Er hafís Norðurskautsins að jafna sig?

Hér fyrir neðan er þýðing á mýtu, sem upprunalega var birt á Skeptical Science.

Röksemdir efasemdamanna…

Ef fylgst er með útbreiðslu hafíss undanfarið ár, þá sjást óvenjulegar sveiflur og að hafísinn hefur náð normal útbreiðslu nokkrum sinnum. Það er greinilegt að hafísinn er að jafna sig á Norðurskautinu.

Það sem vísindin segja…

Útbreiðsla hafíss segir okkur hvert ástandið á hafísnum er við yfirborð sjávar, en ekki þar undir. Hafís Norðurskautsins hefur stöðugt verið að þynnast og jafnvel síðustu tvö ár á meðan útbreiðslan hefur aukist lítillega. Af því leiðir að heildar magn hafíss á Norðurskautinu árið 2008 og 2009 er það minnsta frá upphafi mælinga.

Yfirleitt þegar fólk talar um ástand hafíssins á Norðurskautinu, þá er það að tala um hafísútbreiðslu. Þar er átt við yfirborð sjávar þar sem að minnsta kosti er einhver hafís (yfirleitt er miðað við að það þurfi að vera yfir 15% hafís). Útbreiðsla hafíss sveiflast mikið í takt við árstíðirnar – er hafís bráðnar á sumrin og nær lágmarki í útbreiðslu í september og frýs síðan aftur á veturna með hámarksútbreiðslu í mars. Hitastig er aðalþátturinn sem keyrir áfram breytingar í útbreiðslu hafíss – en aðrir þættir eins og vindar og skýjahula hafa þó sín áhrif þó í minna mæli. Útbreiðsla hafíss hefur verið á stöðugu undanhaldi síðastliðna áratugi og árið 2007 varð útbreiðslan minnst vegna margra ólíkra þátta.


Mynd 1: Háfísútbreiðsla Norðurskautsins frá 1953 fram til byrjun árs 2010.

Útbreiðsla hafíss gefur okkur ákveðnar upplýsingar um ástand hafíss, en það er þó takmörkunum háð. Útbreiðslan segir okkur hvert ástandið er í yfirborði sjávar, en ekki meir en það. Mun betri upplýsingar fást með því að mæla heildar magn hafíss – þ.e. rúmmál hans. Gervihnattagögn þar sem mælt er yfirborð hafíss með radarmælingum (Giles 2008) og með hjálp leysigeisla (Kwok 2009), sýna að hafís Norðurskautsins hefur verið að þynnast, jafnvel árin eftir lágmarkið 2007, þegar útbreiðslan segir okkur að hafísinn hafi verið smátt og smátt að aukast. Þannig að þótt sumir haldi því fram að hafísinn á Norðurskautinu sé að jafna sig eftir 2007, þá var heildarrúmmál hafíssins árið 2008 og 2009 það lægsta frá því mælingar hófust (Maslowski 2010, Tschudi 2010).

Mynd 2: Samfellt uppfært rúmmál hafíss á Norðurskautinu Polar Ice Center.

Þeir sem halda því fram að hafís Norðurskautsins sé að jafna sig eru fjarri lagi. Sem dæmi þá var rúmmál hafíssins á Norðurskautinu í mars 2010 um 20.300 km3 – eða lægsta mars gildi yfir tímabilið 1979-2010.

About the Author

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.