Blogg: Ákvarðanafælni – nokkrar mögulegar ástæður

akvardanafaelniÞað eru nokkur atriði sem vert er að skoða varðandi loftslagsmál og hversu erfitt er að gera sér þau í hugarlund. Það er ekki innbyggt í okkur mannfólkið að bregðast við vanda sem erfitt er að sjá fyrir sér. Mig langar að velta fyrir mér nokkrum ástæðum sem geta legið að baki þessu. Þetta er m.a. í tilefni fréttar sem birt var hér á síðunum fyrir stuttu síðan, “Færri Bandaríkjamenn telja traustar sannanir fyrir hnattrænni hlýnun“. Jafnvel þó að vísindin bendi rökfast í átt til þess að hnattræn hlýnun eigi sér stað og að það sé vegna losunar koldíoxíðs í andrúmsloftið af völdum manna, þá eru sumir í vafa. Þetta getur átt sér margar skýringar og ekki ætla ég að skoða þær allar. Einfalda svarið er að fólk hafi margt á sinni könnu og geti eða vilji ekki setja sig inn í þessi mál. Hér eru þó nokkrar vangaveltur sem mig langar að nefna til sögunnar.

Í fyrsta lagi virðist mannfólkið ekki vera forritað til að taka ógnanir sem gerast í framtíðinni eins alvarlega og þær sem eru yfirstandandi. Þó svo hafísinn bráðni, jöklarnir hopi og þurrkar rasi, þá er það bara eitthvað sem á sér stað annarsstaðar og er ekki hluti af okkar daglega lífi. Þetta er ekki neitt sem að við finnum eða sjáum hér og nú. Það getur því ekki jafnast á við þau daglegu vandamál okkar eins og að borga reikningana eða eiga fyrir mat.

Næst má nefna, að það getur kostað peninga að gera “réttu” hlutina, og eins getur verið erfitt að hætta því sem er orðið að vana. Það getur verið erfitt og dýrt að hætta að nota jeppann og kaupa umhverfisvænan bílinn í staðinn. Einnig getur verið erfitt að endurhugsa vana eins og að nota eingöngu bílinn þegar farið er í bæjarferð, heldur en t.d. að skella sér í strætó eða hjóla stöku sinnum einnig.

Í þriðja lagi má nefna það, að hægt er að færa rök fyrir því að sum okkar eru komin langt frá náttúrunni, mörg búum við í bæjum og notum mikinn hluta lífsins innandyra. Þannig má færa rök fyrir því að við séum hugsanlega búin að missa einhver tengsl við náttúruna. Mörgum finnst einnig að við getum ekki haft mikil áhrif á náttúruna. Síðustu áratugi hefur fólksfjölgun verið gífurleg og öll kerfi samfélagsins hafa stækkað. Á sama tíma finnum við fyrir smæð okkar og eigum hugsanlega erfitt að ímynda okkur að við getum gert eitthvað í víðtæku máli eins og t.d. loftslagsvandanum.

Tími er líka nokkuð sem okkur finnst við aldrei hafa nóg af, allir vinna úti og einnig vinna báðir foreldrar oft langan vinnudag. Það má kannski segja að lífsstíllinn sé þannig að erfitt er að hugsa um vandamál sem ekki eru innan rammans ef svo má að orði komast. Þ.e.a.s. þau mál sem falla utan fjölskyldunar eða lífsstíls okkar, eru ekki eins aðkallandi. Hraðinn í þjóðfélaginu gerir það m.a. að verkum að auðvelt er að fresta annars aðkallandi málum sem ættu að fá meiri athygli.

Að lokum langar mig að nefna ýmislegt í umræðunni, þar sem stjórnmál, þrýstihópar og fleiri aðilar drepa umræðu um loftslagmál á dreif og reyna að gera minna (eða í sumum tilfellum meira) úr vandanum en tilefni er til. Þannig finnst sumum hugsanlega erfitt að henda reiður á hvað eru staðreyndir og hvað ekki.

Hér eru nefndar nokkrar vangaveltur sem geta valdið ákvarðanafælni í stærri málum eins og t.d. loftslagsmálum.

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.