Gestapistill: Veðurfar Norðurheimskautsins frá upphafi okkar tímatals

Þær hafa vakið talsverða athygli niðurstöður þær sem birtar voru í Science í byrjun september þar sem lesin voru saman ólík veðurvitni af svæðum norðurhjarans. Af þeim var síðan dregin ályktun um hitasveiflur norðurheimskautssvæða síðustu 2.000 árin eða svo.

Leiddar eru að því líkur að á þeim hluta norðurhvels sem er norðan 60°N br. ( Ísland þar með) hefði veðurfar farið hægt og bítandi kólnandi frá því um kristburð og þar til um 1850-1900. Síðan þá bendi þessi sömu gögn til skarprar hlýnunar. Geislunarmætti sólar hefur farið minnkandi að sumarlagi á norðurhveli jarðar ef miðað er við 65°N.br. Samdrátturinn nemur heilum 6W/m2 miðað við ytri mörk lofthjúps. Kólnun lengst af þessi tvö síðustu árþúsund kemur því heim og saman við langtímasveiflur í sólgeislun. Litla Ísöldin, kalda tímabilið frá því um 1300 er því með einum eða öðrum hætti afleiðing þessa.

Bandaríkjamaðurinn Darrel S. Kaufman fer fyrir hópnum sem skrifar sig fyrir þessari grein og þarna má sjá nokkur mjög þekkt nöfn í loftslagsvísindunum. Aðferðarfræði þeirra er í sjálfu sér einföld. Safnað var saman niðurstöðum ólíkra rannsóknaleiðangra sem allir áttu það sammerkt að safna gögnum um loftslag fyrri tíma á stöðum norðan 60°N.br. Sjá má staðsetningu á kortinu. Alls voru 23 óháðar niðurstöður sem krufnar voru til mergjar og út frá þeim mælingum var útbúið gagnasafn 2.000 ár aftur í tímann. Veðurvitnin voru þrennskonar:

  • 4 þeirra komu frá árhringjamælingum gamaltrjáa.
  • 7 eru borkjarnar í ís, einkum frá Gænlandi.
  • Flest veðurvitnin eða 12 talsins eru hins vegar fengin úr setlögum á botnin stöðuvatna.

ESV_MYND3

Eitt þeirra er Haukadalsvatn, en Áslaug Geirsdóttir prófessor við Jarðvísindastofnun Háskólans hefur farið fyrir setlagagreiningum þar og má lesa nánar um þær í nýrri grein hér sem auk hennar skrifa m.a. Þorvaldur Þórðarson og Kristín B. Ólafsdóttir.

Nú er það svo að talsverð óvissa kemur fram í þessum veðurvitnapælingum öllum þar sem þau endurspegla veðráttuna, en mæla hana ekki nákvæmlega. Í setlagarannsóknum er þannig gjarnan sagt að frávik í sjálfum mælingunum frá ári til árs geti verið allt að 10%. En sú leið að taka margar sambærilegar rannsóknir og leggja saman, jafnar út margvísleg frávik og skekkjur mælinga í óháðum rannsóknum. Myndin hér að neðan sýnir hvernig trjáhringir og ískjarnar víkja frá línu mælds hita (svört) frá því fyrir 1960. Vatnasetið kemur betur út og trjáhringir sveiflast eins og kunnugt er eftir öðrum þáttum en hitanum eingöngu s.s. aðgangi að vatni og þar með úrkomu. En þegar þessi ólíku veðurvitni eru vegin saman (gráa línan) verður frávik frá hitamælingum minniháttar. Það að hægt sé að prófa aðferðina og bera saman við raunverueg mæligögn síðustu áratuga gerir niðurstöður og túlkun þeirra trúverðugri en annars væri.

ESV_MYND1

Nú eru það svo sem engin ný tíðindi að loftslag hafi farið kólnandi á norðurhveli jarðar síðasta árþúsundið eða svo ef 20. öldin er undanskilin. Hin svokallaða fjölvitnaröð Moberg og hinn frægi hokkístafur Mann hafa sýnt svipaða þróun, en báðar byggja þær á ýmsum gerðum veðurvitna. Kaufman og félagar einskorða sína skoðun hins vegar við norðurhjarann og í því liggur mestur munurinn. Sjá má nokkurn mun á milli þessara niðurstaðna þó svo að heildarmyndin sé sambærileg. Það er einna helst að álykta megi að hlýrra hafi verið á norðurskautssvæðum en annars á norðurhveli framan af tímanum s.s. nærri árinu 400.

ESV_MYND2

David Scneider einn höfunda greinarinnar sagði að þessi rannsókn á langtímahitasveiflum gæfi fyrst og fremst til kynna hve aukin gróðurhúsaáhrif síðari tíma hafi náð að yfirgnæfa algerlega hinar náttúrulegu langtíma veðurfarssveiflur norðurhjarans.

Athugasemdir

ummæli

About Einar Sveinbjörnsson

Einar Sveinbjörnsson: Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands frá 1991-2007 (með hléum). Starfar nú sjálfstætt við gerð veðurspáa, miðlun veðurupplýsinga, hvers kyns ráðgjöf varðandi veður og veðurfar sem og veðurfræðikennslu. Áhugamaður um veðurfarsbreytingar, bæði náttúrulegar og þær sem taldar eru vera af mannavöldum.