Að fela núverandi hlýnun

Eitt af því sem gerir loftslagsumræðuna hvað mest spennandi, allavega í augum þess sem þetta skrifar, eru mistúlkanir og falsanir efasemdamanna til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Sá sem þetta skrifar hefur sérstakan áhuga á fornloftslagi og við á loftslag.is höfum skrifað nokkuð um það (sjá hér).

Falsanir og mistúlkanir eru misjafnar varðandi fornloftslag og fjölbreytileikinn mikill. Algengast er þó eftirfarandi – sérstaklega hvað varðar hina svokölluðu “miðaldahlýnun”:

Fyrsta brellan er að fela hitastigskvarðann og/eða gildi hitastigsins. Önnur brellan er að velja eitt landsvæði í heiminum og sú þriðja er að klippa í burtu eða hunsa mælingar sem sýna undanfarna hlýnun. Úr færslunni Miðaldabrellur.

Þá er algengt að sýna núverandi hitastig lægra en það í raun og veru er – þ.e. bæta við línu sem á að sýna hvar hitastigið er nú og hnika henni niður í átt til lægri hita (eða miða hreinlega við hitastig fyrir öld eða svo). Einnig er klassískt að sýna úrellt gögn og birta þau eins og þau séu besta mat á fornloftslagi (sjá t.d. færslurnar Miðaldir og Loehle og Miðaldaverkefnið).

Hlutur Don Easterbrook

Fyrir nokkrum vikum var haldin ráðstefna efasemdamanna um hnattræna hlýnun og einn fyrirlesara virðist kunna flestar brellurnar í handbók efasemdamanna. Það er Don Easterbrook, fyrrum prófessor í jarðfræði og áður væntanlega þokkalega virtur í sínu fagi. Hann hefur verið sannfærður undanfarin ár að Jörðin eigi eftir að verða fyrir kólnun á næstu árum og áratugum. Þessi sannfæring hans á reyndar ekki við nein vísindaleg rök að styðjast (sjá mýtuna Lítil ísöld eða kuldaskeið er á næsta leiti).

Við skulum byrja á léttri mistúlkun, en hér er mynd sem sýnir hans pælingar um væntanlega kólnun sem hann telur vera yfirvofandi:

Eins og sjá má, þá virðist hann auka vægi hlýnunar fyrr á síðstu öld á kostnað hlýnunar sem er nú – samkvæmt honum þá er hitastig nú svipað og það var í kringum miðja síðustu öld. Við vitum að svo er ekki (sjá Helstu sönnunargögn og NASA | Heitasta 12 mánaða tímabilið), þannig að annað hvort er hann að nota staðbundin hitagögn – eða hann er að breyta þeim gögnum sem til eru. Auk þess má benda á að spár IPCC líta ekki eins út og hann sýnir (sjá Loftslag framtíðar).

En þetta eru litlu tölurnar. Þegar horft er á meðferð Easterbrook á gögnum um fornloftslag, þá bregður flestum í brún. Lítum hér á fallega og lýsandi mynd úr smiðju hans:

Þessa mynd þarf líklega ekki að útskýra mikið en hún á að sýna hitastig á nútíma (e. holocene). Kannski er þó rétt að byrja á því að segja frá því innsláttarvillu – en þar sem stendur Younger Dyas á að standa Younger Dryas. Takið nú eftir því hvar hann setur núverandi hitastig (e. Present day temperature). Samkvæmt þessari mynd þá ætti að vera ljóst að núverandi hitastig er bara alls ekki hátt. Hitinn mest allan nútímann hefur verið hærra en er í dag – samkvæmt þessari mynd.

Hitt er annað að hér hefur hann tekið mynd frá Global Warming Art og  breytt töluvert – þ.e. sett inn skáldaða línu sem segir hvenær núverandi hitastig er og litað upp á nýtt. Hér fyrir neðan má sjá orginalinn, en við á loftslag.is höfum stundum notað þá mynd til að sýna hitastig á nútíma:

Við að skoða þessa mynd þá fer ekki milli mála að hitastig nú er í hæstu hæðum hvað varðar hita á nútíma (sjá örina sem bendir á 2004).

Til samanburðar eru hér tvær útgáfur fyrir neðan sem sýna þessar tvær myndir bornar saman:

Með þessari fölsun hefur Easterbrook lækkað núverandi hnattrænt hitastig Jarðar um sirka 0,75°C. Það munar um minna.

Annað línurit frá honum hefur einnig vakið athygli, en tilgangur þess er sá sami – þ.e. að sýna fram á að nú sé kaldara en á meirihluta nútíma:

Fyrir utan undarlegar merkingar og ranga viðmiðun hvað varðar núverandi hitastig, þá er þetta nokkuð rétt mynd – eins og síðasta mynd. Hér gefur að líta hitastig upp á Grænlandsjökli út frá borkjarnarannsóknum (GISP). Því er hér um að ræða staðbundið hitastig. Líklega er best að byrja á að benda á undarlegar merkingar á “miðaldahlýnuninni” og Litlu Ísöldinni – en á báðum stöðum skeikar það um nokkur hundruð ár. Það sem skortir hér er hitastig síðastliðin 100 ár eða svo. Þegar upprunalegu gögnin eru skoðuð fram yfir síðustu aldamót og þau borin saman við ofangreinda mynd þá fæst þessi mynd:

Hér sést að núverandi hitastig samkvæmt Easterbrook (blá lína) er næstum 3°C lægra en hitastigið í raun er – nú upp á Grænlandsjökli (græn lína). Hér er því mesta rangtúlkunin sem að fundist hefur hingað til hjá Easterbrook. Hér er er um staðbundinn hita að ræða og því lítið hægt að túlka út frá þessu – en það er augljóst að hitastigið nú er orðið nánast jafn hátt og það var þegar það var mest á Grænlandsjökli á nútíma.

Nú er spurning hvað aðrir efasemdamenn segja – verður ekki að rannsaka þetta nánar?

Heimildir og ítarefni

Aðalheimild fyrir þessari færslu eru færslur af bloggsíðunni Hot Topic

Tengdar síður á loftslag.is

About the Author

Áhyggjumaður um loftslagsmál