Loftslag.is

Blog – Loftslag.is er í vinnslu – verið er að uppfæra vef

  • Gestapistill: Veðurfar Norðurheimskautsins frá upphafi okkar tímatals

    Þær hafa vakið talsverða athygli niðurstöður þær sem birtar voru í Science í byrjun september þar sem lesin voru saman ólík veðurvitni af svæðum norðurhjarans. Af þeim var síðan dregin ályktun um hitasveiflur norðurheimskautssvæða síðustu 2.000 árin eða svo.

    Leiddar eru að því líkur að á þeim hluta norðurhvels sem er norðan 60°N br. ( Ísland þar með) hefði veðurfar farið hægt og bítandi kólnandi frá því um kristburð og þar til um 1850-1900. Síðan þá bendi þessi sömu gögn til skarprar hlýnunar. Geislunarmætti sólar hefur farið minnkandi að sumarlagi á norðurhveli jarðar ef miðað er við 65°N.br. Samdrátturinn nemur heilum 6W/m2 miðað við ytri mörk lofthjúps. Kólnun lengst af þessi tvö síðustu árþúsund kemur því heim og saman við langtímasveiflur í sólgeislun. Litla Ísöldin, kalda tímabilið frá því um 1300 er því með einum eða öðrum hætti afleiðing þessa.

    Bandaríkjamaðurinn Darrel S. Kaufman fer fyrir hópnum sem skrifar sig fyrir þessari grein og þarna má sjá nokkur mjög þekkt nöfn í loftslagsvísindunum. Aðferðarfræði þeirra er í sjálfu sér einföld. Safnað var saman niðurstöðum ólíkra rannsóknaleiðangra sem allir áttu það sammerkt að safna gögnum um loftslag fyrri tíma á stöðum norðan 60°N.br. Sjá má staðsetningu á kortinu. Alls voru 23 óháðar niðurstöður sem krufnar voru til mergjar og út frá þeim mælingum var útbúið gagnasafn 2.000 ár aftur í tímann. Veðurvitnin voru þrennskonar:

    • 4 þeirra komu frá árhringjamælingum gamaltrjáa.
    • 7 eru borkjarnar í ís, einkum frá Gænlandi.
    • Flest veðurvitnin eða 12 talsins eru hins vegar fengin úr setlögum á botnin stöðuvatna.

    ESV_MYND3

    Eitt þeirra er Haukadalsvatn, en Áslaug Geirsdóttir prófessor við Jarðvísindastofnun Háskólans hefur farið fyrir setlagagreiningum þar og má lesa nánar um þær í nýrri grein hér sem auk hennar skrifa m.a. Þorvaldur Þórðarson og Kristín B. Ólafsdóttir.

    Nú er það svo að talsverð óvissa kemur fram í þessum veðurvitnapælingum öllum þar sem þau endurspegla veðráttuna, en mæla hana ekki nákvæmlega. Í setlagarannsóknum er þannig gjarnan sagt að frávik í sjálfum mælingunum frá ári til árs geti verið allt að 10%. En sú leið að taka margar sambærilegar rannsóknir og leggja saman, jafnar út margvísleg frávik og skekkjur mælinga í óháðum rannsóknum. Myndin hér að neðan sýnir hvernig trjáhringir og ískjarnar víkja frá línu mælds hita (svört) frá því fyrir 1960. Vatnasetið kemur betur út og trjáhringir sveiflast eins og kunnugt er eftir öðrum þáttum en hitanum eingöngu s.s. aðgangi að vatni og þar með úrkomu. En þegar þessi ólíku veðurvitni eru vegin saman (gráa línan) verður frávik frá hitamælingum minniháttar. Það að hægt sé að prófa aðferðina og bera saman við raunverueg mæligögn síðustu áratuga gerir niðurstöður og túlkun þeirra trúverðugri en annars væri.

    ESV_MYND1

    Nú eru það svo sem engin ný tíðindi að loftslag hafi farið kólnandi á norðurhveli jarðar síðasta árþúsundið eða svo ef 20. öldin er undanskilin. Hin svokallaða fjölvitnaröð Moberg og hinn frægi hokkístafur Mann hafa sýnt svipaða þróun, en báðar byggja þær á ýmsum gerðum veðurvitna. Kaufman og félagar einskorða sína skoðun hins vegar við norðurhjarann og í því liggur mestur munurinn. Sjá má nokkurn mun á milli þessara niðurstaðna þó svo að heildarmyndin sé sambærileg. Það er einna helst að álykta megi að hlýrra hafi verið á norðurskautssvæðum en annars á norðurhveli framan af tímanum s.s. nærri árinu 400.

    ESV_MYND2

    David Scneider einn höfunda greinarinnar sagði að þessi rannsókn á langtímahitasveiflum gæfi fyrst og fremst til kynna hve aukin gróðurhúsaáhrif síðari tíma hafi náð að yfirgnæfa algerlega hinar náttúrulegu langtíma veðurfarssveiflur norðurhjarans.

  • Heitt: Er hokkíkylfan ónýt?

    McIntyre er maður nefndur, vísindabloggari og efasemdamaður um hlýnun jarðar af mannavöldum. En hann hefur í gegnum tíðina verið ákafur í því að gagnrýna hokkíkylfuna (sjá Hokkíkylfan er röng). Nú telur hann sig hafa fundið vísbendingar um að hokkíkylfan sé ómerk.

    Ályktanir McIntyre

    Samkvæmt McIntyre eru rjáhringjagögn fyrir Yamal hérað í Rússlandi of fá til að vera tölfræðilega marktæk og virðast vera handtínd úr stærri hópi gagna. Þegar allt gagnasafnið (eða annar hluti þess) er tekið þá sýna þau aðra mynd en hin klassíska hokkíkylfa – þ.e. litla sem enga hlýnun síðastliðin 100 ár eða svo.

    Þar sem hokkíkylfan byggir að hluta til á þessum gögnum, þá þykir McIntyre nokkuð ljóst að hokkíkylfan er röng. Þar sem hokkíkylfan er röng, þá þykir honum nokkuð ljóst að hlýnun jarðar nú er ekki eins áhrifamikil og hokkíkylfan sýnir. Því eru þetta náttúrulegar sveiflur og hlýnun jarðar ekki af mannavöldum. Þessi frétt hefur síðan farið eins og eldur um sinu.

    Samanburður á trjáhringjagögnum frá Yamal. Rauða línan sýnir með 12 handvöldum sýnum. Svarta línan ef gögn frá Khadyta á eru tekin með og hin 12 sýnin ekki (mynd af heimasíðu McIntyre). Samanburður á trjáhringjagögnum frá Yamal. Rauða línan sýnir hitastigsproxý með 12 handvöldum sýnum. Svarta línan ef gögn frá Khadyta á eru tekin með og hin 12 sýnin ekki (mynd af heimasíðu McIntyre).

    RealClimate er búið að skrifa um ásakanir hans á kaldhæðinn en sannfærandi hátt: Hey Ya! (mal), en einnig hefur Briffa (einn af þeim sem ásakaður er um falsanir) svarað honum: The Yamal ring-width chronology of Briffa (2000).

  • Frétt: Fjórar gráður

    Ef losun gróðurhúsalofttegunda heldur áfram að aukast óhindrað, þá er talið líklegt að meðalhitastig jarðar muni verða fjórum gráðum hærra í lok þessarar aldar – jafnvel fyrr (2060-2070), samkvæmt bresku veðurstofunni (Met Office).

    Dagana 28.-30. september var ráðstefna þar sem kannaðar voru afleiðingar af slíkri hitastigshækkun (4 degrees and beyond). Þar kemur meðal annars fram að aukningin verði ekki jöfn yfir allan hnötinn.  Dr Richard Betts sem fjallaði um staðbundin áhrif óheftrar losunar segir: “Meðalhitastigshækkun um fjórar gráður hnattrænt, verður til þess að staðbundið verði hitastig margra svæða enn hærra, ásamt miklum breytingum í úrkomu. Ef losun gróðurhúsalofttegunda dregst ekki saman fljótt, þá gætum við orðið vitni að miklum loftslagsbreytingum út okkar ævi.”

    Glæra frá ráðstefnunni. Hugsanleg hitastigshækkun fyrir árin 2090-2099, samanborið við meðaltal áranna 1961-1990 ef losun heldur áfram óheft. Hér er ekki tekin með magnandi svörun sem gæti aukið hækkun hitastigs enn frekar (Met Office).
    Glæra frá ráðstefnunni. Hugsanleg hitastigshækkun fyrir árin 2090-2099, samanborið við meðaltal áranna 1961-1990 ef losun heldur áfram óheft. Hér er ekki tekin með magnandi svörun sem gæti aukið hækkun hitastigs enn frekar (Met Office).

    Talið er að hitastig Norðurskautsins geti orðið 15,2 °C hærra við hæstu tölur um losun CO2 og að þessi mikla hitastigshækkun magnist upp við bráðnun á snjó og ís sem svo aftur verður til þess að Norðurskautið gleypir meiri hita við inngeislun frá sólinni.

    Á vestari og suðurhluta Afríku er búist við hvoru tveggja, mikla hlýnun (allt að 10 °C) og þurrka. Einnig er talið að Mið-Ameríka, miðjarðarhafið og hluti Ástralíu eigi eftir að verða fyrir miklum þurrkum, á meðan úrkoma er talin geta aukist um 20% á sumum svæðum, t.d. Indlandi. Aukin úrkoma er talin auka líkur á flóðum úr fljótum.

    Dr Betts segir ennfremur: “Þessi áhrif eiga eftir að hafa miklar afleiðingar á fæðuöryggi, vatnsframboð og heilsu. Hinsvegar má forðast að hitastigshækkun á við þessa verði að veruleika með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ef toppnum í losun gróðurhúsalofttegunda verður náð á næsta áratug og minnki síðan snarlega, þá er mögulegt að hækkun hitastigs verði um helmingur þess sem mögulegt er miðað við óhefta losun”.

    Ítarefni

    Sjá nánar frétt á vef Met Office . Einnig má skoða glærur og hljóðupptökur fyrirlestra fyrrnefndrar ráðstefnu á 4degrees & beyond.

  • Blogg: Er aukið CO2 í andrúmsloftinu jákvætt?

    Það heyrist stundum að aukið CO2 í andrúmsloftinu sé jákvætt og þá sérstaklega fyrir plöntur – að aukin losun muni hafa góð áhrif á landbúnað víða um heim. Það er svo sem ekki óeðlilegt að álykta sem svo, plöntur þurfa jú CO2 til að vaxa, aukið CO2 hlýtur því að bæta vaxtarskilyrðin.  En er eitthvað til í þessu og vegur það upp á móti neikvæðum áhrifum af auknu CO2 í andrúmsloftinu?

    Jákvæð áhrif

    Plöntur eru mismunandi – sumar eru með innbyggt kerfi sem eykur magn CO2 í plöntuvef þeirra og aukið CO2 hefur ekki áhrif á þær plöntur. Aðrar plöntur þurfa  vatn til að ná í CO2 og þar sem vatn er af skornum skammti þá getur þetta haft jákvæð áhrif  – en minni en búist hefði verið við fyrirfram, en rannsókn bendir til að uppskera geti aukist um 13% við aukið CO2(Long o.fl 2006).

    Tilraun í gangi þar sem CO2 var aukið á ákveðnum bletti (Lang o.fl 2006).
    Tilraun í gangi þar sem CO2 var aukið á ákveðnum bletti. Uppskeran jókst að meðaltali um 13% (Long o.fl 2006).

    Á móti kemur að hærri hiti eykur uppgufun og við það minnkar vatn. Einnig bendir margt til þess að þessi jákvæðu áhrif vari yfirleitt í örfá ár, eftir það fara aðrir þættir að hafa meiri áhrif (skortur á vatni og köfnunarefni).

    Neikvæð áhrif

    Þó að plöntuvöxtur geti aukist á kaldari slóðum, þá er margt sem bendir til þess að lítil hitaaukning í hitabeltinu geti haft neikvæð áhrif á plöntuvöxt þar. Rannsóknir benda t.d. til þess að þetta hafi neikvæð áhrif á hitabeltisskóga í Panama, en þær rannsóknir hafa staðið yfir í tvo áratugi samfellt og sýna að vöxtur trjáa hefur minnkað um 25%, við 1°C hitastigshækkun (Fox 2007).  

    Þá  má benda á grein um gömlu trén í Yosomite, en samkvæmt henni þá eru þau að drepast og eru nýlegar loftslagsbreytingar – hlýnun jarðar – talinn helsti orsakavaldurinn. Þau tré hafa lifað af talsverðar sveiflur undanfarnar aldir, en hitaaukningin síðustu áratugi virðist hafa dregið úr þeim mátt (Lutz o.fl. 2009).

    Pinus ponderosa, eitt af gömlu trjánum í Yosomite Park.
    Pinus ponderosa, eitt af gömlu trjánum í Yosomite Park.

    Hvað varðar uppskeru við matvælaframleiðslu, þá er hún töluvert flókin. Mikið af þeirri uppskeru sem ræktuð er þarfnast sérstakrar tegundar jarðvegs, loftslags, rakastigs, veðurs og fleira. Ef loftslag breytist það mikið að uppskera brestur ítrekað, þá þarf að færa framleiðsluna annað – en það er ekki víst að það sé alltaf hægt.

    Niðurstaða

    Miðað við þær neikvæðu afleiðingar sem fyrirsjáanlegar eru í framtíðinni vegna aukins magns CO2 í andrúmsloftinu, þá þyrfti jákvæði þáttur losunar CO2 að vera mikill. Fátt bendir til þess og margt sem spilar inn í sem lítið er vitað um. 

    Spár gera ráð fyrir miklum úrkomubreytingum með þurrkum víða um heim og  flóðum, hækkun sjávarstöðu með tilheyrandi sjávarflóðum, óbærilegan hita í sumum löndum og landsvæðum, vatnsskort í mörgum löndum vegna minnkandi vatnsforðabúra, t.d. vegna bráðnunar jökla. Ekki má gleyma súrnun sjávar, sem er bein afleiðing aukins CO2 í andrúmsloftinu og getur haft áhrif á lífríki sjávar. Þetta allt getur þýtt uppskeru- og aflabrest, hungursneyð og búferlaflutninga í mörgum af þeim löndum sem fjölmennust eru – farsóttir og stríð gætu fylgt í kjölfarið á slíkum aðstæðum.

    Því er erfitt að sjá fyrir að jákvæði þáttur aukinnar losunar CO2 vegi upp á móti neikvæðum afleiðingum þess.

    Heimildir

    Grein um vaxtarhraða planta við aukið CO2: Long o.fl. 2006 –  Food for Thought: Lower-Than-Expected Crop Yield Stimulation with Rising CO2 Concentrations 
    Grein um vöxt trjáa í Panama: Fox 2007 – Saved by the trees? 
    Grein um trén í Yosomite Park: Lutz o.fl. 2009 – Twentieth-century decline of large-diameter trees in Yosemite National Park, California, USA

  • Heitt: Bandarísk auglýsing vekur furðu

    Nýleg bandarísk auglýsing hefur vakið furðu og sýnir eflaust best hversu langt sumir vilja ganga til að koma í veg fyrir sátt milli þjóða heims í að draga úr losun CO2. Sjá umfjöllun á vef Guardian.

  • Tenglar: Sjávarstöðubreytingar með Sea Level Explorer

    Maður heyrir oft um hækkandi sjávarstöðu en það er ekki alltaf víst að maður geri sér grein fyrir því um hvað þetta snýst. Nýlegar rannsóknir á bráðnun jökla á Grænlandi og Suðurskautinu benda til þess að hækkun sjávarstöðu geti gerst hraðar en spár hafa gefið til kynna hingað til; fyrir tveimur árum þá heyrði maður hæstu tölur í kringum hálfan til einn metra í lok þessarar aldar – nú heyrir maður oftar tölur sem eru nær 1-2 metrar. Það eru í raun ekki háar tölur – en með því að skoða kort af heiminum í dag, þá sér maður að búsvæði milljóna manna er í hættu – um 100 milljónir manna búa nú á svæðum sem eru innan við metra fyrir ofan núverandi sjávarstöðu. Auk þess er talið að einungis nokkrir tugir sentimetra sé nóg til að auka hættu af sjávarflóðum tífallt.

    Hægt er að skoða hvað hækkun sjávarstöðu þýðir með því að skoða kort sem sýna hvar hækkandi sjávarstaða mun hafa mest áhrif, endilega skoðið Sea Level Explorer frá Global Warming Art.

    Kort sem sýnir áhrifasvæði hækkunar sjávarstöðu (Sea Level Explorer - Global Warming Art)
    Kort sem sýnir áhrifasvæði hækkunar sjávarstöðu (Sea Level Explorer – Global Warming Art)
  • Myndband: Hugleiðingar Carl Sagan um Jörðina

    Hér kemur stutt hugleiðing Carl Sagan um stærð Jarðarinnar í rúmi og tíma. Við erum örsmá í hinum risavaxna alheimi. Hugleiðingar hans leiða okkur að því hvernig við göngum um plánetuna. Verði ykkur að góðu, njótið hugleiðinga Carl Sagan um hin afmarkaða bláa punkt sem við búum á.

  • Frétt: Þynning jökla á Grænlandi og Suðurskautinu

    Umfangsmikil rannsókn á jöklum Suðurskautsins og Grænlands sýnir að jökulþynning á Grænlandi er byrjuð á Norður-Grænlandi og hefur dreifst um allt Suðurskautið. Þynningin er að aukast inn á land á báðum jökulbreiðunum (e. Ice Sheet), samkvæmt nýrri grein í Nature. Í greininni kemur fram að þynningin hefur haldið áfram í áratugi eftir upppbrotnun íshellna/jökulþylja (e. Ice Shelf) og segir þar að ástæða þess sé hlýrri sumur, en þó ennfremur hlýrri hafstraumar.

    Einn aðalhöfunda, Pritchard hjá Breskum Suðurskautsrannsóknum segir í viðtali sem birtist í PlanetEarthOnline: “Jöklar geta minnkað vegna minni snjókomu, vegna aukinar sumarbráðnunar eða vegna þess að jöklar byrja að flæða hraðar – sem gerir þá óstöðuga. Við sýnum fram á að margir jöklar á báðum svæðum eru óstöðugir, vegna þess að þeir eru að bráðna hraðar”.

    Vísindamennirnir notuðu gögn frá NASA, úr svokölluðum ICESat gervihnetti til að bera saman mismun á hraða jökulstrauma – gögn frá árinu 2003-2008.  Niðurstaðan bendir til að jöklar hafi þynnst vegna hröðunar í átt til sjávar – svokölluð aflræn þynning (e. dynamic thinning) og Pritchard sagði ennfremur “Við höldum að þetta sé það sem gerðist með stóru jökulbreiðurnar í lok síðustu ísaldar. Rannsóknir sýna að þetta er að gerast á mörgum stöðum á Suðurskautinu og Grænlandi. Við urðum undrandi á því hversu umfangsmikil þessi bráðnun er”.

    Ný kort sem sýna bráðnun jökla á Grænlandi og Suðurskautinu. (Mynd: ICESat, NASA)
    Ný kort sem sýna bráðnun jökla á Grænlandi og Suðurskautinu. Rauðu svæðin sýna svæði þar sem jöklar eru að þynnast hraðast (Mynd: ICESat, NASA)

    Margt bendir til þess að vindar séu búnir að breyta sjávarstraumum og séu farnir að ýta hlýjum sjó í beina snertingu við fremsta hluta jöklana, en þeir jöklar sem eru að þynnast hraðar eru Pine Island jökullin, en einnig Smith og Thwaites jökullinn, en báðir eru á Vestur-Suðurskautinu. Þeir eru að þynnast um 9 m á ári.

    Jökulhörfun vegna aflrænnar þynningar er eitthvað sem lítið er vitað um, svo lítið að IPCC ákvað að taka það ekki með í reikninginn við áætlanir sínar um mögulega hækkandi sjávarstöðu. Það er ein af ástæðunum fyrir því að margir vísindamenn eru nú að spá meiri sjávarstöðuhækkunum en IPCC gerði, þeir eru farnir að gera ráð fyrir aukinni bráðnun Grænlands- og Suðurskautsjöklum. Pritchard segir að “aflræn þynning á Suðurskauts- og Grænlandsjöklum getur orðið langstærsti þátturinn í hækkandi sjávarstöðu … mesta þynningin er þar sem hröðun jökla er mest vegna uppbrotnunar íshellna”.

    Ágripið á ensku:

    Many glaciers along the margins of the Greenland and Antarctic ice sheets are accelerating and, for this reason, contribute increasingly to global sea-level rise. Globally, ice losses contribute 1.8 mm yr-1 , but this could increase if the retreat of ice shelves and tidewater glaciers further enhances the loss of grounded ice or initiates the large-scale collapse of vulnerable parts of the ice sheets. Ice loss as a result of accelerated flow, known as dynamic thinning, is so poorly understood that its potential contribution to sea level over the twenty-first century remains unpredictable. Thinning on the ice-sheet scale has been monitored by using repeat satellite altimetry observations to track small changes in surface elevation, but previous sensors could not resolve most fast-flowing coastal glaciers. Here we report the use of high-resolution ICESat (Ice, Cloud and land Elevation Satellite) laser altimetry to map change along the entire grounded margins of the Greenland and Antarctic ice sheets. To isolate the dynamic signal, we compare rates of elevation change from both fast-flowing and slow-flowing ice with those expected from surface mass-balance fluctuations. We find that dynamic thinning of glaciers now reaches all latitudes in Greenland, has intensified on key Antarctic grounding lines, has endured for decades after ice-shelf collapse, penetrates far into the interior of each ice sheet and is spreading as ice shelves thin by ocean-driven melt. In Greenland, glaciers flowing faster than 100 m yr-1 thinned at an average rate of 0.84 m yr-1, and in the Amundsen Sea embayment of Antarctica, thinning exceeded 9.0 m yr-1 for some glaciers. Our results show that the most profound changes in the ice sheets currently result from glacier dynamics at ocean margins.

    Heimildir:

    Greinin í Nature (áskriftar þörf) Pritchard o.fl 2009, Extensive dynamic thinning on the margins of the Greenland and Antarctic ice sheets

  • Myndband: Sjávarstöðubreytingar

    Hér er myndband frá Greenman3610 um sjávarstöðubreytingar. Hérna veltir hann því fyrir sér hvað IPCC hafi sagt í 4 matsskýrslu sinni um sjávarstöðubreytingar og hvað er innifalið í þeim spám? Hvað þýðir kraftmikil (dynamical) breyting á ísflæði? Þetta eru spurningar sem Greenman3610 reynir m.a. að leita svara við í þessu myndbandi.

  • Myndband: Acid Test – Heimildarmynd um súrnun sjávar

    Acid Test er heimildarmynd sem fjallar um áhrif af súrnun sjávar. Sigourney Weaver er sögumaður myndarinnar og þar koma m.a. fram vísindamenn sem segja frá súrnun sjávar og áhrifum þess á lífríki sjávar, sjá einnig frétt sem tengist þessu.

    Um súrnun sjávar

    Súrnun sjávar er aukaafurð losunar á CO2 út í andrúmsloftið og oft kallað “hitt CO2-vandamálið” (á eftir hlýnun jarðar). Vegna aukningar CO2 í andrúmsloftinu gleypir sjórinn aukið magn CO2 og við það verða efnaskipti sem breyta pH gildi sjávar – sjórinn súrnar.

    Súrnun sjávar hefur aukist það mikið undanfarna áratugi að talin er mikil hætta á því, að við munum verða vitni að svipaðri súrnun sjávar og varð fyrir 55-56 milljónum ára. Sú súrnun olli miklum útdauða sjávarlífvera. 1/6 af fæðu mannkyns er fengin úr sjónum og því eru miklir hagsmunir í húfi fyrir mannkynið (fyrir utan siðferðislega skyldu okkar að eyðileggja ekki lífsafkomu annarra lífvera).

    Það má því segja að jafnvel þeir sem viðurkenna ekki staðreyndina um hlýnun jarðar af mannavöldum, ættu að geta tekið undir það að nú verði að bregðast við aukningu CO2 andrúmsloftsins, áður en illa fer. Við núverandi losun CO2, þá er talið að súrnun sjávar verði farin að nálgast hættumörk árið 2030 (við CO2 magn í lofthjúpnum í sirka 450 ppm) en nú þegar er talið að áhrifa súrnunar sjávar sé farið að gæta.