð sem getur þess vegna verið óvenju kaldur eða óvenju úrkomusamur (eins og t.d. á Suðurheimskautinu sem oft speglar loftslagsveiflur sem verða í Norður Evrópu á þessum tíma). Oft er þó um raunverulega hlýnun að ræða og þá spurning hversu mikil hún var.

Nokkrir hitaferlar

Þrátt fyrir að um væri að ræða staðbundna hlýnun í Norður Evrópu, þá er ljóst að hitinn var meiri á miðöldum hnattrænt séð heldur en hann varð síðar á svokallaðri Litlu Ísöld. Hann var þó mun minni en hann átti eftir að verða á 20. öldinni.

Fornloftslagsfræðingar hafa verið ötulir við að draga saman gögn um loftslag til forna og fá ýmsar niðurstöður:

Ýmsar mælingar á proxýhitastigum, borið saman við beinar mælingar.

Ýmsar mælingar á proxýhitastigum, borið saman við beinar mælingar (svört lína). Nú er greinilega mun hlýrra en það var á miðöldum.

Hlýnunin í Norður Evrópu

Þrátt fyrir allt, þá er ekki verið að draga í efa að það hafi verið nokkuð hlýtt á miðöldum á Íslandi og Norður Evrópu – samt líklega ekki eins hlýtt og það er í dag. Staðbundið virðist hafa verið ansi hlýtt á miðöldum í Norður Evrópu, en ljóst er að hún var ekki hnattræn eins og hlýnunin sem við erum að verða vitni af í dag.  Óljóst hefur verið hingað til af hvaða völdum hlýnunin í Norður Evrópu varð, en ein kenningin er sú að ákveðin og langvinn jákvæð NorðurAtlantshafssveifla (e. North Atlantic oscillation – NAO) hafi átt stóran þátt í henni – og á sama tíma hafi langvinn La Nina sveifla verið í Kyrrahafi.

Niðurstaða

Niðurstaðan er einfaldlega sú að hlýnunarfrávikið á miðöldum var staðbundið við Norður Evrópu og var jafnvel frekar lítil ef skoðað er norðurhvel jarðar eingöngu. Á suðurhveli er það enn flóknara – þar sem á þessum tíma eru sönnunargögn um bæði hlý og köld tímabil. Því er miðaldarhlýnunin að langmestu leiti staðbundið fyrirbæri – og endurspeglar frekar dreifingu hitans um jörðina, frekar en hnattræna hlýnun.

Hlýnunin nú er langtum meiri en hlýnun undanfarin árþúsundir og það sem skiptir meira máli er að útlit er fyrir enn meiri hlýnun.

Heimildir og frekari upplýsingar

IPCC skýrslan:  pdf

Greinin úr Science um mögulegar ástæður staðbundinnar hlýnunar í Norður Evrópu: Persistent Positive North Atlantic Oscillation Mode Dominated the Medieval Climate Anomaly

Peter Sinclair hefur gert gott myndband um mýtuna um hlýrri miðaldir: Climate Denial Crock of the Week – “The Medieval Warming Crock”

Sjá einnig mýtuna um Hokkíkylfuna.

About the Author

Áhyggjumaður um loftslagsmál