Loftslag.is

Category: Olían og Loftslagið

  • Fjárlosun, olíuvinnsla og loftslagsmál

    Fjárlosun, olíuvinnsla og loftslagsmál

    Í þessari færslu ætla ég að reyna að svara því hvað fjárlosun (e. divestment) er og hvað það hefur með loftslagsmálin og vinnslu jarðefnaeldsneytis að gera? Fyrst er gott að líta á hvað fjárlosun er og hvernig það hefur verið notað áður?

    divestforourfuture

    Fjárlosun er í raun andstæða fjárfestinga. Það má segja að fjárlosun sé m.a. það ferli að selja eignir, t.d. hlutabréf, fyrirtæki og/eða tæki til þess m.a. að losa fjármuni. Fjárlosun getur t.d. verið notuð til að ná fjárhagslegum og/eða félagslegum markmiðum sem geta m.a. verið vegna breytinga í því umhverfi sem unnið er í.

    Þegar einhver fjárfestir, þá eru settir peningar í viðkomandi fjárfestingu. Sú fjárfesting á helst að skila arði á meðan á fjárfestingunni stendur, þó á því geti verið alls kyns undantekningar. Fyrirtæki hafa stundum notað fjárlosun til að losa sig við einingar innan fyrirtækja sem skila fyrirtækinu ekki tilsettum ávinningi, hvort sem það er vegna breytinga í tekjuflæði eða vegna þess að sú eining er ekki lengur í samræmi við áherslu fyrirtækisins til framtíðar, svo dæmi séu tekin. Áherslubreytingar fyrirtækja geta verið af mörgum toga, m.a. breyttar áherslur í framleiðslu og/eða þjónustu, breyttum áherslum vegna breytinga í þjóðfélaginu sem gæti t.d. verið vegna umhverfismeðvitundar, svo dæmi sé tekið. Fjárlosun gengur því m.a. út á að losa fjármagn með því að hætta fjárfestingum í einingum fyrirtækja, fyrirtækjaheildum, tegundum iðnaðar o.s.frv.

    Sjóðir, eins og t.d. lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestingarsjóðir, fjárfesta í allskyns fyrirtækjum og hlutabréfum til að fá framtíðartekjur fyrir viðkomandi sjóð. Fyrirtæki, bankar, lífeyrissjóðir og sumstaðar (t.d. í Bandaríkjunum) háskólar eru með stóra fjárfestingasjóði sem fjárfesta í ólíkum fjárfestingakostum. Fjárfestingarkostirnir eru oft svipaðir á milli sjóða og er oft keypt í mörgum fyrirtækjum og/eða greinum til að draga úr áhættu. Stundum eru fjárfestingaráætlanir á þann veg að keypt er í eignasöfn sjóðanna á fyrirfram ákveðin hátt í ákveðnum hlutföllum á milli greina (yfirleitt er eitthvað svigrúm til að ákveða hlutföllin). Almenningur sem fjárfestir í fjárfestingasjóðum hefur oft ekki nægilega innsýn í það hvernig samsetning eignasafnsins er nákvæmlega. Hitt er þó líklegt að þrýstingur frá almennum fjárfestum gæti hugsanlega haft áhrif á fjárfestingastefnu sjóðanna. En þá þarf hinn almenni fjárfestir að sjálfsögðu að vera meðvitaður um hvað er í boði og þeim markmiðum sem hann vill ná í sinni fjárfestingu – m.a. fjárhagslegum og félagslegum.

    Gott dæmi um fjárlosun í sögulegu samhengi var þegar hvatt var til sölu fjárfestingakosta í Suður-Afríku sem var hluti af því að þrýsta á félagslegar breytingar í Suður-Afríku til hafa áhrif til að binda endi á apartheid. Þar var fjárlosun notuð í félagslegum tilgangi til að ýta undir breytingar í suður-afrísku þjóðfélagi. Það má færa fyrir því rök að sú fjárlosun hafi haft jákvæð áhrif á þær félagslegu breytingar sem þar urðu. Einnig hefur fjárlosun verið notuð að einhverju leiti innan t.d. tóbaks- og vopnaiðnaðiðarins – væntanlega einnig í félagslegum tilgangi.

    fossilfreeUm þessar mundir er byrjað að þrýsta á fjárfestingasjóði í BNA til að fá þá til að selja í fyrirtækjum sem vinna við vinnslu jarðefnaeldsneytis (olía, kol og gas). Sá þrýstingur er dæmi um félagslegar breytingar og breyttar áherslur vegna umhverfisáhrifa sem eru af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda vegna bruna jarðefnaeldsneytis. Umhverfisáhrif af auknum gróðurhúsaáhrifum eru m.a. hækkandi hitastig í heiminum og breytingar á loftslagi jarðar af þeim völdum. Það eru margar ólíkar afleiðingar af auknum gróðurhúsaáhrifum, m.a. hækkandi sjávarborð, bráðnun hafíss og jökla, súrnun sjávar og ýmsar ófyrirsjáanlegar breytingar í veðurfari, svo eitthvað sé tiltekið. Það má færa fyrir því rök að fjárfestingarsjóðir, fyrirtæki og einstaklingar geti haft áhrif í þá átt að losa fé úr fyrirtækjum sem stunda framleiðslu sem ekki fer vel með umhverfið almennt enda má segja að almennir hagsmunir hljóti að vera meiri en núverandi hagsmunir fyrirtækja sem fá gríðarlegan arð á því að selja vöru sem hefur svo víðtæk áhrif á umhverfið eins og brennsla jarðefnaeldsneytis er.

    En það eru í raun fleiri rök fyrir því að losa fjármuni úr jarðefnaiðnaðinum. Til að mynda þá er það jarðefnaeldsneyti sem er í bókhaldi fyrirtækja í þessari grein miklu meira en talið er öruggt að brenna í framtíðinni. Það er sennilega á bilinu 3svar til 5 sinnum meira jarðefnaeldsneyti í jarðefnabókhaldi fyrirtækja en talið er að hægt sé að vinna og brenna til að halda sig undir 2°C takmarkinu sem þjóðir heims hafa samþykkt (enn sem komið er án skuldbindinga) að halda hlýnun jarðar undir. Þess má einnig geta að tveggja gráðu markmiðið er pólitískt markmið og það hefur i raun ekki verið sýnt fram á að það sé “örrugt” að setja það svo hátt. Út frá þessum vangaveltum, má því færa fyrir því rök að það sé bóla í bókhald olíufyrirtækja sem ekki sér fyrir endann á. En hvernig lýsir sú bóla sér?

    Bólunni má lýsa þannig að virði fyrirtækja í olíu-, gas- og kolaiðnaðinum sé metið út frá mögulegum framtíðarvæntingum um tekjur og arð fyrirtækjanna, miðað við þá framleiðslu sem gert er ráð fyrir að fyrirtækin muni hafa í framtíðinni af því jarðefnaeldsneyti sem er í bókhaldi fyrirtækjanna í dag. Ef þjóðir heims taka loftslagsvandann alvarlega, þá verður ekki hægt að  vinna allt það jarðefnaeldsneyti sem er í bókhaldi fyrirtækjanna úr jörðu, sem getur haft veruleg áhrif á framtíðartekjur þeirra. Ef framtíðar framleiðsla þessara fyrirtækja er einungis fimmtungur til þriðjungur af því sem gert er ráð fyrir í dag (jafnvel þó hlutfallið væri hærra), þá hefur það væntanlega áhrif á tekjur þeirra og þar með virði til lengri tíma. Af þessum völdum einum saman ættu fjárfestar í raun að íhuga alvarlega fjárfestingar sínar í þessum iðnaði til framtíðar. Það er þó alls óvíst að arðurinn minnki til skemmri tíma, en þó er líklegt að sú staðreynd að ekki er hægt að selja þær birgðir sem eru í bókhaldinu (enn í jörðu) muni hafa áhrif á virði fyrirtækjana til lengri tíma litið. Verð vörunnar hefur að sjálfsögðu áhrif á virði fyrirtækjanna, en í heimi þar sem sjálfbær orka, eins og t.d. vind- og sólarorka fara lækkandi frá ári til árs, þá er erfitt að færa rök fyrir því að olíuverð haldist nægjanlega hátt til lengri tíma til að það bæti upp skerta möguleika til vinnslu jarðefnaeldsneytis.

    bubble

    Hversu langur tími kann að líða þar til bólan springur er erfitt að segja til um, en væntanlega þurfa fjárfestar að átta sig á þessu á næsta áratug eða svo. En hversu langur sem tíminn verður, mun væntanlega koma að þeim tímapunkti að markaðurinn mun átta sig á bólunni. Þegar þar að kemur, þá er hugsanlegt að fjárfestar færi fjármagn sitt í aðra geira orkuiðnaðarins sem eru meira sjálfbærir til framtíðar – það er af nógu að taka og væntanlega vöxtur framundan til handa þeim sem koma snemma inn í þann geira.

    En hvað sem líður fjárlosun í dag, þá er verður að teljast líklegt að fjárfestar framtíðarinnar muni á einhverjum tímapunkti átta sig á þeirri bólu sem virðist vera í virði fyrirtækja í jarðefnageiranum. Því fyrr sem það gerist, því betra fyrir umhverfið. Hvort að þetta muni hafa áhrif á olíuvinnslu á Íslandsmiðum skal látið ósagt, en ekki er þó ólíklegt að breytingar verði í umhverfi þessa iðnaðar sem gæti haft áhrif á virði og arð fyrirtækja í geiranum. Allt er breytingum háð og breytingar geta orðið á skömmum tíma, t.d. fjárlosun vegna bólumyndunar og/eða vegna þrýsings af félagslegum ástæðum vegna umhverfisáhrifa. Gott er fyrir fjárfesta og stjórnmálamenn að hafa þetta í huga áður en stórkostlegar fjárfestingar verða gerðar í geira sem framleiðir vöru sem ekki er sjálfbær, né umhverfisvæn. Það er ekki víst að aðeins erlendir fjárfestar taki áhættu ef gerðar verðar miklar fjárfestingar á innviðum í landinu vegna hugsanlegrar olíuvinnslu á Íslandsmiðum. Olíuvinnsla er iðnaður sem er í anda 19. aldar hugsunar og ekki rökrétt að fara í stórkostlegar fjárfestingar á innviðum landsins til að styðja við þess háttar iðnað til lengri tíma.

    Helstu heimildir:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Yfirlýsing um stefnu Íslands í olíumálum

    Yfirlýsing um stefnu Íslands í olíumálum

    Eftirfarandi yfirlýsing varðandi stefnu Íslands í olíumálum er loftslag.is aðili að.

    Þriðja sérleyfið vegna olíuleitar á Drekasvæðinu verður undirritað í dag, þann 22. janúar, í Þjóðmenningarhúsinu. Undirrituð samtök telja að olíuleit á norðurslóðum stangist á við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og ógni lífríki á svæðinu.

    Loftslagsbreytingar eru stærsta vandamál sem mannkynið stendur frammi fyrir. Fimmta skýrsla Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem kom út s.l. haust tekur af allan vafa um að loftslagsbreytingar eru raunverulegar og að þær stafa ótvírætt af mannavöldum.[1] Skýrslan bregður ljósi á hvernig síaukið magn gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar stendur í beinu sambandi við hækkandi hitastig, súrnun sjávar, hækkandi yfirborð sjávar, bráðnun ísmassa og vaxandi öfga í veðri. Þessar afleiðingar eru grafalvarlegar og hafa æ meiri áhrif á lífríki jarðar, þar með talið mannkynið og lífsafkomu þess.

    Ein alvarlegustu áhrifin fyrir afkomu Íslendinga er súrnun sjávar vegna síaukinnar losunar koltvísýrings út í andrúmsloftið en hún mun hafa alvarleg áhrif á fiskistofna við strendur landsins. Þá er óupptalið það tjón sem olíuslys innan íslenskrar lögsögu myndi valda en margfalt erfiðara er að eiga við þess konar slys við kaldar og myrkar aðstæður á norðurslóðum, m.a. vegna efniseiginleika olíu.

    Ríkisstjórn Íslands hreykir sér af umhverfisvænni orku; selur þá ímynd út á við á sama tíma og hún hvetur stórfyrirtæki til þess að leita að olíu til vinnslu innan íslenskrar lögsögu. Við mótmælum þessari mótsagnakenndu stefnu.

    Aukinheldur snýr spurningin um olíuleit við Íslandsstrendur ekki einungis að efnahagslegum þáttum og öryggismálum. Hún krefst líka siðferðislegrar afstöðu til þess hversu réttlátt sé að græða á olíuvinnslu í heimi þar sem fólk þjáist vegna loftslagsbreytinga, sérstaklega lægri stéttir, konur og íbúar þróunarlanda. Hins vegar hefur lítil sem engin umræða verið um siðferðislegar hliðar málsins. Þessum skorti á siðferðislegri umræðu mótmælum við einnig.

    Undirrituð samtök krefjast þess að ríkisstjórn Íslands og Alþingi hætti tafarlaust við allar áætlanir um vinnslu olíu og gass innan efnahagslögsögu landsins. Íslensk stjórnvöld myndu með því sýna ábyrgð og senda skýr skilaboð um allan heim að Ísland ætli sér að vera í fararbroddi í loftslagsmálum.

    Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði
    Breytendur – Changemaker Iceland
    Grugg – vefrit um umhverfisvernd
    Eldvötn
    Fuglavernd
    Framtíðarlandið
    Landvernd
    Loftslag.is
    Náttúruverndarsamtök Íslands
    Náttúruverndarsamtök Suðurlands
    Nemendafélagið Gaia (HÍ)
    Ungir umhverfissinnar 

    [1]Skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar má nálgast hér: [http://www.ipcc.ch/report/ar5/wg1/#.Ut5J9mTFJPN].

  • Er ekki tími til kominn að tengja?

    Er ekki tími til kominn að tengja?

    Þegar Íslendingar eru spurðir út í það hvort að þeir séu hlyntir olíuvinnslu á Drekasvæðinu, þá svara 80% því til að vera því hlyntir. Þegar Íslendingar eru spurðir út í hnattræna hlýnun af mannavöldum þá hefur mikill meirihluti velt málinu fyrir sér og hefur áhyggjur af loftslagsbreytingum vegna aukina gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum. Það má því halda því fram með góðum rökum að fólk hér á landi virðist almennt vita af loftslagsvandanum.

    timi_til_ad_tengjaEn hvernig stendur þá á því að það er misvægi á milli þess að meirihluti þjóðarinnar virðist vita af loftslagsvandanum og svo því að 80% landsmanna vill meiri olíuvinnslu sem eykur vandann? Ætli almenningur hafi almennt ekki kynnt sér málin í þaula? Það virðist vanta tenginguna á milli þess að þekkja til þeirrar staðreyndar að vandamálið sé til staðar og svo því að þekkja til orsaka og afleiðinga sama vandamáls. Þegar fólk telur að rök séu til þess að auka vandamálið með því bæta við olíuforða heimsins þá hefur sennilega ekki myndast nauðsynleg tenging varðandi orsakasamhengi hlutanna.

    Það er nú þegar til mikið meira en nægur forði jarðefnaeldsneytis í heiminum til að hækka hita jarðar um meira en þær 2°C sem þjóðir heims virðast sammála um að forðast. Til að halda okkur inna 2°C hækkun hitastigs, þá mega þjóðir heims ekki brenna nema sem nemur u.þ.b. fimmtungi af núverandi þekktum birgðum jarðefnaeldsneytis sem eru enn í jörðu. Það þýðir á manna máli að um 80% af hinum þekktu birgðum þurfa að vera áfram í jörðu til að við getum með nokkurri vissu haldið okkur innan 2°C marksins. Við hækkandi hitastig má til að mynda eiga von á fleiri sterkum fellibyljum svipuðum Sandy og Haiyan – s.s. líkur á sterkum fellibyljum aukast með hækkandi hitastigi. Það ásamt öðrum öfgum í veðri tengist m.a. hlýnandi loftslagi – annað sem nefna má er að jöklar bráðna, sjávarstaða hækkar, bráðnun íss og hnignun vistkerfa, svo eitthvað sé nefnt. Það er því ekki laust við að afleiðingar fylgi núverandi stefnu varðandi jarðefnaeldsneytisnotkun jarðarbúa.

    Það má ekki heldur gleyma að minnast á það hér að losun koldíoxíð fylgir annað vandamál, sem er súrnun sjávar – enn önnur ástæða fyrir Íslendinga að tengja. Súrnun sjávar ætti eitt og sér að fá þjóð sem lifir af fiskveiðum til að tengja saman orsakir og afleiðingar í þessum efnum. Ekki síst í ljósi þess að meirihluti þjóðarinnar virðist telja að vísindamenn hafi rétt fyrir sér varðandi vandamálið og það bendir til þess að þjóðin sé upplýst. En sú staðreynd að sama þjóð heimtar olíuvinnslu á Drekasvæðinu, hlýtur að benda til þess að það vanti tengingar á milli þessara þátta. Það er ekki nema von að ríkisstjórn Íslands hafi það í stefnuskrá sinni að hefja olíu- og gasvinnslu sem fyrst, þegar þjóðin heimtar það – eða eins og það er orðað í stjórnarsáttmálanum:

    Ríkisstjórnin mun eins og kostur er stuðla að því að nýting hugsanlegra olíu- og gasauðlinda geti hafist sem fyrst
    (úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar)

    Við Íslendingar teljum okkur upplýsta þjóð og það á vafalítið við á mörgum sviðum. En þjóð sem ekki hefur náð betri tengingu varðandi loftslagsmálin, þrátt fyrir að flestir virðist samþykkja að um vandamál sé að ræða, virðist ekki vel tengt þegar að ákveðnum hliðum málsins kemur. Það er óábyrgt og óviðunandi að stór gjá sé á milli orsakasamhengis og afleiðinga varðandi þessi mál í huga fólks. Við eigum að hafa þor og dug til að segja nei við skammtíma hagsmunum gamaldags “hagvaxtar” sjónarmiða og virða rétt komandi kynslóða til að við skiljum plánetuna eftir í eins góðu ástandi og hægt er. Það þýðir að við megum ekki halda áfram að vera háð jarðefnaeldsneyti og að olíu- og gasvinnsla í íslenskri lögsögu er ekki raunverulegur valmöguleiki til framtíðar. Eftirspurn almennings eftir stjórnmálamönnum með þor til að taka á málunum ætti að vera meira en þeirra sem velja veg skammtíma “hagsmuna”.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Trúir þú á álfasögur?

    Trúir þú á álfasögur?

    alfasogurHvert er hlutverk stjórnmálamanna? Hvernig viljum við að stjórnmálamenn meti upplýsingar varðandi vandamál sem eru til staðar og þá t.d. hvers má ætlast til af þeim þegar kemur að loftslagsvandanum? Loftslagsvandinn er vel skjalfestur og það virðist ljóst að það þurfi að taka á honum af mikilli festu á næstu árum og áratugum – hvað sem líður flokkspólitík og persónulegum skoðunum. Ríki heims hafa m.a. skrifað undir yfirlýsingar þess efnis að það þurfi að halda hlýnun jarðar innan 2°C.

    Það er því umhugsunarvert þegar hlýnun jarðar er nefnd í ræðustól Alþingis, að þá er talað um að breytingar á loftslagi muni væntanlega hafa í för með sér mjög jákvæð tækifæri fyrir Íslendinga. Það er líka umhugsunarvert að þegar hlýnun jarðar er nefnd, þá eru stundum látnar fylgja óljósar tilvísanir í vafasamar fréttir sem virðast t.d. koma frá Pressunni (og eiga uppruna sinn í enn vafasamari heimildir af Daily Mail) um að ekki sé allt sem sýnist í loftslagsvísindunum (“en það er önnur saga” – Haraldur Einarsson, tilvísun í myndbandið). Þessi tækifæri virðast svo mikil að það tekur því ekki að nefna neikvæðar hliðar þess eða lausnir á vandanum sem er þó vel skjalfestur. Það er talað um nýja fiskistofna eins og þeir séu nú þegar í hendi og valdi litlum sem engum vandkvæðum fyrir núverandi vistkerfi og fiskistofna. Það má sjálfsagt búast við því að það séu tækifæri í stöðunni þegar hlýnun jarðar heldur áfram, en að hundsa vandann með tali um langsótt tækifæri er ekki rétta leiðin fram á við. Það þarf að ræða afleiðingar súrnunar sjávar fyrir sjávarútveg á Íslandi og það þarf að ræða lausnir á þeim vanda – svo eitthvað sé nefnt.

    Það sem við ættum að heyra frá stjórnmálamönnum er hvernig við getum tekið á vandanum og verið leiðandi í þeim efnum, t.d. með aukinni notkun sjálfbærar orku (og það skiptir líka máli í hvað orkan er notuð – svo því sé haldið til haga) ásamt setningu markmiða um að minnka notkun jarðefnaeldsneytis hér og nú (vinnsla olíu og gass heyrir ekki undir þann hatt). Það eru tækifæri í stöðunni, t.a.m. að vera leiðandi á vettvangi lausna og sýna þar með gott fordæmi meðal þjóða heims. Tal um nýja fiskistofna og óljós tækifæri minnir helst á álfasögur – tækifærin liggja í að vera leiðandi í að finna lausnir og þar með setja lausnirnar á dagsskrá til framtíðar. Kannski er það ekki líklegt til vinsælda að vilja nefna þessi mál eða kannski skortir stjórnmálamenn almennt þor til að taka á vandamálum sem ná yfir lengri tíma en einstök kjörtímabil og velja því að setja fram valkvæma óskhyggju, í stað raunverulegra lausna miðaðrar umræðu! Hér má sjá dæmi um umræðu um hlýnun jarðar á Alþingi – gefum Haraldi Einarssyni, þingmanni Framsóknarflokksins á Suðurlandi orðið þar sem hann ræðir um tækifærin og loftslagsmálin (með innskoti um að ekki sé allt sem sýnist í þessum efnum – ætli heimildin sé Pressufréttin?):

    Hér undir má sjá fróðlegt myndband frá Greenman3610 (Peter Sinclair) sem hæfir hugsanlega líka þessari umræðu. Myndbandið nefnist; “Welcome to the Rest of Our Lives” – þarna er m.a. komið inn á þær breytingar sem þegar eru komnar fram og hvað gæti búið í framtíðinni:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Skörum fram úr – höfum þor

    Skörum fram úr – höfum þor

    Hagvöxturinn, olían og loftslagið

    Nú, þegar uppi eru stór áform varðandi leit og hugsanlega vinnslu jarðefnaeldsneytis (olía og gas) á Drekasvæðinu, þá er vert að spyrja nokkura spurninga og velta hlutunum fyrir sér í ljósi vísindalegra upplýsinga um loftslagsvánna sem við búum yfir í dag. Áhrif brennslu jarðefnaeldsneytis á loftslag jarðar núna og í framtíðinni er vandamál sem við þurfum að takast á við – en það virðist viðtekin hugmynd að minnast helst ekki á þann vanda þegar rætt er um mögulegan hagvöxt og framtíðarhorfur með vinnslu jarðefnaeldsneytis úr jörðu. Ráðamenn gefa sér væntanlega, eins og margir aðrir, að framkvæmdir og vinnsla á jarðefnaeldsneyti sem hugsanlega leiða til hagvaxtar til skemmri tíma hljóti í hlutarins eðli að vera eðlilegar. Þ.a.l. hljóti sú vinnsla að verða eitt af því sem mun leiða hagvöxt til framtíðar – alveg sama hver kostnaðurinn er til lengri tíma fyrir mannkynið í heild. Úræðaleysi og úrelt sjónarmið “hagvaxtar” virðast því miður vera útbreidd skoðun varðandi þessi mál. Við sjáum núna að umræðan snýst m.a. um að reyna að greiða veg olíu- og gasvinnslu á Drekasvæðinu, þannig að sem flestum hindrunum verði rudd úr vegi og búið verði svo um hnútana að ekki verði hægt að snúa þeim ákvörðunum við síðar. En á það að vera svo – viljum við virkilega greiða þá leið?

    Fyrsta spurningin sem kemur í hugann nú, er náttúrulega hversu miklu af jafðefnaeldsneyti má brenna til að við höldum okkur undir 2°C markinu sem þjóðir heims stefna að í dag samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum og hversu langan tíma mun taka að ná því marki? Í stuttu og frekar einfölduðu máli, þá er það talið vera um það bil 1/5 af því jarðefnaeldsneyti sem nú þegar er í bókhaldi olíu-, kola- og gasfyrirtækja heimsins og það mun væntanlega taka innan við 20 ár að brenna því magni [Global Warming’s Terrifying New Math]. 4/5 af jarðefnaeldsneytinu þarf því að vera í jörðinni áfram ef við eigum að hafa raunhæfan möguleika á árangri. Eins og staðan er í dag, bendir s.s. allt til þess að það verði strembið að halda okkur innan tveggja gráðanna sem almennt er talið að þurfi til að hnattræn hlýnun verði ekki of mikil. Núverandi spár gera flestar ráð fyrir um 2-4°C (jafnvel meira) fyrir næstu aldamót (svo ekki sé litið lengra fram í tímann eða aðrir þættir skoðaðir, eins og t.a.m. súrnun sjávar sem ekki bætir stöðuna). Hækkun hitastigs um 2-4°C myndi valda töluverðum vandræðum fyrir komandi kynslóðir og það má halda því fram að sú Jörð sem komandi kynslóðir erfa sé ekki lík þeirri sem við tókum við. Það má kannski líta svo á að við fremjum mannréttindabrot við ókomnar kynslóðir með því að skilja Jörðina þannig eftir okkur að við rýrum lífskjör og gerum lífið erfiðara í framtíðinni. Þá kemur náttúrulega að samviskuspurningunni hvort að við viljum hafa það á samviskunni?

    olia_heimurNæsta spurning sem gæti kviknað er hvaða áhættu erum við að taka með því að bæta í brennanlegan forða jarðaefnaeldsneytis? Það er talið nokkuð ljóst að hitastig mun hækka um margar gráður ef ekkert verður að gert og þó svo aðeins sá forði sem nú er í bókum olíu-, gas- og kolafélaga yrði brennt, þá er áhættan á talsverðum loftslagsbreytingum talsverð – svo ekki sé talað um hugsanlega ófundnar lindir, sem við Íslendingar virðumst vilja taka þátt í að nýta til fulls. Áhættan er því veruleg og það er óðs manns æði að ætla sér að kreista jörðina um allt það jarðefnaeldsneyti sem til er – sérstaklega í ljósi þess að við höfum þegar 400% meira í bókhaldinu en þykir rétt að brenna – samkvæmt alþjóðlegum samþykktum þjóða heims!

    Hvað ætlar litla Ísland sér í loftslagsmálunum? Ætlum við að taka þátt í að kreista síðasta dropa jarðefnaeldsneytis úr jörðu eða viljum við sýna þor og dug? Það virðist vera útbreidd skoðun að nýting jarðefnaeldsneytisforðans sem hugsanlega leynist á Drekasvæðinu sé hið besta mál – þrátt fyrir að viðvörunarljós blikki og öll rök hnígi að því að við þurfum að leita annarra leiða en gjörnýtingu jarðefnaeldsneytis í framtíðinni. Erum við upplýst þjóð? Höfum við vilja til að sýna dug og þor eða ætlum við að vera ofurseld úreltu hugarfari skyndi „hagvaxtar”?

    Höfum þor – skörum fram úr – veljum einu réttu leiðina og hættum við allar hugmyndir um olíu- og gasvinnslu á Íslandi í dag – þó svo það sé veik von margra að með henni getum við viðhaldið hagvexti til framtíðar eftir hinar efnahagslegu hamfarir sem við höfum upplifað. Reyndar ber að geta þess að litla Ísland er í dag (eftir hrunið) númer 28 í heiminum ef tekið er tillit til vergrar landsframleiðslu á mann (heimild: CIA Factbook). Ekki er sjálfgefið að hagvöxtur verði að aukast umfram aðra til að Ísland standi á eigin fótum eða að það muni þýða eymd og volæði fyrir landann ef þessi „auðlind“ jarðefnaeldsneytis verði ekki nýtt (“auðlind” sem ekki er enn í hendi).

    Sendum merki um áræðni og þor – hættum að ásælast jörðina sem afkomendur okkar eiga að erfa. Það yrði mikilvægt merki til allra þjóða ef hið litla Ísland, sem nýlega er búið að upplifa hrun fjármálakerfisins, hefði þor og dug til að sýna fordæmi í þessum málum. Segjum því nei við gas- og olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

    Persónulega er ég á engan hátt á móti heilbrigðum hagvexti eða alvöru framförum – þvert á móti. En brennsla á gasi og olíu er vart merki um heilbrigða þróun mála eða til merkis um framfarir eins og mál standa. Þar af leiðandi er eina vitið fyrir framtíð okkar að við geymum jarðefnaeldsneytið þar sem það er, enn um sinn. Brennsla jarðefnaeldsneytir er að verða gamaldags og er eitthvað sem við ættum ekki að ýta undir í framþróuðum, upplýstum nútíma samfélögum, sérstaklega í ljósi þess að afleiðingar brennslu jarðefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda eru vel kunnar. Það virðist ekki vera til hið pólitíska afl hér á landi sem hefur þor og/eða vilja til að taka beina afstöðu á móti vinnslu jarðefnaeldsneytis á íslenska landgrunninu eða hvað þá að telja þá hugmynd vafasama – samanber núverandi hugmyndir stjórnvald varðandi olíuleit á Drekasvæðinu. Það þarf hugrekki til að spyrna við slíkum hugmyndum og taka ákvarðanir sem gætu jafnvel (þótt slíkt sé ekki sjálfgefið) hægt á hagvexti til skamms tíma. Það eigum við þó að sýna og segja nei við gamaldags hagvaxtarhugmyndum um vinnslu jarðefnaeldsneytis.

    Í ljósi þess að það er ekki í samræmi við niðurstöður vísindamanna um loftslagsvánna að halda áfram að brenna eldsneyti hugsunarlaust, þá eigum við Íslendingar að hafa þor til að skara fram úr á alþjóða vettvangi með því að segja nei við olíu- og gasvinnslu á Íslandsmiðum og þá um leið já við sjálfbærri nýtingu sjálfbærrar orku. Sjálfbær vinnsla orku hefur sína kosti og galla, en brennsla á olíu og gasi hafa nánast bara galla fyrir jarðarbúa í heild – það er því versti kostur sem við getum nýtt okkur – þó svo það ýti hugsanlega undir hagvöxt til skamms tíma. Hitt er svo annað mál að það gæti verið að seinni kynslóðir geti séð kosti við að hafa aðgang að ónýttum olíu- og gaslindum – þegar þar að kemur að við nýtum það ekki til brennslu, heldur sem dýra og eftirsótta afurð í allskyns framleiðsluvörur.

    Horfum fram á veginn og sýnum það þor og þann dug að hafa aðra skoðun en þá viðteknu. Sem upplýst þjóð eigum við að vera í forsvari breytinga, en ekki fylgja í blindni gamaldags hugmyndum um „hagvöxt“ til skamms tíma – hagvöxt sem verður væntanlega þeim dýrkeyptur sem erfa munu jörðina eftir okkar dag – Segjum því nei við vinnslu jarðefnaeldsneytis á Íslandsmiðum.

    [Edit 9:42, 19.9.2013 – smávægileg orðalagsbreyting]

    Tengt efni á loftslag.is:

    Annað tengt efni: