Á vegum umhverfisverkefna Sameinuðu þjóðanna (The United Nations Environment Program – UNEP) kom út í dag merkileg skýrsla eða samantekt, um loftslagsbreytingar. Hún er byggð á um 400 nýjum rannsóknum á kerfum jarðar og loftslagi þess, sem hafa birst í ritrýndum greinum síðastliðin þrjú ár – eða frá því fjórða skýrsla IPCC kom út.
Þessi skýrsla er ekki sambærileg við IPCC-skýrslurnar þar sem mikill fjöldi vísindamanna og embættismanna urðu að vera sammála um hvað stóð í þeirri skýrslu og ekki eiginlegt framhald þeirra skýrsla. Þess í stað er hún samantekt margra áhugaverðra uppgötvana, túlkana, hugmynda og niðurstaðna sem hafa komið fram síðustu þrjú ár.
Á næstu dögum ætlum við að fjalla um hvern kafla skýrslunnar og benda á það athyglisverðasta sem við finnum í þeim.
Ritstjórnin hefur tekið ákvörðun um að útbúa vikuyfirlit yfir ýmsar fréttir sem við rekumst á við fréttaöflun vikunnar. Þetta verða stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint. Við munum segja stuttlega frá innihaldi frétta og tengjum svo á þær, svo lesendur geti kynnt sér málið betur ef áhugi er á því. Þetta geta verið ýmsar fréttir sem við rekumst á, en skrifum ekki frekari um í undanfarinni viku. Einnig verður hér stutt yfirlit yfir færslur vikunnar af Loftslag.is.
Stuttar fréttir:
100 ára veður viðburðir eru veðurfyrirbæri sem er svo öfgakennd, að öllu jafna má aðeins búast við því að atburðurinn eigi sér stað einu sinni á hverri öld. T.d. getur þetta átt við um storma, mikla úrkomu og fleiri þess háttar atburði. Það er misjafnt eftir svæðum hvaða atburðir teljast 100 ára veður viðburðir. Í borginni Atlanta í fylkinu Georgíu í BNA, hefur verið fossandi rigning að undanförnu. Þetta er veðurviðburður sem hægt er að flokka sem 100 ára veður viðburð. En verða 100 ára veður viðburðir aðeins einu sinni á hverri öld? Í raun er verið að tala um líkur á að ákveðin atburður geti átt sér stað miðað við fyrri reynslu, en þeir geta í raun gerst með nokkura ára millibili þó slíkt sé mjög sjaldgæft. Sjá nánar frétt af vef Live Science.
Sökkvandi óshólmar er vandamál sem virðist vera að aukast á flestu þéttbýlustu svæðum heims. Hér er þó ekki hægt að kenna hlýnandi loftslagi um, en það gæti aftur aukið á vandan sem hækkandi sjávarstaða í framtíðinni getur valdið og gera svæði sem milljónir manna búa á í aukinni hættu vegna storma og flóða. Ástæðan er talin vera margs konar, meðal annars út af stíflum sem koma í veg fyrir frekari framburð fljótana og vegna aukinnar búsetu á þeim – sem eykur á þyngsli jarðlaganna. Einnig er dæling vatns úr jarðlögum undir óshólmanum líklegur orsakavaldur. Sjá nánar frétt á vef BBC.
Mikið moldviðri var í Sydney fyrr í vikunni, en Einar Sveinbjörnsson fjallaði um það allvel. Einnig er góða umfjöllun að finna á vef BBC.
Við viljum þakka gestapistlahöfundunum sérstaklega fyrir vandaða pistla. Við hlökkum til að afhjúpa næstu gestapistlahöfunda og gerum við ráð fyrir að birting gestapistla verði fastur liður á fimmtudögum.
Undanfarin ár hefur athygli manna í auknum mæli beinst að Norður-Íshafinu enda er það sá staður á jörðinni sem hlýnandi loftslag hefur einna mest áhrif. Minnkandi ís á norðurpólnum hefur þar af leiðandi orðið ein af táknmyndunum fyrir loftslagsbreytingar af mannavöldum og neikvæðar afleiðingar þeirra. Jafnvel er hægt að segja að norðurpóllinn sé orðinn að einskonar vígvelli í umræðunni um loftslagsmál en um leið vopn í baráttunni um að sannfæra heimsbyggðina um þær loftslagsbreytingar sem eiga sér stað í heiminum.
Jákvæð eða neikvæð þróun?
Það eru líka skiptar skoðanir hvort íslaust Norður-Íshaf að sumarlagi hafi einhverjar alvarlegar afleiðingar í för með sér. Það getur auðvitað komið sér vel ef siglingaleiðir opnast norður fyrir Síberíu eða Kanada þótt það verði aldrei nema nema hluta af ári. Einnig gera sjálfsagt einhverjir sér vonir um að komast í hugsanlegar auðlindir á svæðinu. Það á síðan eftir að koma í ljós hvort vistfræðilegar breytingar verði jákvæðar eða neikvæðar í heild sinni. Áhyggjur manna af minnkandi hafís snúast hinsvegar ekki síst um svokallaða magnandi svörun (e. positive feedback). Á norðurslóðum byggist það á því að dökkur sjórinn gleypir í sig varma sólarinnar og hitnar í stað þess að hitinn endurkastist frá hvítum ísnum. Afleiðingin er þá enn meiri hlýnun við Norður-Íshafið sem eykur á annað vandamál sem er aukin metangaslosun vegna bráðnandi sífrera á norðurslóðum og þar af leiðandi enn aukin gróðurhúsaáhrif. Þó verður að hafa í huga að þegar liðið er svona seint á árið eru áhrif sólarinnar hverfandi þetta norðarlega og því gæti minni hafís á haustin allt eins leitt til aukins hitataps frá sjónum þangað til ísinn leggst yfir svæðið á ný yfir veturinn.
Þróunin síðustu ár
Einn besti mælikvarði á ástand hafísbreiðunnar er hið árlega útbreiðslulágmark í septembermánuði þegar sumarbráðnuninni lýkur og vetrarfrostin taka við. Að þessu sinni átti þetta útbreiðslulágmark sér stað í kringum 13. september og þá kom í ljós, eins komið hefur fram í fréttum, að útbreiðslan var hin þriðja lægsta frá því nákvæmar gervihnattmælingar hófust árið 1979. Þetta hefur hinsvegar verið túlkað á mismunandi hátt enda vilja sumir frekar benda á að hafísútbreiðslan hafi aukist annað árið í röð, sem er vissulega líka rétt. Hvernig sem þetta er annars orðað þá er staðreyndin sú að útbreiðsla hafíssins hefur farið minnkandi síðustu áratugi og þá sérstaklega að sumarlagi.
Árið 2007 sló sumarbráðnunin öll fyrri met, auk þess sem óvenjumikið ísmagn tapaðist út úr íshafinu vegna óhagstæðra ríkjandi vindátta fyrir ísinn. Sömu óvenjulegu aðstæður hafa hinsvegar ekki verið fyrir hendi síðustu tvö ár og því eðlilegt að hafísinn hafi eitthvað náð að jafna sig aftur. En það er ekki bara útbreiðslan sem þarf að horfa á þegar ástand hafíssins er metið. Samkvæmt nýjum fréttum frá Dönsku veðurstofunni, sem fylgist vel með ástandi íssins, hefur heildarrúmmál íssins aldrei verið minni en í nú ár í 30 ára sögu gervitunglamælinga, enda er ísinn orðinn mun þynnri og gisnari en áður var. Þynnri ís er þar að auki mun hreyfanlegri en sá þykki og gamli sem eykur líkurnar á því að hann brotni upp og berist frá pólnum til hlýrri svæða.
Íslaust íshaf að sumarlagi
Í rauninni er varla mögulegt að spá því með nokkru viti hvenær við getum átt von á allsherjar bráðnun íssins að sumarlagi. Þó að norðurpóllinn sjálfur nái því einn daginn að vera íslaus geta liðið mörg ár þar til við sjáum Norður-Íshafið íslaust í heild sinni en samkvæmt spám virðist sumarísinn hverfa síðast af svæðum norður af Grænlandi og Kanada. Einnig verður að gera ráð fyrir því að þegar og ef Norður-Íshafið nær því að loks að verða íslaust í fyrsta sinn, er ekki víst að það verði endanlegur atburður og öll sumur þar á eftir verði íslaus. Líklegra er að það verði stakur atburður í fyrstu vegna óvenjulegra aðstæðna, svipað og lágmarkið 2007 og einhver ár munu svo jafnvel líða þar til slíkt gerist á ný. Íslaust íshaf yrði svo í framhaldinu sífellt algengari atburður eftir því sem loftslag hlýnar.
Hvað sem annars má segja um framhaldið má líta svo á að hafíslágmarkið 2007 hafi gefið sterka vísbendingu um hversu viðkvæm ísbreiðan er orðin fyrir óhagstæðum skilyrðum. Það munu áfram koma ár sem eru kaldari en árin á undan, en svo lengi sem hlýnun til lengri tíma er í gangi, ætti að vera óhætt að spá íslausu Norður-Íshafi að sumarlagi, jafnvel innan nokkurra áratuga.
Hafísútbreiðsla á Norður-Íshafinu þann 15. september árin 1979, 1989, 1999, 2007, 2008 og 2009. Myndin er sett saman útfrá kortum sem hægt er að nálgast að á vefsíðunni, The Cryosphere Today (http://arctic.atmos.uiuc.edu/cryosphere/index.noshade.html).
Vísindamenn segjast hafa fundið leið til að rækta skóga í Sahara – sem mótvægisaðgerð gegn hlýnun jarðar.
Í yfir öld hafa vísindamenn einstaka sinnum fengið þá draumóra að breyta Sahara úr eyðimörk og í grænar lendur gróðurs og ræktaðs lands. Nú segjast vísindamenn vera búnir að finna leið til að láta þessa drauma rætast – og hægja á hlýnun jarðar í leiðinni. Hugmyndin er hugarfóstur Leonards Ornstein, sem er frumulíffræðingur að mennt, ásamt David Rind sem sérhæfir sig í loftslagslíkönum og Igor Aleinov sem vinnur hjá geimvísindarannsóknastöð NASA.
Hitabreytingar við að rækta skóg í Sahara og Ástralíu.
Þeir sjá fyrir sér að vinna salt úr sjó og hreinsa það úr vatninu sem yrði síðan dælt inn á land. Sérstakt vökvunarkerfi (e. drip irrigation) sem myndi vökva rætur trjánna myndi sjá til þess að vatnið myndi ekki gufa upp eða seytla niður í jarðveginn.
Hitaþolið tré sem gæti þolað hita Sahara með nægilegri vökvun. Eucalyptus grandis
Loftslagshermir sem vísindamenn keyrðu bendir til að Sahara myndi með þessu móti kólna um allt að 8°C á sumum svæðum. Margar trjátegundir eru hitaþolnar svo lengi sem þær fá nægilegt vatn að rótunum. Aukin trjágróður myndi auk þess auka úrkomu um 700-1200 mm á ári, auk skýjamyndana. Auðnir Ástralíu er annað svæði sem gæti notast við sömu aðferðafræði.
Ef hraðvaxta tré yrðu gróðursett í Sahara og Ástralíu t.d. Eucalyptus grandis (sjá mynd), þá myndi kolefnisbinding aukast um allt að 8 milljarða tonna á ári – næstum jafn mikið og losun manna við brennslu jarðefnaeldsneytis og skóga er í dag. Sú árlega kolefnisbinding myndi síðan halda áfram í nokkra áratugi.
Þetta verkefni yrði þó ekki ódýrt, en vísindamennirnir telja að samtals myndi það kosta 2000 milljarða dollara (og reiknið nú). Eftir nokkra áratugi yrðu skógarnir nægilega stórir til að hægt væri að nýta þá til orkuvinnslu – þannig að þeir myndu binda jafn mikið CO2 og myndi losna við orkuvinnsluna.
Þess konar skógrækt hefur einhverjar hliðarverkanir. Aukinn raki getur aukið líkur á engisprettufaröldum í Afríku, líkt og einstaka votviðrisár gera nú. Einnig getur raki vætt núverandi jarðveg það mikið að járnríkt ryk hætti að berast frá Sahara og yfir í Atlantshafið, þar sem það eykur næringargildi sjávar, fyrir t.d. þörunga.
Hér er áhugavert myndband sem sýnir hvernig losun CO2 gæti þurft að þróast ef takast eigi að halda hlýnuninni fyrir innan tveggja gráðu markið, ef gæta á sanngirnis milli þjóða heims.
Um daginn birtust fréttir á mbl.is og fleiri vefmiðlum sem, fyrir aðra en jarðfræðinga, virðast hálfundarlegar. En þar var greint frá ráðstefnu sem halda ætti um áhrif loftslagsbreytinga á ýmsar hamfarir af jarðfræðilegum toga, t.d. jarðskjálfta, skriður, hafnarbylgjur (tsunami) og síðast en ekki síst eldvirkni. Það skal tekið fram að margt af þessu er eingöngu fræðilegur möguleiki og því óþarfi að hafa miklar áhyggjur af því – en það er þó ekkert að því að jarðfræðingar skoði málið. Ég fjalla mögulega um jarðskjálfta, skriður og hafnarbylgjur síðar, en ég ætla að líta aðeins á þær fullyrðingar að loftslag geti haft áhrif á eldvirkni.
Áhrif eldvirkni á loftslag
Það vita flestir sem lesið hafa sig til um loftslagsbreytingar að eldgos hafa tímabundin áhrif á loftslag, sjá Orsakir fyrri loftslagsbreytinga en þar segir meðal annars:
Stór eldgosgeta valdið snöggum breytingum í stuttan tíma og þá til kólnunar (ár eða nokkur ár), t.d. eldgosið í Mount Pinatubo árið 1991 sem lækkaði hitastig jarðar tímabundið um sirka 0,4°C . Þau tímabil í jarðsögunni þar sem eldvirkni hefur verið mun meiri en nú, hafa þó getað valdið töluverðri kólnun þann tíma. Þess lags eldvirkni verður þó einungis nokkrum sinnum á hverjum hundrað milljón árum og veldur gríðarlegum loftslagsbreytingum í milljónir ára með tilheyrandi útdauða lífvera. Eldfjöll gefa frá sér CO2 í nokkuð miklu magni en það er þó einungis 1/130 af því sem menn losa á ári eins og staðan er í dag.
Áhrif loftslagsbreytinga á eldvirkni
Dyngjur á Íslandi (rauðar stjörnur). Mynd úr grein Andrew og Ágústar Guðmundssonar 2007.
Eitt nærtækasta dæmið um áhrif loftslagsbreytinga á eldvirkni, eru svokölluð dyngjugos, en hér á landi virðast þau sem við þekkjum hvað mest í dag, hafa myndast að mestu stuttu eftir að síðasta kuldaskeiði ísaldar lauk (fyrir um 10.000 árum), þ.e. á fyrstu nokkrum þúsundum árum nútíma (e. holocene). Talið er að farglétting vegna hvarfs hins stóra ísaldarjökuls sem huldi nær allt landið hafi orðið til þess að breyta þrýstingi jarðskorpunnar og koma af stað hinum miklu dyngjugosum. Dyngjugos eru ættuð djúpt úr skorpunni og er kvikan mjög basísk og þunnfljótandi – svokölluð flæðigos, sem standa yfir í nokkur ár eða áratugi og mynda umfangsmikil, lág og regluleg fjöll – svokallaðar dyngjur. Hraunin sem mynda þau eru kölluð helluhraun. Dæmi um slík fjöll eru t.d. Skjaldbreiður og Dyngjufjöll. Sambærileg eldgos urðu líka nokkrum sinnum á kuldaskeiðum ísaldar, en þá urðu til móbergstapar – t.d. Herðubreið. Síðastliðin 3.500 ár hefur eingöngu ein dyngja myndast og það var á toppi Surtseyjar á sjöunda áratugnum (ef að sjórinn yrði þurrkaður upp umhverfis Surtsey, þá er líklegt að eftir standi móbergstapi).
Dyngjan Skjaldbreiður (mynd wikipedia)
Ástæður dyngjugosanna er talin margþætt en ein af kenningunum, um hinn mikla fjölda dyngjugosa svona stuttu eftir að jökla leysti, er að það sé út af fargléttingu þegar ísaldarjöklarnir bráðnuðu. Fargið er talið hafa haft þau áhrif að kvika átti erfitt með að safnast fyrir í kvikuhólfum og að fargið hafi haldið aftur af henni neðar í jarðskorpuni. Á hámarki jökulskeiðana er því talið að meirihluti kviku sem náði að brjóta sér leið upp hafi að mestu myndað innskot og kvikuhólf sem síðar áttu eftir að gjósa. Strax við upphaf jökulhörfunar er talið að kvika hafi átt greiðari leið upp að yfirborði og myndað móbergshryggi og móbergsfjöll, eftir uppsöfnun í tugþúsund ár. Sú þróun hafi síðan náð hámarki þegar jökla leysti og myndað dyngjufjöllin. Smám saman síðastliðin nokkur þúsund ár hafi síðan kerfið náð að jafna sig og sambærileg eldvirkni og er nú, tók við.
Hvað gerist þegar jöklar Íslands hverfa?
Nú er talið að jöklar muni bráðna töluvert hér á Íslandi á þessari öld og þá er líklegt að ýmsar megineldstöðvar fari af stað, t.d. í Grímsvötnum sem dæmi. Hér fyrir neðan er mynd sem sýnir áætlaða jökulbráðnun nokkurra íslenskra jökla til ársins 2190. Ath að fyrir Vatnajökul þá er bara sýndur sunnanverður Vatnajökull – V. Svo er H=Hofsjökull og L=Langjökull (af heimasíðu Veðurstofunnar):
Nú er það spurning hvort sú farglétting sé nóg til að mynda öflug eldgos og auka eldvirknina hér á landi – þau þurfa þó ekki að verða dyngjugos eins og ég er búinn að vera að kynna hér fyrir ofan – en geta samt haft töluverð áhrif, sérstaklega ef þau verða á meðan enn er einhver jökull þar sem gos á sér stað, en það getur t.d. myndað sprengigos og jökulhlaup. En um það er erfitt að spá.
Nú geta stór eldgos haft töluverð áhrif til kólnunar eins og ég minntist á áður og þá vegna arða (e. aerosols) þ.e. öskuskýja og sýruúða sem hindrar sólarljósið í leið sinni niður til jarðar (samanber kólnunina árið 1991 – Pinatubo). Önnur dæmi eru til um slík eldgos og nærtækast er að taka skaftárelda 1783-84, en það eldgos er talið hafa kælt norðurhvel jarðar í 2-3 ár. Það fer þó allt eftir eðli eldgossins hverju sinni, hvort þau hafa einhver áhrif á loftslag.
Það virðist því fræðilegur möguleiki að stór eldgos geti orðið vegna hlýnunar – þau geta síðan haft áhrif til kólnunar – þau áhrif vara þó oftast nær í stuttan tíma, í nokkur ár í mesta lagi. Ef aftur á móti mikil dyngjugos verða og mikið magn af brennisteinsgasi fylgir eldvirkninni, þá geta þau áhrif varað mun lengur – áratugi. Hægt er að kalla þau áhrif minnkandi svörun (e. negative feedback) sem er andstæðan við magnandi svörun sem við minnumst stundum á hér.
Hvað með bráðnun Grænlandsjökuls og Suðurskautsins?
Af þessu má sjá, að eldvirkni er talin geta aukist vegna loftslagsbreytinga og þá jafnvel hér á landi, hvort það gerist við núverandi loftslagsbreytingar er erfitt að spá um. Hvað gerist t.d. ef Grænlandsjökull hverfur? Gríðarlegt farg myndi létta af jarðskorpunni og líklegt er að það geti haft töluverð áhrif á flæði möttulefnis jarðar. Engin virk eldfjöll eru á Grænlandi, en þar gaus síðast fyrir nokkrum tugmilljónum árum síðar (við opnun Atlantshafsins) – nærtækast væri að áætla að eldvirkni á Íslandi gæti breyst, jafnvel færst til og í átt til Grænlands – en það eru bara mínar óábyrgu pælingar. Þekking mín á Suðurskautinu er takmörkuð og áhrif loftslagsbreytinga á það er einnig óvissara – því læt ég staðar numið í þessum pælingum. Það getur vel verið að ég skrifi pistil um það síðar ef ég fæ fréttir af einhverjum nýjum rannsóknum í þá áttina.
Um næstu helgi, eða þann 26. september verður sýnd heimildamynd á sjónvarpstöðinni Planet Green Network (en sú stöð er hluti af Discovery Network). Þetta er fyrsta heimildamyndin um súrnun sjávar (e. ocean acidification) og heitir A Sea Change. Hér er sýnishorn:
Við hér á loftslag.is hvetjum hér með Ríkissjónvarpið að sýna myndina í vetur, enda á hún svo sannarlega erindi við okkur Íslendinga, sem sækjum stóran hluta af okkar fæðu og gjaldeyristekjum úr sjónum.
Ýmsar lausnir eru ræddar til að minnka losun koldíoxíðs af mannavöldum. Rannsóknir í líftækni iðnaðinum virðast einnig ætla að koma fram með lausnir á því sviði. Talið er að líftæknin geti hjálpað til við að minnka losun koldíoxíðs um allt að 2,5 miljarða tonna á ári, sem svarar u.þ.b. til losunar Þýskalands á ári hverju. Þetta kemur fram í skýrslu frá WWF (World Wildlife Fund).
Dæmi um tækni þar sem líftækni kemur til sögunnar, er að nú eru komin á markað þvottaefni þar sem hægt er að þvo á 30°C í stað 60°C, en ná samt sama árangri við þvott. Þar sem rafmagn er víða framleitt í raforkuverum sem brenna jarðefnaeldsneyti, þá hefur þessi aukna skilvirkni þvottaefnisins eitthvað að segja sem mótvægisaðgerð við losun koldíoxíðs. Það eru ensým í þvottefninu sem gera það að verkum að þessi árangur næst. Ensým þessi verða til við framleiðslu í líftækni iðnaðinum.
Talið er að fyrir 2030 sé möguleiki á því að losun koldíoxíðs geti verið á milli 1 – 2,5 miljarðar tonna minni ár hvert, vegna tækni sem líftækni iðnaðurinn kemur fram með. Það kann því að vera að hluti þeirra lausna, sem minnka losun koldíoxíðs, komi frá líftækni iðnaðinum. Ýmiskonar tækni frá líftækni iðnaðinum er nýtt í daglegu lífi í dag. Sem dæmi má nefna lausnir, sem stytta tímann sem tekur að baka nýtt brauð og lausnir sem auka uppskeru í vín-, osta- og jurtaolíuframleiðslu, ásamt þvottaefninu sem nefnt er hér að ofan.
Auk hlýnunar jarðar, þá veldur losun CO2 (koldíoxíðs) út í andrúmsloftið önnur og minna þekkt áhrif, svokallaða súrnun sjávar (e. ocean acidification). Frá aldamótunum 1800 hefur sjórinn gleypt einn þriðja af losun manna á CO2 og hefur sjórinn því verið eins konar sía sem minnkað hefur áhrif CO2 á hlýnun jarðar – en um leið hefur það haft áhrif á efnafræði sjávar. Áætlað hefur verið að ef losun heldur fram sem horfir, þá muni pH gildi sjávar falla um 0,4 til ársins 2100, þannig að sýrustig sjávar yrði hærra en síðastliðin 20 milljón ár.
Sýnishorn af lifandi bertálkna (limacina helicina) (a) við pH gildi 8,09 (b) og við pH gildi 7,8 (c) (mynd úr grein Comeau ofl)
Vísindamenn hjá Laboratoire d’Océanographie í Frakklandi hafa nú sýnt fram á að lykil lífverur, líkt og djúpsjávarkórallar (Lophelia pertusa) og skeldýr af ætt bertálkna (Limacina helicina), eigi eftir að verða fyrir töluverðum neikvæðum áhrifum í framtíðinni vegna áætlaðar súrnunar sjávar. Þeir rannsökuðu fyrrnefndar lífverur og áhrif breytingar á pH-gildi á skeljamyndun, en þessar lífverur mynda skel úr kalki. Þessar tegundir gegna mikilvægu hlutverki í sínu vistkerfi og lifa á svæðum sem verða fyrst fyrir barðinu á súrnun sjávar.
Fyrrnefndur bertálkni er mikilvægur fyrir vistkerfi sjávar á norðurslóðum en kalkskel hans er honum nauðsynleg vörn. Höfundar komust að því að við það að breyta pH gildi sjávar í áætluð gildi fyrir árið 2100 þá óx skel bertálknanna 30% hægar en við eðlilegt gildi.
Djúpsávarkórallinn sýndi enn minni vaxtarhraða eða um 50% hægari vöxt við fyrrnefndar breytingar og en hann þykir mikilvægur við að skapa búsvæði fyrir aðrar lífverur. Hægari vöxtur myndi því hafa neikvæð áhrif á þau vistkerfi.
Höfundar lýsa áhyggjum sýnum af framtíð bertálknanna, djúpsjávarkóralla og þeirra lífvera sem eru háðar þeim til lífsafkomu ef súrnun sjávar verður líkt og spár segja til um. Þeir telja að til að koma í veg fyrir að súrnun sjávar verði vandamál viðlíka sem þessi rannsókn bendir til, þá verði að draga töluvert úr losun CO2 út í andrúmsloftið.