Loftslag.is

Category: Haparanda

  • Haparanda – Áskoranir

    Haparanda – Áskoranir

    Borpallar í Norðursjó

    Við komuna til Íslands er gott að líta til baka og skoða hvaða áskoranir þarf að athuga í sambandi við olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum í framtíðinni. Þess ber að geta að sjálfsögðu eru þetta mínar persónulegu nótur, en ekki niðurstaða málþingsins sem slík.

    Það má segja sem svo að öll hinna frjálsu félagasamtaka (NGO’s) á málþinginu í Haparanda setji einhverskonar spurningamerki við olíu- og gasvinnslu á norðurskautinu. M.a. eru rök um hnattræna hlýnun af mannavöldum nefnd, þar sem að aukin vinnsla olíu og gass á norðurslóðum geti mögulega framlengt þann tíma sem við værum háð kolefniseldsneyti og hugsanlega dregið úr áhuga á rannsóknum á öðrum orkugjöfum sem eru nauðsynlegir til að draga úr hnattrænni hlýnun í framtíðinni. Mengunarhætta var líka ofarlega í huga þátttakenda. Flest félagasamtökin gera ráð fyrir að vinnsla auðlinda á norðurskautinu sé veruleiki sem sé óumflýjanlegur (ekki öll þó) og velja því að reyna að vera með í ráðum varðandi það hvernig vinnslan ætti að fara fram, svo hún verði eins farsæl og hægt er. Það samstarf er því bæði við iðnaðinn og stjórnvöld. Það virðist vera sem ýmsum spurningum sé ósvarað þegar kemur að olíu- og gasvinnslu – til að mynda olíuvinnslu á borpöllum út af ströndum ríkja við norðurskautið. Áður en að vinnslu kemur (ef það er í raun hinn óumflýjanlegi veruleiki), þá þarf að mati margra að takast á við ýmis atriði sem skipta máli.

    Hér eru atriði sem ég tel mig geta dregið fram eftir málþingið – Ath. – aðeins er stiklað á stóru hér.

    • Það virðist þurfa að styrkja regluverk í kringum olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum, þannig að hagsmunaaðilar viti betur til hvers er ætlast til af þeim og hvaða rammar gilda um vinnsluna. Eitt af því sem var nefnt varðandi þetta atriði var að mismunandi regluverk eru í gildi og það er t.d. munur á regluverkinu í t.a.m. Noregi og Rússlandi, sem hugsanlega þyrfti að samræma.
    • Það virðist þurfa að koma á öflugu kerfi og áætlunum til að takast á við mengunarslys í sjó, þar sem að aðstæður til björgunar í Norðurhöfum eru ekki góðar í mörgum tilfellum og ekki sjálfgefið að það sé létt að þrífa upp eftir olíuslys langt frá helstu samgönguæðum til hafs og jafnvel á hafsvæði með hafís stóran hluta ársins. Þetta atriði virðist mjög mikilvægt, þar sem að vistkerfi norðurslóða geta verið mjög viðkvæm fyrir mengun. Samræming á milli landa varðandi mengunarslys var líka talið mikilvægt atriði.
    • Loftmengun var nefnd, bæði svokölluð “black carbon” mengun frá bruna á borpöllum og svo losun metans í sambandi við vinnslu, t.d. vegna vinnslu á gasi.
    • Almennt var líka talið að upplýsingar varðandi vistkerfi í norðurhöfum væri ábótavant. Til að mynda þurfi enn meiri upplýsingar um vistkerfin áður en hægt sé að taka ákvörðun um vinnslu og þá hvar. Jafnvel þarf að skilgreina einhver svæði sem lokuð svæði, þ.e. að vinnsla sé ekki leyfileg á skilgreindum svæðum vegna þess að svæðin væru skilgreind sem mikilvæg fyrir vistkerfið og þ.a.l. viðkvæm – m.a. vegna þess hvernig hafstraumar séu.
    • Talið er að stjórnsýslu sé að einhverju marki ábótavant. Til að mynda þyrfti að styrkja stjórnsýslu á milli landa – það er væntanlega einhver munur á stjórnsýslu í Noregi og Rússlandi.

    Hitt er svo annað mál að það er væntanlega töluverð gjá á milli frjálsra félagasamtaka og iðnaðarins varðandi hugmyndir um það hversu langt í ferlinu málið er komið og hversu langt sé í að hægt sé að hefja framleiðslu. Þar af leiðandi er væntanlega mögulegt að iðnaðurinn og félagasamtök séu ekki samstíga í því í hvaða takti ber að stíga í þessum málum, jafnvel þó svo að allir væru fullir vilja til samstarfs til að hefja ferlið.

    Norðurskautsráðið er vettvangur þar sem svona mál eru tekin upp og það er þar sem frjáls félagasamtök munu m.a. rétta athugasemdum sínum til varðandi hugsanlega olíu- og gasvinnslu á norðslóðum í framtíðinni. Norðurskautsráðið hefur þessi mál væntanlega á dagskrá sinni og munu væntanlega taka á móti ábendingum frá hinum ýmsu hagsmunaaðilum. Hagsmunaaðilar geta verið ólíkir, svo sem frá iðnaðnum, íbúum á norðusskautssvæðinu (sem geta haft ýmsa hagsmuni fyrir brjósti), frjáls félagasamtök, stjórnvöld landanna ásamt fleirum. Það eru því margir ólíkir hagsmunir sem þarf að hafa í huga varðandi vinnslu auðlinda á norðuslóðum og ekki alveg sjálfgefið að takist að samræma þá.

    Nýjung, núna er einnig hægt að bæta við ummælum á loftslag.is í gegnum Facebook, sjá hér undir.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Haparanda – Örstuttar vangaveltur af vettvangi

    Haparanda – Örstuttar vangaveltur af vettvangi

    Hótel Svefi í Haparanda – þar sem málþingið fer fram

    Fyrri deginum af tveimur var að ljúka á málþinginu hér í Haparanda. Það gefst væntanlega lítill tími til að skrifta núna, þar sem þátttakendum er boðið til málsverðs í kvöld. Meðal þess sem hefur borið mikið á góma í dag er Norðurskautsráðið, en Íslendingar eru þátttakendur á þeim vettvangi. Hér undir má lesa tvær tilvísanir varðandi Norðurskautsráðið, fyrri af wikipedia:

    Norðurskautsráðið er samstarfsvettvangur ríkisstjórna þeirra landa sem liggja á eða að Norðurslóðum. Drög að slíku samstarfi voru lögð 1991 meðRovaniemi-ferlinu sem gengur út á samstarf um umhverfismál á Norðurslóðum. Norðurskautsráðið var síðan stofnað með Ottawa-yfirlýsingunni1996. Ályktanir ráðsins hafa fyrst og fremst gengið út á umhverfismál, einkum loftslagsbreytingar, en á síðustu árum hefur verið rætt um að ráðið fjalli líka um álitamál varðandi nýtingu auðlinda og landakröfur á Norðurslóðum. [heimild wikipedia]

    Og svo almennt um Norðurskautsráðið af vef Alþingis:

    Norðurskautsráðið var stofnað árið 1996 með sameiginlegri yfirlýsingu aðildarríkjanna átta. Nokkur samtök frumbyggja á norðurslóðum eiga fasta fulltrúa í ráðinu og auk þess eiga ýmis ríki, alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu. Undir merkjum ráðsins starfa ýmsir vinnuhópar er vinna að rannsóknum á þróun mannlífs og umhverfis á norðurskautssvæðum, og reglulega koma út viðamiklar skýrslur um tiltekin málefni.

    Fjölmargar vandaðar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðari missirum hefur Norðurskautsráðið í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu, heldur leita leiða við að draga úr mengun á norðurslóðum. Þingmannanefndin hefur á undanförnum árum lagt sérstakan metnað sinn í að hafa frumkvæði að mismunandi verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda, en Ísland fór með formennsku í ráðinu frá nóvember 2002 til nóvember 2004.

    Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það fætt af sér margvísleg sameiginleg verkefni og stofnanir. Þar mætti fyrst telja Háskóla norðurslóða sem var stofnaður við hátíðlega athöfn í Rovaniemi 12. júní 2001, en stofnun skólans hafði þá verið fjögur ár í undirbúningi í aðildarlöndunum. Háskólanum er fyrst og fremst ætlað að vera tengiliður á milli annarra háskóla, rannsóknarstofnana og samtaka sem sérhæfa sig í rannsóknum á löndum við norðurskaut. Líkt og Háskóla norðurslóða er Rannsóknarþingi norðursins ætlað að auka samráð á milli vísindamanna og hagsmunaaðila á norðurslóðum. Eins konar samstarfsnet þessara aðila hefur verið byggt upp og annað hvert ár er efnt til formlegs rannsóknarþings. Þátttakendur á rannsóknarþinginu koma víða að og eru þar m.a. vísindamenn, kennarar, stjórnmálamenn, embættismenn, stjórnendur fyrirtækja og athafnamenn í auðlindanýtingu.

    Upplýsingar um þingmannanefndina má finna á heimasíðu hennar á slóðinni http://www.grida.no/parl. [heimild althingi.is]

    Almennt má segja að hagsmunir þeirra ríkja sem koma að nýtingu auðlinda norðuskautsins séu ekki alltaf hinir sömu. Þau ríki sem liggja að norðurskautinu líta svo á að auðlindir tilheyri þeirra lögsögu og séu hluti þeirra landssvæðis og þar af leiðandi beri vinnsla og nýting svæðisins að heyra undir þeirra lögsögu (allavega þess sem er innan þeirra landhelgi). Önnur ríki vilja einnig hafa áhrif á gang mála, til að mynda Evrópubandalagið og Kína.

    Það eru ýmis flókin tæknileg atriði sem þarf að huga að áður en farið er út í mikla vinnslu náttúruauðlinda á norðurslóðum, til að mynda varðandi verkfræðilega þekkingu á vinnslunni, öryggi þeirra sem koma að vinnslunni, mengunarhættu og hvernig tekist er við á hana þvert á landamæri, umhverfissjónarmið (sem einnig  á við varðandi áhrif mengunarslysa á umhverfið) og síðast en ekki síst varðandi loftslags tenginguna.

    Að þessu máli koma svo ýmsir hagsmunaaðilar, eins og til að mynda ríki í Norðurskautsráðinu, áheyrnarfulltrúar annarra landa í því, ýmis frjáls félagasamtök o.fl.

    Nýjung, núna er einnig hægt að bæta við ummælum á loftslag.is í gegnum Facebook, sjá hér undir.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Haparanda – Málþing um olíu- og gasvinnslu á Norðurslóðum

    Haparanda – Málþing um olíu- og gasvinnslu á Norðurslóðum

    Mér hefur boðist einstakt tækifæri til að taka þátt í málþingi (e. workshop) um framtíð olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum sem haldið er í Haparanda í Svíþjóð. Í gögnum varðandi málþingið sem mér hafa borist kemur m.a. eftirfarandi fram (þýðing úr ensku):

    Það er áætlað að undir hafsbotni á norðurslóðum megi finna allt að fjórðung allra óupgötvaðra olíu- og gasbirgða í heiminum. Hratt hop eldri og þykkari hafíss ásamt meiri eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti hefur dregið athygli að Norðurskautinu sem aldrei fyrr. Jafnvel á sama tíma og heimurinn ræðir um nauðsyn þess að skipta í loftslagsvænni orku, þá eru öflugir efnahagshvatar fyrirtækja og stjórnvalda til að hrinda af stað könnun Norðurslóða, til að mynda könnun staða eins og í Alaska, Vestur Kanada, Grænlands- og Barentshafi ásamt Norður-Rússlandi.

    Málþinginu er ætlað til að auka þekkingu og byggja upp getu meðal frjálsra félagasamtaka (NGOs) á sviði olíu- og gas notkunar og bjóða upp á tækifæri fyrir viðkomandi samtök til stefnumótunar um málefnið.

    Ráðstefnudögunum tveimur verður skipt í þrjá þematengda fundi/efni, þar sem eftirfarandi efni verða höfð að leiðarljósi.

    1. Olía og gas á norðurslóðum í hnattrænu samhengi – umfangið í dag og þróun til framtíðar, ásamt umræðu um þá hvata sem að baki liggja
    2. Tekist á við áskoranir – dæmi um núverandi stefnu og frumkvæði
    3. Horft fram á við –  hlutverk frjálsra félagasamtaka og hvernig hægt er að hafa áhrif á umræðuna

    Málþingið verður haldið dagana 12.-13. nóvember og mun ég skrifa um upplifun mína hér á loftslag.is undir liðnum Haparanda. Þetta er einstakt tækifæri fyrir mig (og vonandi fyrir lesendur líka) til að setja mig inn í hvernig umræðan um þetta málefni er að þróast. Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi núverandi umræðu hér á landi um hugsanlega olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Ég kem að þessu sem óbundinn einstaklingur og vona að ég geti komið boðskapi fundarins á framfæri hér á loftslag.is. Ég fer á fundinn í boði UNEP GRID-Arendal, en milliliður og aðal hvatamaður að þátttöku minni á málþinginu er Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.

    Á málþinginu verða aðilar frá frjálsum félagasamtökum, iðnaðinum, stjórnvöldum, háskólum, sjóðum og öðrum áhugasömum einstaklingum. Þátttökulistinn inniheldur m.a. fólk frá Shell, Greenpeace, Háskólum frá m.a. Laplandi og Danmörku og opinberum stofnunum frá ýmsum löndum.

    Nýjung, núna er einnig hægt að bæta við ummælum á loftslag.is í gegnum Facebook, sjá hér undir.

    Tengt efni á loftslag.is: