Loftslag.is

Blog – Loftslag.is er í vinnslu – verið er að uppfæra vef

  • Myndband: Á hvaða plánetu býrð þú?

    Það er alltaf hressandi að horfa á myndband eftir Peter Sinclair. Í síðustu viku kom þetta myndband út, en það fjallar um mýtu sem er nokkuð algeng, um að aðrar plánetur í sólkerfinu séu að hlýna og því geti hlýnunin á jörðinni ekki verið af mannavöldum.

    Hægt er að nálgast slatta af myndböndum eftir Peter með því að smella hér. Það er mjög líklegt að nokkur af myndböndunum hans eigi eftir að lenda inn á þessum síðum, svo fylgist með.

  • Frétt: Myndun íshellunnar á Suðurskautinu og styrkur koldíoxíðs í andrúmslofti

    Samkvæmt frétt frá Reuters hefur teymi vísindamanna, sem athugað hefur steinsýni í Afríku, fundið gögn, sem benda til þess að tenging sé á milli fallandi koldíoxíðs styrk í andrúmsloftinu fyrir um 34 milljónum ára og þess að íshellan á Suðurskautinu byrjaði að myndast. Þetta eru fyrstu niðurstöðurnar sem benda á þessa tengingu og þar með styrkir það gögn úr tölvumódelum sem sýnt hafa fram á að ísinn á heimskautasvæðunum vex þegar koldíoxíð er lítið í andrúmsloftinu en minnkar þegar magn koldíoxíðs er mikið í andrúmsloftinu.

    lion-prideTeymið sem kemur frá Cardiff, Bristol og Texas, varði mörgum vikum á búsksvæðum Afríku nánar tiltekið í Tansaníu, ásamt vopnuðum vörðum sem vörðu teymið fyrir árásum ljóna. Hópurinn safnaði gögnum úr örsmáum steingervingum sem gáfu til kynna hvernig magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu var fyrir um 34 milljónum ára. Styrkur koldíoxíðs, aðal gróðurhúsalofttegundarinnar, féll með dularfullum hætti á þessum tíma í atburðarrás sem kölluð er Eocene-Oligocene loftslags umbreytingin. “Þetta voru stærstu umskipti í loftslagi, frá útdauða risaeðlanna fyrir 65 milljónum ára síðan,” segir Bridget Wade frá A&M Háskólanum í Texas.

    Í rannsókninni var líkt eftir koldíoxíðs styrknum á þessu tímabili, sem sýndi fall í styrk koldíoxíðs í andrúmsloftinu á svipuðum tíma og íshellur Suðurskautsins tóku að myndast. Koldíoxíðs innihaldið í andrúmsloftinu var um 750 ppm (parts per million) á þessu tímabili. Þar sem ekki er hægt að finna sýnishorn af andrúmslofti frá þessum tíma þarf að notast við óbeinar mælingar. Í rannsókninni þurfti því að finna eitthvað sem hafði verið í efnafræðilegu sambandi við andrúmsloftið á þessum tíma. Gögnunum var safnaði nærri þorpinu Stakishari í Tansaníu, þar er að finna vel varðveitta örsmáa steingervinga sem sýnt geta fram á styrk koldíoxíðs í andrúmsloftinu á fyrri tímum.

    Rannsóknin er sú fyrsta sem sýnir fram á það sem margir vísindamenn bjuggust við að finna varðandi koldíoxíð innihald tímabilsins að styrkur koldíoxíðs hafi minnkað á tímabilinu. Þessi niðurstaða styður það sem flest loftslagsmódel, sem notuð hafa verið á þetta tímabil, hafa sýnt fram á. Sömu módel gera ráð fyrir því að bráðnun íshellunnar sé við u.þ.b. 900 ppm.

    Sjá frétt Reuters.

  • Frétt: Jarðvísindamenn senda hvatningu til Kaupmannahafnar

    Ráðstefna um bindingu koldíoxíðs í jarðlögum

    Jarðvísindamenn sem voru á 2ja daga ráðstefnu hér á landi um bindingu koldíoxíðs í jarðlögum, sendu hvatningu á ráðstefnu um loftslagsmál í Kaupmannahöfn. Ráðstefnuna munu helstu leiðtogar heims sitja og ræða loftslagsmál og lausnir þar að lútandi. Jarðvísindamennirnir sem sátu ráðstefnuna hér á landi vilja að lagt verði meiri áhersla á að fjarlægja og binda kolefni í jarðlögum, sem mótvægisaðgerð við hlýnun jarðar. Vísindamennirnir telja að þetta eigi að vera ein þeirra leiða sem farin verður til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar.

    „Við erum í vandræðum með CO2,“ sagði Wallace Broecker, sérfræðingur í loftslagsmálum við Columbia Háskóla í Bandaríkjunum. „Það er mun ódýrara að mæta þeim vandræðum nú en láta þau reka á reiðanum og mæta afleiðingum hlýnunar jarðar síðar“.

    CarbFix

    Rannsóknarverkefni sem miða að því að fanga kolefni voru kynnt á ráðstefnunni. CarbFix verkefnið sem er íslenskt rannsóknarverkefni sem OR hefur tekið þátt í var kynnt sérstaklega. CarbFix verkefnið kannar möguleika á því að binda CO2 sem karbónasteind í basalti. Talið er að möguleikar CarbFix felist m.a. í þvi að hraða náttúrulegu ferli kolefnisbindingar með því að binda kolefnið sem steind í jarðlögum.

    Nú þegar hafa verið þróðar nokkrar leiðir til að geyma kolefni. M.a. hefur olíurisinn Statoil Hydro gert tilraunir og dælt meira en 11 milljón tonnum af CO2 djúpt undir Norðursjó síðan 1996. Tore Torp sérfræðingu Statoil Hydro kynnti m.a. þessar aðferðir á ráðstefnunni.

    Ein af þeim aðferðum sem mikið hefur verið litið til, er sú að fanga útblástur CO2 t.d. beint frá orkuverum sem brenna jarðefnaeldsneyti. Á ráðstefnunni voru ræddir fleiri möguleikar. M.a. notkun gervi trjáa sem draga í  sig kolefni úr andrúmsloftinu. Það má því segja að það séu margar aðferðir í skoðun varðandi það að fanga CO2 úr andrúmsloftinu.

    Talið er að kostnaðurinn sem hlýst af hlýnun jarðar muni verða meiri eftir því sem lengra líður án aðgerða. Það þarf því að hvetja ráðamenn til að auka fjárveitingar í kolefnisbindingar. Þetta er m.a. það sem fram kom í máli Wallace Broecker í erindi á ráðstefnunni.

    hellisheidi
    Frá Hellisheiðarvirkjun

    CarbFix verkefnið er að kanna hvort hægt sé að draga úr losun CO2 beint frá uppsprettum CO2, eins og t.d. frá Hellisheiðarvirkjun. Kolefninu væri því dælt niður í jarðlögin sem kolsýrðu vatni, t.d. niður í hraunlögin á Hellisheiði. Efnahvörf við málmjónir í basaltberginu mun eiga sér stað sem með tímanum myndast karbónasteindir. Þetta er náttúrulegt ferli sem með aðferðum þeim sem notaðar eru í CarbFix verkefninu verður hraðað. Grannt er fylgst með þessum tilraunum hér á landi víða um heim, þar sem hún miðar að því að binda CO2 með varanlegri hætti en gerlegt hefur verið hingað til.

  • Heitt: Kólnun næstu 10-20 árin?

    Norður-Atlantshafsveifluvísirinn. Á leið til kólnunar?
    Norður-Atlantshafsveifluvísirinn. Á leið til kólnunar?

    Nú eru menn einstaklega heitir við að túlka ummæli Mojib Latif (einn af  loftslagsfræðingum IPCC) sem sagði að búast mætti við töluverðri kólnun á næstu 10-20 árum, samkvæmt loftslagslíkönum. Taldi hann að breytingar í Norður-Atlantshafssveiflunni (e. North Atlantic Oscillation – NAO) myndi tímabundið yfirgnæfa þá hlýnun sem verður vegna aukningar í gróðurhúsalofttegundum, eins og kemur fram í frétt NewScientist um málið.

    Þeir sem efast um (afneita) hlýnun jarðar af mannavöldum hafa gripið þetta á lofti. Menn eru þó ekki á eitt sáttir um túlkun á orðum Latifs, sjá hér og hér.

    Þessi skyndilega trú efasemdarmanna á loftslagslíkönum og loftslagsfræðingum IPCC er merkileg. Einnig skal bent á að þó að þessi “spá” hans rætist, þá segir það ekkert um hlýnun jarðar af mannavöldum. Náttúrulegar sveiflur í loftslagi er nokkuð sem loftslagsfræðingar eru almennt sammála um að muni gerast, þótt erfitt sé að spá fyrir um þær. Á eftir niðursveiflu náttúrulegra ferla sem hafa áhrif á loftslag kemur venjulega uppsveifla – þá er voðinn vís.

    Hitt ber þó að geta að svo virðist sem þetta hafi verið svona “Hvað ef” dæmi og svo virðist sem hann hafi sagt í lokin að þó þetta myndi gerast, þá kæmi hlýnunin óhjákvæmilega aftur.

  • Myndband: Ferðalag um frera jarðar

    Það er ekki á hverjum degi sem maður fer í flugferð um Suðurskautið, sífrera norðurslóða og Norðurpólinn á einum degi. Skellum okkur í ferðalag með NASA.

  • Frétt: Stærsta vindorkuver í heimi hóf starfsemi í Danmörku

    Stærsta vindorkuver heims hóf starfsemi í Danmörku síðastliðinn fimmtudag. Yfir 200.000 dönsk heimili geta búist við að rafmagn til heimilisins komi frá vindmylluorkuverinu Horns Rev II, sem statt er um 30 km. undan ströndum Danmerkur. Raforkuframleiðsla versins verður u.þ.b. 2,2% af heildarnotkuninni í konungsríkinu eða um 800 Gw/h árlega. Um 20% af allri raforkuþörf Danmerkur er nú framleidd með vindmyllum. Það kom fram í máli Connie Hedgaard umhverfis- og orkumálaráðherra Dana, að á næstu árum eru áætlanir um að 3-falda raforkuframleiðslu á grunnsævinu umhverfis Danmörk.

    Horns Rev II undan strönd Danmerkur
    Horns Rev II undan strönd Danmerkur
  • Frétt: Minnkandi losun koldíoxíðs í orkugeiranum í Bandaríkjunum vegna veiks efnahags

    Samkvæmt tölum frá EIA (Energy Information Administration) þá mun losun á koldíoxíði í orkugeiranum í BNA minnka um 6,0 %  á árinu 2009. Þetta er talið vera vegna þess að efnhagur landsins er veikur nú um stundir sem hefur áhrif á orkunotkun. Samkvæmt útreikningum þá er þetta um 8,5 % undir 2005 losun koldíoxíðs á orkusviðinu. Orkugeirin í BNA stendur á bakvið stóran hluta af losun koldíoxíðs í landinu. Hérundir sést hvernig breytingin hefur verið hlutfallslega, eftir því hvaðan losunin kemur. Það sem vekur athygli í tölunum er að notkun kola virðist hafa dregist meira saman en aðrir þættir. Spáin fyrir næsta ár gerir ráð fyrir að það verði aftur aukning í losun koldíoxíðs í orkugeiranum á milli ára. Samkvæmt orkufrumvarpinu sem liggur fyrir hjá Bandaríkjaþingi þá er þessi minnkun á losun koldíoxíðs í ár, er um helmingurinn af þeirri minnkun sem samkvæmt orkufrumvarpinu þarf að nást fyrir 2020.

    Hlutfallsleg breyting á losun koldíoxíðs á milli ára eftir uppsprettu
    Hlutfallsleg breyting á losun koldíoxíðs frá orkugeiranum í BNA á milli ára eftir því hvaðan losunin kemur. Fengið af heimasíðu EIA.
  • 19. september – Opnun Loftslag.is – 55.000 dagar

    Þann 19. september mun þessi heimasíða opna með formlegum hætti. Hún er ætluð sem upplýsingaveita um loftslagsbreytingar, orsakir og afleiðingar þeirra, ásamt hugsanlegum lausnum. Hér verða fréttir úr vísindaheiminum er varða loftslagsmál. Bloggfærslur ritstjórnar verða fastir liðir ásamt gestapistlum. Við munum leitast við að fá gestapistla um efni tengt loftslagsmálum á síðuna. Sagt verður frá ýmsum málefnum er varða þetta efni, ásamt myndböndum og ýmiskonar tenglum sem fjalla um málefnið. Farið verður yfir helstu vísindalegu hugmyndir á bakvið fræðin, þar sem farið er í kenninguna, afleiðingarnar, lausnirnar ásamt ýmsum spurningum og svörum og síðast en ekki síst verða mýtur í loftslagsmálum skoðaðar. Þessar síður eru í vinnslu en hægt er að kíkja á þær hér á síðunum að einhverju leiti fram að opnun. Eftir opnunina þann 19. september verður opnað fyrir athugasemdakerfið í fréttunum og blogginu og miðillinn verður lifandi með virkri þátttöku lesenda. Opnunin verður formlega klukkan 18 þann 19. september.

    Svante Arrhenius, þriðji frá vinstri í efri röð
    Svante Arrhenius, þriðji frá vinstri í efri röð

    19. september var valin vegna þess að þá eru liðnir 55.000 dagar frá fæðingu Svante Arrhenius. Hann var einn af þeim fyrstu sem gerði tilraun til að reikna út hugsanleg áhrif á aukningu koldíoxíðs í andrúmsloftinu. Hann fæddist þann 19. febrúar árið 1859 og dó 2. október 1927.

    Arrhenius áætlaði að við tvöföldun koldíoxíðs í andrúmsloftinu myndi hitastig hækka um 5-6°C, síðar lækkaði hann mat sitt, sama tala hjá IPCC er á bilinu 2-4,5°C. Það má kannski segja að hann sé einn af frumkvöðlum kenningarinnar um gróðurhúsaáhrifin. Arrhenius verður því einskonar verndari síðunnar.

  • Um síðuna

    Um síðuna

    Þessi síða er tilkomin að undirlagi síðustjórnenda, sem eru Höskuldur Búi Jónsson og Sveinn Atli Gunnarsson. Síðan er hugsuð sem upplýsingasíða um loftslagsmál. Hér verður tekið á ýmsum málum tengdum loftslagsmálum, til að mynda fréttatengdu efni, ýmsum skoðunum varðandi efnið og fræðilegu ívafi. Hinn vísindalegi grunnur, tenglar á hægri hluta síðunnar, er ætlað til upplýsingar um hvernig fræðin eru uppbyggð, hvaða afleiðingar eru taldar geta orðið vegna loftslagsbreytinga, hvers konar lausnir eru nefndar til sögunnar ásamt ýmsum spurningum og svörum sem við reynum að leita svara við. Einnig munum við fá gesti til að skrifa gestapistla þar sem velt verður upp ýmsum málefnum tengt loftslagsmálum.

    Um okkur

    Auglýsingar