Loftslag.is

Tag: Afneitun

  • Hvað er rangt við þetta graf?

    Við fréttum af þessu grafi hér undir sem kemur úr þessu PDF-skjali og er afurð m.a. tveggja vel þekktra efasemdarmanna um hlýnun jarðar af völdum aukningar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum, þeim Willie Soon (sem er stjarneðlisfræðingur) og Lord Monkton (sem er ekki Lord), sjá heimasíðu SPPI. Í lok skjalsins segir meðal annars í aðdraganda þess að grafið er sett fram:

    Clearly, it is now time for us all to use the grey matter between our ears and to think for ourselves!

    Ætli það sé ekki ráð að nota gráu sellurnar og grannskoða þetta graf. Gröf þessu líkt hafa einmitt sést á ýmsum blogg og heimasíðum og eiga að gefa til kynna vöntun í fylgni hitastigs og aukins styrks CO2. En hvað er rangt við þetta graf?

    Það vill svo vel til að Michael Tobis hefur gert greiningu á svipuðu grafi og fundið þrjár blekkingar í því sem mætti kalla tæknileg atriði gagnanna og meðhöndlun þeirra í grafinu.

    1. Sitthvor aðferðin við vinnslu gagnanna er notuð. Hitastigið er sett fram sem mánaðar meðaltal, en styrkur CO2 virðist vera án árstíðabundina sveiflna. Þetta gerir það að verkum að á meðan styrkur CO2 eykst jafnt og þétt, þá lítur út fyrir miklar sveiflur í hitastiginu, sem ekki eru í takti hvort við annað.
    2. Val á skölum á lóðrétta ásunum ýkir áhrifamikið breytinguna í styrk CO2. Á síðustu hundrað árum hefur styrkur CO2 hækkað um u.þ.b. 100 ppm, en hitastig um 0,8°C. En á grafinu eru 0,8°C settar á lóðrétta ásinn á móti aðeins 35 ppm á CO2 skalanum, sem þýðir að styrkur CO2 er ýktur sem nemur þreföldun á móti hitastigskvarðanum.
    3. Mjög stuttur tímarammi fjarlægir 90% af mælingum og skilur okkur eftir með allt of lítið af hitastigsgögnum til að ákvarða marktæka leitni. Loftslag er oft skilgreint sem 30 ára tölfræði veðurlags, þannig að ekki ætti að setja fram leitni með notkun á gögnum sem ná aðeins yfir 15 ár.

    Michael Tobis hefur gert endurbætt graf, sem ekki inniheldur þessar villur.

    40 ár af gögnum ætti að duga til að ná fram marktækum samanburði á gögnunum. Lóðrétti skalinn er þarna samanburðarhæfur fyrir bæði gagnasettin og þetta eru hvorutveggja gögn sem eru unnin út frá mánuðum, með þeim sveiflum sem því tilheyra á báðum tilfellum.

    Efra grafið er enn eitt dæmið um þær blekkingar sem stundum sjást úr röðum þeirra sem telja ekki að vísindin geti veitt svör við spurningum varðandi hlýnun jarðar við aukningu gróðurhúsalofttegunda.

    Heimildir:

    Tengt efni af Loftslag.is:

  • Miðaldabrellur

    Bloggfærsla þýdd af Skeptical Science og einnig birt þar. Höfundur Mark Richardson

    Hokkíkylfan er víðfræg í heimi loftslagsbreytinga, en efasemdamenn eiga þó sín eigin línurit sem þeir segja að sýni fram á að hún sé röng. Eitt af þeim vinsælli er línurit frá árinu 1990 sem tekið er úr IPPC skýrslu, sem sýnir hlýnun miðalda.


    Mynd 1 – Mat fyrstu úttektar IPCC á hitabreytingum í Evrópu frá árinu 900.

    Hér fyrir neðan má síðan sjá hvernig línuritið leit út í “heimildamynd” Durkin, The Great Global Warming Swindle:


    Mynd 2 – Sama mynd og ofan, lítillega breytt fyrir The Great Global Warming Swindle, takið eftir textanum NOW.

    Niðurstaða nýjustu rannsókna benda til að miðaldarhlýnunin hafi að meðaltali verið kaldari en hitastig er í dag, en myndir eins og The Great Global Warming Swindle, bloggsíður og hugmyndabankar (e. think tanks) olíuiðnaðarins segja annað – og nota til þess myndir eins og hér fyrir ofan. Svo virðist sem þessar myndir séu byggðar á línuriti sem birtist í grein eftir Lamb 1965:

     

    Gögnin eru hitastigsbreytingar fyrir mið England, en eftir 1680 þá er notað 50 ára meðaltal á hitamælingum HadCET. Sem betur fer hafa mælingar haldið áfram frá því þessu línuriti lauk (sem var í kringum 1920), þannig að hægt er að athuga hver hitinn nú er í raun og veru. Á mynd 4 sjáum við HadCET með 10 ára meðaltali (punktalína) og 50 ára meðaltali (heil lína). Við framlengjum 50 ára meðaltalið og þá kemur í ljós að hitastig nú er um 0,35°C meira en í síðasta punkti í grein Lamb. En þar sem hlýnun jarðar jókst gríðarlega upp úr 1980 þá vantar töluvert upp á að það sýni rétta mynd, miðað við stöðuna í dag. Því er gott að hafa til samanburðar 10 ára meðaltal og þá sjáum við að hitastigið hefur aukist um sirka 1°C frá síðusta punkti Lamb.


    Mynd 4 – HadCET gögn frá árinu 1680, með 10 ára hlaupandi meðaltali (punktalína) og 50 ára hlaupandi meðaltali (heil lína).

    Ef skoðuð er aftur mynd 2, þá er merkt inn hægra megin, með stórum stöfum, NOW og svo virðist vera sem að sú mynd sé því í raun að segja okkur að núverandi hitastig sé hið 50 ára meðaltalið sem er með miðgildi á öðrum áratug 20. aldar. Þar sem við lifum á 21. öldinni þá er það svolítið kjánalegt. Hér fyrir neðan eru merkt inn tvö NOW. Hið neðra sýnir nýjasta 50 ára meðaltal og hið efra sínir nýjasta 10 ára meðaltal:


    Mynd 5 – Hvar erum við nú? Neðri línan sem merkt er NOW sýnir hvar við erum miðað við nýjasta 50 ára hlaupandi meðaltal. Efri sýnir aftur á móti hvar við erum miðað við 10 ára meðaltal.

    The Great Global Warming Swindle og aðrar heimildir efasemdamanna sem sýna þessa mynd og segja að miðaldarhlýninin hafi verið heitari en hitinn er í dag, eru ekki að sýna heildarmyndina. Þær eru að sýna, að á mið Englandi var hlýrra í kringum árið 1200 heldur en það var árið 1920 – í raun eru þessar heimildir einnig að sýna að síðasti áratugur er heitari en hvaða 50 ára tímabil línuritsins, að meðtöldu miðaldarhlýnuninni, þ.e. ef við framlengjum þau gögn sem til eru til dagsins í dag.

    Margar samskonar myndir eru í hávegum hafðar á efasemdasíðum, en þessi mynd er einstaklega uppfræðandi, þar sem hún sýnir þrjár af algengustu brellunum við að fela hlýnunina. Fyrsta brellan er að fela hitastigskvarðann og/eða gildi hitastigsins. Önnur brellan er að velja eitt landsvæði í heiminum og sú þriðja er að klippa í burtu eða hunsa mælingar sem sýna undanfarna hlýnun.

    Það virðist vera til töluvert af dæmum frá ýmsum svæðum heims þar sem hlýrra var á miðöldum og þó að flestar rannsóknir bendi til að, hnattrænt séð, nú sé hlýrra en þá, þá er ljóst að vísindamenn halda áfram að rannsaka fornloftslag (ef það var hlýrra, þá myndi það benda til að jafnvægisvörun væri hærri). Það er þó mikilvægt að vega og meta sönnunargögn sem að manni er rétt – þau geta verið misvísandi eins og dæmin sanna.

    Tengdar færslur

  • Hrakningar Lord Monckton – 2. hluti

    Í þessu myndbandi Greenman3610, öðru nafni Peter Sinclair, skoðar hann á kaldhæðin hátt rökleysur Lord Monckton. Lord Monckton hefur verið iðinn við að leggja fram fullyrðingar um að vísindin á bak við loftslagsfræðin séu röng, að engin hlýnun eigi sér stað og ýmsu fleiru í þeim dúr. Að mati Greenman3610 á því hversu mikið “þvaður, markleysur, bull og vitleysa” kemur frá Lord Monckton varðandi fræðin, þá gerði hann tvö myndbönd um hann, fyrri hlutann má sjá; Hrakningar Lord Monckton – 1. hluti. Eftirfarandi er lýsing Greenman3610 á myndbandinu:

    Hann minnir á persónu beint út úr Monty Python atriði, en Lord Monckton er uppáhald þeirra sem óska þess í örvæntingu að hugarburður afneitunarsinna loftslagsvísindanna sé réttur. Það er mikið meira efni en hægt er að koma fyrir í einu myndbandi, þar af leiðandi var tveggja þátta röð nauðsynleg, bara til að  byrja að fara yfir þá uppsprettu rangfærslna sem Lord Monckton ber á borð.

    Að venju eru myndbönd Greenman3610 nokkuð kaldhæðin, en þau innihalda oft nokkuð fróðlegan vinkil á málin, sjá önnur myndbönd frá honum hér.

    Tengt efni:

  • Hrakningar Lord Monckton – 1. hluti

    Í þessu myndbandi Greenman3610, öðru nafni Peter Sinclair, skoðar hann á kaldhæðin hátt rökleysur Lord Monckton. Lord Monckton hefur verið iðinn við að leggja fram fullyrðingar um að vísindin á bak við loftslagsfræðin séu röng, að engin hlýnun eigi sér stað og ýmsu fleiru í þeim dúr. Að mati Greenman3610 á því hversu mikið “þvaður, markleysur, bull og vitleysa” kemur frá Lord Monckton varðandi fræðin, þá hefur hann boðað annan hluta í beinni útsendingu á ClimateTv þann 15. apríl. Eftirfarandi er lýsing Greenman3610 á myndbandinu:

    Hann dúkkar allsstaðar upp í umræðu afneitunarsinna loftslagsvísindanna.
    Hann er ekki vísindamaður. Hann er með gráðu í blaðamennsku.
    En hvernig hefur honum tekist að selja sig sem aðal talsmann þeirra sem afneita loftslagsvísindunum?
    Í fyrsta lagi, eins og allir góðir sölumenn, þá þekkir Lord Monckton viðskiptavini sína.

    Að venju eru myndbönd Greenman3610 nokkuð kaldhæðin, en þau innihalda oft nokkuð fróðlegan vinkil á málin, sjá önnur myndbönd frá honum hér.

    Tengt efni:

  • Vísindin hýdd

    Í þessu myndbandi skoðar Greenman3610 hvar best er að nálgast áreiðanlegar heimildir um loftslagsvísindin og einnig fer hann yfir mál þar sem fram kom frétt, á Daily Mail, um að Phil Jones (loftslagsvísindamaður) hefði fullyrt að engin hlýnun hefði verið síðan 1995, sem reyndist ekki sannleikanum samkvæmt, en það kom þó ekki í veg fyrir að sumir fréttamiðlar og fjöldin allur af bloggsíðum endurómuðu það sem einhverja staðreynd og reyndu hýða vísindin, ef svo má að orði komast. En hvernig nálgast maður upplýsingar um vísindin? Eftirfarandi er lýsing Greenman3610 á myndbandinu:

    Þar sem ég er ekki vísindamaður, þá dregur hið mikla magn upplýsinga um hnattrænar loftslagsbreytingar, úr mér kjarkinn þegar kemur að því að skoða þær. Ég hef komist að því að lang áreiðanlegustu heimildirnar koma úr virtum ritrýndum tímaritum. En tímarit hafa mörg löng orð, mikið af smáu letri og lítið af myndum, sem auðveldar mér ekki lífið. Það er því auðvelt að sjá hvers vegna þeir sem afneita loftslagsvísindunum líkar ekki við þau. En það er þar sem staðreyndirnar eru.

    Hvernig er hægt að bera kennsl á góð vísindatímarit?

    Að venju eru myndbönd Greenman3610 nokkuð kaldhæðin, en þau innihalda oft nokkuð fróðlegan vinkil á málin, sjá önnur myndbönd frá honum hér.

    Ítarefni:

  • Staðnir að óvönduðum vinnubrögðum

    Tvær staðhæfingar

    Tvær af þeim staðhæfingum sem hafa verið nokkuð áberandi meðal efasemdarmanna um hnattræna hlýnun hafa verið hraktar sem verandi alrangar og byggðar á óvönduðum vinnubrögðum.

    Aðdragandi málsins er sá að tvær staðhæfingar um mælingar á hitastigi hefur verið haldið uppi af efasemdarmönnum (aðallega í BNA). Þessar tvær staðhæfingar eru:

    1. Að mikil fækkun í fjölda mælistöðva, fyrir hitastig, sem var gerð árið 1992 hafi leitt til rangrar hitaleitni (þ.e. að hitaleitnin hafi því sýnt meiri hækkun hitastigs en rétt sé)
    2. Að vinnsla gagna (leiðrétting gagna fyrir hverja mælistöð) hafi einnig leitt til rangrar hitaleitni.

    Þessum staðhæfingum er m.a. haldið fram af þeim Anthony Watts og Joseph D’Aleo í skýrslu sem þeir birtu í síðasta mánuði. Í skýrslunni velta þeir ýmsu fram og staðhæfa ýmislegt, m.a. um þýðingu þess að fækka mælistöðvum og um vinnslu gagna. 

    Aðferðafræði við vinnslu gagna

    Til að byrja með er væntanleg gott að skoða aðferðafræðina við að reikna hnattrænt meðaltal frá veðurstöðvum. Aðferðafræðin er í grunninn þrískipt: 

    1. Skipta þarf jörðinni upp í reiti
    2. Reikna meðalhitabreytingu fyrir reitinn með því að nota allar stöðvar innan hans
    3. Reikna hnattrænt meðaltal allra reita.

    Í 2. liðnum eru ýmis vandamál sem stafa af því að stöðvarnar í reitunum eru mismunandi, það eru göt í reitunum, stöðvarnar ná yfir misjöfn tímabil o.fl. Stórt vandamál er hvað gera skal við reiti þar sem fáar stöðvar eru. 

    Í 3. liðnum þarf að taka tillit til flatarmál reitsins, sem þarf að vera vegið meðaltal. Taka þarf ákvörðun um hvað gera á við reiti sem hafa göt, vegna vöntunar í mæliraðir. 

    Tamino

    Í færslu eftir Tamino, á síðunni Open Mind, eru staðhæfingar efasemdarmannanna athugaðar. Það er svo sem ekki vitað hver Tamino er, en jafnvel er talið að hann sé stærðfræðingur. Það er oft vitnað í hann í loftslagsumræðunni og m.a. má finna tengingu á síðuna hans á heimasíðu RealClimate og einnig rakst ég á þessar upplýsingar um Tamino á loftslagssíðu Yale háskóla. Það má því segja að borin sé ákveðin virðing fyrir færslum hans á Open Mind síðunni. Tamino notar aðferð við að reikna ársgildin, svipað og útskýrt er hér að ofan, sem virðist virka vel varðandi ársgildi hitastigs. 

    Staðhæfingarnar athugaðar

    Til að rannsaka 1. staðhæfinguna, reiknaði Tamino út hver munurinn á norðurhvelinu var fyrir þær mælistöðvar sem hætt var að nota eftir 1992 og þeim sem voru notaðar voru áfram eftir 1992, til að sjá hvort að það væri marktækur munur á leitni hitastigs á milli þessara tveggja þátta á öldinni þar á undan.  Þannig á að vera hægt að sjá hvort líklegt væri að myndast hefði einhver skekkja við það að hætta að nota mælistöðvarnar 

    Til að rannsaka 2. staðhæfinguna, reiknaði hann út meðalhitastig stöðva á norðurhvelinu með því að nota óleiðrétt gögn og bar það svo saman við leiðrétt meðalhitastig eins og NASA GISS notar, til að sjá hvort að það sé marktækur munur á leitninni, með eða án leiðréttinga eins og GISS notar. 

    Fyrst skulum við líta á samanburð á gögnunum fyrir og eftir lokun mælistöðva

     

    Það má sjá að það er smávægilegur munur á niðurstöðum þessara tveggja gagnasetta. Tamino reiknaði einnig mismun þessara gagnasetta. Hér má sjá munin á gögnunum fyrir og eftir lokun mælistöðva. 

      

    Með því að bera saman mismun á milli stöðvanna, má sjá að stöðvarnar sem var lokað sýna ekki fram á ranga hitaleitni – ef eitthvað er, þá sýna stöðvarnar sem notaðar voru áfram, aðeins minni hlýnun en þær sem hætt var að nota, þó svo munurinn sé ekki tölfræðilega marktækur. 

    Svo að staðhæfingunni um að leiðréttingar á hitastigsgögnum hafi leitt til falskrar niðurstöðu, þá er hér munurinn á norðuhvelinu, með því að nota óunnin gögn frá GHCN og bera það saman við leiðrétt gögn frá NASA GISS. 

      

    Enn og aftur hafa staðhæfingar efasemdarmanna sýnt sig að vera rangar. Leiðréttingar þær sem NASA GISS hafa frekar minnkað, heldur en aukið nýlega hlýnun. 

    Staðhæfingin um að fækkun mælistöðva beri ábyrgð á einhverri eða mestu af hitaleitni gagnanna undanfarna áratugi, er því samkvæmt athugun Tamino, algerlega og sannanlega röng. Staðhæfingin um að leiðrétting og vinnsla gagna eins og hjá NASA GISS hafi leitt til rangrar hitaleitni er einnig algerlega og sannanlega röng. 

    Niðurlag

    En hvað segir þetta okkur um þær aðferðir sem sumir efasemdarmenn nota? Þarna virðast þeir Watts og D’Aleo hafa sáð efasemdum meðal almennra borgara, byggða á staðhæfingum sem ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum. Spurningin er einnig hvort þeir hafi ekki gert þennan samanburð áður en þeir héldu þessum staðhæfingum fram. Ef þeir gerðu það og fengu þessa niðurstöðu (það bendir svo sem ekkert til að þeir hafi gert þennan samanburð), þá hafa þeir haft rangt við í að fullyrða um áhrif þessara þátta á leitni hitastigs í mæligögnum. Ef þeir hafa ekki framkvæmt þessa útreikninga en samt haldið fram þessum staðhæfingum þá hafa þeir einnig haft rangt við eða í besta falli ekki kunnað til verka. Það eru því óvönduð vinnubrögð, að mínu mati, að fullyrða um leitni hitastigs á þann hátt sem Watts og D’Aleo gera í skýrslu sinni, án þess að sýna fram á það með samanburði á mæligögnum eins og Tamino sýnir fram á. Tamino vinnur nú hörðum höndum að því að fá rannsókn sína birta í ritrýndu tímariti.

    Ítarefni og heimildir:

    Það hafa fleiri skoðað þetta á sama hátt og Tamino og komist að svipaðri niðurstöðu:

  • Myndband: 32.000 sérfræðingar

    smokeÍ þessu myndbandi frá Greenman3610, fjallar hann um lista sem samkvæmt mýtunni inniheldur 32.000 nöfn sérfræðinga sem skrifað hafa undir sem mótvægi þess að hnattræn hlýnun sé af mannavöldum. Er það satt? Ekki ef marka má þetta myndband, en til að komast að kjarna málsins, þá hittum við fyrst fyrir vísindamann sem einu sinni var framarlega á sínu sviði.

    Það má segja um myndbönd Greenman3610 (Peter Sinclair) að myndbönd hans eru með hans persónulega stíl og verða að teljast nokkuð kaldhæðin á köflum. En það felast þó alloft, nokkuð góðir punktar í hans sýn á þessi mál. Það má sjá fleiri myndbönd frá Greenman3610 hér á síðunum, einnig má geta myndbanda eftir Potholer54 fyrir lesendur.

  • Blogg: Samhengi hlutanna

    Alla síðustu viku þá var umræðan sterk í ýmsum bloggmiðlum og fréttamiðlum, bæði hér heima og erlendis, um að vísindamenn við Háskólann í East Anglia (CRU) hefðu stundað falsanir á loftslagsgögnum og hefðu fleira misjafnt í pokahorninu (sjá Blogg: Að stela bíl og nota fyrir sjónvarp).

    Svo virðist sem þetta mál sé þannig að vexti að sumir telja að hægt sé að afneita heilli öld loftslagsrannsókna og afgreiða hlýnun jarðar af mannavöldum sem eitt risastórt samsæri. Því miður er það mikill misskilningur á því hvernig vísindin virka.

    Þótt við þyrftum að henda öllu því sem þau hjá CRU hafa gert (sem ekkert bendir til) þá hefði það lítil sem engin áhrif á stöðu málanna í dag. Það eru aðrar stofnanir sem stunda loftslagsrannsóknir, t.d. má finna óháðar hitastigsmælingar á heimasíðu NASA, NOAA og JMA – sem sýna svipaða sögu og gögnin frá CRU.

    Þetta eru ekki einu gögnin sem sýna að hitastig fer hækkandi, sem dæmi má nefna gögn um hörfun jökla, sjávarstöðubreytingar, úr ískjörnum, snjóalög, sjávarhita og hafísmælingar, svo við nefnum nokkur af þeim gögnum sem vísindamenn nota til að staðfesta hlýnun jarðar. Út frá þessum gögnum hafa þúsundir vísindamanna skrifað tugþúsundir greina um vandamálið: Hlýnun jarðar af mannavöldum.

    Það verður að teljast ansi langsótt að vísindamenn séu búnir að fikta við öll þessi gögn og séu allir í einhverju stórkostlegu samsæri. Ef það kemur svo í ljós að vísindamenn CRU hafi átt við gögnin, þá er það vissulega ámælisvert fyrir þá vísindamenn – en það segir ekkert um alla hina.

    Hér hefur verið safnað saman tenglum á öll helstu loftslagsgagnasöfn sem í boði eru: Data Sources

    Í því samhengi er gott að rifja upp frétt frá því í síðustu viku, en þá kom út áhugaverð skýrsla um stöðu þekkingar á loftslagsbreytingum sem orðið hefur frá því að IPCC skýrslurnar árið 2007 komu út. Þessi skýrsla er unnin upp úr ritrýndum greinum og mikið af þeim gögnum sem vísað er í hér fyrir ofan voru notuð við gerð greinanna sem að skýrslan byggir á.

    Hér eru nokkrar myndir úr skýrslunni, en þær tala sínu máli (ásamt texta).

    Efri myndin sýnir meðal hitastigsbreytinguna fyrir 2001-2007 samanborið við meðaltal áranna 1951-1980. Neðri myndin sýnir meðalhitastig jarðar frá 1850-2009. Síðasti punkturinn eru bráðabirgðaniðurstöður fyrir árið 2009 (rauður kassi).
    Efri myndin sýnir meðal hitastigsbreytinguna fyrir 2001-2007 samanborið við meðaltal áranna 1951-1980. Neðri myndin sýnir meðalhitastig jarðar frá 1850-2009. Síðasti punkturinn eru bráðabirgðaniðurstöður fyrir árið 2009 (rauður kassi).
    Diagnosis-mynd04
    Hnattrænn hiti jarðar samkvæmt gögnum frá NASA GISS frá 1980 og til dagsins í dag. Rauða línan sínir gögn á ársgrundvelli, rauði ferningurinn sýnir bráðabirgðagögn fyrir árið 2009. Græna línan sýnir 25 ára línulega leitni gagnanna (0,19°C á áratug). Bláa línan sýnir tíu ára leitnilínur fyrir árin 1998-2007 (0,18°C á áratug) og fyrir árin 1999-2008 (0,19°C á áratug). Þetta sýnir mikið samræmi við það sem kom fram í spám loftslagslíkana sem IPCC notaði.
    Heildarsvæði Grænlandsjökuls þar sem afkoma jökulsins er neikvæð hefur aukist um 30% milli 1979 og 2008. Mest varð bráðnunin árið 2007. Um 33-55% af massaminnkun Grænlandsjökuls er vegna bráðnunar og afrennslis.
    Heildarsvæði Grænlandsjökuls þar sem afkoma jökulsins er neikvæð hefur aukist um 30% milli 1979 og 2008. Mest varð bráðnunin árið 2007. Um 33-55% af massaminnkun Grænlandsjökuls er vegna bráðnunar og afrennslis.
    Septemberútbreiðsla hafíss á Norðurskautinu í milljónum ferkílómetra. Rauða línan sýnir beinar mælingar, en svarta línan spár loftslagslíkana IPCC ásamt óvissu. Eins og sést þá hefur bráðnun hafíss farið fram úr svörtustu spám IPCC. 2009 gildið var ekki teiknað inn, en það var hærra en 2008 gildið - eða um 5,1 milljón ferkílómetrar sem er töluvert neðan við spá IPCC.
    Septemberútbreiðsla hafíss á Norðurskautinu í milljónum ferkílómetra. Rauða línan sýnir beinar mælingar, en svarta línan spár loftslagslíkana IPCC ásamt óvissu. Eins og sést þá hefur bráðnun hafíss farið fram úr svörtustu spám IPCC. 2009 gildið var ekki teiknað inn, en það var hærra en 2008 gildið – eða um 5,1 milljón ferkílómetrar sem er töluvert neðan við spá IPCC.
    Sjávarstöðubreytingar síðastliðin 40 ár.  Rauða línan sýnir mælingar sjávarfalla og útreikninga á sjávarstöðubreytingum frá þeim og bláa línan er fengin út frá gervihnöttum. Gráa svæðið sýnir að spár IPCC hafa vanmetið sjávarstöðubreytingarnar.
    Sjávarstöðubreytingar síðastliðin 40 ár. Rauða línan sýnir mælingar sjávarfalla og útreikninga á sjávarstöðubreytingum frá þeim og bláa línan er fengin út frá gervihnöttum. Gráa svæðið sýnir að spár IPCC hafa vanmetið sjávarstöðubreytingarnar.

    Heimildir:

    Skýrslan þaðan sem myndirnar voru fengnar má finna á heimasíðunni www.copenhagendiagnosis.com en hún er troðfull af fróðleik um loftslagsvísindin.

  • Blogg: Að stela bíl og nota fyrir sjónvarp

    Við skrifuðum um ansi heitt málefni fyrir tveimur dögum (sjá Hakkarar afrita tölvupósta og skjöl). Sem sagt í stuttu máli sagt: Hakkarar náðu að afrita tölvupóst loftslagsvísindamanna sem starfa við rannsóknarmiðstöð háskólans í East-Anglia (CRU) í Norwich. Þessir tölvupóstar – eða hluti af þeim hefur birst á vefsíðum sem sérhæfa sig í að efast um hlýnun jarðar af mannavöldum og margir fjölmiðlar eru nú farnir að bergmála það sem efasemdamennirnir segja – oft án þess að kynna sér hvað vísindamennirnir voru í raun og veru að segja.

    Við fjölluðum í raun ekki ítarlega um þetta í upphafi, því okkur fannst líklegt eftir dálítinn lestur að það þyrfti ansi hreint magnaða samsæriskenningasmiði til að sjá eitthvað samsæri og falsanir út úr þessum tölvupóstum.

    Meðal annars hafa íslenskir fjölmiðlar birt skrumskældar útgáfur af þessum fréttum – það selur víst að skrifa svona fréttir, þótt þær séu illa unnar. Hér er ágætt sýnishorn úr íslenskum fjölmiðli, feitletrað það sem augljóst er að þeir sem skrifa fréttina eru mataðir á rangfærslum:

    visir.is – Loftslagsfræðingar sagðir ýkja stórlega:

    Breski háskólinn University of East Anglia hefur staðfest við New York Times að hundruðum tölvupósta hafi verið stolið af vefþjóni skólans.
    Þetta eru meðal annars póstar sem gengið hafa á milli þekktra breskra og bandarískra vísindamanna þar sem fjallað er um loftslagsmál.
    Þar kemur ýmislegt fram sem efasemdarmenn um hlýnun jarðar segja að sýni ljóslega að vísindamennirnir stundi blekkingar til þess að ýkja áhrif mannsins á loftslagsbreytingar.
    Í einum póstinum segir vísindamaður að hann hafi notað tölfræðilega brellu til þess að sýna framá skarpa hlýnun.
    Birtir eru nokkrir póstar sem fóru á milli Kevins Trenberth loftslagsfræðing og annarra vísindamanna. Trenberth er loftslagsfræðigur við National Center for Athmospheric Research í Bandaríkjunum.
    Vísindamennirnir tala um skort á skilningi á hitasveiflum sem mælst hafa undanfarið, sem benda til þess að jörðin sé nú að kólna. Trenberth segir meðal annars -Staðreyndin er sú að við getum ekki gert grein fyrir því hvers vegna jörðin er ekki að hitna núna og það er skrípaleikur.
    Margir vísindamannanna sem nafngreindir eru í tölvupóstunum hafa staðfest við New York Times að þeir hafi skrifað þá.

    Það sem er kannski einna helst athugavert  þessa frétt – er að höfundur þess gefur sér að það sem hann les um málið – annað hvort á bloggsíðum efasemdamanna eða í erlendum fjölmiðlum sem að vísa á bloggsíður efasemdamanna – sé eitthvað sem sé fullkomlega rétt og satt. Ekki er hafið fyrir því að leita upplýsinga um hvað í raun og veru var sagt í þessum tölvupóstum og hvað lá að baki þeim orðum sem að þar hafa nú birst.

    Við skulum byrja á að kryfja það sem er feitletrað í þessari frétt.

    Í einum póstinum segir vísindamaður að hann hafi notað tölfræðilega brellu til þess að sýna framá skarpa hlýnun

    Pósturinn sem um er rætt má sjá hér, það sem er grunnurinn í þessari setningu hér fyrir ofan er feitletrað:

    Dear Ray, Mike and Malcolm,
    Once Tim’s got a diagram here we’ll send that either later today or
    first thing tomorrow.
    I’ve just completed Mike’s Nature trick of adding in the real temps
    to each series for the last 20 years (ie from 1981 onwards) amd from
    1961 for Keith’s to hide the decline.
    Mike’s series got the annual
    land and marine values while the other two got April-Sept for NH land
    N of 20N. The latter two are real for 1999, while the estimate for 1999
    for NH combined is +0.44C wrt 61-90. The Global estimate for 1999 with
    data through Oct is +0.35C cf. 0.57 for 1998.
    Thanks for the comments, Ray.

    Cheers
    Phil

    Hér er Phil Jones að vísa í “brellu” við framsetningu gagna (ekki tölfræðilega) sem hann rakst á í Nature grein Manns o.fl. 1998 (Global-scale temperature patterns and climate forcing over the past six centuries) og snýst um að teikna á sömu mynd hitastig fengna með mælingum veðurstöðva og svokallað proxý-hitastig sem fengnar voru með óbeinum mælingum. Með því móti sást samhengi þessara gagna betur. Gögnin sem þetta átti að “fela” eru gögn sem vel eru þekkt að séu ekki góð fyrir árin eftir 1961 og þetta vandamál hefur verið kallað “divergence problem” (samleitni vandamálið). Þetta vandamál hefur verið þekkt frá 1998 og meðal annars rætt um það í grein Briffa o.fl 1998 (Reduced sensitivity of recent tree-growth to temperature at high northern latitudes – ágrip), en það er grein þeirra sem fyrst byrjuðu að nota þessi gögn, en þar mæla þeir með að ekki séu notuð gögn eftir 1961.

    Það er því meira en viðeigandi að nota þá “brellu” að teikna ekki gögnin öll, sérstaklega þar sem ekki er mælt með að þau séu notuð (þ.e. gögnin eftir 1961).

    Næsta setning:

    Vísindamennirnir tala um skort á skilningi á hitasveiflum sem mælst hafa undanfarið, sem benda til þess að jörðin sé nú að kólna. Trenberth segir meðal annars -Staðreyndin er sú að við getum ekki gert grein fyrir því hvers vegna jörðin er ekki að hitna núna og það er skrípaleikur.

    Það sem verið er að vísa í er úr eftirfarandi tölvupósti (feitletrað það sem við á):

    Hi all

    Well I have my own article on where the heck is global warming? We are asking that here in Boulder where we have broken records the past two days for the coldest days on record. We had 4 inches of snow. The high the last 2 days was below 30F and the normal is 69F, and it smashed the previous records for these days by 10F. The low was about 18F and also a record low, well below the previous record low. This is January weather (see the Rockies baseball playoff game was canceled on saturday and then played last night in below freezing weather).

    Trenberth, K. E., 2009: An imperative for climate change planning: tracking Earth’s global energy. Current Opinion in Environmental Sustainability, 1, 19-27, doi:10.1016/j.cosust.2009.06.001. [1][PDF] (A PDF of the published version can be obtained from the author.)

    The fact is that we can’t account for the lack of warming at the moment and it is a travesty that we can’t. The CERES data published in the August BAMS 09 supplement on 2008 shows there should be even more warming: but the data are surely wrong. Our observing system is inadequate.

    That said there is a LOT of nonsense about the PDO. People like CPC are tracking PDO on a monthly basis but it is highly correlated with ENSO. Most of what they are seeing is the change in ENSO not real PDO. It surely isn’t decadal. The PDO is already reversing with the switch to El Nino. The PDO index became positive in September for first time since Sept 2007. see [2]http://www.cpc.ncep.noaa.gov/products/GODAS/ocean_briefing_gif/global_ocean_monitoring_current .ppt

    Kevin

    Hér er Kevin Trenberth að lýsa vangetu vísindamannanna í að mæla heildar geislunarjafnvægið (e. radiation balance) í efri lögum lofthjúpsins með nægilegri nákvæmni til að geta lýst orkubúskap (e. energy budget) jarðarinnar nægilega vel á stuttum tímakvarða. Þ.e. þær athuganir og mælingar sem til eru, nægja ekki til þess. Hægt er að skoða þessar pælingar Trenberths í grein sem kom út fyrr á árinu (An imperative for climate change planning: tracking Earth’s global energy).

    Hér er því um að ræða skortur á nægjanlega góðum athugunum og mælingum sem gera það að verkum að ekki er hægt að reikna út orkubúskap jarðarinnar. Rímar ekki alveg við það sem ofangreind frétt á visir.is segir – eða hvað?

    Niðurstaða

    Eins og sést á þessum tveimur setningum sem eru hér greindar, þá er ekkert sem bendir til að um einhverskonar falsanir sé að ræða af hálfu þessara vísindamanna. Þarna urðu þeir í fyrsta lagi fyrir árás hakkara og í öðru lagi síðan fyrir árás efasemdablogga og fjölmiðla sem hafa reynt að snúa út úr orðum þeirra af mikilli vanþekkingu.

    Vel getur verið að við skrifum um fleiri punkta sem skrumskældir verða úr þessum tölvupóstum – en á erlendum efasemdabloggum er verið að snúa og skrumskæla orð þessara vísindamanna í tugavís og því líklegt að fleiri punktar komi fyrir sjónir hér.

    Eftir þennan lestur, þá ætti fyrirsögn bloggfærslunnar að skýra sig sjálf.

    Ítarefni

    Útskýringarnar eru að mestu fengnar af RealClimate – sem er bloggsíða skrifuð af loftslagsvísindamönnum, sem sumir hverjir hafa einnig orðið fyrir því að þeirra tölvupóstar hafa verið teknir úr samhengi. Sjá t.d. eftirfarandi bloggfærslur og athugasemdir þeirra: The CRU hack og The CRU hack: Context

  • Myndband: Hvernig verða mýtur til?

    Í eftirfarandi myndbandi sjáum við mýtu verða til. Sérfræðingur segir frá athugunum sínum og aðrir aðilar ákveða að túlka orð hans á annan hátt og mýtan er þar með fædd. Þetta myndband er af YouTube og er úr fórum Greenman3610, en myndbönd hans eru með hans persónulega stíl og verða að teljast nokkuð kaldhæðin á köflum. En það felast alloft, nokkuð góðir punktar í hans sýn á þessi mál.