Loftslag.is

Tag: viðburðir

  • Loftslagsganga, 21. September

    Loftslagsganga, 21. September

    Climate0MarchHinn 23. þessa mánaðar munu leiðtogar heims funda í New York um loftslagsbreytingar. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, er gestgjafi fundarins og markmið hans, og um leið alþjóðasamfélagsins, er að gefa ráðamönnum tækifæri til að ræða nauðsyn aðgerða nú rúmu ári fyrir Loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna sem haldið verður í París í lok árs 2015. Þar er stefnt að bindandi samkomulagi aðildarríkjanna um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Forsætisráðherra Íslands, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, mun sækja fundinn í New York fyrir hönd Íslands.

    Til að undirstrika kröfur um að Íslendingar axli ábyrgð sína í loftslagsmálum standa nokkur samtök fyrir göngu og útifundi í Reykjavík 21. september n.k. klukkan 14.00. Meðal þeirra er Vefritið Grugg, Náttúruverndarsamtök Íslands, Breytendur á Íslandi svo nokkrir séu nefndir. Safnast verður saman á svo kölluðu „Drekasvæði“ sem staðsett er á horni Kárastígs, Frakkastígs og Njálsgötu, þaðan sem gengið verður til fundar niður á Austurvöll. Samskonar göngur munu fara fram víða um heim, til að mynda í New York, Kaupmannahöfn, London, Berlín, Nýju Delhi og Melbourne (sjá: www.peoplesclimate.org). Búist er við að þetta verði stærsti viðburður tengdur loftslagsmálum í sögunni.

    Skýrsluhöfundar IPCC (Intergovernmental Panel on Climate Change) hafa tekið af öll tvímæli um að verði haldið áfram á sömu braut muni öfgar í veðri valda miklum hörmungum um víða veröld, hvort sem er í formi þurrka, hitabylgna eða æ ofsafengnari fárviðra. Einnig gæti yfirborð sjávar hækkað um allt að einn metra fyrir næstu aldamót og heimshöfin súrna hratt vegna síaukinnar losunar koltvísýrings út í andrúmsloftið. Súrnun sjávar mun líklega hafa graf alvarlegar afleiðingar fyrir Ísland sem fiskveiðiþjóð, rétt eins og hækkun yfirborðs sjávar ógnar framtíð þeirra þjóða sem byggja láglendar eyjar í Kyrrahafi.

    Enn er mögulegt að koma í veg fyrir að loftslag jarðar muni raskast varanlega með því að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda á komandi árum. Krafa loftslagsgöngunnar hinn 21. september er að stjórnvöld axli ábyrgð, virði skuldbindingar landsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og taki undir ítrustu kröfur um frekari samdrátt á vettvangi Evrópusambandsins* og Sameinuðu þjóðanna. Ennfremur að Ísland setji sér metnaðarfull markmið um samdrátt gróðurhúsaloftteguna til að kröfur um aðgerðir verði trúverðugar. Ríkisstjórn Íslands ber að taka undir málflutning Filipseyja og eyríkja sem mest er ógnað af völdum loftslagsbreytinga.

    Ennfremur er þess krafist, þar sem við horfum fram á óhjákvæmilegar afleiðingar útblásturs gróðurhúsalofttegunda á undanförnum 150 árum, að stjórnvöld hafi víðtækt samráð við almenning jafnt sem fyrirtæki og stofnanir um vinnu að aðgerðaáætlun um hvernig best sé að bregðast við breyttu loftslagi, breytingum á lífkerfi sjávar og viðbúnum auknum straumi flóttafólks.

    Mikilvægt er að frjáls félagasamtök, fyrirtæki, sveitarfélög, atvinnurekendur og almenningur leggi sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ríkisstjórnin ber aftur á móti pólitíska ábyrgð á því að koma nauðsynlegum breytingum í framkvæmd og beita öllum mögulegum mótvægisaðgerðum!

    Fylkjum liði 21. september, klukkan 14.00!

    *Ísland á aðild að loftslagsstefnu Evrópusambandsins. Því fylgja ekki einungis skyldur heldur einnig réttur til að hafa áhrif á stefnumótun Evrópusambandsins í loftslagsmálum.

    Sjá einnig:

    Loftslagsganga Reykjavíkur

    Facebooksíða göngunnar

  • Climate Reality Project – Bein útsending

    Climate Reality Project – Bein útsending

    Hér undir má sjá beina útsendingu frá viðburðinum 24 Hours of Reality, Climate Reality Project

    Klukkan 19 í dag hefst svo dagsskrá í Norræna húsinu á, sjá nánar á Facebook: Sannleikurinn um loftslagið/Climate Reality Project

    Sjá nánar:

    24 Hours of Reality, Climate Reality Project á Húsavík 15.september, klukkan 19:00

    Sjá viðburðinn í Norræna húsinu á á facebook: Sannleikurinn um loftslagið/Climate Reality Project

    Frétt af loftslag.is – Viðburður: Sannleikurinn um loftslagið – 24 hours of Reality

     

     

     

  • Viðburður: Sannleikurinn um loftslagið – 24 hours of Reality

    Viðburður: Sannleikurinn um loftslagið – 24 hours of Reality

    Við viljum vekja athygli á viðburði þann 14.-15. september þar sem vekja á athygli á loftlagsbreytingum með nýrri margmiðlunarsýningu um hlýnun jarðar.

    Verkefnið ber heitið „The Climate Reality Project“ og er á vegum Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og friðarverðlaunahafa Nóbels, og samtaka hans. Fimm ár eru frá því að kvikmyndin An Inconvenient Truth kom út og því heldur Gore alþjóðlegan viðburð sem á að sameina heimsbyggðina á ögurstundu í hnattrænni meðvitund til að koma áleiðis mikilvægum skilaboðum: Loftslagsbreytingar eru staðreynd og þær eru þegar hafnar.

    Al Gore hafði samband við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta lýðveldisins, til að fá Ísland til þess að taka þátt í þessu verkefni og úthlutaði forsetinn verkefninu til Garðarshólms og Norræna Hússins. Sýningin fer fram í Norræna húsinu og í húsi Garðarshólms á Húsavík 15. Sept kl. 19.00 en er einnig send beint út frá vef verkefnisins.

    Norræna húsið opnar kl. 18.30 þar sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson nýráðinn framkvæmdastjóri Landverndar tekur á móti fólki. Sýnt verður beint frá fyrirlestri á Húsavík og umræðum sérfræðinga um hvernig málið snýr að Íslandi. Almennar umræður verða svo í lokin. Dagskrá lýkur kl. 20:30.

    Á Húsavík opnar húsið kl. 18:00 og verða léttar veitingar á boðstólum í boði Gamla Bauks. Dagskráin hefst svo kl. 19:00 þegar Embla Eir Oddsdóttir, MA, verkefnisstjóri hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar býður gesti velkomna áður en Sigurður Eyberg, MS, verkefnisstjóri Garðarshólms flytur íslenska útgáfu af sýningu Gore’s. Viðburðinum lýkur með pallborðsumræðum þar sem Brynhildur Davíðsdóttir, PhD, dósent við Háskóla Íslands, Halldór Björnsson, PhD, veðurfræðingur og Þröstur Eysteinsson, PhD, sviðsstjóri þjóðskóganna sitja fyrir svörum gesta. Dagskrá lýkur kl. 20:30

    Á 24 klukkustundum, í 24 tímabeltum á fjölmörgum tungumálum mun 24 Hours of Reality opna nýja margmiðlunarsýningu um hlýnun jarðar sem Al Gore bjó til og her þjálfaðra fyrirlesara frá öllum heimshornum mun kynna. 24 Hours of Reality hefst í Mexíkóborg og heldur svo sem leið liggur í vestur í kringum hnöttinn. Sýndar verða í beinni útsendingu svipmyndir af áhrifum breytinga á loftslagi með sérstökum áherslum heimamanna, allt frá Kotzebue til London, frá Jakarta til New York – og til Húsvíkur. Allir viðburðirnir verða kvikmyndaðir og sýndir beint á netinu en einn viðburður fer fram í hverju tímabelti klukkan 19:00 að staðartíma og mun Al Gore sjálfur flytja síðasta fyrirlesturinn í New York.

    Með því að beina kastljósinu að breytingum á loftslagi í heilan sólarhring er ætlunin að búa til hnattræna hreyfingu og hvetja til aðgerða til lausna á vandanum hina 364 daga ársins. Á hverjum stað fyrir sig mun athyglinni beint að verkefnum og aðgerðum á vegum innlendra stofnanna og félagasamtaka og boðið upp á upplýsingar og tækifæri fyrir fólk að taka þátt í því sem er að gerast í þeirra eigin samfélagi. Þessar samræður um allan heim eiga að leiða til aðgerða sem leysa þann vanda sem breytingar á loftslagi eru.

    Sjá nánar:

    24 Hours of Reality, Climate Reality Project á Húsavík 15.september, klukkan 19:00

    Sjá viðburðinn í Norræna húsinu á á facebook: Sannleikurinn um loftslagið/Climate Reality Project

  • 10/10/10 – Baráttudagur gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum

    Sunnudaginn 10. október verður baráttudagur á heimsvísu gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Í ár er fjöldi þátttökulanda meiri en nokkurntíma áður og stefnir í að hópar frá nær öll lönd í heiminum verði með dagsskrá. Núna eru skráðir 6759 atburðir í 188 löndum. Það má lesa nánar um þetta á heimasíðu 350.org, sem eru samtökin sem hvetja til og standa að baki þessum baráttudegi á heimsvísu.

    ‎Í Reykjavík byrjar dagurinn kl. 14 með fjölda-hjólreiðatúr frá Austurvelli og upp Hverfisgötu að Hlemmi. Þar verður boðið upp á stutta kynningu á Hjólafærni og einkaleiðsögn án endurgjalds. Hjólafærni er tækni sem notuð er til að hjóla í sátt við aðra umferð á götum, og sérstaklega á frekar rólegum götum.

    Hlemmur er aðal almennningsamgöngumiðstöð Íslendinga og verða haldnir tónleikar þar, skiptimarkaður (þú getur skipt gömlu dóti út fyrir nýtt), gefins “Slow food” – hollur matur og kynningar á þeim lausnum sem eru til staðar sem lausnir varðandi loftslagsbreytingar.

    Að lokum verður buxnalaus gangur niður Laugaveg kl. 19 (hjólreiðafólk er líka hvatt til að hjóla í för með ber læri og leggi) – til að vekja athygli á grænum samgöngum!

    Dagskrá:
    14:00 Fjölda hjólreiðatúr @ Austurvöllur

    15:00-19:00 Viðburðir @ Hlemmur
    15:00 – Playground Birds
    16:00 – Bróðir Svartúlfs
    17:00 – Árstíðir

    Þess má geta að einnig verður svipuð dagsskrá á Ísafirði á sama tíma.

    Facebooksíða viðburðarins

    Hér er stutt myndband frá 350.org á YouTube.

    Tengt efni á loftslag.is: