Áhrif fyrri loftslagsbreytinga á vistkerfi

Þegar loftslag jarðar sveiflast á milli hlýrra og kaldra tímabila hafa lífverur oft þurft að flytja sig um set til að  halda sér innan síns kjörlendis.

Ný grein sem birtist í Science og vísindamenn í háskólanum í Árhúsum í Danmörku höfðu yfirumsjón um (Sandel o.fl. 2011) fjallar um aðferðir við að kortleggja hversu hratt lífverur verða að flytjast búferlum til að halda í við loftslagsbreytingar.  Það kom í ljós að staðbundnar lífverur – sem eru stór hluti af hinum líffræðilega fjölbreytileika jarðar – eru oftast á svæðum þar sem ekki hefur verið mikil þörf á búferlaflutningum.  Loftslagbreytingar af mannavöldum, þær sem nú eru í gangi, eru taldar munu auka á álag og þörf  lífvera til að flytjast búferlum – og auka áhættu í viðkomandi vistkerfum.

Við hámark síðasta kuldaskeiðs ísaldar (fyrir um 21 þúsund árum) var loftslag jarðar mun kaldara og margar tegundir lífvera lifðu á öðrum svæðum en þau gera í dag. Sem dæmi bjuggu margar tegundir dýra í suður Evrópu, sem nú eru í norður Evrópu. Vísindamenn hafa spurt sig hversu hratt þær tegundir þurfi að flytjast búferlum til að halda í við loftslagsbreytingar. Einnig hvort munur er á núverandi samfélögum lífvera, þ.e.  milli svæða þar sem flutningar þurftu að gerast hratt eða svæða þar sem litlar breytingar hafa orðið.

Þörf á flutningshraða var metinn með því að reikna hversu hratt skilyrði hafa breyst við yfirborð jarðar. Þessi hraði fylgir bæði hitabreytingum og landslagi. Þar sem miklar hæðabreytingar eru, þá þurfa lífverur oft ekki að fara langa leið til að finna sambærileg búsvæði við loftslagsbreytingar – þær fara einfaldlega upp eða niður hlíðar fjallanna – sem leiðir af sér litla þörf á flutningshraða.

En hvað gerist ef tegund getur ekki flust eins hratt og hún þarf til að halda í við loftslagsbreytingar?  Útbreiðsla hennar gæti minnkað og í sumum tilfellum þá geta tegundir dáið út. Þetta gerist helst ef hraði loftslagsbreytinga er mikill miðað við útbreiðslu tegunda. Í rannsókninni var þetta kannað með því að kortleggja munstur í fjölbreytileika tegunda sem búa staðbundið (á takmörkuðu svæði). Kannaðar voru flestar tegundir froskdýra, spendýra og fugla jarðar. Mikill þéttleiki á staðbundnum tegundum lífvera var þar sem þörf á flutningshraða var lítill (t.d. í Andesfjöllum suður Ameríku). Að sama skapi þá var lítið um staðbundnar tegundir þar sem flutningshraði þurfti að vera hár (t.d. í norður Evrópu).

Þau dýr sem eiga erfitt með að flytja sig um set (t.d. froskdýr) urðu mest fyrir barðinu á hröðum breytingum – á meðan það hafði ekki eins mikil áhrif á fugla. Innan spendýra þá sýndu leðurblökur svipað munstur og fuglar.  Þannig virðast bein tengsl á milli hraða flutningsþarfar og getu tegunda til að dreifa sér og þar með líkur á því að þær lífverur deyi út við loftslagsbreytingar.

Hraði loftslagsbreytinga af mannavöldum er talin eiga eftir að aukast. Að sama skapi eru svæði á jörðinni þar sem litlar breytingar hafa orðið í gegnum tíðina – t.d. Amazon suður ameríku og stór hluti Afríku – og búist er við að verði fyrir miklum og hröðum breytingum á þessari öld. Á þeim svæðum eru tegundir sem ekki hafa mikla útbreiðslu og hafa litla getu til að flytja sig um set. Því er hætt við fjölgun útdauða lífvera við þær loftslagsbreytingar, sem búist er við þar, á næstu áratugum.

Heimildir og ítarefni

Byggt á efni af heimasíðu háskólans í Árósum: Ancient climate change has left a strong imprint on modern ecosystems

Greinin birtist í Science, eftir Sandel o.fl 2011 (ágrip): The Influence of Late Quaternary Climate-Change Velocity on Species Endemism

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál