Loftslag.is

Tag: Vistkerfi

  • Myndbönd: Jarðvísindavika NASA

    Hérundir eru 6 ný myndbönd sem eru hluti af því sem NASAexplorer rásin á YouTube kallar Jarðvísindavikuna (e. Earth Science Week) sem stendur nú yfir. Jarðvísindavikan setur jörðina og hafið í fókus og myndböndin eru m.a. hugsuð sem efni fyrir nemendur og kennara.  Þessi sex þátta röð, framleidd af NASA, skoðar mikilvægi hafsins varðandi loftslagsbreytingar.  Þarna eru viðtöl við vísindamenn NASA og allskonar útskýringarmyndir. Hvert myndband er í kringum 5-6 mínútur, þannig að þetta er rúmlega hálftími af fróðleik. Njótið þess góðir lesendur.

  • Myndband: Hugleiðingar Carl Sagan um Jörðina

    Hér kemur stutt hugleiðing Carl Sagan um stærð Jarðarinnar í rúmi og tíma. Við erum örsmá í hinum risavaxna alheimi. Hugleiðingar hans leiða okkur að því hvernig við göngum um plánetuna. Verði ykkur að góðu, njótið hugleiðinga Carl Sagan um hin afmarkaða bláa punkt sem við búum á.

  • Myndband: Acid Test – Heimildarmynd um súrnun sjávar

    Acid Test er heimildarmynd sem fjallar um áhrif af súrnun sjávar. Sigourney Weaver er sögumaður myndarinnar og þar koma m.a. fram vísindamenn sem segja frá súrnun sjávar og áhrifum þess á lífríki sjávar, sjá einnig frétt sem tengist þessu.

    Um súrnun sjávar

    Súrnun sjávar er aukaafurð losunar á CO2 út í andrúmsloftið og oft kallað “hitt CO2-vandamálið” (á eftir hlýnun jarðar). Vegna aukningar CO2 í andrúmsloftinu gleypir sjórinn aukið magn CO2 og við það verða efnaskipti sem breyta pH gildi sjávar – sjórinn súrnar.

    Súrnun sjávar hefur aukist það mikið undanfarna áratugi að talin er mikil hætta á því, að við munum verða vitni að svipaðri súrnun sjávar og varð fyrir 55-56 milljónum ára. Sú súrnun olli miklum útdauða sjávarlífvera. 1/6 af fæðu mannkyns er fengin úr sjónum og því eru miklir hagsmunir í húfi fyrir mannkynið (fyrir utan siðferðislega skyldu okkar að eyðileggja ekki lífsafkomu annarra lífvera).

    Það má því segja að jafnvel þeir sem viðurkenna ekki staðreyndina um hlýnun jarðar af mannavöldum, ættu að geta tekið undir það að nú verði að bregðast við aukningu CO2 andrúmsloftsins, áður en illa fer. Við núverandi losun CO2, þá er talið að súrnun sjávar verði farin að nálgast hættumörk árið 2030 (við CO2 magn í lofthjúpnum í sirka 450 ppm) en nú þegar er talið að áhrifa súrnunar sjávar sé farið að gæta.

  • Frétt: Súrnun sjávar – áhrif á lífverur

    Auk hlýnunar jarðar, þá veldur losun CO2 (koldíoxíðs) út í andrúmsloftið önnur og minna þekkt áhrif, svokallaða súrnun sjávar (e. ocean acidification). Frá aldamótunum 1800 hefur sjórinn gleypt einn þriðja af losun manna á CO2 og hefur sjórinn því verið eins konar sía sem minnkað hefur áhrif CO2 á hlýnun jarðar – en um leið hefur það haft áhrif á efnafræði sjávar. Áætlað hefur verið að ef losun heldur fram sem horfir, þá muni pH gildi sjávar falla um 0,4 til ársins 2100, þannig að sýrustig sjávar yrði hærra en síðastliðin 20 milljón ár.

    Sýnishorn af lifandi bertálkna (limacina helicina) (a) við pH gildi 8,09 og (b) við pH gildi 7,8 (mynd úr grein Comeau ofl)
    Sýnishorn af lifandi bertálkna (limacina helicina) (a) við pH gildi 8,09 (b) og við pH gildi 7,8 (c) (mynd úr grein Comeau ofl)

    Vísindamenn hjá Laboratoire d’Océanographie í Frakklandi hafa nú sýnt fram á að lykil lífverur, líkt og djúpsjávarkórallar (Lophelia pertusa) og skeldýr af ætt bertálkna (Limacina helicina), eigi eftir að verða fyrir töluverðum neikvæðum áhrifum í framtíðinni vegna áætlaðar súrnunar sjávar. Þeir rannsökuðu fyrrnefndar lífverur og áhrif breytingar á pH-gildi á skeljamyndun, en þessar lífverur mynda skel úr kalki. Þessar tegundir gegna mikilvægu hlutverki í sínu vistkerfi og lifa á svæðum sem verða fyrst fyrir barðinu á súrnun sjávar.

    Fyrrnefndur bertálkni er mikilvægur fyrir vistkerfi sjávar á norðurslóðum en kalkskel hans er honum nauðsynleg vörn. Höfundar komust að því að við það að breyta pH gildi sjávar í áætluð gildi fyrir árið 2100 þá óx skel bertálknanna 30% hægar en við eðlilegt gildi.

    Djúpsávarkórallinn sýndi enn minni vaxtarhraða eða um 50% hægari vöxt við fyrrnefndar breytingar og en hann þykir mikilvægur við að skapa búsvæði fyrir aðrar lífverur. Hægari vöxtur myndi því hafa neikvæð áhrif á þau vistkerfi.

    Höfundar lýsa áhyggjum sýnum af framtíð bertálknanna, djúpsjávarkóralla og þeirra lífvera sem eru háðar þeim til lífsafkomu ef súrnun sjávar verður líkt og spár segja til um. Þeir telja að til að koma í veg fyrir að súrnun sjávar verði vandamál viðlíka sem þessi rannsókn bendir til, þá verði að draga töluvert úr losun CO2 út í andrúmsloftið.

    Heimildir:

    Greinin um bertálknana: Impact of ocean acidification on a key Arctic pelagic mollusc (Limacina helicina) – Comeau ofl. 2009
    Greinin um djúpsjávarkórallana: Calcification of the cold-water coral Lophelia pertusa under ambient and reduced pH – Maier ofl. 2009