Miðaldaverkefnið

Við höfum lengi ætlað að fjalla um heimasíðuna CO2 Science eða réttara sagt um Miðaldaverkefni þeirra og jókst áhuginn á því töluvert við að sjá nýlega íslenska bloggfærslu þar sem þeirri síðu er meðal annars hampað. Þeir sem halda síðunni út er “rannsóknamiðstöðin” Center for the Study of Carbon Dioxide and Global Change en markmið þeirra er að dreifa:

…factual reports and sound commentary on new developments in the world-wide scientific quest to determine the climatic and biological consequences of the ongoing rise in the air’s CO2 content

Heimasíðan virðist þó aðallega vera eins konar viðkomustaður þeirra sem að hafa efasemdir um kenninguna um gróðurhúsaáhrifin að leiðarljósi, enda er oft vísað til síðunnar þegar efasemdamenn benda á “staðreyndir” sem sýna fram á að hlýnun jarðar af mannavöldum sé byggð á hæpnum grunni.

Þarna virðist vera á ferðinni fjölskyldufyrirtæki, þar sem Idso fjölskyldan (Craig, Sherwood, Keith og Julene) ræður ríkjum. Þau segja að umræða um hvaða fjársterku aðilar standa á bakvið síðunni skipti ekki máli því að rannsóknirnar sem síðan bendir á tali sínu máli. Milli áranna 1998 og 2005 fékk þetta fjölskyldufyrirtæki um 90 þúsund dollara í styrk frá olíurisanum Exxon (á núverandi gengi er það um 12 milljónir króna).

Miðaldaverkefnið

Eitt af stærri verkefnum heimasíðunnar er að taka saman heimildir sem sýna eiga fram á að miðaldarhlýnunin sé meiri en hlýnunin nú og því sé ekkert óvenjulegt í gangi. Á heimasíðunni er hægt að fletta upp á miklum fjölda heimilda og línurita sem sýna miðaldarhlýnunina – með þeirra túlkunum. Með þessu nota þeir algenga aðferð sem sést oft meðal efasemdamanna, en það er að birta ekki eina rannsókn sem að “styður” þeirra málstað – heldur fjöldan allan af rannsóknum. Svo hafa þeir þær rannsóknir sem þeir telja að styðji þeirra skoðun mest áberandi og flokka niður eftir gæðum – samkvæmt þeirra mati. Þetta gera þeir í trausti þess að  fáir hafi nennu né getu til að fletta í gegnum allt gagnasafnið og benda á misfærslur við túlkun þeirra á hverri einustu rannsókn. Svo virðist ómögulegt að fá leiðréttingu – þegar búið er að benda þeim á misfærslur.

Á CO2 Science er einnig gríðarlega öflugt gagnvirkt kort sem bendir á staðsetningar þeirra rannsókna sem eru í gagnagrunni þeirra og með því að smella á punkta á kortinu þá fer maður inn á síðu þar sem samantekt birtist – eða öllu heldur túlkun CO2 Science á því sem greinin segir:

Mynd sem sýnir gagnvirkt kort CO2, hluti af Miðaldaverkefninu.

Aðrir hafa pikkað út hentugar rannsóknir til að benda á og einnig gert áhugavert gagnvirkt kort, sjá Science Sceptical Blog, en hér fyrir neðan er mynd af þeirra gagnvirka korti:

Mynd sem sýnir gagnvirkt kort af heimasíðunni Science Skeptical Blog, með nokkrum af þeim rannsóknum sem CO2 Science vísar í (smella til að stækka).

Þetta gagnvirka kort er nokkuð sniðugt og tilgangur þess er að sýna mönnum fram á að miðaldarhlýnunin sé vissulega hnattræn, á myndrænan hátt – enda kemur það í ljós að ef maður smellir á myndirnar þá sýnir hver mynd hitalínurit þar sem miðaldarhlýnunin er lituð skýrum stöfum, þar er einnig hægt að komast að heimildum um hvert línurit fyrir sig með ágripi (reyndar segja ágripin stundum aðra sögu en línuritin – sjá neðar).

Gagnvirkt og gott – heilbrigðar efasemdir?

Fyrir fólk með heilbrigðar efasemdir þá eru þessi gagnvirku kort mjög sniðug. Þegar ég segi heilbrigðar efasemdir, þá á ég ekki við efasemdir þar sem eingöngu er efast um það sem kemur út úr rannsóknum sem styrkja kenninguna um loftslagsbreytingar af völdum manna – heldur er að mínu mati um heilbrigðar efasemdir ef efast er líka um það sem birt er á heimasíðum svokallaðra efasemdamanna um loftslagsbreytingar af mannavöldum.

Þannig verður að skoða þessi kort með gagnrýnum huga, enda koma í ljós ýmsar brellur varðandi þessi kort og línurit þeirra, ef þau eru skoðuð nánar (ath. hér fyrir neðan verður ekki tæmandi lýsing á brellunum – enda vonlaust fyrir einn áhugamann um loftslagsmál að halda utan um þær allar – en þetta er allavega byrjunin). Við höfum áður fjallað um algengar brellur efasemdamanna þegar þeir eru að túlka gögn um miðaldahlýnunina:

Fyrsta brellan er að fela hitastigskvarðann og/eða gildi hitastigsins. Önnur brellan er að velja eitt landsvæði í heiminum og sú þriðja er að klippa í burtu eða hunsa mælingar sem sýna undanfarna hlýnun.

Heildaráhrifin skipta mestu máli varðandi kortið af Science Sceptical Blog. Þar eru áhrifin þau að valdar eru greinar sem eru þokkalega dreifðar um allan heim og sýna á einhverjum tímapunkti “miðaldahlýnun”. Miðaldahlýnun er sýnd innan gæsalappa, því að í sumum tilfellum er eingöngu verið að tala um tímabilið sjálft – en ekki hitastig – því ef lesnar eru greinar sem liggja á bak við, þá má meðal annars finna línurit sem sýna breytingu í úrkomu, t.d. Zhang 2003 – rannsókn frá Tíbet, en þar segir í ágripi:

High-resolution climate proxy records covering the last two millennia on the Qinghai-Tibetan Plateau are scarce yet essential to evaluation of the patterns, synchroneity and spatial extent of past climatic changes including those in the Medieval Warm Period (MWP) and the Little Ice Age (LIA). Here we present a 2326-year tree-ring chronology of Sabina przewalskii Kom. for Dulan area of northeastern Qinghai-Tibetan Plateau. We find that the annual growth rings mainly reflect variations in regional spring precipitation. The greatest change in spring precipitation during the last two millennia seems to occur in the second half of the 4th century. The North Atlantic MWP was accompanied by notable wet springs in the study region during A.D. 929–1031 with the peak occurring around A.D. 974. Three intervals of dry springs occurred in the period of LIA. Our tree-ring data will facilitate intercontinental comparisons of large-scale synoptic climate variability for the last two millennia.

Feitletranir eru mínar. Ég vek athygli á að þetta er trjáhringjarannsókn – sem hefur í gegnum tíðina þótt til marks um léleg gögn (af efasemdamönnum) – en augljóst er hér að greinarhöfundar túlka sem að á miðöldum hafi verið vætutíð í Tíbet.

Útfærsla á annarri brellunni er að þeir velja gögn frá viðkomandi stað sem sýna að þeirra mati best hversu áberandi hlýtt var hnattrænt á miðöldum (sjá mynd hér fyrir ofan). Fæst þessara línurita sýna síðan hvernig hitastig er í dag og því er verið að nota þriðju brelluna sem einnig er vísað til í brellunum þrem.

Að auki er ein brellan sú að hafa miðaldarhlýnunina illa skilgreinda, en samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum þá er miðað við að miðaldahlýnunina hafi verið á tímabilinu 950-1250, en ósamræmi gætir á línuritunum sem þar eru birt. Skiptir þá engu máli hvort hlýnunin sé í kringum árið 800, 1100 eða 1400 – öll eru þau til marks um hnattræna hlýnun á miðöldum – að þeirra mati. Ég tók random tvær myndir frá sitthvorum heimshlutanum, önnur myndin sýnir hitastig á Grænlandi og hin á Nýja Sjálandi.

Miðaldahlýnunin á Grænlandi samkvæmt Johnsen 2001.

Eins og sjá má er sterk miðaldahlýnun í kringum árið 1000 á Grænlandi.

Miðaldahlýnunin samkvæmt Wilson 1979.

Hérna er miðaldahlýnunin sterkust í kringum miðja fjórtándu öld.

Þarna kemur einnig í ljós annar galli – en það er ásókn efasemdamanna í gömul gögn, sem eflaust er búið að vinna meira með og uppfæra miðað við nýjustu rannsóknatækni – sem ætla má að séu því orðin nákvæmari – það er allavega erfitt að halda því fram að ekki séu til betri og nýrri gögn um fornloftslag á Nýja Sjálandi, en rannsókn á súrefnissamsætum frá árinu 1979. Annars konar ásókn í gömul gögn má finna, eins og t.d. að nota gögn frá Loehle 2007, þegar réttara væri að nota leiðréttu útgáfuna (samanber færslu á loftslag.is – Miðaldir og Loehle).

En þegar bornar eru saman þessar tvær ólíku niðurstöður um hvenær miðaldarhlýnunin var eins og sést á myndunum tveimur hér fyrir ofan, hvernig er þá hægt að segja að þarna sé um að ræða hnattræna hlýnun? Það er ákveðin ráðgáta – allavega fyrir þá sem skoða gögnin með gagnrýnni hugsun.

Ofangreind lýsing á að sjálfsögðu einnig við um CO2 Science – þótt ég sé að lýsa því sem ég sé á Science Skeptical Blog síðunni, en Á CO2 Science handvelja þeir ekki gögn til að sýna á korti, heldur birta lista yfir mismunandi svæði og þar undir er gögnin flokkuð niður (auk gagnvirka kortsins sem ég bendi á ofarlega í þessari færslu). Á móti kemur að Science Skeptical Blog birtir ágripin þegar maður smellir á gagnvirka kortið – en á CO2 Science kemur eingöngu þeirra eigin túlkun á gögnunum. Því má segja að báðir þessir aðilar séu sekir um ákveðnar rangtúlkanir – hvor á sinn hátt.

Sem dæmi, þá túlkar CO2 Science grein nokkra frá Ölpunum (Mangini o.fl. 2005) á undarlegan hátt en þar segja þeir að hitastig á miðöldum hafi verið hærra en nú. Á CO2 Science stendur í samantekt þeirra:

… at three different points during the MWP, their data indicate temperature spikes in excess of 1°C above present (1995-1998) temperatures of 1.8°C.

Aftur á móti segir í ágripinu:

…maxima during the Medieval Warm Period between 800 and 1300 AD are in average about 1.7 °C higher than the minima in the Little Ice Age and similar to present-day values.

Aðra rangtúlkun á gögnum vísindamanna má sjá með því að skoða sjávarhitagögn úr Indlandshafi (Oppo o.fl. 2009). Á CO2 Science er sagt berum orðum:

Reconstructed SSTs were, in their words, “warmest from AD 1000 to AD 1250 and during short periods of first millennium.” From the authors’ Figure 2b, adapted below, we calculate that the Medieval Warm Period was about 0.4°C warmer than the Current Warm Period.

Síðan breyta þeir mynd 2b úr greininni og finna á einhvern óskiljanlegan hátt að miðaldahlýnunin hafi verið 0,4°C hærri en núverandi hlýnun:

Mynd CO2 Science - unnin upp úr Oppo o.fl. 2009, sem þeir segja að sýni að miðaldarhlýnin hafi verið 0,4°C hærri en nú.

Upprunalegu myndina má sjá hér fyrir neðan:

Mynd úr grein Oppo o.fl. 2009. Mynd 2b fyrir miðju sýnir greinilega að núverandi hlýnun er meiri en miðaldahlýnunin (úr nature).

Þegar búið er að bæta við línuriti sem sýnir að auki fornloftslag samkvæmt Mann o.fl. (þar sem núverandi hiti er tekin með), þá sést það enn greinilegar að núverandi hiti er að minnsta kosti jafn hár ef ekki hærri en miðaldarhlýnunin:

Mynd sem sýnir Oppo o.fl. 2009 auk línurits frá Mann o.fl. 2008.

Merkilegast er þó að mínu mati þegar þessar efasemdasíður eru að benda á gögn sem eiga að sýna að miðaldahlýnunin sé einstök og meiri en núverandi hlýnun – og nota greinar og línurit, eins og frá Paulsen o.fl. 2003 til að staðfesta það:

Miðaldahlýnun Paulsen o.fl. 2003.

Hér má sjá stutta miðaldahlýnun í kringum árið 1400 – frekar litla hlýnun má sjá á tímabili miðaldahlýnunarinnar, sem á að vera á milli 950 og 1250. Auk þess er hlýnunin nú ansi skýr.

Niðurstaða

Hér hefur verið sýnt fram á að ekki er á allt kosið varðandi CO2 Science og systursíðu hennar Science Skeptical Blog. Ýmsum brellum er beitt til að afvegaleiða lesandann til að fallast á það að hlýnunin á miðöldum hafi verið hnattræn og meiri en hlýnunin nú. Kosturinn við síðurnar er að þar eru teknar saman fjöldinn allur af greinum um fornloftslag – gallinn er að við vitum ekki hvort þar er um að ræða niðurstöður sem búið er að leiðrétta – eða bæta. Auk þess sem taka verður teikningum og túlkunum höfunda síðunnar með mikilli varúð, vegna rangtúlkana sem að oft á tíðum eru ekki augljósar nema maður skoði greinarnar sem á bak við standa.

Vísindamenn hafa reyndar notað mikið af þessum gögnum til að gera samanburð á hlýnuninni nú og þá (Mann o.fl. 2008):

Hokkístafurinn hinn nýji (Mann og fleiri 2008). Hann sýnir hitastig síðustu 1800 ár. Rauða línan sínar beinar mælingar en ýmsar óbeinar mælingar (proxý) í ýmsum litum.

Reyndar er einn punktur sem að menn gleyma þegar þeir reyna að gera mikið úr miðaldahlýnuninni – hann er sá að ef hún er meiri en vísindamenn almennt telja, þá er meiri hlýnun í pípunum en vísindamenn búast við. Því það þýðir að jafnvægissvörun loftslags við breytingum í geislunarálagi er þá meiri – og af því leiðir að hlýnun af völdum aukinna gróðurhúsalofttegunda verður meiri við hið aukna geislunarálag sem er að verða vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum. Því ættu efasemdamenn um hnattræna hlýnun af mannavöldum að forðast að gera mikið úr miðaldahlýnuninni – þ.e. ef þeir vilja halda fram að ekki sé von á mikilli hlýnun í framtíðinni.

Heimildir og ítarefni

Það verður að segjast sem er að það góða við ofantaldar heimasíður sem ég var að skoða, er að þær vísa nokkuð vel og rétt í heimildir fyrir þeim rannsóknum sem að þær eru að mistúlka. Því vísa ég á þær ef menn vilja skoða frumheimildir – auk Google Scholar til að finna þær ef ekki er tengill beint á greinarnar.

Aðrar umfjallanir um CO2 Science og rangtúlkanir þeirra er t.d. að finna á Climate Shift (einn höfunda að grein kvartar yfir rangtúlkun), Oxford Kevin (þar fékk ég umfjöllun um Oppo o.fl. 2009 sem ég notaði í þessari færslu) og Climate Feedback (ritstjóri tímaritsins Nature Climate, sem hefur göngu sína á næsta ári, fjallar um rangtúlkun á grein – áhugaverðar athugasemdir einnig).

Tengt efni á loftslag.is

  • Miðaldir og Loehle
  • Miðaldabrellur
  • Mýta: Hokkíkylfan er röng
  • Hvað er rangt við þetta graf?
  • Hrakningar Lord Monckton – 1. hluti og 2. hluti
  • Staðnir að óvönduðum vinnubrögðum
  • Jafnvægissvörun loftslags er lág
  • Medievel project – english version

    Athugasemdir

    ummæli

    About Höski

    Áhyggjumaður um loftslagsmál