Heitt: Hakkarar afrita tölvupósta og skjöl

email_logoKomið hefur upp mál, þar sem hakkarar náðu meira en 1.000 skjölum af tölvuþjóni og endurbirtu á netinu. Þessi skjöl, sem eru m.a. tölvupóstar, voru geymd í tölvukerfi á einni af leiðandi rannsóknarstöðvum varðandi loftslagsrannsóknir í Bretlandi. Það lítur út fyrir að þessi “sýndar” árás hafi það að markmiði að reyna að skaða orðspor virtra loftslagsvísindamanna.

Rannsóknarmiðstöð háskólans í Austur “Anglia” varðandi loftslagsmál (CRU) í Norwich, staðfesti í dag að tölvupóstum og skjölum úr tölvuveri þeirra hefðu verið ólöglega afrituð og birt á netinu á ónafngreindum rússneskum tölvuþjóni. Tenging á rússneska tölvuþjóninn kom fyrst fram þann 19. nóvember á lítt þekktu bloggi sem fjallar um loftslagsmál á skeptískan hátt. Tölvuþjóninum var lokað nokkrum klukkutímum síðar, en efninu sem var stolið var þá þegar komið í dreifingu annars staðar á netinu. Staðfest hefur verið að skjölin séu dagsett frá 1991 – 2009.

Talsmaður háskólans staðfestir að hakkarar hafi komist inn í tölvukerfið og náð í upplýsingar þaðan án leyfis. Hann tekur fram að rannsókn standi yfir og að lögreglunni hafi verið tilkynnt um atvikið. Hann segir einnig að magnið sé of mikið til að hægt sé að staðfesta að það efni sem birst hafi sé ekta.

Nokkur blogg sem fjalla um loftslagsmál á efasemdarnótum, hafa nú þegar birt efni úr þessum skjölum. M.a. er að finna tölvupósta sem taldir eru eiga rætur að rekja til framkvæmdastjóra CRU, Phil Jones, til samstarfsmanna sinna, m.a. Michael Mann. Mann er m.a. þekktur fyrir rannsóknir sýnar á fornloftslagi og er einn af sem kom fram með hokký-kylfu grafið.

Þeir sem efast um hlýnun jarðar af mannavöldum hafa túlkað sum orð í þessum tölvupóstum, þannig að hægt sé að skilja að um einhverskonar falsanir sé að ræða. Einnig er í þessum, oft persónulegu, tölvupóstum sitthvað sem ekki var hugsað til útgáfu. M.a. þar sem rætt er um ákveðnar persónur, þar sem skipst er á skoðunum um ákveðin mál eða jafnvel notað sérstakt orðfæri þar sem væntanlega þarf að vita hvað um er verið að ræða til að skilja samhengið. En það er mikið skrifað um þetta mál á netinu og sýnist fólki sitthvað um þetta mál.

Ef að satt reynist að um einhvers konar falsanir sé að ræða – þótt smávægilegar geti verið, þá er það vissulega alvarlegt mál fyrir viðkomandi vísindamenn. Rétt er að draga ekki strax ályktanir um það, þetta gæti verið stormur í vatnsglasi sem blásinn er upp af þeim sem vilja ekki minka losun CO2 út í andrúmsloftið. Þá má vissulega setja spurningamerki við tímasetninguna svo rétt fyrir loftslagsfundinn í Kaupmannahöfn.

Ýtarefni:

Frétt á vef BBC
Frétt á vef Nature.com

Umfjallanir:

RealClimate
Greenfyre og Meiri Greenfyre
DeSmogBlog

Efasemdarraddirnar:

Roy Spencer
WattsUpWithThat?

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.