Loftslag.is

Tag: Lífríki

  • Fuglar í vanda

    Fuglar í vanda

    Nokkrar nýjar greinar og skýrslur undanfarið sýna klárlega að vandi fugla er mikill og verður enn meiri við áframhaldandi loftslagsbreytingar og aðrar neikvæðar breytingar af mannavöldum.

    Rauði listinn

    toco-toucan-wild-reallySamkvæmt nýju mati þá er á bilinu fjórðungur til helmingur allra tegunda fugla  mjög berskjölduð (e. vulnerable) fyrir loftslagsbreytingum. Varað er við því að ef áfram heldur sem horfir í losun manna á gróðurhúsalofttegundum,  þá muni þurfa að kosta til miklum verndunaraðgerðum, sem ekki er víst að dugi til.

    Þetta nýja mat (Foden o.fl. 2013) var gert af vísindamönnum á vegum International Union for Conservation of Nature (IUCN), sem eru samtök sem meðal annars útbúa svokallaðan Rauða lista yfir tegundir í hættu (Red List of Threatened Species).

    Í matinu tóku Foden og félagar tillit til ýmissa þátta sem ekki höfðu áður ratað inn í útreikninga þeirra. Þættir eins og hversu fljótt tegundir gátu flust á milli búsvæða, og hvort á milli svæða væru hindranir, t.d. fjallgarðar. Þá var tekið með í reikninginn líkur á því að tegundirnar geti þróast, t.d. þróast þær dýrategundir hraðar sem fjölga sér hratt.

    Niðurstaðan er sláandi, en á bilinu 24 -50% allra fuglategunda eru talin mjög berskjölduð og þá vegna loftslagsbreytinga. Þessi niðurstaða er sambærileg við niðurstöðu rannsóknar sem birtist í Nature fyrir nokkrum árum (Thomas o.fl. 2004), en þar var talið líklegt að um 15-37 % allra dýrategunda yrðu nánast údauðar árið 2050 – vegna loftslagsbreytinga.

    Sérstaklega varasöm svæði eru t.d. Amazon frumskógurinn og Norðurskautið, en þar eru breytingarnar einna mestar og mikið af fuglum sem eru mjög aðlagaðir að því loftslagi.

    Norrænir fuglar við sjávarsíðuna

    Í nýrri tilkynningu frá hinni bandarísku  stofnun Fish and Wildlife Service (USFWS 2013) er sagt frá breytingum sem við íslendingar könnumst við. Meðfram ströndum Maine, nyrst á Austurströnd Bandaríkjanna, hafa stofnstærðir ýmissa fugla hrunið undanfarin ár. Þar eins og hér við Íslandsstrendur eru það meðal annars tegundir eins og lundar og kríur sem hafa farið halloka.

    Ástæðan er talin vera minnkandi fæða, hvoru tveggja vegna fiskveiða og vegna færslu fiskistofna til norðurs vegna hlýnunar sjávar. Erfiðara reynist því fyrir fugla við sjávarsíðuna að fæða unga sína. Kríustofninn við strendur Maine hefur t.d. hnignað um 40 % á síðustu 10 árum.

    Sjávarstöðubreytingar og farflug vaðfugla

    Nýlega birtist grein í Proceedings of the Royal Society B (Iwamura o.fl. 2013) um áhrif sjávastöðubreytinga á farflug vaðfugla.

    Red-Knot-Terek-Sandpipers-Broad-billed-Sandpipers-etcÞað hefur verið vitað í nokkurn tíma að sjávarborð sé að hækka vegna hlýnunar jarðar. Nú hafa Iwamura og félagar sýnt fram á hvernig sjávarstöðubreytingar hafa áhrif á vaðfugla. Milljónir vaðfugla stunda farflug milli hlýrra vetrarstöðva og fæðuríkari sumarstöðva á hverju ári. Viðfangsefni rannsóknarinnar var farflug vaðfugla frá Norðurskautssvæðum Rússlands og Alaska og suður eftir til Suðaustur Asíu og Ástralíu. Skoðaðar voru 10 tegundir vaðfugla.

    Vísindamennirnir hafa áætlað að við sjávarstöðuhækkanir þá muni flæða yfir 23-40% af búsvæðum við ströndina, sem myndi valda allt að 70% fækkun í stofnum sumra tegunda. Sjávarstöðuhækkanir eru taldar hafa mest áhrif á þær tegundir fugla þar sem stór hluti stofnsins stoppar á einum stað í farfluginu, til að matast og endurnýja orkuna fyrir áframhaldandi för. Þessir flöskuhálsar ákvarða í raun stofnstærð þessara tegunda og því mun eyðilegging þeirra vegna sjávarstöðuhækkanna og annarra athafna mannanna hafa úrslitaáhrif í viðhaldi þeirra.

    Fleiri búsvæðabreytingar

    Að lokum er rétt að minnast á skýrslu BirdLife International (2013), en þar kemur meðal annars fram að allt að 1 tegund af hverjum 8 séu í útrýmingahættu – og þá sérstaklega vegna búsvæðabreytinga í kjölfar loftslagsbreytinga og landbúnaðar.

    BirdLife samstarfið hefur sett niður á kort mikilvæg svæði jarðar fyrir fugla og líffræðilega fjölbreytni (Important Bird and Biodiversity Areas). Þau svæði eru nú orðin yfir 12 þúsund að tölu.

    Hér hafa verið kortlögð mikilvæg svæði fyrir fugla og líffræðilega fjölbreytni (Important Bird and Biodiversity Areas) - smellið á mynd til að stækka
    Hér hafa verið kortlögð mikilvæg svæði fyrir fugla og líffræðilega fjölbreytni (Important Bird and Biodiversity Areas) – smellið á mynd til að stækka

    Við endum á orðum eins af forsvarsmönnum BirdLife, Dr Leon Bennun – hér lauslega þýtt:

    Fuglar eru í raun nákvæmir og auðlæsir umhverfismælar sem sýna glöggt það álag sem lífsmynstur nútímamanna hefur á líffræðilegan fjölbreytileika jarðarinnar.

     

    Heimildir og ítarefni

    Foden o.fl. 2013: Identifying the World’s Most Climate Change Vulnerable Species: A Systematic Trait-Based Assessment of all Birds, Amphibians and Corals

    Rauði Listinn: Red List of Threatened Species

    Thomas o.fl. 2004: Extinction risk from climate change (PDF)

    USFWS 2013:  Seabirds Warn of Ocean Change

    Iwamura o.fl. 2013: Migratory connectivity magnifies the consequences of habitat loss from sea-level rise for shorebird populations

    BirdLife International 2013: State of the World’s Birds – indicator for our changing worlds

    Tengt efni á loftslag.is

  • Útbreiðsla fiskitegunda breytist við hlýnun sjávar

    Útbreiðsla fiskitegunda breytist við hlýnun sjávar

    Fiskitegundir eru að breyta útbreiðslu sína um úthöfin, vegna hlýnunar sjávar.  Áframhaldandi hlýnun getur haft neikvæð efnahagsleg áhrif, samkvæmt nýrri rannsókn.

    Rannsóknin sem birtist í Nature (Cheung o.fl. 2013), notast við einskonar  úrvalsvísitölu (e. novel index) sem   fiskihitamælir. Með henni er hægt að finna vísbendingar um búferlaflutinga út frá aflatölum veiðiskipa. Í ljós kom töluverð færsla fiskitegunda milli búsvæða, sem var í góðum takti við loftslagsbreytingar.

    Hver fiskitegund hefur sitt ákveðna bil kjörhitastigs. Ef hitastig sjávar á ákveðnu svæði færist frá því bili, þá dregur úr vexti og æxlun misferst, sem smám saman fækkar einstaklingum tegundarinnar á því svæði og breytir smám saman útbreiðslu fiskitegundanna.

    Yfirborðshitafrávik ársins 2012, á Norður-Atlantshafi, frá meðalhita  síðastliðin 100 ár. Mynd: Northeast Fisheries Science Center.
    Yfirborðshitafrávik ársins 2012, á Norður-Atlantshafi, frá meðalhita síðastliðin 100 ár.
    Mynd: Northeast Fisheries Science Center.

    Við auknar loftslagsbreytingar, vegna losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum, þá má búast við hraðari búferlaflutningum og illskeyttari deilum vegna færslu fiskistofna milli landhelga. Sem dæmi um stofna sem hafa færst til er þorskur, lýsingur, humar og sardínur út af Nova Scotia, þar sem stofn þeirra hverfur syðst af fyrrum kjörsvæðum tegundanna við færsluna norður. Í íslensku samhengi er skemmst að minnast makríls sem er orðinn ansi áberandi í íslenskri landhelgi.

    Með því að skoða aflatölur undanfarin 40 ár, úr 52 stórum sjávarvistkerfum, var hægt að reikna fyrrnefnda vísitölu, sem vísar í meðalsjávarhita veiða hverrar tegundar. Þegar búið var að taka með í reikninginn breytingar á veiðiaðferðum og sjávardýpi, þá fundu Cheung og félagar tölfræðilega marktæka tengingu milli breytinga í veiðihita og aukningu í yfirborðshita sjávar.

    Hitabeltið er sérstaklega viðkvæmt fyrir breytingum á hitastigi, þá vegna þess hversu lítið bil kjörhitastigs er hjá þeim tegundum sem lifa þar, sem þá flýja fljótt á hærri breiddargráður (til norðurs eða suðurs). Þar koma þá engar nýjar tegundir inn til mótvægis við þær tegundir sem flýja hitann.

    Á hærri breiddargráðum eykst að sama skapi fjöldi hlýsjávartegunda á kostnað kaldsjávartegunda, sem flýja til hærri breiddargráða.

    Heimildir og ítarefni:

    Greinin í Nature, eftir Cheung o.fl. 2013 (ágrip): Signature of ocean warming in global fisheries catch
    Grein Nye o.fl. 2009 (ágrip): Changing spatial distribution of fish stocks in relation to climate and population size on the Northeast United States continental shelf
    Umfjöllun á Climate Central: As Oceans Warm, Fish Are Finding New ZIP Codes

    Tengt efni á loftslag.is

  • Nokkur áhugaverð erindi

    Nokkur áhugaverð erindi

    Við á loftslag.is viljum minna á nokkur áhugaverð erindi sem eru í boði á næstu dögum. Fyrst er að nefna ráðstefnu með fjölbreyttum erindum:

    Hafrannsóknastofnun stendur fyrir ráðstefnu um “Veðurfar og lífríki sjávar á Íslandsmiðum” í fyrirlestrasal stofnunarinnar, Skúlagötu 4, 1. hæð, fimmtudaginn 21. febrúar 2013 frá 9 – 16.

    Ráðstefnan er öllum opin.

    Veðurfar og breytileiki hefur mikil áhrif á ástand sjávar, lífsskilyrði í sjónum og göngur og stærð fiskistofna á Íslandsmiðum. Hlýviðrisskeið var hér við land á árunum 1925-1945, kuldaskeið frá 1965-1971 og frá árinu 1996 hefur verið hlýviðrisskeið. Á þessum tímabilum hafa einnig orðið verulegar breytingar á vistkerfi sjávar við Ísland.

    Nýlegar breytingar á sjávarhita og seltu hafa haft áhrif á allt vistkerfið frá svifi til fiska og spendýra. Sum bein áhrif veðurfarsbreytinga á lífríki hafsins eru þannig nú þegar merkjanleg en önnur þarf að greina betur með auknum rannsóknum og líkanagerð.

    Á ráðstefnunni verða flutt 12 erindi um áhrif veðurfars á lífríki sjávar á Íslandsmiðum. Dagskrána og ágrip erinda má finna á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar hér

    Þá er áhugavert föstudagserindi Jarðvísindastofnunar og Norvulk:

    Föstudagur, 22. febrúar kl. 12:20 – Guðfinna Aðalgeirsdóttir: 
    “Challenges in modelling the future of the Greenland Ice sheet”

    Föstudagserindi Jarðvísindastofnunar og Norræna eldfjallasetursins.
    Fundarstaður: Náttúrufræðahús, Askja – fundarherbergi 3. hæð, vesturendi.  Allir velkomnir!

  • Vængjasniglar í vanda

    Vængjasniglar í vanda

    Nú þegar er skel sumra sjávarsnigla í Suðurhöfum byrjuð að eyðast upp vegna súrnunar sjávar, samkvæmt nýrri rannsókn.

    Í  greiningu á vængjasniglum sem tekin voru í grennd við Suðurskautið árið 2008,  kom í ljós óvenjuleg rýrnun á skeljum dýranna, sem vísindamenn telja að séu mögulega vísbendingar um að súrnun sjávar af völdum aukins styrks CO2, sé nú þegar farin að hafa áhrif á viðkvæmustu sjávardýrin.

    Greiningar á rannsóknastofum hafa sýnt að súr sjór ógni tilveru margra sjávarhryggleysingja, líkt og skeldýra og kóraldýra – því geta þeirra til að mynda skel og utanáliggjandi beinagrind minnkar. Viðkvæmust eru dýr sem, líkt og vængjasniglar, byggja skeljar sínar úr aragóníti, en það er kalsíum karbónat sem er einstaklega viðkvæmt fyrir aukinni súrnun.

    Samkvæmt vísindamönnum, þá er pH stig úthafanna að lækka hraðar nú en nokkurn tíman síðastliðin 300 milljón ár.

    Heimildir og ýtarefni

    Greinin er eftir Bednaršek o.fl. 2012 og birtist í Nature Geoscience: Extensive dissolution of live pteropods in the Southern Ocean

    Umfjöllun um greinina má lesa á heimasíðu NewScientist: Animals are already dissolving in Southern Ocean

    Tengt efni á loftslag.is

  • Tafir í fjölgun laxa

    Tafir í fjölgun laxa

    Hin hnattræna hlýnun virðist vera byrjuð að hafa áhrif á fjölgun laxa. Veiðitölur frá stangveiðimönnum 59 áa í Noregi sýna að sífellt fleiri laxar halda til í sjónum í tvo eða fleiri vetur – í stað eins vetur – áður en farið er upp árnar til æxlunar.

    Leitnin fylgir vel hlýnun í Norður-Atlantshafi milli áranna 1991 og 2005.

    Lax þarf nægilegt framboð af fæðu um haustið til að kynfæri hans nái að þroskast fyrir næsta vor.  Breytingar í fæðuframboði af völdum hitastigsbreytinga eru taldar orsökin og að það taki lengri tíma fyrir laxinn að þroskast áður en hann nær að fjölga sér.

    Að laxinn neyðist til að vera lengur í opnu hafi getur hafa haft áhrif á heildarfækkun stofnsins.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin birtist í tímaritinu Ecology an Evolution og er eftir  Otero o.fl. 2012: Contemporary ocean warming and freshwater conditions are related to later sea age at maturity in Atlantic salmon spawning in Norwegian rivers

    Tengt efni á loftslag.is

  • Glósublók Thoreau sýnir breytingu í vorkomu

    Glósublók Thoreau sýnir breytingu í vorkomu

    Samanburður á nákvæmum glósum sem náttúrufræðingurinn Henry David Thoreau skildi eftir sig og gögn um nútíma veður og blómstur blóma hafa gert vísindamönnum kleyft að sýna fram á breytingu á vorkomu í austur Massacusetts síðastliðin 150 ár.

    Vísindamenn frá Boston háskóla skoðuðu einmitt gögn frá Thoreau og fleiri náttúrufræðingum og komust að því að 43 algengar blómategundir blómstra að meðaltali 10 dögum fyrr nú en fyrir 150 árum síðan. Þær tegundir sem ná ekki að aðlagast eru að hverfa samkvæmt rannsókninni. 21 tegund af orkideum (e. orchid) uxu villtar í nágrenni heimabæjar Thoreau, Concord á þessum tíma – nú eru þær bara sex. Frá árinu 1860 hefur hitastig í Concord aukist um 2,5°C.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin birtist í journal BioScience og er eftir Primack og Miller-Rushing (2012): Uncovering, Collecting, and Analyzing Records to Investigate the Ecological Impacts of Climate Change: A Template from Thoreau’s Concord

    Sjá umfjöllun á heimasíðu LiveScience: Thoreau’s Notes Reveal How Spring Has Changed in 150 Years

    Tengt efni á loftslag.is

  • Súrnun sjávar nú meiri en síðastliðin 21 þúsund ár

    Súrnun sjávar nú meiri en síðastliðin 21 þúsund ár

    Losun manna á CO2 út í andrúmsloftið síðastliðna öld, hefur aukið súrnun sjávar langt umfram það sem telja má til náttúrulegs breytileika. Það getur minnkað getu ýmissa sjávarlífvera (t.d. kórala og skelja) til að mynda beinagrind, stoðgrind eða skeljar, samkvæmt nýrri rannsókn (Friedrich o.fl. 2012).

    Efri myndin sýnir hermun á yfirborðsmettun aragoníts fyrir árin 1800, 2012 og 2100. Hvítir punktar sýna hvar stærstu kóralrifin eru í dag. Neðri myndin sýnir styrk CO2 í andrúmsloftinu í ppm og mögulega þróun þess milli áranna 1750 og 2100.

    Með loftslagslíkönum sem herma loftslag og aðstæður sjávar frá því fyrir um 21.000 árum síðan og til loka þessarar aldar – þá hefur teymi vísindamanna reiknað út að núverandi mettunarmörk aragóníts hafi nú þegar lækkað fimmfallt meira en hin náttúrulegu mörk voru fyrir iðnbyltinguna, á nokkrum mikilvægum svæðum fyrir kóralrif.

    Aragónít er kalsíumkarbónat sem sumar sjávarlífverur nota meðal annars til skeljamyndunar og er lykilvísir í rannsóknum á súrnun sjávar. Þegar súrnun sjávar eykst þá lækka mettunarmörk arabóníts.

    Ef bruni manna á jarðefnaeldsneytum heldur áfram með sama krafti og verið hefur, þá má búast við því að mettunarmörkin lækki enn frekar, sem gæti valdið því að kalkmyndun sumra sjávarlífvera gæti minnkað um 40% það sem af er þessari öld.

    Heimildir og ítarefni

    Umfjöllun um greinina má finna hér: Unprecedented, man-made trends in ocean’s acidity

    Greinin í Nature Climate Change, eftir Friedrich o.fl. 2012 (ágrip). Detecting regional anthropogenic trends in ocean acidification against natural variability

    Tengt efni á loftslag.is

     

  • Háfjallaplöntur hverfa

    Háfjallaplöntur hverfa

    Vísindamenn telja að þessi blómategund, Nevadensia purpurea, gæti horfið úr flóru evrópskra fjalla á næstu áratugum. (Mynd, Harald Pauli)

    Ný rannsókn bendir til þess að loftslagsbreytingar  valdi meiri breytingum á háfjallaflóru en áður hefur verið talið og að sumar blómategundir geti horfið endanlega innan nokkurra áratuga.

    Eftir söfnun sýna frá 60 fjallatoppum í 13 Evrópulöndum – árin 2001 og 2008 – þá komst teymi evrópskra vísindamanna að því að kulsæknar plöntur  eru að hörfa á kostnað þeirra planta sem þrífast betur við hlýnandi loftslag. Fyrri rannsóknir höfðu bent til svipaðra niðurstaðna staðbundið, en hér hefur þessu verið lýst í fyrsta skipti yfir heila heimsálfu.

    Hraði þessara breytinga hefur komið á óvart, en plöntur sem reyna að flytja sig um set með landnámi ofar í hlíðum fjallatinda lenda óhjákvæmilega að endamörkum við áframhaldandi hlýnun.

    Heimildir og ítarefni

    Greinina má finna í Nature Climate Change, Gottfried o.fl. 2012 (ágrip): Continent-wide response of mountain vegetation to climate change

    Þessi rannsókn var unnin í tengslum við GLORIA verkefnið: Global Observation Research Initiative in Alpine Environments

    Tengt efninu er grein í Náttúrufræðingnum 2008, eftir Hörð Kristinsson (hér ágrip): Fjallkrækill – Fyrsta fórnarlamb hlýnandi loftslags á Íslandi

    Tengt efni á loftslag.is

     

  • Áhrif fyrri loftslagsbreytinga á vistkerfi

    Áhrif fyrri loftslagsbreytinga á vistkerfi

    Þegar loftslag jarðar sveiflast á milli hlýrra og kaldra tímabila hafa lífverur oft þurft að flytja sig um set til að  halda sér innan síns kjörlendis.

    Ný grein sem birtist í Science og vísindamenn í háskólanum í Árhúsum í Danmörku höfðu yfirumsjón um (Sandel o.fl. 2011) fjallar um aðferðir við að kortleggja hversu hratt lífverur verða að flytjast búferlum til að halda í við loftslagsbreytingar.  Það kom í ljós að staðbundnar lífverur – sem eru stór hluti af hinum líffræðilega fjölbreytileika jarðar – eru oftast á svæðum þar sem ekki hefur verið mikil þörf á búferlaflutningum.  Loftslagbreytingar af mannavöldum, þær sem nú eru í gangi, eru taldar munu auka á álag og þörf  lífvera til að flytjast búferlum – og auka áhættu í viðkomandi vistkerfum.

    Við hámark síðasta kuldaskeiðs ísaldar (fyrir um 21 þúsund árum) var loftslag jarðar mun kaldara og margar tegundir lífvera lifðu á öðrum svæðum en þau gera í dag. Sem dæmi bjuggu margar tegundir dýra í suður Evrópu, sem nú eru í norður Evrópu. Vísindamenn hafa spurt sig hversu hratt þær tegundir þurfi að flytjast búferlum til að halda í við loftslagsbreytingar. Einnig hvort munur er á núverandi samfélögum lífvera, þ.e.  milli svæða þar sem flutningar þurftu að gerast hratt eða svæða þar sem litlar breytingar hafa orðið.

    Þörf á flutningshraða var metinn með því að reikna hversu hratt skilyrði hafa breyst við yfirborð jarðar. Þessi hraði fylgir bæði hitabreytingum og landslagi. Þar sem miklar hæðabreytingar eru, þá þurfa lífverur oft ekki að fara langa leið til að finna sambærileg búsvæði við loftslagsbreytingar – þær fara einfaldlega upp eða niður hlíðar fjallanna – sem leiðir af sér litla þörf á flutningshraða.

    En hvað gerist ef tegund getur ekki flust eins hratt og hún þarf til að halda í við loftslagsbreytingar?  Útbreiðsla hennar gæti minnkað og í sumum tilfellum þá geta tegundir dáið út. Þetta gerist helst ef hraði loftslagsbreytinga er mikill miðað við útbreiðslu tegunda. Í rannsókninni var þetta kannað með því að kortleggja munstur í fjölbreytileika tegunda sem búa staðbundið (á takmörkuðu svæði). Kannaðar voru flestar tegundir froskdýra, spendýra og fugla jarðar. Mikill þéttleiki á staðbundnum tegundum lífvera var þar sem þörf á flutningshraða var lítill (t.d. í Andesfjöllum suður Ameríku). Að sama skapi þá var lítið um staðbundnar tegundir þar sem flutningshraði þurfti að vera hár (t.d. í norður Evrópu).

    Þau dýr sem eiga erfitt með að flytja sig um set (t.d. froskdýr) urðu mest fyrir barðinu á hröðum breytingum – á meðan það hafði ekki eins mikil áhrif á fugla. Innan spendýra þá sýndu leðurblökur svipað munstur og fuglar.  Þannig virðast bein tengsl á milli hraða flutningsþarfar og getu tegunda til að dreifa sér og þar með líkur á því að þær lífverur deyi út við loftslagsbreytingar.

    Hraði loftslagsbreytinga af mannavöldum er talin eiga eftir að aukast. Að sama skapi eru svæði á jörðinni þar sem litlar breytingar hafa orðið í gegnum tíðina – t.d. Amazon suður ameríku og stór hluti Afríku – og búist er við að verði fyrir miklum og hröðum breytingum á þessari öld. Á þeim svæðum eru tegundir sem ekki hafa mikla útbreiðslu og hafa litla getu til að flytja sig um set. Því er hætt við fjölgun útdauða lífvera við þær loftslagsbreytingar, sem búist er við þar, á næstu áratugum.

    Heimildir og ítarefni

    Byggt á efni af heimasíðu háskólans í Árósum: Ancient climate change has left a strong imprint on modern ecosystems

    Greinin birtist í Science, eftir Sandel o.fl 2011 (ágrip): The Influence of Late Quaternary Climate-Change Velocity on Species Endemism

    Tengt efni á loftslag.is

  • Frekari sönnunargögn um að hlýnun jarðar sé raunveruleg

    Frekari sönnunargögn um að hlýnun jarðar sé raunveruleg

    Fyrir stuttu kom út leiðarvísirinn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir. Hér er einn kafli hans.

    Frekari sönnunargögn um að hlýnun jarðar sé raunveruleg

    Staðsetningar veðurstöðva nærri loftræstikerfum húsa og á malbikuðum bílastæðum er af sumum talið geta útskýrt stærstan hluta hnattrænnar hlýnunar. Það eru margar ástæður fyrir því að við vitum að svo er ekki. Við getum til að mynda borið saman hitamælingar frá vel staðsettum og illa staðsettum veðurstöðvum. Mælingar sýna álíka hlýnun í báðum tilvikum [28].

    Önnur leið til að sannreyna gögn frá veðurstöðvum er samanburður við mælingar gervihnatta. Hvoru tveggja sýnir sambærilega hlýnun [29]. Þetta staðfestir að athuganir veðurstöðva gefa réttmæta mynd af þróun lofthita á jörðinni.

    Fyrir utan sannfærandi gagnaraðir frá veðurstöðvum sýna víðfeðm gögn ýmissa náttúrukerfa, breytingar sem eru í samræmi við hlýnun jarðar. Jökulbreiður bráðna um milljarða tonna á ári [30]. Sjávarstaða hækkar sífellt hraðar [31]. Lífverur flytja sig um set í átt til heimskautasvæða og jöklar hörfa (sem getur ógnað stöðugleika vatnsframboðs milljóna manna) [32,33].

    Til að öðlast skilning á loftslagi er mikilvægt að skoða gögnin í heild. Það sem þá kemur í ljós eru margskonar ólíkar athuganir sem allar hníga að sama brunni: Hnattræn hlýnun er raunveruleg.

    Parmesan & Yohe 2003 (32) , NOAA (34).

    Við kíkjum á næsta kafla af Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir síðar.

    Heimildir og ítarefni

    28. Menne o.fl. 2010: On the reliability of the U.S. surface temperature record.

    29. Karl o.fl. 2006: Temperature Trends in the Lower Atmosphere: Steps for Understanding and Reconciling Differences.

    30. Velicogna 2009: Increasing rates of ice mass loss from the Greenland and Antarctic ice sheets revealed by GRACE

    31. Church o.fl. 2008: Understanding global sea levels: past, present and future.

    32. Parmesan og Yohe 2003: A globally coherent fingerprint of climate change impacts across natural systems.

    33. Immerzeel o.fl. 2010: Climate change will affect the Asian water towers.

    34. NOAA National Climatic Data Center, State of the Climate: Global Analysis for September 2010.

    Tengt efni á loftslag.is