Loftslag.is

Tag: Stjórnmál

  • Stefna eða stefnuleysi nýrrar ríkisstjórnar varðandi loftslagsmál

    Stefna eða stefnuleysi nýrrar ríkisstjórnar varðandi loftslagsmál

    althingishusMikið hefur verið rætt um umhverfismálin og stefnu nýrrar ríkisstjórnar í þeim efnum að undanförnu. Vangaveltur um það hvort að umhverfisráðuneytið fái að lifa eður ei hafa verið áberandi og erfitt er að greina hver stefnan er í þeim efnum enn sem komið er. Það er alveg þess virði að prófa að rýna á málefnalegan hátt í þá stefnu sem stjórnvöld virðast ætla að marka þegar skoðaðar eru ýmsar opinberar yfirlýsingar og gögn um loftslagsmálin.

    Varðandi loftslagmálin, þá eru nokkur atriði sem hafa komið fram, til að mynda sagði háttsettur forsætisráðherra í stefnuræðu sinni:

    Umhverfisvernd og barátta gegn loftslagsbreytingum er eitt af helstu sameiginlegu viðfangsefnum heimsbyggðarinnar.

    Þar getur Ísland lagt mikið af mörkum og gert betur.

    Aukin uppbygging og endurheimt gróður- og jarðvegsauðlinda og efling skógræktar og landgræðslu mun auka kolefnisbindingu. Mikilvægt er að skipuleggja þær aðgerðir vel og stuðla um leið að nýtingu innlendra vistvænna orkugjafa.

    Svona yfirlýsingum er varla hægt annað en að vera sammála, þó manni geti í raun fundist að það þurfi að ganga lengra í varðandi það að minnka losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. En þó er ljóst að Sigmundur Davíð veit að loftslagsbreytingar [af mannavöldum] eiga sér stað og vill í orði berjast gegn þeim – sem er jákvætt. Í öðrum hluta stefnuræðunnar skoðar hann hin meintu tækifæri varðandi loftslagsbreytingar í framtíðinni:

    Mikilvægi matvælaframleiðslu á norðurslóðum mun aukast umtalsvert  í framtíðinni. Þar eiga Íslendingar ónýtt tækifæri, til dæmis með nýsköpun í landnýtingu, auknu fiskeldi og ylrækt.

    Sífellt vaxandi eftirspurn eftir mat í heiminum mun skapa íslenskum landbúnaði ótal sóknarfæri.

    Framleiðsluaukning í landbúnaði getur bæði minnkað gjaldeyrisþörf vegna innflutnings matvæla og gefið aukin tækifæri til útflutnings ef unnið verður kröftuglega að markaðssetningu íslenskra afurða erlendis á næstu árum og áratugum.

    [..]

    Þar þurfum við meðal annars að horfa til aukinnar  áherslu á samstarf við aðrar þjóðir varðandi  nýtingu nýrra tækifæra sem tengjast breyttu loftslagi, nýjum auðlindum og breyttum aðstæðum í heiminum á næstu áratugum.

    Ísland þarf að leggja áherslu á að vera í fararbroddi í norðurslóðasamstarfi,  með tilliti til nýtingar auðlinda á svæðinu, umhverfisverndar og opnunar nýrra siglingaleiða um norðurhöf.

    Ný tækifæri, eins og t.a.m. opnun siglingaleiða, aukin landbúnaðarframleiðsla og nýting auðlinda virðast vera aðal áhersluefnin. Þetta virðist ríma vel við stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar, þar sem segir meðal annars í kaflanum um landbúnað að þar séu ýmis tækifæri (sem væntanlega má m.a. rekja til breytinga í loftslagi eins og Sigmundur kemur inná í stefnuræðu sinni):

    Vaxandi eftirspurn eftir mat á heimsvísu skapar íslenskum landbúnaði sóknarfæri með möguleikum á aukinni framleiðslu og margbreytilegum afurðum. Ríkisstjórnin mun gera íslenskum landbúnaði kleift að nýta þau sóknarfæri sem greinin stendur frammi fyrir.

    [..]

    Til að bregðast við aukinni eftirspurn eftir matvælum og hækkandi verðlagi verður skipaður starfshópur til að móta tillögur um hvernig auka megi matvælaframleiðslu á Íslandi og tryggja að ávinningur af aukinni eftirspurn og sókn á nýja markaði skili sér í bættum kjörum bænda.

    Starfshópur mun fara yfir og móta tillögur byggðar á þeim tækifærum sem virðast gerðar væntingar til á næstu áratugum. Það er í sjálfu sér gott að vita hvað leynist í framtíðinni, svo langt sem það nær og það leynast alltaf einhver tækifæri í því að hafa sem bestar upplýsingar um stöðu mála hverju sinni. Ef maður skoðar ályktanir flokksþings Framsóknarmanna [PDF], þá virðist ljóst að þessi tækifæri íslensk landbúnaðar séu vegna breytinga í loftslagi:

    Með hlýnandi loftslagi skapast ný og spennandi sóknarfæri. Aukin akuryrkja, nytjaskógrækt  og fjölbreyttari innlend matvælaframleiðsla er hluti af því að efla íslenskan landbúnað.

    “Spennandi sóknarfæri” eru því í pípunum þegar hlýnun jarðar er skoðuð út frá ályktunum flokksþings Framsóknarmanna. Það er kannski þess vegna sem að í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er stefnt að því að:

    Ríkisstjórnin mun eins og kostur er stuðla að því að nýting hugsanlegra olíu- og gasauðlinda geti hafist sem fyrst, finnist þær í vinnanlegu magni.

    Ef það má notast við líkingu varðandi eldvarnir, það á s.s. að stefna að því í orði að koma eldvörnunum upp, en á sama tíma hella bensíni á eldsmatinn og svo vonast eftir “spennandi sóknarfær[um]” í framhaldinu. Þetta rímar ekki vel við þá stefnu að berjast gegn loftslagsbreytingum, eins og háttvirtur forsætisráðherra boðaði í stefnuræðu sinni.

    Varðandi hin “spennandi sóknarfæri” í landbúnaði í hlýnandi heimi, þá er kannski ekki auðvelt að spá um hvað gerist staðbundið. Hér á Íslandi gætu válynd veður með kali í túnum eins og hafa átt sér stað víða um norðanvert landið í vetur sett strik í reikning hinna “spennandi sóknarfær[a]”. Það er því kannski fullmikil einföldun að fullyrða að hlýnandi loftslag innihaldi endilega “spennandi sóknarfæri”. Breytingar í loftslagi geta líka haft í för með sér neikvæðar breytingar sem erfitt getur verið að bregðast við. Það virðist vera í eðli stjórnmála að einblína á hlutina frá þeirri hlið sem kemur betur út fyrir stjórnmálin sjálf og forðast vandamál sem stjórnmálamönnum hugnast ekki að ræða og/eða almenningur vill ekki hugsa um. Þ.a.l. verður kannski seint reynt að skoða þessi mál með opnum huga á hinu háa Alþingi. Það virðist aðeins eiga að skoða hin “spennandi sóknarfæri” og sleppa neikvæðum hlutum eins og hvaða áhrif loftlagsbreytingar af mannavöldum geta í raun haft og á sama tíma á að stefna að því að stjórnvöld helli bensíni á eldsmatinn með stjórnvalds aðgerðum sem eiga að “stuðla að [..] nýting[u] hugsanlegra olíu- og gasauðlinda”.

    Það er mjög varhugavert að draga línuna á þann hátt að skoða aðeins aðra hlið málsins (og láta líka líta út fyrir að sú hlið sé full af “spennandi sóknarfær[um]”) en sleppa þeim vandamálum sem finna má þegar aðrar hliðar málsins eru skoðaðar. Það er væntanlega vandkvæðum bundið að alhæfa einhliða um aukna landbúnaðarframleiðslu og “spennandi sóknarfæri” þegar óvíst er hvað mun gerast í framtíðinni við hærra hitastig og meiri öfga í veðri. Öfgar í veðurfari eru ekki endilega líklegir til að búa til “spennandi sóknarfæri” í landbúnaði, þó ekki sé hægt að útiloka það staðbundið eða á tímabilum þegar öfgar eru minni. Það er líka ákveðið vandamál fyrir fiskveiðiþjóð eins og Ísland að heimshöfin súrni vegna losunar mannkyns á koldíoxíð. Það er vandamál sem gæti kippt stoðum undan fiskveiðum landsins til framtíðar – en stjórnmálamenn velja frekar að einblína á “spennandi sóknarfæri” sem í þeirra augum hljóta að vera framundan og eiga að styðja við hagvöxt og velsæld í landinu til frambúðar. Það getur vel verið að það séu tækifæri í stöðunni, en það má ekki útiloka umræðu um neikvæðar hliðar málsins eða mögulegar lausnir til frambúðar með fókus á minni losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda, lausnir sem ekki innihalda og ýta undir enn frekari olíu- og gasvinnslu.

    Hitt er annað mál að ég tel að umræða um þessi mál endurspegli að hluta til vilja og upplýsingu þjóðarinnar í þessum efnum og því ekki eingöngu hægt að kenna stjórnmálamönnum um að velja að fylgja straumnum án gagnrýninnar skoðunar á málinu. En það má þó benda málefnalega á mótsagnir í umræðunni og benda á að það ætti alls ekki að líta á loftslagsvandann sem sóknarfæri, heldur vandamál sem þarf að taka föstum tökum á heimsvísu – þar með talið okkar framlag hér á landi. Opin umræða um þessi mál þarf að fara fram og þarf að byggjast á því að skoða allar hliðar málsins – líka neikvæðar hliðar þess, þó það geti orðið erfitt og sé jafnvel ekki líklegt til vinsælda í kosningum.

    Heimildir:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Guðfræðingar, Píratar, kosningar, umhverfismál og loftslagsbreytingar af mannavöldum

    Guðfræðingar, Píratar, kosningar, umhverfismál og loftslagsbreytingar af mannavöldum

    Loftslagsbreytingar af mannavöldum virðast geta orðið að kosningamáli í kosningunum þann 27. apríl. Það má m.a. nefna ólgusjó Pírata undanfarna daga svo og fróðlegan spurningalista guðfræðinga sem sendur hefur verið til allra framboða. Spurningalistinn fjallar m.a. um loftslagsmálin.

    pirata_FBEfsti maður Pírata í Reykjavík Suður (Jón Þór Ólafsson) hefur fullyrt opinberlega um fals og svik vísindamanna varðandi loftslagsbreytingar af mannavöldum, sjá m.a. frétt á DV, Pírati efast um loftslagsbreytingar af manna völdum. Það er athyglisvert að í athugasemdum við frétt DV hafa nokkrir Píratar tekið til máls og það er ekki að sjá að þau telji nokkuð rangt í skoðunum Jóns Þórs og þau velja að verja frelsi hans til að segja sína skoðun – sem honum er að sjálf sögðu velkomið. Jón Þór hefur sjálfur undirstrikað skoðanir sínar um fals vísindamanna í athugasemdum, þannig að það virðist vera hægt að slá því föstu að hann telji enn að loftslagsvísindi séu byggð á fölsunum og svindli. Þó það sé skýr réttur manna að hafa skoðanir, þá  fylgir því þó ábyrgð og sú ábyrgð er í samræmi við stefnu Pírata – hinn svokallaða Píratakóða – þar sem eftifarandi kemur fram:

    Píratar eru friðelskandi, sjálfstæðir, sjálfráðir og hlýða ekki í blindni. Þeir vilja að einstaklingar hafi vald yfir sínum persónugögnum og njóti skoðanafrelsis. Píratar axla þá ábyrgð sem fylgir frelsi.

    Ég vona að Píratar hafi þor og siðferðilegt hugreki til í að axla þá ábyrgð sem þessu frelsi fylgir. Það er ekki hægt að saka heila vísindagrein um fals og svindl án þess að fótur sé fyrir því og vilja svo ekki taka andsvörun upp á málefnalegan hátt – þau andsvör verða Píratar að taka á. Annað sem kemur fram í Píratakóðanum er:

    Píratar eru fróðleiksþyrstir
    Aðgengi að upplýsingum, menntun, þekkingu og vísindaniðurstöðum verður að vera ótakmarkað.

    Gott mál – það er hægt að styðja þetta – en að sjálfsögðu gefur þetta ekki opið veiðleyfi á vísindalegar niðurstöður sem ekki eru í takt við persónulegar skoðanir einstaklinga. Hitt er annað mál að það má kannski spyrja sig hvenær aðgengi að upplýsingum sé ótakmarkað – til að mynda er nánast allt efni varðandi vísindalegar niðurstöður um loftslagsbreytingar af mannavöldum aðgengilegt í einhverju formi á einn eða annan hátt. Það má segja að það megi nú orðið finna allar þær “upplýsingar” sem fólk vill nálgast, til að mynda með því að gúgla á netinu – það á ekki síður við um hluti sem ekki standast skoðun. Það mætti því kannski bæta því við í Píratakóðann að vísindaniðurstöður (og fleiri niðustöður) eigi að byggja á gæðum og góðum rannsóknum, en ekki einhverju “kukl gúgli” einstaklinga eða persónulega lituðum skoðunum. Píratapartýið þarf að sjálfsögðu að þola að taka gagnrýni á skoðanir frambjóðenda og flokksins – sama gildir aðra flokka. Það fylgir því nefnilega ábyrgð að setja fram samsæriskenningar eins og Jón Þór gerir og það er komin tími til að hann læri af mistökum sínum, eða eins og Píratar velja að orða það í Píratakóðanum “Píratar læra af mistökum sínum.”

    Hitt er annað mál að Píratar eru svo sem ekki einu stjórnmálasamtökin sem hafa innan sinna raða fólk sem afneitar loftslagsbreytingum af mannavöldum – sjá til að mynda Íslenskar “efasemdir” um hnatthlýnun af mannavöldum rækilega skjalfestar hér á loftlsag.is. Fólk innan raða Sjálfstæðismanna (til að nefna nærtækt dæmi) hafa einnig sett fram háværar efasemdir og það er ekki eitt orð um loftslagsmálin á kosningasíðu þeirra.

    gudfraedingar

    Á Facebook má finna hópinn Guðfræðingar krefjast svara, þar sem hópur 5 guðfræðinga hafa tekið sig saman og sent fyrirspurn til framboðanna varðandi orkumál, loftslagsmál og flóttamannamál. Þetta eru allt málefni sem verða ofarlega á döfunni á næstu árum og áratugum, en þó alls ekki sjálfgefið að stjórnmálamenn hafi forgangsraðað því ofarlega á lista kosningaloforða í ár. Vinstri GrænDögun og Björt Framtíð hafa nú þegar svarað guðfræðingunum – svörin má lesa í tenglunum. Önnur framboð hafa enn sem komið er ekki svarað. Það verður fróðlegt að fá svör frá fleiri stjórnmálaöflum á spurningum guðfræðinganna og vonandi sjá Píratar sér líka fært að svar, enda er spurningalistinn allrar athygli verður og fróðlegur (sama hvaða trúarlegu skoðanir fólk kann að hafa). Við hvetjum framboðin til að svara spurningalista guðfræðinganna.

    Umhverfisverndarsamtök á Íslandi hafa einnig spurt framboðin um megináherslur í umhverfismálum fyrir kosningarnar 2013 – svörin má finna á YouTube-vefnum xUmhverfisvernd – þar sem 9 framboð hafa þegar svarað og er það vel að framboðin skýri sína stefnu – hver sem hún kann að vera.

    Tengt efni á loftslag.is: