Loftslag.is

Category: Gestapistlar

Pistlar gestahöfunda

  • Opnun Norðursins

    Opnun Norðursins

    Ari Trausti Guðmundsson
    Ari Trausti Guðmundsson

    Í óefni getur stefnt

    Sennilega er hlýskeiðið sem við lifum á, og einkennist af bærilegu hitastigi, aðeins hlé á milli jökulskeiða ísaldar sem hófst á heimsvísu fyrir meira en tveimur milljón árum. Rúm ellefu þúsund ár eru liðin af þessu hléi og við gætum átt álíka langt tímabil fyrir höndum, eða mun styttra, þar til risastórir jöklar þekja meira en þriðjung plánetunnar á ný og allt samfélag manna kollsteypist.
    Á örstuttum hluta hlýskeiðsins hefur mannkynið náð að breyta eigin lífsskilyrðum svo mikið að alvarleg veðurfarsvandamál munu hafa áhrif á hvert mannsbarn í eina til tvær aldir hið minnsta.
    Á nyrðri heimskautasvæðunum lifa um fjórar milljónir manna, þar af um 400 þúsund frumbyggjar. Vegna mannfæðar og aðstæðna hafa íbúarnir haft lítil áhrif á gróðureyðingu og loftmengun. En samtímis byggja þeir svæði sem er gríðarlega þýðingarmikið þegar kemur að framvindu lífsskilyrða. Jöklar, hafís, pólsjór, kaldir hafstraumar og jarðklaki mynda stórar breytur í veðurfarsjöfnunni; svo stórar að djúptækar breytingar á þeim og þar með náttúrufari norðursins á skipta sköpum fyrir mannkynið.
    Þegar menn nú standa í ræðustól og fagna opnun norðursins sem hafsjó tækifæra og sæg krefjandi og sjálfsagðra verkefna er þörf á að staldra við og segja: – Já, en raunveruleikinn hefur fleiri en eina eða tvær hliðar. Horfumst í augu við hann og málum ekki enn eina rósrauða glansmynd af okkur sjálfum og veröldinni. Föum vandlega yfir ógnanirnar.
    Við erum ekki lengur á braut sem stefnir að hlýnun undir tveimur stigum á heimsvísu heldur að illviðráðanlegri þriggja til fjögurra stiga hækkun meðalárshita jarðar. Enn má þó bjarga okkur fyrir horn, ef þjóðir heims taka sig saman í fullri alvöru á loftslagsráðstefnunni í París, COP 21, haustið 2015.
    – Við erum á leið til mikilla árekstra við móður náttúru; við þörfnumst hagvaxtar en hann verður að vera grænn – þetta var megininnihald þess skjáávarps sem José Ángel Gurria framkvæmdastjóri OECD – Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu – hélt við opnun ráðstefnu Arctic Circle 2014. Ávarpið skar sig eftirminnileg úr öðrum á opnunardegi hennar. Þessi samtalsráðstefna hefur í tvígang ekki unnið með umhverfismál í forgangi, heldur pólitíska samvinnu um sem gróðavænlegasta og víðtækasta auðlindanotkun og greiðastar samgöngur í norðrinu. Ýmis skilaboð er þar heyrast, kynningar á stefnu þjóðríkja og samtöl sem fara fram gera þó gagn.

    Þekking er þegar mikil

    Vísindaleg þekking manna á vistkerfum, náttúrufari og samfélögum norðurslóða er ríflega aldargömul. Löngu er orðið ljóst að flókið samspil lofthjúps, íss, hafs og stórra landsvæða á afar gildan þátt í að stýra jafnt veðurfari um alla jörð sem framboði á fæðu, einkum í sjó. Fullyrða má að þekking á norðurslóðum er næg til þess að hefjast handa við allra nauðsynlegustu þætti mannlegrar virkni sem geta hægt á eða snúið við þátt manna í skemmdum á náttúrufari jarðar. Þekkingin hér og nú ætti að vera skýr hvatning til að taka af skarið nú þegar, rétt eins og ICCP (Alþjóða loftslagssamráðsnefndin) og Sameinuðu þjóðirnar hvetja endurtekið til. Þær úrtöluraddir sem ýmist hafna of hraðri hlýnun eða reyna að smætta áhrif hennar eru margfalt færri en þær sem styðjast við óhrekjanlegar staðreyndir um hið gagnstæða.1280px-Qamutik_1_1999-04-01
    Líka er ljóst að aðlögun manna að aðstæðum í norðrinu og þekking frumbyggja á hagfelldum lífsháttum eru dýrmæt innlegg í ákvarðanir um hvað beri að gera til að mæta allt of hraðri og mikilli hlýnun veðurfarsins. Aðlögun allra þjóða að henni er flókin og brýnt að þær skiptist á reynslu og þekkingu. Einna mikilvægast er að gera sér grein fyrir umfangi mótvægisaðgerða og kostnaði við þær. Stærstu tryggingarfélög heims hafa hafið þá vinnu fyrir sitt leyti.

     

    Áhuginn á norðrinu

    Heimskautasvæðin voru lengst af ekki skrifuð hátt meðal stjórnmálamanna eða umsvifamanna; athafnaskálda sem svo hafa verið nefnd, gjarnan af aðdáun. Land- og hafsvæðin hafa heldur ekki staðið hátt í huga almennings vegna fjarlægðar og óaðgengileika. Engu að síður vekja þau aðdáun þeirra sem líta hvítar breiður, borgarísjaka, náhvali, hvítabirni og veiðimenn á hundasleðum, t.d. í bókum og sjónvarpi. Og þúsundir flykkjast í ferðalög þangað á meðan ótal vísindamenn stunda mikilvægar rannsóknir og gefa út þúsundir ritgerða og skýrslna. Margar þjóðir hafa skipulagt heimskautastofnanir og á tveimur til þremur áratugum hefur samstarf þeirra um nám, rannsóknir og upplýsingamiðlun til samfélaga og þjóða margfaldast.
    Norðurheimskautsráðið og hliðarafurðir stofnunarinnar eru staðfesting þess að þjóðirnar á norðurslóðum, og allmargar utan þeirra, hafa tekið til við að nýta bráðnauðsynlegt samstarf og stunda tilraunir til að koma þar á samræmdu skipulagi og ýmsum jákvæðum aðgerðum, m.a. á sviði mennta og rannsókna og samræmdra björgunaraðgerða á sjó.
    Á allra síðustu árum hafa svo augu fjárfesta, fjármálastofnana og ríkisstjórna beinst að svæðinu. Ástæðan er einföld: Skyndilega blasir við að aðgangur að gjöfulum auðlindum getur opnast og nýjar siglingaleiðir að auki. Nægur auður og digur hagnaður getur fallið mörgum í skaut; eftir himinháar fjárfestingar. Talið er að um 90 milljón milljónir dala fari ef til vill í þær á næstu árum. Og forvígismenn samfélaga, sem sum hver eru erfið í rekstri, sjá fyrir sér hlutdeild þeirra í auðæfunum. Á Grænlandi og í Færeyjum eygja þarna margir leið til sjálfstæðis.

    Réttur frumbyggja og hugmyndafræði

    Eins og oftast í mannkynssögunni við sókn auðlindanýtenda inn á ný landsvæði eru þar fyrir mannverur. Hver kann ekki sögur um misbeitingu valds gegn fólkinu og hundsun á rétti þess eða lífsháttum. Nú til dags er ekki unnt að fara þannig óheft fram á norðurslóðum. Frumbyggjar hafa skipulagt sig og sett fram sínar kröfur og staðið á sínum rétti. Einnig hefur viðhorf, jafnt almennings sem stjórnvalda í heima og heiman, breyst í þá veru að viðhorf frumbyggja eru að nokkru viðurkennd – og að fullu meðal margra í hópi leikmanna, sérfræðinga og stjórnmálamanna. Að því sögðu er ekki þar með viðurkennt að viðhorf frumbyggja séu í alla staði og ávallt réttmæt eða kröfur þeirra alltaf sanngjarnar. Meginatriðin eru þó ljós. Rétt frumbyggja til að lifa af náttúrunni og í sátt við hana ber að virða og líka rétt þeirra til að ákvarða hvernig þeir aðlagast breyttum aðstæðum og tækni. Sömuleiðis rétt þeirra til sjálfbærrar auðlindanýtingar. Misgjörðir gagnvart frumbyggjum ber að leiðrétta og bæta fyrir.
    Þúsunda ára reynsla frumbyggja af sambýli við náttúru norðursins á erindi við alla sem koma að málefnum norðurslóða. Þar er að finna upplýsingar, viðhorf, hugmyndafræði og aðferðir sem eiga fullt erindi í alla ákvarðanatöku um næstu og hin fjarlægari skref við nýtingu og stjórnun norðurslóða.
    Efla verður miðlun frá frumbyggjum til okkar, þar á meðal með stofnun Frumbyggjaskóla SÞ. Þar geta þeir frætt okkur hin um margvísleg efni, líkt og íslenskir sérfræðingar hafa frætt útlendinga um jarðhita og jarðhitanýtingu í Jarðhitaskóla SÞ. Ég sendi Mannréttindaskrifstofu SÞ þessa hugmynd haustið 2014 en hef ekki séð nein viðbrögð, enda erindið frá einstaklingi/leikmanni en ekki stofnun eða stjórnvaldi.

    Auðævi hverra?

    Námuauðlindir á borð við kol, olíu og málma eru jafnan ávísun á mikil auðævi. Það sýnir sagan. Hún afhjúpar líka að stórveldi, öflug herveldi og þau samfélög sem lengst eru komin í tækni hverju sinni hafa sótt í auðlindir út um allt, oft í krafti einkafyrirtækja eða ríkisfyrirtækja. Nú gerist slíkt oft með opnum milliríkjasamningum en ekki valdbeitingu. Hana sjáum við reyndar stundum innan landamæra ríkja þar sem valdstjórn tekur hagsmuni erlendra eða innlendra fyrirtækja eða stofnana fram yfir hagsmuni hópa heimamanna, til dæmis frumbyggja, bænda eða fiskimanna, og þá gjarnan með tilvísun til hagsmuna heildarinnar eða efnahagslegrar nauðsynjar.
    Hitt er dagljóst að náttúruauðlindir innan landamæra ríkja eru lagalega séð eign þjóða sem þau byggja og aldrei unnt að beita sem rökum fyrir innkomu erlendra aðila að þær séu eign mannkyns; eins þótt stundum megi færa siðferðileg rök fyrir að svo sé. Það gæti til dæmis átt við sjaldgæf efni til nota í heilbrigðisþjónustu eða staði, einstæða í náttúrunni.
    Þegar kemur að auðlindanýtingu er auðvelt, en oft ofureinföldun, að höfða til þess að auðlindirnar “verði að nýta”, ella strandi samfélagið. Hugtök eins og hagvöxtur og velferð eru að sjálfsögðu afstæð en lýsa alls ekki sjálfvirkri atburðarás á borð við náttúrulögmál. Hagnaðarvon knýr líka marga fjárfesta til þess að leita stöðugt að hærri og hraðari ávöxtun fjármagns, oft með tilvísun til eins óljósasta hugtaks í stjórnmálum og hagfræði sem til er: Þróun, jafnvel framþróun.

    Auðlindir á norðurslóðum

    2011.7.6- oil_rigÓþarft er að telja upp allar jarðauðlindir í norðrinu. Meirihlutinn er ónuminn. Sagan leiðir eflaust í ljós að hópar heimamanna hafa nú þegar orðið að gjalda dýrt fyrir auðlindavinnslu, ýmist með búferlaflutningum, heilsu sinni, aðgengi að fersku vatni eða velferð veiði- og húsdýra. Mest af þeirri sögu er lítt skráð og fáum kunn.
    Þrennar höfuðauðlindir eru mest áberandi í umræðunni um “tækifæri og áskoranir” á norðurslóðum: Jarðefnaeldsneyti, málmar og steinefni og loks land undir vegi, járnbrautir, orku- og efnaleiðslur, flugvelli og hafnir. Augljóslega fylgir nýtingu þeirra allra mikið rask og veruleg mengun í lofti, hafi og á landi. Ferðaþjónusta og fiskveiðar koma í næstu sæti í umræðunni.
    Tækifæri á norðurslóðum eru sögð felast í auðlegð og framförum, ásamt hagvexti, en áskoranirnar einkum í að minnka eða koma í veg fyrir rask og mengun, og enn fremur neikvæð áhrif á samfélög manna.
    Hvernig finnum við jafnvægið á milli þessara póla? Hvenær er best að láta verkefni kyrr liggja? Hvenær og hvar taka umhverfisáhrifin fyrsta sæti en auðlindanýting annað sæti? Marga langar að ræða þetta til hlítar og láta náttúru og vilja nærsamfélaga ráða mestu en aðrir meta tækifærin mest og telja tækni og góðan ásetning einkafjármagnseigenda, í samvinnu við ríki og þjóðir, geta leyst vandamálin. Og jafnvel fer þannig að umhverfismálin eða réttindi frumbyggja eru tónuð svo hressilega niður að umhverfisvandinn nánast hverfur eða er sagður óviss; frumbyggjar reknir á hliðarlínu vegna mannfæðar og “úreltra” lífshátta eða orðanotkun tekin upp eins og sást í grein í sérútgáfu Morgunblaðsins 1. nóvember 2014. Þar var ensk þýðing á hugtakinu norðurslóðasókn, á tímum kröfu um sjálfbærar náttúrunytja, orðin að: Conquering the north – norðrið sigrað. Að mörgu leyti fela þau í sér kjarna sóknarinnar sem stórfyrirtæki, t.d. kínversk, rússnesk, bandarísk, norsk og alþjóðleg standa fyrir. Og hugtakið er í reynd nær því að merkja að leggja undir sig. Þegar þess er gætt að viðmiðun í olíu- og gasvinnslu er á þann veg að fyrir hvern dollar sem fjárfest er fyrir fást tíu í staðinn, ef sæmilega tekst til, er ekki að undra að margir vilja sigrast á … hverju? Og gefa lítið fyrir áframhaldandi hlýnun af mannavöldum á meðan hagnað í beinhörðum peningum er að hafa.

    Meiri olía og gas?

    Enn eru um 70% raforku heimsins framleidd með jarðefnaeldsneyti og langmest af farartækjum veraldar ganga fyrir því. Erfitt er að vinda ofan af vinnslu og brennslu efnanna en engu að síður veltur velferð mannkyns á að það takist á örfáum áratugum. Stundaglasið tæmist hratt. Einu framfarir sem kveður að í bili er minni nýting kola í heild en því meiri af gasi og olíu. Þær duga þó hvergi til.
    Hvernig sem menn umgangast hugtakið hlýnun jarðar af mannavöldum er ljóst að ýmis umhverfisáhrif vinnslu og brennslu eru nægilega alvarleg til þess að taka megi afstöðu með viðmiðum ítrustu varkárni. Nefna má hvers kyns loftmengun, gastegundir og sót, mengun grunnvatns, mengun og súrnun hafsins, sóun hráefna sem þarf til vinnslunnar og efnisflutninga, og loks gegndarlausa skógar- og gróðureyðingu sem fylgir vinnslu á mörgum stöðum. Hver stórborgin eftir aðra er að verða að fyllilega óþolandi mengunarpottum, utan helstu velmegunarlanda.
    Um þaulrætt viðmið eru flestir vísindamenn og fjölmargar alþjóðastofnanir, líka fjármálastofnanir á borð við Alþjóðabankann, sammála: Aðeins má vinna 25-30% þekktra kola-, olíu- og gaslinda. Vinnsla umfram það er því miður fyrst og fremst drifin áfram af hagnaðarvon fyrirtækja og skorti á samfélagsábyrgð. Verulegt magn olíu og gass er að finna á norðurslóðum og vinnsla þegar hafin næst meginlöndunum en fjær, við strendur Grænlands eða Jan Mayen, eða á miklu sjávardýpi. Rússneskur sérfæðingur á ráðstefnu Arctic Circle 2014 nefndi að 60% af olíu- og gasþörf samtímans yrði að koma úr óþekktum lindum og af þeim væri stór hluti í norðrinu, sennilega um fjórðungur. Og hann upplýsti um leið að umhverfisáhrif leitar og vinnslu væru “largely unknown” – að mestu leyti óþekkt.
    Í hnotskurn fer þarna stórgölluð hugmyndafræði sem skellir skollaeyrum við staðreyndum og þekkingu. Vissulega er vitað nægilega mikið um áhrif frekari olíuleitar, olíuvinnslu og vaxandi notkunar jarðefnaeldsneytis til að þau megi meta.
    Andsvarið við framrás olíu- og gasrisanna á norðurslóðum á að vera þetta: Setja verður núverandi vinnslu skorður og hverfa frá frekari hugmyndum um stórfellt nám jarðefnaeldsneytis á norðurslóðum. Nú er styrkur koldíoxíðs í lofti er kominn í 400 milljónustuhluta en var um 320 fyrir 60-70 árum. Aukningin er sú hraðasta og magnið það mesta sem vísindagögn ná yfir 500-800 þúsund ár aftur í tímann. Vilja olíufélögin, ríkisstjórnir og fjárfestar nefna einhver efri mörk styrks sem við eigum að þola? Er frekari aukning ávísun á bjarta framtíð?

    Öflugari námuvinnsla?

    kvanefjeldstur_0750_w480Önnur námuvinnsla en vinnsla gass og olíu er þegar hafin norðan heimskautsbaugs. Sókn í málma, einkum sjaldgæf jarðefni, er skilgetið afkvæmi kröfu um tækniframfarir, æ fleiri mannvirki og sem mestan hagvöxt.
    Í sumum tilvikum eru efnin ákaflega eftirsótt, t.d. í snjallsíma, tölvur og hluta vindmylla. Í öðrum tilvikum er um málma á borð við gull að ræða, sem ekki skortir í sjálfu sér, en fyrirtæki sjá hagnaðarvon í að nema, hvað sem ítrustu þörfum líður. Demantar eru annað dæmi um jarðefni þar sem gróðasókn stýrir að stórum hluta vinnslunni, hvorki brýn nauðsyn né umhyggja fyrir umhverfinu.
    Opinn aðgangur að námuvinnslu á norðurslóðum, án tillits til burðargetu náttúrunnar á námustöðum, með skertri getu staðbundinna samfélaga til að lifa samkvæmt eigin, lýðræðislegu ákvörðunum, og sem sniðgengur raunverulegar þarfir mannkyns, er andstæð okkur öllum. Sú röksemd að námuvinnsla leiði til uppbyggingar innviða og þar með framfara er til lítils, því hún lýtur þröfum fyrirtækja, einkum í uppbyggingarfasanum, en sjaldnast brýnum þörfum samfélaga eins og þau skilgreina þær.
    Í stað stórsóknar fyrirtækja inn í þennan heim verður að nýta alþjóðlega samvinnu heimskautaríkja og alþjóðastofnana á jafnréttisgrunni til þess að skilgreina þá vinnslu sem mörg landsvæði geta borið með lágmarks umhverfisáhrifum og í samræmi við þarfir alþjóðasamfélagsins, ekki einstakra ríkja eða fyrirtækja. Þetta er hörð afstaða en réttlætanleg. Hún kallar á nýja hugmyndafræði í verki: Raunyrkju í stað rányrkju.

    Hvað er í húfi?

    Viðamikil nýting jarðefna og jarðefnaeldsneytis á norðurslóðum, í andstöðu við það sem hér kemur fram að framan, hefur eyðandi áhrif, langt umfram það sem mannkyn þolir. Í húfi eru mörg dýrmæti. Má nefna hvíta varnarskjöld norðursins gegn sólgeislun og ofhitnun, sjálfan hafísinn. Rýrnun hans veldur að lokum hraðri hlýnun norðurhafa með enn alvarlegri áhrifum en við höfum lifað. Benda má á jarðklaka sem varðveitir metan; hættulega gróðurhúsalofttegund, margfalt öflugri en koldíoxíð. Og áfram: Nokkuð hreinan sjó og fiskimið enda þótt blikur séu á lofti hvað óholl efni efst í fæðukeðjunni varðar. Mikil skógarflæmi sem binda koltvísýring, hreint yfirborðsvatn og stóra jökla er geyma mikilvægan vatnsforða sem aðeins getur nýst til langs tíma ef búskapur jöklanna er í nokkru jafnvægi og rýrnun sem minnst. Jarðefni sem á að skila til margra kynslóða en ekki eyða á nokkrum áratugum. Lífshætti og þekkingu fólks sem má miðla til annarra svo að þekking á sjálfbærum búskap hvíli ekki aðeins á kenningum heldur líka á raunverulegu starfi og reynslu.
    Veröldin ber ekki enn eina stórfellda innrásina í óbyggðir jarðar; inn í ein af fáum lítt skemmdum lungum jarðar; kalda jarðarhlutann sem viðheldur góðum lífsskilyrðum í tempruðum og hlýjum loftslagsbeltum jarðar. Mikið er í húfi, jafnvel þótt aðeins sé litið til vanda í hlutfallslega smáum stíl, t.d. olíuleka úr borholum eða skipstapa, með alvarlegum afleiðingum fyrir staðbundna fiskistofna og sjávarspendýr.
    Við getum metið bitra reynslu að eyðingu hægvaxta og gamalla frumskóga í flestum heimsálfum; gróðurs sem bindur koldíoxíð hraðast allra lífvera. Rýrnun skóga með góðri bindigetu koldíoxíðs og eyðimerkurmyndun ár hvert er af stærðargráðunni 30.000 ferkílómetrar. Skógarrýrnun er ein af helstu ástæðum hlýnunar loftslags á heimsvísu. Jörðin er sannanlega ekki að verða grænni eins og stundum heyrist og þaðan af síður bindur gróður meira af koldíoxíði eftir því sem magn hans eykst í lofti. Slíkt gerist aðeins ef gróðurmagn eykst.

    Öruggar siglingar

    arctic shipsSamfara hlýnun jarðar opnast nýjar siglingarleiðir um norðurhöfin, eins þótt andófið gegn hlýnun jarðar beri árangur. Sú ógn sem stafar af slysum á þeim vandförnu leiðum vegst á við umhverfisávinninga af miklu styttri siglingaleiðum en nú eru notaðar. Þá gildir að öryggismál séu tekin föstum tökum og alþjóðleg samvinna allra sem stjórna og nota siglingaleiðir innan og utan lögsögu ríkja verði haldin í heiðri. Mjög brýnt er að Alþjóða siglingamálastofnunin IMO aðlagi reglur og réttindi að sérstöðu norðurslóða og Alþjóða hafréttarsáttmálinn UNCLOS taki í reynd mið af að hafsvæðið utan 200 mílna réttindalögsögu fimm strandríkja norðursins geti verið skilgreint sem alþjóðlegt hafsvæði.

    Sjálfbærni í norðri

    Námavinnsla er aldrei sjálfbær og því verður að undanskilja hana öllu tali um sjálfbærni. Umhverfisvæn olíu- eða járnvinnsla, svo dæmi séu tekin, eru misvísandi orðaleppar og með öllu óhæfir, hvað þá sjálfbær gas- og olíuvinnsla. Í meginatriðum stefna flest ríki heims vissulega að sjálfbærni og hún á sem aldrei fyrr við á norðurslóðum en gildir ekki um olíuvinnslu. Það væri blekking.
    Vissulega getur olíuvinnsla nær notkunarstað minnkað kolefnisútblástur um það sem styttri flutningsleiðir kalla fram en það er ekki ígildi aukinnar sjálfbærni vegna þess að auðlindin er ekki endurnýjanleg. Líta ber ávallt á takmarkaða vinnslu jarðefna sem nauðsynlegan fórnarkostnað við velferð mannkyns. Um leið verður að lágmarka umhverfisáhrif vinnslunnar, meðal annars með hófsemi, endurnýtingu og mótvægisaðgerðum, án þvaðurs um sjálfbærni.
    Samgöngur verða seint sjálfbærar – nema hvað eldsneyti varðar og þá í nánustu framtíð, ef vel á að fara. Farartækin sjálf krefjast óafturkræfrar námuvinnslu að vissu marki. Sjálfbærni landbúnaðar, fiskveiða, veiða á landi, skógarvinnslu, virkjana eða sjálfbær nýting annarra auðlinda getur aftur á móti verið næstum alveg kleif ef auðlindum er skilað með nánast óskertri afkasta- eða afrakstursgetu til komandi kynslóða, hagkvæmni er metin heildrænt og umhverfi ekki skert af mannavöldum meir en svo að úr sé unnt að bæta.
    Verkefnin í norðri – ofleikur

    Því miður hafa ýmsir forystumenn í málefnum norðurslóða talað með of hástemmdum orðum um þýðingu norðursins. Inntakið er sem svo að þar “ráðist framtíð mannkyns”. Slíkur ofleikur er óréttlætanlegur vegna þess að samhengi í framgöngu allra þjóða heims við málefni norðurslóða er augljóst. Allar þjóðir bera ábyrgð á framtíð mannkyns. Hún ræðst ekki síður í Kína á leið til iðnvæðingar eða í hlýju Afríku, mestu matarkistu heims, eða í Brasilíu með sína regnskóga, svo dæmi séu nefnd. Fjöldann meðal okkar manna er að finna í suðrinu og þar ráðast líka örlög mannkyns, svo ekki sé minnst á Suðurskautslandið og umhverfi þess sem lýtur sérstökum alþjóðasáttmála. Hann virkar þrátt fyrir kröfur allmargra ríkja til yfirráða þar yfir afmörkuðum landsvæðum; kröfur sem eru án haldbærra raka á tímum alþjóðavæðingar og aukins lýðræðis. Upphafning norðursins er, með öðrum orðum, úr takti við raunveruleikann.
    Verkefni á norðurslóðum eru ærin og að þeim verður að vinna með öflugri alþjóðasamvinnu undir forystu ríkjanna átta í Norðurskautsráðinu þar sem Danmörk er handhafi utanríkissamskipta Færeyja og Grænlands, og einnig fyrir tilstilli SÞ, auk frumbyggjasamtakanna sex.
    Ofleikur einstaklinga í umræðum um norðrið kann að virðast tilkomumikill en hann varpar einungis hulu yfir vandmeðfarin málefni og jarðbundna afstöðu til þeirra. Til þeirra verður að horfa með raunsærri hliðsjón af stöðu annarra heimshluta.

    Kapphlaup og árekstrar?

    arctic_circleTil eru þeir sem telja að samvinna í Norðurskautsráðinu og samvinna þess og margra landa, sem þar hafa áheyrnarfulltrúa, geti tryggt að ekki verði alvarlegir árekstrar við opnun norðursins, hve langt sem hún kann að ná að lokum. Telja unnt að halda samvinnu milli ríkjannam átta á friðsamlegum og lýðræðislegum nótum þar sem samningar tryggja bæði rétt þeirra og annara ríkja sem ekki eru ákvörðunaraðilar að Norðurskautsráðsinu.
    Aðrir óttast að ströng hagsmunagæsla hvers ríkis og merki um nýja og aukna heruppbyggingu séu til vitnis um að andstæðingar takist á þegar fram í sækir. Ekki endilega með vopnavaldi heldur með því að helga sér og tryggja haf- og botnsvæði og segjast munu verja þau með öllum ráðum. Önnur ríki gætu reynt að koma sér fyrir, beint eða bakdyramegin, með verkefnum, eigin vinnuafli og aðstöðu í heimskautalöndunum, einkum þeim minni. Oft er þá bent á Kína.
    Nú þegar hafa orðið til ásteytingarsteinar. Stærstir eru stefna sem byggir á víðtækum hafsbotnsréttindum langt út frá ströndum ríkja (studd jarðfræðilegum rökum líkt og þegar Ísland seilist vestur fyrir Færeyjar og Bretland, eftir Reykjaneshrygg) og krafa um ríkjabundna stjórnun alls hafsvæðisins í hánorðri. Með því er átt við að fimm strandríki taki yfir stjórnun hafsvæðis frá landgrunni þeirra allt til norðurpólsins. Yfirlýsing þess efnis liggur þegar frammi sem sameiginlegur vilji fimm ríkja, Kanada, Bandaríkjanna, Rússlands, Noregs og Danmerkur, eftir lokaðan fund fyrir fáeinum árum. Ísland átti þar ekki sæti, ekki fremur en Svíþjóð og Finnland.
    Til hliðar standa svo ýmis Evrópuríki, og fjarlægari ríki, og telja að beita verði mun alþjóðlegri og sameiginlegri viðmiðum þegar vélað er um réttindi og stjórnun innan “nýja leikvallar” mannkyns.

    Ábyrgð vísindamanna

    Mikill meirihluti vísindamanna sem fjalla um hlýnun jarðar og orsakir hennar er sammála um grundvallaratriðin og þá einkum þrennt: Hvert stefnir með meðalárshitann, hvað það hefur í för með sér og loks að stærstur hluti hlýnunarinnar er af völdum útblásturs, gróðureyðingar og mannvirkjagerðar.
    Vísindamenn bera mikla ábyrgð á að staðreyndir séu til reiðu handa almenningi, stjórnvöldum, stofnunum og fyrirtækjum. Þeim ber að leggja þær fram, ótrauðir og óþreytandi, og hika ekki við, þegar skyldur leyfa, að tengja staðreyndir við tillögur að aðgerðum eða ábendingum um hvar leysa þyrfi hnúta eða höggva á þá, og á hverju hefur strandað jafn lengi og raun ber vitni. Margir þeirra standa sig vel en raddirnar ná ekki nógu víða. Gagnrýni á framlag þeirra sem telja hlýnunina eðlilega, eða gera lítið úr afleiðingum hennar, ber ávallt að svara faglega.

    Ábyrgð stjórnvalda og fyrirtækja

    Enn sem komið er vantar víðtæka samninga um aðgerðir í loftslagsmálum milli aðalleikaranna á veraldarvísu. Nokkur lönd hafa unnið fremur varfærnar aðgerðaáætlanir, til dæmis Þýskaland, og ber að fagna því. Mestu varðar auðvitað að fram komi ný og verulega framsækin stefna og skilvirkni ríkja sem mest losa, svo sem Bandaríkjanna, Kína, Indlands og Rússlands. Einnig vantar gjörbreytt viðhorf miklu fleiri ríkja, sem ýmist eiga í olíuvinnslu eða framleiða mikla orku með kolum, olíu og gasi. Þar í flokki eru til dæmis Frakkland, Kanada, Noregur, Bretland og Ástralía, auk olíuríkja í S-Ameríku, Mið-Austurlöndum og enn austar. Stefnan ætti að snúast um að draga olíu- og kolavinnslu saman í takt við hraða orkuumbyltingu á heimsvísu, leita ekki víðar að þessum hráefnum í bili og ganga ekki frekar en orðið er á land, gróður, búsvæði og auðlindir í eigin löndum eða öðrum. Stöðugur hagvöxtur og ítrustu orkukröfur verða að láta undan með afleiðingum sem þrengja myndi að lífstíl í öllum iðnríkjum heims og seinka umbreytingu stóru þróunarríkjanna í iðnríki.
    Þessu er ekki enn þannig varið. Stjórnmálaöfl, ríkisstjórnir og stórfyrirtæki draga lappirnar vegna eigin hagsmuna eða þrýstings hagsmunaafla. Þau verða þar með í æ erfiðari andstöðu við jafnt væntingar almennings um bærilega velferð og heilsusamlegt umhverfi, hvað þá siðferðileg álitamál.
    Greinilega vantar líka mikið á að upplýsingagjöf, einkum til almennings, teljist næg um orkumál, ógnir hlýnandi loftslags, jafnt sem tækifæri eða leiðir til aðlögunar. Úr því verður varla bætt nema með ábyrgri forystu stjórnvalda og opinberra stofnanna. Það sama gildir þegar horft er á tregðu stórfyrirtækja og alþjóðlegra fyrirtækjarisa til að skera niður starfsemi með hefðbundnum orkugjöfum, leggja stórfé í þróun til annarrar orkuöflunar, miðla meiri orku til fólks en minni til stóriðju og taka fulla ábyrgð að sínum þætti í vandamálum sem hljótast af brennslu jarðefnaeldsneytis. Sýnt hefur verið fram á minni kostnað og meiri hagnað af tafarlausum viðbrögðum við hlýnuninni og afleiðingum hennar í stað þess að reyna að lágmarka skaða eftir ár eða áratugi. Það ætti að vera mörgum bein fjárhagsleg hvatning til að gera betur.
    Og sú ætlan gengur því miður ekki upp að þoka meira en helmingi mannkyns sem hefur orðið á eftir í lífsgæðum, meðal annars vegna nýlenduafskipta margra ríkja og seinkomu að borði iðnþróunar, til jafns við þau hin með stóraukinni orku úr jarðefnaeldsneyti. Þar verður að reyna á rýmri tímaramma, þolinmæði og aðrar leiðir en ofurhraða og hefðbundna orku- og iðnvæðingu. Þar verður að finna efni til nýsköpunar og þróunarsamvinnu á forsendum græns hagvaxtar og treysta á mun hægari vöxt orkugetu en flest þróunarríki og þá einkum Kína og Indland gera ráð fyrir.
    Íslensk stjórnvöld hafa markað þá stefnu að minnka losun kolefnisgasa um 30% fyrir árið 2020. Er sannarlega vandséð að það takist. Og þróunarsamvinnan er ekki til að guma af, nema ef til vill í jarðhitageiranum.

    Ábyrgð okkar

    Almenningur getur og á að leggja sitt af mörkum til að hamla gegn hlýnun andrúmsloftsins. Búnar hafa verið til leiðbeiningar um það víða um heim. Meirihluti jarðarbúa sinnir þeim ekki, ýmist vegna vanþekkingar, rangra upplýsinga, fátæktar eða í þeirri vissu að gerðir einstaklinga skipti ekki máli í stóra samhenginu. Meira að segja telja sumir landsmenn mínir að gerðir Íslendinga séu ekki umtalsverðar og hér geti framvindan áfram fylgt metlosun á heimsvísu per mannbarn, ef horft er framhjá raforku- og upphitunargeiranum, og við hagnast á sem allra mestri vinnslu og sölu á íslenskri olíu.
    Rétt eins og hvað mannréttindi áhrærir, ber hver jarðarbúi sína agnarögn af ábyrgð, ekki bara á sjálfum sér heldur og á meðbræðrum sínum og – systrum.

    Samvinna og stjórnun norðursins

    Ari og strákarnir í QaanaaqÍ alþjóðasamvinnu um stjórnun landsvæða eða nýtingu auðlinda er aldrei fullkomlega tryggt að samvinna verði án alvarlegra deilna eða öllum til góða.
    Samvinna innan Norðurskautsráðsins, að nokkrum sáttmálum SÞ og undir gamla sáttmálanum um fyrirkomulag mannlegrar virkni á Suðurskautslandinu gefur góð fyrirheit. Auk fjölda samstarfsverkefna sem gengið hafa vel, er til dæmis komið fram heildstætt samkomulag um leit- og björgun á hafsvæði norðursins.
    Í hverri ræðu ráðamanna á alþjóðavettvangi er ítrekað að samvinna á norðurslóðum og stjórnun á hafsvæðinu norðan strandríkjanna skuli vera friðsamleg og á sjálfbærum eða umhverfisvænum nótum. Því ber að fagna.
    Samtímis er ýmislegt við ummælin að athuga. Sjálfbærnihugtakið er notað að hluta með röngum formerkjum um stefnu sem miðar að umfangsmikilli námavinnslu á landi og vinnslu og notkun meiri jarðefnaeldsneyta. Hugtakið umhverfisvernd getur ekki náð yfir kapphlaup um olíu- og gaslindir, nema hvað varðar varnir gegn óhöppum við starfsemina. Ábyrgð vinnslulands á umhverfisvernd nær líka til sölu og notkun efnanna í öðrum löndum. Noregur er gott dæmi um hvernig ráðamenn skjóta sér undan ábyrgð á hlýnun jarðar með því að vísa aðeins til umhverfisverndar norskra fyrirtækja við vinnslu gass og olíu. Sala efnanna og notkun er sögð vera á annarra ábyrgð.
    Enn fremur hafa fimm strandríki lýst einhliða yfir vilja til þess að þeirra sé að hafa ákvörðunarrétt yfir nyrstu hafsvæðum, utan við 200 mílna mörkin. Samhliða gera sömu ríki kröfur um auðlindir á hafsbotni langt út fyrir þessi mörk. Hvorugt rímar við framsækna umhvrefisvernd eða samhyggð.
    Hér þurfa strandríkin fimm að gefa eftir ítrustu hafsbotnskröfur, halda sig við eigin auðlindir innan 200 mílna marka og leyfa alþjóðasamfélaginu að líta á miðju Norður-Íshafsins sem svæði undir verndarvæng mannkyns. Það verður þá efni alþjóðlegs samkomulags að ábyrgjast hafsvæðið og stjórna því, jafnvel með því að fá strandríkin til að taka það að sér með framlagi SÞ.
    Annað og enn flóknara verkefni lýtur að því að endurskoða hafréttarsáttmálann og vinda ofan af óréttmætum kröfum um auðlindir langt út á öll helstu hafsvæði sem verða að fá að vera ósnertar, mannkyni til góða. Þar getum við sýnt gott fordæmi með því að láta af kröfum um hafsbotnsréttindi alla leið vestur fyrir Bretlandseyjar.

    Alþjóðleg verndarsvæði

    Af hverju er svo mikilvægt að sem mestur hluti norðurhafa sé alþjóðlegt verndarsvæði? Meðal ástæðna er nauðsyn þess að láta auðlindir þar liggja að mestu kyrrar. Önnur ástæða er nauðsyn þess að ábyrgð á umhverfisvernd í norðrinu sé allra ríkja en ekki fárra. Þriðja ástæðan er sú táknræna gjörð sem í vernduninni felst; viðurkenning á því að bæði heimskautasvæðin skipa mikilvægan sess í verndun lífríkis um leið og þau eru tákn um hófsemi í auðlindanýtingu. Auk þess er því þannig varið að ófyrirséð kólnun veðurfars getur á skammri stund breytt aðstæðum á fyrrum og núverandi hafíssvæðum. Viðbrögð við því ættu, ef svo ber undir, að vera á ábyrgð alþjóðasamfélagsins, ekki nokkurra strandríkja.
    Til viðbótar hafsvæðinu næst norðurpólnum er brýnt að ná samkomulagi við öll átta heimskautaríkin og frumbyggjasamtökin um að afmörkuð landgrunnssvæði og fleiri landshlutar en sem svara núverandi þjóðgörðum lúti fullri vernd vegna lífríkis, náttúrufars eða samfélagslegra hagsmuna íbúa við þau eða innan þeirra.

    Fimm ára stöðvun?

    Dr. William Moomaw, prófessor emeritus við Tufts háskóla í Bandaríkjunum hélt erindi um orkuauðlindir á norðurslóðum við Háskólann í Reykjavík 30. október 2014. Hann er meðal annars þekktur fyrir að leggja til fimm ára hlé á kolavinnslu í Bandaríkjunum til þess að enduskipulegga þann þátt með vinnslulok fyrir augum. Það sama varðar umdeilt fracking eða jarðlagabrot með efnablönduðu vatni til að ná upp jarðgasi.
    Á fundinum lagði hann fram mat á því sem kallast tækifæri og áskoranir í orkuvinnslu á norðurslóðum. Niðurstaðan hans er einföld: Það verður að sameina þjóðir, sem við eiga, um fimm ára bann við frekari ásókn í olíu- og gaslindir á norðurslóðum. Samtímis er leitað lausna til þess að vinda ofan af fyrirætlunum um gas- og olíuleit og núverandi vinnslu eins og unnt er. Tillagan er róttæk og vafalítið mætir hún harðri andstöðu. Hún er engu að síður mikilvæg sem umræðuefni og stefnumál til að vinna að í sem allra nánustu framtíð. Alþingi og ríkisstjórn eiga að styðja tillöguna. Stjórnvöld eiga líka að gangast fyrir sem víðtækustum umræðum um nýja stefnumótun í orkuvinnslu í norðrinu – t.d. ráðstefnu í samvinnu við erlenda aðila og á vegum Norðurskautsráðsins, en á ólíkum og heppilegri nótum þeim er gjarnan eru slegnar þar, eða í allt of oft á haustfundum Arctic Circle .

    Drekasvæðið og aðrar leiðir

    olia_kortMikil meirihluti landsmanna studdi olíuleit og vinnslu á Drekasvæðinu við Jan Mayen í skoðanakönnun árið 2013. Allir stjórmálaflokkar sem þá störfuðu litu jákvætt á olíuleit þriggja samstarfshópa. Einn þeirra hefur dregið umsókn sína til baka.
    Nú er tekið að kvarnast úr stuðningnum hér innanlands, bæði vegna nýrra gagna og upplýsinga og vegna aukinnar umræðu. Sennilega fjölgar þeim flokkum sem taka afstöðu gegn olíuvinnslunni til viðbótar Samfylkingunni sem snúist hefur til andstöðu, t.d. Vinstri grænir og Björt framtíð. Afstaða Pírata til leitar og vinnslu hefur verið óljós og verður það ef til vill áfram.
    Leitendur að olíu og gasi við Jan Mayen eru íslenskir, norskir og kínverskir með ýmsa ráðgjafa sér við hlið, bæði breska og kanadíska. Þeir eru bjartsýnir og telja að allt að 10 milljarðar tunna séu á að minnst kosti einu svæðanna en sennilega tugir milljarðar á öllu hafsvæðinu sem Noregur og Ísland hafa réttindi til að nýta.
    Ýmis konar hagfræðileg rök má færa fram til stuðings vinnslu. Þau einföldustu eru setningar á borð við: – Lykill að mikilli velmegun og greiðslu allra skulda ríkisins. – Olíu og gass er þörf næstu áratugi og við getum unnið efnin vel og vandlega. – Við minnkum heildarlosun koldíoxíðs með þessu móti. – Af hverju eigum við að láta augljós verðmæti kyrr liggja.
    Vegin á móti tjóni og vá, sem velmeguninni, aðgæslunni og lítilsháttar minni losun kolefnisgasa kann að fylgja, eru þessi orð léttvæg. Fjármuni til fjárfestinga við Jan Mayen geta sömu aðilar nýtt til verka sem þjóna andófi gegn hlýnun (ef til vill með minni hagnaði en ella). Auk þess sjá aðrir um að vinna olíu og gas umfram þau mörk sem þolmörk hlýnunar segja til um, miðað við að ekki megi snerta nema þriðjung þekktra olíulinda, og verða krafðir ábyrgðar á því.
    Hér á landi er unnt að framleiða eldsneyti á bílvélar (t.d. alkóhól) á umhverfisvænan hátt, lífdísil á bíla (úr þörungum og repju) og hluta skipaflotans, vetni til nota á bíla og í skip og loks raforku á vistvænan hátt, einmitt fyrir hluta þess fjár sem á að fara í gin drekans.
    En er í raun unnt að snúa við því starfi sem fyrirhugað er á Drekasvæðinu, og jafnvel vinnslu, ef olía finnst þar? Er raunhæft að krefjast hlés eða stöðvunar?
    Leitendur munu segja þvert nei og vísa til alþjóðasamninga og bótakrafna. Þær aðstæður þarf vissulega að skoða, en ekki treysta fullyrðingunum einum.
    Hitt er jafn ljóst að óréttmætar umhverfiskröfur verða ekki settar fram gagnvart leitarhópunum í þeirri von að það endi leit eða vinnslu, eins og heyrst hefur. Ef ekki reynist unnt að rifta samningum með eðlilegu móti kann eina leiðin að leitar- eða vinnslutöðvun að vera þung skattlagning og þá með sem allra mestum fyrirvara. Því miður fór svo að ferlið á Drekasvæðinu var sett af stað, vissulega á hefðbundinn þinglegan hátt, allt of hratt og þá einmitt á þeim tíma sem þjóðinni vegnaði illa. Því fór fjarri að næg samstaða ríkti um fyllstu varkárni, bæði á þingi og í samfélaginu eða allar hliðar teldust vel ræddar.

    Orka handa jarðarbúum

    Samfélög veraldar standast ekki álag á umhverfið sem frekari vinnsla jarðefnaeldsneytis á norðurslóðum leiðir af sér til viðbótar við vinnslu þekktra linda. Enn fremur er næsta víst, að með átaki sem kostað er með hagnaði af orkusölu næstu árin, og með sparnaði í útgjöldum til hermála, geta þjóðir heims lagt fram nægt fé, mannafla og þekkingu til þess að bæta nógu hratt úr orkuþörf sem minnkandi öflun jarðefnaeldsneytis ylli. Það gerist með fjölbreyttri, sjálfbærri orkuöflum sem að mörgu leyti er vitað hvernig á að fara fram en fé skortir til.
    Stóru ríkin og Evrópusambandið verða að koma sér saman um meginleiðir, leyfa alþjóðastofnunum að marka útfærsluna og láta af gamaldags hagsmuna- og yfirráðadeilum. Í samvinnu við minni þjóðir og þróunarlönd verða þau enn fremur að tryggja, aftur með alþjóðastofnunum, að um helmingur mannkyns, sá er hallar á, hafi orku, vatn, fæðu, húsaskjól, mannréttindi, menntun og vinnu. Ef fjölþjóðahringar hlíta ekki markmiðum samtökum þjóða og stofnana, verður að setja þeim nýjar starfsreglur. Margir þeirra og sumir öflugustu einkafjárfestar heims skilja raunar nú þegar hverjum klukkan slær: Þeim sjálfum jafnt sem okkur öllum. Þaðan heyrast nú skynsemisraddir og gerðir fylgja.
    Gerist allt þetta ekki fljótlega mun neyðin þvinga okkur til þess arna.

    Breyttur lífsstíll og breytt tækifæri

    Flestum hrýs hugur við að þurfa að breyta um lífsstíl eða afla sér velsældar með nokkuð öðru innihaldi og að hluta á annan hátt en oft áður. Minni orkunotkun, jafnvel orkuskömmtun, færi ferðir innan samgöngukerfisins, minna af lúxus, meira af nærfengnum matvörum, flutningar til nýrra búsvæða og fleira í þessum dúr verður nær örugglega hlutskipti næstu 1-2 kynslóða.
    Tækifæri til þess að lifa friðsamlega og ríku lífi, hafa vel í sig og á, geta alið sómasamlega upp börn, geta lært og unnið verða ekki færri en áður eða verri kostir, aðeins breyttir að sumu leyti. Sú þróun er þegar hafin með sókn til aukins lýðræðis og mannréttinda víða um heim en um leið með andófi gegn fáveldi, misskiptingu auðs og spillingu.
    Slíkt gerist þó ekki án mótöldu eins og sjá má í aukinni þjóðernisstefnu og rasisma eða í framgangi ofbeldiskenndrar ofsatrúar sem hafnar mörgu efnislegu og býr til andstæður milli trúarbragða.
    Við eigum að vita að trúarbrögð eru stef við sömu grunnhugsun meginþorra fólks í ólíkum samfélögum heims: Tilvist heilagra afla handan mannlegrar getu. Það gerir þau öll jafn rétthá og ekkert þeirra merkari eða betri en hin. Gerir þau aðeins ólík og á mismunandi þróunarstigum innan ólíkra samfélaga.
    Ljúki brátt gnægtaröldinni, sem byggst hefur á óheftri orkunotkun, offramleiðslu og ofneyslu, með breyttum en nógu vistvænum lífsháttum, er björninn unninn. Gerist það of seint, mun verða afar erfitt að komast upp úr feiknardýrum og eyðandi öldudal eftir holskeflur allt of hlýs veðurfars. Bjartsýni er góð en hún má ekki fela staðreyndir.

    Höfundur er jarðvísindamaður, rithöfundur og áhugamaður um norðurslóðir.
  • Formaður VG snýst gegn meginmarkmiðum umhverfisverndar

    Formaður VG snýst gegn meginmarkmiðum umhverfisverndar

    Í aðdraganda loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna í Doha í lok síðasta árs kom fram að meðal iðnríkja hafði losun gróðurhúsalofttegunda aukist mest í Noregi eða um 38% s.l. 20 ár. Nú hyggst hinn vinstri-græni atvinnu- og nýsköpunarráðherra Íslands, Steingrímur J. Sigfússon, taka Noreg sér til fyrirmyndar. Við Morgunblaðið í dag segir hann, að „Þetta eru talsverð tímamót,“ og fagnaði aðkomu norskra að olíuleit á Drekasvæðinu.

    Steingrímur J. Sigfússon virðist – eða þykist vera – ómeðvitaður um þá niðurstöðu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (International Energy Agency) að þegar hefur fundist meiri olía en unnt verður að brenna ef takast á að ná því markmiði alþjóðasamfélagsins – og ríkisstjórnar Íslands – að halda hlýnun andrúmslofts jarðar innan vð 2°C að meðaltali. Alþjóðaorkumálastofnunin telur einsýnt að 2/3 jarðefnaeldsneytis verði að liggja ónýtt í jörðu til að takast megi að nokkur möguleiki sé á að ná þessu markmiði.

    No more than one-third of proven reserves of fossil fuels can be consumed prior to 2050 if the world is to achieve the 2 °C goal, unless carbon capture and storage (CCS) technology is widely deployed.

    This finding is based on our assessment of global “carbon reserves”, measured as the potential CO2 emissions from proven fossil-fuel reserves. Almost two-thirds of these carbon reserves are related to coal, 22% to oil and 15% to gas. Geographically, two-thirds are held by North America, the Middle East, China and Russia. 

    Tal Steingríms J. Sigfússonar um varfærni og virðingu gagnvart umhverfinu ber vott um tvískinnung. Formaður Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs hlýtur að vita að aukin vinnsla jarðefnaeldsneytis mun ekki einungis hafa í för með sér hættur fyrir viðkvæmt umhverfis norðurslóða heldur einnig torvelda mannkyni enn frekar það erfiða verkefni að koma í veg fyrir óafturkræfar loftslagsbreytingar.

    Náttúruverndarsamtök Íslands harma að formaður Vinstri grænna hafi ekki til bera hugrekki og siðferðisþrek til að fylgja þeirri loftslagsstefnu sem Ísland hefur markað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

    —–

    Til frekari upplýsingar:

    Í grein sem birtist í norska Dagbladet þann 29. september dregur yfirmaður Olíustofnunar Noregs (Norges Oljedirektorat) mjög í efa að unnt verði að nýta olíu á Drekasvæðinu.

    Bent er á að ferð norska olíumálaráðherrans til Íslands þá hafi helst verið “en politisk markering av norske interesser, snarere enn starten på et nytt norsk oljeeventyr.

    Þar segir ennfremur
    Troen på store og driveverdige olje- og gassfunn i Nordishavet utenfor Jan Mayen er så liten at Islands tildeling av letetillatelser i området avfeies av flere oljetopper som en «forhastet» eller «desperat» handling, for å tilføre landet kapital i kjølvannet av finanskrisen.

  • Með styrk frá Noregi?

    Með styrk frá Noregi?

    Í vikunni fagnaði formaður Vinstri Grænna, Steingímur J. Sigfússon, þátttöku Norðmanna í fyrirhugaðri olíuleit á Drekasvæðinu. Hann telur það styrkja verkefnið.

    Það gefur því aukið vægi og það er styrkur í að hafa Norðmenn okkur við hlið í þessu. Þeir búa enda yfir mikilli reynslu á þessu sviði, þá ekki síst í öllu sem snýr að öryggis- og umhverfismálum í tengslum við olíu- og gasvinnslu á hafi úti. Þannig að ég held að það sé akkur í því, auk þess sem við eigum náttúrlega mikið samráð við Noreg og erum með samkomulag við Norð- menn um skiptingu á Drekasvæðinu,“

    sagði Steingrímur J. í viðtali við Morgunblaðið.

    Norska fyrirmyndin?
    Olíuríkið Noregur hefur að undanförnun fengið á sig gagnrýni fyrir að tala með tungum tveim í loftslagsmálum og sitt með hvorri.

    Á sama tíma og norsk stjórnvöld verja gríðarlega háum fjárhæðum til bjargar regnskógum REDD+ og CDM-fjárfestingarverkefni í hreinni tækni í þriðja heims ríkjum sýna ný gögn að markmið norskra stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda eru enn langt undan.

    Noregur hefur stært sig af að skattleggja olíutekjur sínar til að fjármagna REDD+ og CDM-verkefni, að viðbættri rausnarlegri þróunaraðstoð. Nýjar tölur frá Alþjóðlegu orkumálastofnuninni (International Energy Agency, IEA) sýna að losun gróðurhúsalofttegunda í Noregi hefur aukist umtalsvert.

    Bård Vegar Solhjell, umhverfisráðherra, mun lenda í Doha síðar í vikunni á 18. loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna, til að kynna metnaðarfull markmið ríkisstjórnar sinnar til að vinna á loftslagsbreytingum, þ.m.t. 20 prósent samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda innan landamæra Noregs fyrir árið 2020, skuldbindingar um 500 milljóna dollara framlag á ári til að styðja við vernd regnskóga (REDD+), fjárframlög til að styrkja nýtingu endurnýjanlegrar orku í þróunarríkjum (CDM) og nokkrar milljónir dollara til að auðvelda aðlögun að breyttum heimi í kjölfar loftslagsbreyting; hin fátækari ríki heims augljóslega eiga bágt með að taka á vandamálum í kjölfar veðuratburða á borð við Sandy af sömu festu og Bandaríkin geta gert.

    Hvað sem því líður þá fela tölur IEA í sér að Noregur hefur fallið af stalli sem ofurhetja í umhverfismálum. Losun koltvísýrings frá eldsneytisbrennslu hefur aukist um 38 prósent frá árinu 1990 (viðmiðunar ár Kyoto-bókunarinnar), meira en öll önnur OECD-ríki nema Ástralía, sem lengi vel taldist meðal helstu loftslagsbófa.

    Meiri áhyggjum veldur að losunarspár fram til ársins 2020 sýna að losun gróðurhúsalofttegunda mun aukast og orsökin er losun frá olíu- og gasvinnslu og að brennslu þess konar eldsneytis hefur aukist verulega. Á móti kemur að annar iðnaðar á landi hefur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda.

    Þessi þróun mun skaða hið góða orðspor Noregs í umhverfismáum. Vilji Noregur láta taka mark á sér duga ekki bara metnaðarfullar yfirlýsingar á alþjóðlegum ráðstefnum um hversu ábyrgir heimsborgarar Norðmenn séu. Slíkum yfirlýsingum verður að fylgja aðgerðir heima fyrir; aðgerðir sem fela í sér verulegan samdrátt í losun koltvísýrings.

    Steingrímur J. Sigfússon veit betur en við flest eftir marga og erfiða daga í fjármálaráðuneytinu að Ísland er ekki aflögufært um peninga í sama mæli og Noregur, jafnvel ekki samkvæmt höfðatölureglunni. Hvað varðar loftslagsstefnu væri óskandi að hann sækti fyrirmyndir sínar annað en til Noregs; að hann hefði siðferðisstyrk til að segja kjósendum sínum fyrir norðan að samkvæmt skýrslu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar geti mannkyni einungis nýtt þriðjung nýtanlegs jarðefniseldsneytis sem vitað er um fyrir árið 2050. Það er að segja, eigi mannkyninu að takast að halda hækkun hitastigs andrúmsloftsins innan við 2 gráður á Celsíus að meðaltali. Eru ekki Vinstri græn með okkur í því verkefni?

  • Um niðurstöðuna í Durban

    Um niðurstöðuna í Durban

    Mjög jákvætt er að í Durban varð samkomulag um að þau ríki sem mest losa af gróðurhúsalofttegundum hefji á ný samningaviðræður um lagalega bindandi sáttmála.* Eftir loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn fyrir tveimur árum virtust öll sund lokuð. Samningaviðræðum skal lokið fyrir 2015 en munu ekki hafa áhrif fyrr en eftir 2020, sem er of seint.

    Einnig náðist samkomulag um framlengingu Kyoto-bókunarinnar en hvað það felur í sér fyrir þau ríki sem enn eiga aðild og hyggjast taka á sig skuldbindingar samkvæmt bókuninni er óljóst, Japan, Kanada og Rússland hafa nú sagt sig frá bókunni. Eftir eru Evrópa og Ástralía, Nýja Sjáland, auk þróunarríkja sem ekki taka á sig skuldbindingar líkt og bókunin kveður á um. Það er meginatriði að Kyoto-bókunin verður áfram grunnur að frekari samningagerð. Kyoto-bókunin eru einu alþjóðalögin sem í gildi eru um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.

    Þessi tvö atriði eru stór plús og umfram væntingar. Evrópusambandið hrósar sigri yfir að samkomulag náðist um að gera skuli lagalega bindandi samning innan fjögurra ára. Á hinn bóginn veit enginn hvernig sá samningur mun líta út og aftur unnu Bandaríkin því ákvæði fyrirhugaðs samnings um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda munu ekki taka gildi fyrr en eftir 2020.

    Bandaríkin hafa frá upphafi hafnað Kyoto-bókuninni. Vissulega undirritaði Al Gore bókunina í Kyoto árið 1997 en frá sama tíma var ljóst að Öldungadeild þingsins myndi ekki fullgilda hana. Í besta falli var bandaríska stjórnkerfið klofið á þeim tíma. Frá því að Bush tók við völdum hafa Bandaríkin alfarið hafnað þeirri nálgun, sem felst í bókuninni, að iðnríkin beri sögulega langmesta ábyrgð á losun gróðurhúsalofttegunda og þeim beri því fyrst að draga úr losun og að engar slíkar kröfur verði gerðar til þróunarríkja fyrst um sinn. Þessi nálgun er í samræmi við 2. grein Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1992 („Sameiginleg en mismunandi ábyrgð ríkja“) og varð ein meginniðurstaða 1. aðildarþings samningsaaðila í Berlín þremur árum síðar. Séð frá þessu sjónarhorni má segja að fulltrúar Bandaríkjanna hafi náð fram markmiðum sínum í Durban.

    Á fyrsta fundi aðildarríkja Loftslagssamningsins eftir að Barack Obama settist að í Hvíta húsinu vakti fulltrúi Bandaríkjanna, Todd Stern mikla lukku þegar hann sagði: “We’re back.” Engu að síður hafa Bandaríkin fylgt mjög svipaðri stefnu og Bush forseti mótaði. Helsti munurinn er e.t.v. sá að Hvíta húsið reynir ekki að draga í efa niðurstöður vísindamanna um orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga. Í Durban fóru fulltrúar Bandaríkjanna sér hægt en þæfðu mál og töfðu fyrir til að koma í veg fyrir nauðsynlegar aðgerðir. Hvort Obama forseti bætir ráð sitt nái hann kjöri á ný skal ósagt látið en innan umhverfisverndarhreyfingarinnar eru fáir sem meta hann mikils.

    Þróunarríkin fagna sigri yfir að Kyoto-bókunin er enn í gildi, sú meginregla að iðnríkjunum beri skylda til að taka forustu um samdrátt í losun, skipti yfir í endurnýjanlega orku og að þau skuli veita fjármagn og tækniaðstoð til þróunarríkja.

    Að óbreyttu stefnir í að hitastig andrúmsloftsins muni hækka um og yfir 3 gráður á Celcíus miðað við fyrir iðnbyltingu. Í Kaupmannahöfn náðist samkomulag um að halda skyldi meðalhitnun andrúmslofts jarðar innan við 2°C. Öll smá láglend eyríki telja 1,5°C hækkun vera hámark. Ella munu þau hverfa í sæ í fyrirsjáanlegri framtíð. Segja má að 2°C hækkun séu efri mörk þess sem vísindamenn telja að vistkerfi jarðar þoli með von um að ná jafnvægi á ný – eftir margar aldir. Skaðinn verður gífurlegur og nýlega kom út skýrsla Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem sýnir skýr tengsl milli hækkandi hitastigs og öfga í veðurfari.

    Enn er stórt bil á milli annars vegar þess samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda sem ríki hafa þegar skuldbundið sig til að koma í verk og hins vegar þess samdráttar sem er nauðsynlegur til að halda hlýnun andrúmsloftsins innan við 1,5 – 2°C. Þetta bil stækkar óðum og því verður að grípa aðgerða sem allra fyrst. Sjá skematískt yfirlit hér að neðan, en þar kemur þó ekki fram hvernig súrnunun sjávar eykst í hlutfalli við hækkandi hitastig þótt fram komi að kóralrif muni deyja út í Indlandshafi við 2°C hlýnun. Eftir Durban vitum við að stefnt er að lausn málsins með lagalega bindandi samningi þar sem öll ríki verða að taka á sig skuldbindingar. Slíkt samkomulag náðist fyrst í Kyoto fyrir 14 árum síðan, það er enn í gildi en kolefnisiðnaðinum í Bandaríkjunum hefur tekist að koma í veg fyrir að nái til alls heimsins. Nú er önnur tilraun og við vitum ekki hvort tekst að ná samkomulagi í tæka tíð.

    Árni Finnsson.

    www.climateactiontracker.org
    Smellið tvisvar á myndina til að fá hana stærri – Heimild – www.climateactiontracker.org

     

    *Indland hafnaði reyndar hugtakinu ‘legally binding’ en féllst á málamiðlun þess efnis að nýr samningur hefði ‘legal force’.

  • Bræðsluvertíðarlok á Norður-Íshafinu

    Bræðsluvertíðarlok á Norður-Íshafinu

    Hafísinn á Norður-Íshafinu hefur nú náð sínu árlega lágmarki eins og komið hefur fram í fréttum. Hvað útbreiðslu varðar reyndist lágmarkið að þessu sinni vera það næst lægsta frá upphafi mælinga sem þýðir að árið 2007 heldur enn metinu. Lengi fram eftir sumri voru góðar líkur á því lágmarksmetið yrði slegið því eftir lágt vetrarhámark var mjög sólríkt þarna uppfrá lengi fram eftir sumri. Aðstæður urðu síðan misjafnari þegar lægðir fóru að gera vart við sig með dimmviðri og vindum sem blésu gjarnan í öfugar áttir miðað við það sem æskilegast þykir til að pakka ísnum saman eða hrekja hann í réttar áttir. Árið 2007 er hinsvegar talið hafa vera algert draumaár til að vinna á ísbreiðunni því þar gekk allt upp.

    Reyndar má segja að það sé mesta furða hversu lágmark ársins er nú lágt miðað við aðstæður og sýnir það kannski best að nú þarf ekki lengur afbrigðilegar veðuraðstæður til þess að ná mjög lítilli útbreiðslu í sumarlok. Ástand hafíssins er nefnilega orðið það bágborið almennt. Ísbreiðan hefur þynnst mjög á síðustu árum auk þess sem gamall lífseigur ís er nánast að hverfa.

    Hér að neðan er línurit frá hafísdeild dönsku veðurstofunnar þann 18 september þar sem borin er saman útbreiðsla síðustu ára.

    Svarta línan sem stendur fyrir 2011 hefur greinilega náð sínum botni og það kannski heldur fyrr en hin árin. Eiginlega var þetta lágmark frekar stutt gaman því útbreiðslan hefur aukist nokkuð á ný síðustu daga og er strax komin upp fyrir 2008 línuna. Þetta var sem sagt ekki eins flatbotna lágmark og oftast áður. En veður og vindar eru síbreytilegir og því ekki útilokað að um einhverskonar tvíbotna lágmark verði að ræða.

    Þann 11. september leit ísbreiðan út eins og sýnt er á myndinni hér að neðan en myndin er fengin af Cryosphere Today vefnum þar sem sjá má fleiri góðar myndir og línurit. Til samanburðar hef ég útlínað hið sögulega lágmark frá 2007.

    Það sem einkennir ísbreiðuna nú í ár miðað við árið 2007 er að ísinn nú hefur bráðnað nokkuð jafnt allan hringinn með þeim árangri að vel siglingafært er í gegnum Kanadísku heimskautaeyjarnar og einnig norður fyrir Síberíu. Árið 2007 var hinsvegar óvenjulegt fyrir það hversu íslaust svæði át sig langt inn á Norður-Íshafið út frá Austur-Síberíu og inn að miðju en þó án þess að norðaustur-siglingaleiðin opnaðist. Til að ná þessari stöðu þurfti mjög eindregnar veðuraðstæður en spurning er hvernig hefði farið fyrir ísnum ef sömu aðstæður hefðu ráðið í sumar – ekki síst síðsumars.

    Ég hef hér aðallega fjallað um útbreiðslu íssins sem er bara ein leiðin til meta ástand íssins og kannski ekki endilega sú besta til sýna hið eiginlega ástand. Stundum er talað um heildarflatarmál ísþekjunnar þar sem þéttleikinn spilar inn í. Í þeim samanburði kemur árið í ár svipað út og 2007 eða er jafnvel enn neðar. Meiru munar þó þegar þykktin er tekin í dæmið og heildarrúmmálið reiknað því þá kemur fram að heildarísmagn hefur ekki verið minna en núna, svo lengi sem þekkt er og hefur auk þess verið á hraðri niðurleið síðustu ár. Útbreiðslan er þó það sem oftast er horft á, kannski vegna þess að útbreiðslan er sýnilegust og auðvitað heldur ísinn sig ávallt við yfirborð sjávar, sama hversu þunnur hann er.

  • Er heimurinn að hlýna eða kólna?

    Er heimurinn að hlýna eða kólna?

    Gestapistill eftir Emil Hannes Valgeirsson – birtist fyrst á bloggsíðu hans, Er heimurinn að hlýna eða kólna? en er hér í smávægilega uppfærðri útgáfu.

    Það eru væntanlega fáir sem efast um að hlýnað hafi á jörðinni síðustu 100 ár enda sýna mælingar það svo ekki verði um villst. Þessar 0,7° gráður eða svo sem hlýnað hefur um í heiminum frá aldamótunum 1900 teljast varla vera nein katastrófa en haldi hlýnunin áfram á þessari öld með auknum hraða, gæti gamanið farið að kárna eins og margoft hefur verið varað við.

    En hér eru ekki allir á sama máli, því inn á milli heyrast raddir um að loftslag á jörðinni stjórnast lítið sem ekkert af athöfnum manna – það hafi alls ekkert hlýnað undanfarin ár og framundan sé áratugalangt kuldaskeið af náttúrulegum orsökum en aðallega þá vegna minnkandi sólvirkni. Sumir hafa undanfarið jafnvel talið að kuldaskeiðið mikla væri í þann veginn að hefjast eins og þessar tilvitnanir segja til um:

    It is likely that 2011 will be the coolest year since 1956, or even earlier, says the lead author of a peer-reviewed paper published in 2009. Our ENSO – temperature paper of 2009 and the aftermath by John McLean

    „Global temperatures have suddenly returned to the same level they were in 1980 and are expected to drop much further. Given the momentum of the solar hibernation, it is now unlikely that our generation or the next one will return to the level of global warming that we have just passed through. Again, global warming has ended. It was always caused by the Sun and not mankind. The global cooling era has begun.“ Space and Science Research Center, February 4, 2011

    Þessi síðari tilvitnun er frá því í febrúar nú í ár eftir að hitinn hafði fallið í byrjun árs. Ekki reyndist sú kólnun langvinn. Þeir sem kallast efasemdamenn um hnatthlýnun hafa reyndar lengi bent á að mikið hitafall sé yfirvofandi eða í þann veginn að skella á. Slíkt hefur hingað til látið á sér standa eða frestast, því eftir hvert bakslag hefur hitinn náð sér á strik svo um munar. Myndir hér að neðan sýnir hitaþróun jarðar frá 1979 samkvæmt gervitunglagögnum UAH:

    Sá þáttur sem hefur einna mest skammtímaáhrif á hitafar jarðar en ENSO sveiflan í Kyrrahafi, sem segir til um hvort hinn hlýji El Nino eða hin kalda La Nina ráði ríkjum hverju sinni en mestu áhrifin eru af völdum sterks El Nino árið 1998 enda var það ár það hlýjasta samkvæmt þessum gögnum. Frá 1950 hefur þróunin verið þannig (rautt = El Nino / blátt = La Nina):

    Ef við setjum þessar tvær myndir saman fyrir árin 1979-2011 þannig að ártölin stemmi, þá sést vel hvað átt er við. Hitaþróunin eltir ENSO sveiflurnar en er þó oftast nokkrum mánuðum á eftir. Eina tímabilið sem passar illa er 1992-1993 en það er vegna kælingar af völdum stóra eldgossins í Pinatupo á Filippseyjum:

    Í þessum samanburði kemur það í ljós að hitaferill hefur smám saman verið að lyfta sér upp fyrir ENSO sveiflurnar eins og ég stilli þessu upp. Með öðrum orðum: Það er undirliggjandi hlýnun í gangi sem ekki verður skýrð með tíðni El Nino og La Nina. Á síðasta ári var uppi kalt La Nina ástand (lengst til hægri) sem dugði þó ekki nema til þess að lækka hitann rétt niður fyrir meðallag en stóð stutt. Nú þegar hlutlaust ENSO-ástand er komið á á ný hefur hitinn rokið aftur upp (+0,37°) og það langt yfir meðallag. Til að ná slíkri hæð á árunum fyrir 1995 hefði hinsvegar þurft eindregið El Nino ástand.

    Annað mikilvægt er að hitaþróun síðustu ára virðist ekki vera í samræmi við þá minnkandi sólvirkni sem verið hefur síðustu ár – allavega ekki enn sem komið er. Vísbendingar eru um langvararandi sólardeyfð á næstu áratugum en hvaða áhrif það mun hafa hafa veit ég ekkert um. Allavega virðumst við ennþá vera í ferli hlýnunnar sem erfitt er að útskýra án þess að íhuga þann möguleika að eitthvað gæti kannski komið við sögu sem ef til vill hefur eitthvað með mannkynið að gera.

    Tengt efni á loftslag.is:

     

     

  • Árið 2010 hlýjast samkvæmt NASA-GISS

    Árið 2010 hlýjast samkvæmt NASA-GISS

    Þessi pistill birtist áður á bloggsíðu Emils og hét þar Árið 2010 var hlýjasta árið ásamt 2005 samkvæmt NASA-GISS

    Það er oft beðið með dálítilli eftirvæntingu eftir uppgjörum frá NASA-GISS stofnuninni sem er einn þeirra aðila sem meta hnattrænt hitafar. Nú hafa þeir reiknað út að meðalhitinn á jörðinni á liðnu ári hafi verið örlítið fyrir ofan hitann árið 2005 en munurinn það lítill að árin úrskurðast jafnhlý og eru þetta því tvö hlýjustu árin sem mælst hafa á jörðinni samkvæmt þeirra aðferðarfræði. Það þarf ekki að skoða myndina lengi til að sjá að ekkert lát er á hlýnun jarðar og ekki bólar mikið á þeirri stöðnun sem stundum er sögð vera á hlýnuninni.

    Eins og önnur metár í gegnum tíðina fékk árið 2010 hjálp frá Kyrrahafsfyrirbærinu El Ninjo sem nú hefur snúist upp í andhverfu sína La Niña og því verður 2011 væntanlega heldur kaldara en nýliðið ár og ekkert óeðlilegt við það. Verst er þó með flóðin í Ástralíu sem núverandi ástand veldur.

    Það þykir oft í tísku að efast stórlega um aðferðafræði NASA-GASA (Goddard Institute for Space Studies) en þeir hafa á síðari árum fengið út aðeins meiri hitaaukningu á jörðinni en aðrir rannsóknarhópar í sama bransa. Það sem veldur þessu lítilsháttar misræmi er sennilega það að NASA-GISS beitir þeirri aðferð að fylla inní eyður þar sem veðurathuganir eru af skornum skammti með því að notfæra sér gögn frá nálægustu stöðum. Þannig taka þeir t.d. með í dæmið nyrstu pólasvæðin sem hreinlega er sleppt í öðrum gagnaröðum eftir því sem ég kemst næst. Vegna hlýnunar og rýrnunar hafíssins á Norður-Íshafinu er niðurstaða NASA-GISS því ekki óeðlileg. Allar svona mælingar og mat er þó auðvitað háð einhverri óvissu en ætti þó ekki að breyta heildardæminu að ráði.

    Þannig lítur hitadreifing ársins annars út. Eins og sést þá var mesta hitafrávikið á norðurslóðum þar sem fáir búa og því fáir til frásagnar.

    Myndir eru frá NASA-GISS en fréttatilkynningu frá þeim má sjá hér:

    http://www.giss.nasa.gov/research/news/20110112/

  • Súrnun sjávar og lífríki hafsins II

    Súrnun sjávar og lífríki hafsins II

    Hér er framhald af færslu Hrannar um Súrnun sjávar og lífríki hafsins

    Lindýr (Mollusca)

    Líkt og kóralar eru lindýr stórtækir framleiðendur aragóníts í hafinu, en til lindýra teljast sniglar og samlokur auk margra annarra skeldýra. Sum lindýr mynda eingöngu aragónít og má þar nefna nökkva, sætennur og sumar samlokur og snigla. Á meðal samloka og snigla eru til fjölmörg dæmi þess að dýr myndi bæði aragónít og kalsít og er kræklingur dæmi um slíka samloku. Þau dýr sem mynda kalkgerðina aragónít og lifa á köldum hafsvæðum eins og hér við land, eru í sérstakri hættu vegna súrnun sjávar þar sem mörg reiknilíkön gefa til kynna að aragónít gæti orðið undirmettað í yfirborði sjávar á háum breiddargráðum, þ.e. næst  heimskautunum, fyrir næstu aldamót.

    Vængjasnigillinn Cliona limacina

    Líkt og pandabjörninn er táknmynd verndunar dýra í útrýmingarhættu þá er sviflægur hópur snigla orðinn táknmynd hættunnar sem stafar af súrnun sjávar. Þessir smáu en fögru sniglar eru kallaðir vængjasniglar enda nýta þeir „vængi“ til þess að „fljúga“ um í sjónum.  Margar tegundir vængjasnigla mynda afar þunna skel úr aragóníti og þar sem þéttleiki þeirra er hæstur, við pólanna, er mettun aragóníts í umhverfi þeirra nú þegar orðin mjög lág og lækkar stöðugt með súrnandi sjó. Rannsóknir hafa sýnt fram á að skel sniglanna muni hverfa á þessari öld en óvíst er hvort þetta leiðir til útrýmingar þeirra, eða hvort sniglarnir geti lifað af án skeljarinnar.  Vonir eru bundnar við að skelin sé ekki nauðsynleg fyrir lífslíkur skelmyndandi vængjasnigla enda eru þeir mikilvæg fæða fyrir fiska og hvali í köldum höfum.

    Fyrir utan það að vera mikilvægur hlekkur í fæðukeðjum hafsins þá eru sniglar og samlokur nýttar til manneldis.

    Ostrur og kræklingar eru Íslendingum vafalaust þar ofarlega í huga. Dæmi er um að ostruræktendur á vesturströnd Bandaríkjanna séu byrjaðir að lenda í vandræðum með að rækta ostrur vegna þess hve nýliðun í náttúrulegum stofnum hefur versnað og kemur súrnun sjávar sterklega til greina sem orsakavaldur (sjá grein hér).

    Kræklingur er samloka sem myndar bæði kalkgerðina aragónít og kalsít. Líkt og hjá flestum tegundum þá virðist ungviði kræklingsins vera viðkvæmara fyrir súrnun sjávar heldur en fullorðnir einstaklingar. Gazeau o.fl. (2010) framkvæmdu tilraunir sem sýndu neikvæð áhrif súrnunar sjávar á skelmyndun hjá lirfum og á lífslíkur lirfanna. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að einstaklingar gætu mögulega lifað af súrnun sjávar en að heildarafleiðingar fyrir kræklingastofna verða vafalítið neikvæðar. Erfitt er að spá nákvæmlega fyrir um hvernig þróun kræklingastofna verður í framtíðinni.

    Aragónít verður undirmettað á 1700 metra dýpi í Íslandshafi (afmarkaða svæðið) og táknar ljós-guli flekkurinn það svæði. Dýpið þar sem aragónít verður undirmettað er að grynnka um 4 metra á ári. Ef sú þróun heldur áfram mun aragónít verða undirmettað á 1300 metra dýpi eftir 100 ár (ljós-appelsínugulur), á 900 metra dýpi eftir 200 ár (dökk-appelsínugulur), og á 500 metra dýpi eftir 300 ár (rauður). Þetta er ekki vísindaleg spá fyrir framtíðana heldur vangaveltur um flatarmál botnsins sem verða umkringdur undirmettuðum sjó þegar aragónít mettunarlagið grynnkar. © Hrönn Egilsdóttir

    Hluti doktorsverkefnis pistlahöfundar felst í rannsóknum á því hvort, og þá hvernig, súrnun sjávar við Ísland gæti breytt dreifingu kalkmyndandi samloka og snigla. Flestar tegundir innan beggja hópa mynda skel úr aragóníti en langtímamælingar á CO2 hafa gefið góðar upplýsingar um súrnun sjávar í Íslandshafi og í Irmingerhafi. Ég mun nýta þær upplýsingar sem til eru um sýrustig og kalkmettun sjávar til þess að kortleggja dreifingu kalkmyndandi samloka og snigla og rannsaka hvort, og þá hvernig, mettun aragóníts takmarkar dreifingu þeirra. Frumniðurstöður úr þessari rannsókn benda til þess að dreifing samloka sem mynda aragónít takmarkist við sjó sem er yfirmettaður af aragónít (ΩARAGÓNÍT > 1). Þessar niðurstöður munu verða skoðaðar í ljósi þess að mettun aragóníts verður minni en 1 á 1700 metra dýpi í Íslandshafi og er þetta mettunarlag (ΩARAGÓNÍT = 1) að grynnka um 4 metra á ári að meðaltali. Þetta jafngildir því að á hverju ári bætast við 800 ferkílómetrar af hafsbotni sem verða baðaðir í sjó sem er undirmettaður af aragónít á ári hverju.

    Skrápdýr (Echinodermata)

    Ígulker, krossfiskar, slöngustjörnur og sæbjúgu teljast öll til skrápdýra en ólíkt kórölum og lindýrum þá mynda skrápdýr ekki kalkgerðina aragónít heldur magnesíum-ríkt kalsít (Mg-kalsít). Afar erfitt er að spá fyrir um áhrif lækkunar kalkmettunar á dýr og plöntur sem mynda Mg-kalsít vegna þess hve erfitt er að reikna mettun þess í sjónum og hlutfall magnesíum í skelinni er breytilegt eftir umhverfisþáttum, t.d. hitastigi.

    Slöngustjarna í Straumsvík

    Þegar litið er yfir birtar tilraunir á skrápdýrum standa tvær niðurstöður upp úr. Í fyrsta lagi virðast tegundir bregðast við súrnun sjávar á mjög ólíkann hátt og getur það einnig átt við mikið skyldar tegundir. Í öðru lagi hafa niðurstöður rannsóknanna ýtt undir fyrri tilgátur um að ungviði dýra sé almennt viðkvæmara en fullorðnir einstaklingar. Báðar þessar staðreyndir virðast einnig eiga við um flesta lífveruhópa en þetta hefur komið best í ljós eftir tilraunir á skrápdýrum.

    Vert er að nefna afar áhugaverðar niðurstöður sem Dupont o.fl. (2008) birtu eftir tilraunir á slöngustjörnunni Ophiothrix fragilis þar sem niðurstöður bentu til þess að súrnun sjávar hefði lítil sem engin áhrif á lífslíkur fullorðinna einstaklinga. Síðar kom í ljós að engin lirfa lifði tilraunina af þegar pH sjávarins var lækkað um 0,2 pH gildi, eins og spáð er að gerist á þessari öld.  Út frá þessum niðurstöðum hafa höfundar rannsóknarinnar ályktað að slöngustjarnan Ophiothrix fragilis gæti dáið út fyrir árið 2050!

    Aðrir kalkmyndandi lífveruhópar

     

    Krabbi situr um snigil

     

    Krabbadýr (krabbar, rækjur, áta o.fl.) mynda einnig kalkstoðgrindur og niðurstöður tilrauna á ýmsum krabbadýrum hafa verið afar áhugaverðar.  Öfugt við flest önnur dýr virðast sum krabbadýr auka kalkmyndun í sjó við lágt sýrustig (pH), en ástæður þess eru illa þekktar.  Ýmislegt bendir þó til þess að sum krabbadýr geti stjórnað sýrustiginu nálægt þeim líkamsvefjum sem skelin er mynduð og hækkað sýrustig og kalkmettun staðbundið.  Óvíst er hvort þessi aukna kalkmyndun hafi í raun neikvæð áhrif til lengri tíma vegna röskunnar á efnaskiptaferlum eða hvort sum krabbadýr muni verða samkeppnishæfari í kjölfar súrnunar sjávar. Í raun hafa of fáar rannsóknir verið gerðar til þess að nokkuð sé hægt að fullyrða um afleiðingar súrnunar sjávar fyrir krabbadýr en ýmislegt bendir til þess að þolmörk þeirra séu betri en spáð hafði verið.

    Bertálkninn Polycera quadrilineata að næra sig á mosadýramottu

    Nýlega er athygli vísindamanna farin að beinast að mosadýrum (Bryozoa) sem eru smá dýr sem mynda oft sambýli af einstaklingum og eru þá með sameiginlega stoðgrind, oft úr kalki. Raunverulega er ekkert vitað um áhrif súrnunar sjávar á mosadýr en þó veit undirrituð til þess að rannsóknir á þeim séu hafnar. Dæmi um lífveruhóp sem lifir á mosadýrum eru bertálknar (Nudibranch) sem eru sniglar án skeljar og finnast oft í skrautlegum litum.

    Botnlægir rauðþörungar og sviflægir kalkþörungar eru stærstu hópar kalkmyndandi þörunga. Kalkmyndandi rauðþörungar mynda Mg-ríkt kalsít og eru hægvaxta og falla því í áhættuhóp vegna súrnunar sjávar. Rauðþörungar eru nýttir af kalkþörungaverksmiðjum og t.d. nýtir fyrirtækið Hafkalk rauðþörunga m.a. til manneldis. Sumir rauðþörungar á Íslandi mynda búsvæði fyrir aðrar lífverur líkt og kóralar gera í hitabeltinu.  Í náinni framtíð er áætlað að rannsaka með tilraunum hvernig súrnun sjávar mun snerta íslenska rauðþörunga.

    Sviflægir kalkþörungar geta framleitt gríðarlega mikið magn kalks og sjást vel á gervihnattamyndum þegar mikill þéttleiki þeirra er í hafinu. Rannsóknir á kalkþörungnum Emiliana huxleyi, sem sést á gervihnattamyndinni, eru nokkrar en hafa gefið afar breytilegar niðurstöður og því er enn ómögulegt að spá fyrir um þol þörungsins gagnvart súrnun sjávar (Kroeker o.fl. 2010).

    Kalkþörungurinn Emiliana huxleyi í blóma við Ísland. Mynd er tekin af gervitungli NASA (http://visibleearth.nasa.gov/)

    Áhrif súrnunar sjávar á önnur ferli en kalkmyndun

    Súrnun sjávar mun hafa mest áhrif á kalkmyndandi lífverur en áhrifin verða vafalaust víðtækari en svo, auk augljósra áhrifa af breytingum á fæðukeðjum í hafinu.

    Sýrustig getur haft bein áhrif á ensím- og prótínvirkni og þannig efnaskipti. Sem dæmi á sér stað nákvæm stjórnun á sýrustigi blóðsins hjá mönnum en í heilbrigðum einstakling er pH gildi blóðsins á milli 7,35 og 7,45. Frávik frá þessu sýrustigi getur leitt til alvarlegra truflana á efnaskiptum í frumum líkamans og jafnvel dauða.

    Áhrif sýrustigsbreytinga á lífeðlisfræðileg ferli í sjávarlífverum eru illa þekkt enda oftast erfitt að rannsaka svo flókin ferli í smáum lífverum. Í ljósi þess að sýrustig sjávar hefur haldist stöðugt yfir milljónir ára hafa verið settar fram spurningar um hæfni lífveranna til að stjórna sýrustigi í líkamanum þar sem ensímvirkni er til staðar. Þetta getur átt við blóðvökva eða t.d. innviði frumu þar sem genastjórnun á sér stað. Fiskar hafa betri stjórnun á sýrustigi líkamans heldur en flestir hryggleysingjar en tilraunir benda til þess súrnun sjávar gæti samt sem áður raskað lífeðlisfræðilegum ferlum í fiskum. Enn ríkir mikil óvissa um hvort slík áhrif yrðu langvinn eða hvort fiskar, og hryggleysingjar hafi næga aðlögunarhæfni svo ekki verði truflun á líkamsstarfsemi þegar til langs tíma litið.

    Dæmi um það hvernig eðlileg líkamsstarfsemi getur verið raskað vegna súrnun sjávar eru neikvæð áhrif sýrustigsbreytinga á lyktarfæri fiska (Munday o.fl. 2009) en hæfni til þess að finna lykt sem er mikilvægur eiginleiki hjá mörgum fiskum og má þar t.d. nefna laxfiska sem þefa upp heimaárnar þegar komið er að hrygningu.

    Hugsanlegt er að dýr sem nýta sér hljóð, t.d. til veiða eða samskipta, geti orðið fyrir áhrifum af sýrustigsbreytingum. Þegar sjórinn súrnar eykst hljóðbærni hans einnig, en það á sérstaklega við um lágtíðnihljóð, allt að 5000 hertz (Hester o.fl. 2008). Þannig er talið að „hávaðinn“ í hafinu muni aukast við súrnun sjávar en ekkert er vitað um hverjar yrðu afleiðingarnar fyrir t.d. sjávarspendýr.

     

    Að lokum

    Nýlega voru gefnar út tvær athyglisverðar greinar þar sem birtar niðurstöður úr tilraunum eru teknar saman og reynt að draga upp heildarmynd af því hver áhrif súrnunar sjávar gæti orðið á lífveruhópa og samfélög. Helstu niðurstöður beggja greina er að áhrifin verði afar breytileg á milli tegunda og tegundahópa.

    Kroeker o.fl. (2010) benda á að áhrifin verða líklega breytileg en það bendir flest til þess að kalkmyndandi lífverur séu viðkvæmari fyrir súrnun sjávar heldur en þau dýr eða plöntur sem ekki mynda kalk.

    Hendriks o.fl. (2009) vilja meina að áhrifin af súrnun sjávar verði ekki eins alvarleg og búist er við en líkt og í greininni eftir Kroeker o.fl. er bent á þann mikla breytileika sem finna má í viðbrögðum lífvera við sýrustigsbreytingum í sjó. Það má segja að ein stærsta niðurstaða beggja þessara rannsókna sé að þekking okkar er enn mjög takmörkuð og því enn illmögulegt að koma fram með raunhæfa spá um það hvernig súrnun sjávar mun hafa áhrif á lífríki hafsins á Jörðinni

    Rannsóknir á áhrifum súrnunar sjávar á lífríki hafsins eru enn á byrjunarstigi og er vísindasamfélagið því enn langt frá því að geta sagt með vissu hverjar afleiðinganar verða. Þó benda rannsóknir til þess að áhrifin gætu orðið mjög alvarleg fyrir lífríki og þ.á.m. mannkyn, sérstaklega ef jarðsagan er höfð til hliðsjónar. Því miður hljóma enn margar efasemdaraddir um tilvist loftlagsbreytinga vegna útblásturs manna á CO2, og á það sérstaklega við hina margumræddu hnattrænu hlýnun. Það er staðreynd að margir þættir, auk styrkleika CO2, stjórna hitastigi í lofthjúpi jarðar en þegar kemur að súrnun sjávar þá er CO2 óumdeilanlega helsti áhrifaþátturinn. Þess vegna er talsvert erfitt að hrekja þá staðreynd að útblástur mannkyns á CO2 sé að valda súrnun hafanna. Þrátt fyrir að skilningur okkar á því hverjar afleiðingar af súrnun sjávar verða sé enn takmarkaður, hringja háværar viðvörunarbjöllur og nauðsyn þess að alþjóðasamfélagið taki fastari tökum á útblæstri CO2 augljós.

    Hér í blálokin vil ég benda á heimildamyndina Acid Test sem fjallar á aðgengilegann hátt um súrnun sjávar:

    Acid Test: The Global Challange of Ocean Acidification

    Heimildaskrá

    Cao L, Caldeira K (2008) Atmospheric CO2 stabilization and ocean acidification. Geophys. Res. Lett. 35: L19609

    De’ath G, Lough JM, Fabricius KE (2009) Declining Coral Calcification on the Great Barrier Reef. Science 323: 116-119

    Dupont S, Havenhand J, Thorndyke W, Peck L, Thorndyke M (2008) Near-future level of CO2-driven ocean acidification radically affects larval survival and development in the brittlestar Ophiothrix fragilis. Marine Ecology Progress Series 373: 285-294

    Feely RA, Doney SC, Cooley SR (2009) Ocean Acidification: Present Conditions and Future Changes in a High-CO2 World. Oceanography 22: 36-47

    Feely RA, Sabine CL, Lee K, Berelson W, Kleypas J, Fabry VJ, Millero FJ (2004) Impact of Anthropogenic CO2 on the CaCO3 System in the Oceans. Science 305: 362-366

    Gazeau F, Gattuso JP, Dawber C, Pronker AE, Peene F, Peene J, Heip CHR, Middelburg JJ (2010) Effect of ocean acidification on the early life stages of the blue mussel (Mytilus edulis). Biogeosciences Discuss. 7: 2927-2947

    Hester KC, Peltzer ET, Kirkwood WJ, Brewer PG (2008) Unanticipated consequences of ocean acidification: A noisier ocean at lower pH. Geophys. Res. Lett. 35: L19601

    Kiessling W, Simpson C (2011) On the potential for ocean acidification to be a general cause of ancient reef crises. Global Change Biology 17: 56-67

    Kroeker KJ, Kordas RL, Crim RN, Singh GG (2010) Meta-analysis reveals negative yet variable effects of ocean acidification on marine organisms. Ecology Letters 13: 1419-1434

    Munday PL, Dixson DL, Donelson JM, Jones GP, Pratchett MS, Devitsina GV, Døving KB (2009) Ocean acidification impairs olfactory discrimination and homing ability of a marine fish. Proceedings of the National Academy of Sciences 106: 1848-1852

    Olafsson J, Olafsdottir SR, Benoit-Cattin A, Danielsen M, Arnarson TS, Takahashi T (2009) Rate of Iceland Sea acidification from time series measurements. Biogeosciences 6: 2661-2668

    Pearson PN, Palmer MR (2000) Atmospheric carbon dioxide concentrations over the past 60 million years. Nature 406: 695-699

    Ridgwell A, Zeebe RE (2005) The role of the global carbonate cycle in the regulation and evolution of the Earth system. Earth and Planetary Science Letters 234: 299-315

    Turley C, Blackford JC, Widdicombe S, Lowe D, Nightingale PD, Rees AP (2006) Reviewing the impact of incrased atmospheric CO2 on oceanic pH and the marine ecosystem. In: Schellnhuber HJ, Cramer W, Nakicenovic N, Wigley TML, Yohe G (eds) Avoiding dangerous climate change. Cambridge University Press, Cambridge, pp 65-70

     

  • Súrnun sjávar og lífríki hafsins I

    Súrnun sjávar og lífríki hafsins I

    Hröð aukning CO2 og aukin súrnun sjávar

    Frá því iðnvæðing vesturlanda hófst fyrir 250 árum hafa orðið gríðarlegar breytingar  á magni koltvíoxíðs (CO2) í andrúmslofti jarðarinnar.  Eftir því sem iðnvæðingin hefur orðið hraðari og útbreiddari hefur þetta magn aukist hraðar.  Ein afleiðing þessara breytinga er súrnun sjávar sem er ekki síður alvarleg þróun en hlýnun jarðar.

    Fyrir iðnvæðingu var hlutþrýstingur CO2 í andrúmsloftinu 280 ppm og nú, 250 árum síðar, er hann orðinn 391 ppm og gæti náð yfir 700 ppm fyrir næstu aldamót (ppm = part per million).  Loftslagsbreytingar væru vafalítið fyrirfinnanlegri í dag ef ekki væri fyrir upptöku sjávar og grænna landssvæða á helmingi þess koltvíoxíðs sem menn hafa blásið út í andrúmsloftið frá iðnvæðingu.  Af þessum helmingi hefur sjórinn tekið til sín um 30% og græn landsvæði um 20% (Feely o.fl. 2004).

    Vegna upptöku á CO2 hefur sýrustig sjávarins þegar fallið um 0,1 pH gildi (30% aukning á H+) frá iðnvæðingu og gæti fallið um 0,3-0,4 pH gildi fyrir árið 2100 (~150% aukning á H+).  Sýrustig er mælt á pH skala sem er byggður á neikvæðu veldisfalli á styrk vetnisjóna (H+) en sýrustig lækkar eftir því sem styrkur vetnisjóna vex. Þetta þýðir að fyrir hverja heila tölu sem sýrustig (pH) fellur, þá súrnar sjórinn tífalt..

    Hvaða sögu segir jarðsagan?

    Lífverur sjávar eru margskonar, allt frá örsmáum bakteríum til stærstu spendýra og er umhverfi þeirra að breytast hratt vegna útblásturs mannkyns á CO2. Kalkmyndandi lífverum stafar sérstaklega mikil hætta af aukningu á CO2 þar sem súrnun sjávar leiðir til minni kalkmettunar í sjónum. Til þess að skilja hvernig lífríkið mun bregðast við súrnun sjávar nútímans og framtíðar er óvitlaust að horfa til jarðsögunnar, enda er þetta ekki í fyrsta skipti sem aukning á CO2 verður í andrúmslofti jarðar.

    Hér er farið yfir atburði í jarðsögunni og tengsl þeirra við ástand kóralrifja og líkur á því að súrnun sjávar hafi átt sér stað.

    Fyrir 250 milljónum ára varð einn stærsti útdauði lífvera í jarðsögunni þegar ~95% lífvera í hafinu dóu út. Þá jókst styrkur CO2 í andrúmsloftinu mikið og olli miklum loftslags- og sýrustigsbreytingum í sjónum (sjá pistilinn: Útdauðinn fyrir 250 milljónum ára). Ljóst er að miklar breytingar urðu á lífríki bæði á landi og í hafi en sá langi tími sem liðinn er frá þessum atburði gerir rannsóknir á honum erfiðar. Auk þess jókst CO2 í andrúmsloftinu þá vegna mikillar eldvirkni og ólíklegt að jarðefnaeldsneyti jarðar gæti gefið af sér jafnmikið magn CO2 og þá var blásið út í andrúmsloftið. Betra er að líta okkur nær í tíma ef ætlunin er að bera saman forsögulegann atburð við nútímann.

    Borkjarni úr seti frá 55 milljón árum síðan. Kalkmynandi lífverur hverfa snögglega úr setinu sem myndaðist fyrir 55 milljónum árum en eftir stendur rauður leir.

    Krítartímabilið fyrir 145-65 milljón árum síðan var áhugavert tímabil í jarðsögunni. Þá átti sér stað hæg aukning á CO2 í andrúmslofti jarðar og fór hlutþrýstingur CO2 yfir 1000 ppm (part per million).  Þrátt fyrir þennan háa hlutþrýsting CO2 var mikið um kalkmyndandi lífverur í hafinu á þessum tíma en þegar sjór súrnar þá eiga kalkframleiðendur venjulega erfiðara með að mynda kalkskeljar. Kalkmyndandi lífverur lifðu reyndar svo góðu lífi að hinir hvítu klettar í Dover í Englandi mynduðust á þessum tíma þegar skeljar örsmárra kalkþörunga féllu til botns og mynduðu setlög (sjá gervihnattamynd af Íslandi neðarlega í pistli). Þetta útskýrist af því að aukningin á CO2 í andrúmsloftinu varð yfir gríðarlega langan tíma; milljónir ára og vegna hlýrra andrúmslofts og aukinnar úrkomu var framburður áa á efnum til sjávar mikill, sem olli því að kalkmettun sjávar hélst há, þrátt fyrir súrnun sjávarins (Ridgwell & Zeebe, 2005).

    Fyrir 55 milljónum ára, urðu miklar og snöggar breytingar á loftslagi jarðar en þá hlýnaði mikið og sýrustig (pH) sjávarins lækkaði vegna losunnar á CO2. Setkjarnar frá þessum tíma sýna snögga breytingu frá hvítu og kalkmiklu seti, yfir í rauðan leir, sem bendir til þess að kalkframleiðendur hafi nánast horfið úr sjónum. Þetta er sá atburður sem helst er litið til ef bera á saman þróun dagsins í dag við forsögulega atburði en hafa ber í huga að aukning á CO2 í andrúmsloftinu er líklega 10 sinnum hraðari í dag en fyrir 55 milljónum ára. Nánar er fjallað um þessar náttúruhamfarir í pistlinum Súrnun sjávar hraðari en fyrir 55 milljónum ára.

    Ekki er hægt að segja annað en að vísbendingar jarðsögunnar undirstriki með afgerandi hætti hversu alvarleg áhrif loftslagsbreytingar og súrnun sjávar geta haft og þar af leiðandi hve brýn nauðsyn er til þess að minnka losun á koltvíoxíði verulega nú þegar. Þá er mikilvægt að hafa í huga að engin fordæmi eru í jarðsögunni fyrir hraðari aukningu á CO2 í andrúmsloftinu en nú á sér stað.

    Síðustu 20 milljón ár einkennast af stöðugleika

    Hugsanlega gætu sumar þeirra tegunda sem eru viðkvæmar fyrir súrnun sjávar aðlagast þeim breytingum sem eru að verða í umhverfi þeirra en aðlögunarhæfni lífvera er almennt illa þekkt og því erfitt að spá þar um. Því miður draga tvær staðreyndir úr líkum á því að lífverur eigi eftir að eiga auðvelt með að aðlagast súrara umhverfi.

    Sýrustig sjávar (pH) hefur verið stöðugt í yfir 20 milljón ár en með útblæstri á CO2 er mannkynið að valda hraðri súrnun sjávar. Nú þegar hefur sýrustig sjávarins fallið um 0.1 pH gildi og er spáð því að pH sjávarins falli um 0.3-0.4 pH gildi fyrir næstu aldamót. (Mynd: Turley o.fl. 2006)

    Hlutþrýstingur CO2 í andrúmsloftinu, og sýrustig sjávar (pH) verið stöðugt í yfir 20 milljón ár (Pierson & Palmer, 2000) og hafa ber í huga að núlifandi lífverur jarðar þróuðust á þessu tímabili stöðugleika. Þetta skapar óvissu um hvort nægur breytileiki eða sveigjanleiki sé í erfðamengi lífveranna til þess að takast á við verðandi breytingar. Að auki er sjórinn að súrna hratt og gefst því lítill tími til aðlögunar. Þær lífverur sem hafa stuttan líftíma, þ.e. kynslóðir endurnýjast hratt, eru líklegri til að geta aðlagast heldur en lífverur sem lifa lengi, t.d. 40 ár.

    Súrnun sjávar og lífríkið

    Súrnun sjávar getur haft áhrif á ýmis lífeðlisfræðileg ferli í lífverum en dýr og þörungar sem mynda kalk eru í mestri hættu vegna þess hve kalkmettun sjávar (ΩCaCO3) er nátengd sýrustigi sjávar. Mikill fjöldi tegunda í hafinu myndar kalk og koma kalkframleiðandi lífverur við sögu í flestum fæðukeðjum ásamt því að byggja upp búsvæði fyrir fjölda annara lífvera og má þar helst nefna kóralrif og rauðþörungabreiður.

    Kalkmyndandi lífríki er í mestri hættu

    Kalkmyndandi lífverur eiga auðvelt með að mynda og viðhalda kalkskeljum þegar kalk er yfirmettað í umhverfi þeirra  (ΩCaCO3>1). Ef kalkmettun sjávarins er of lítil verður kalkmyndunarferlið erfiðara en breytilegt er á milli tegunda við hvaða mettunarstig þær takmarka kalkframleiðslu sína.  Í sjó sem er undirmettaður af kalki (ΩCaCO3<1) byrjar kalk að leysast upp undir eðlilegum kringumstæðum. Til samanburðar má benda á að háa tíðni tannskemmda hjá fólki sem neytir mikið af drykkjum með lágt sýrustig (pH), s.s. kóki eða appelsínusafa.

    Dýpi hefur neikvæð áhrif á kalkmettun og á ákveðnu dýpi (Ωkalk=1) hættir sjórinn að vera yfirmettaður af kalki (Ωkalk>1) og verður undirmettaður af kalki (Ωkalk<1), þ.e.a.s. Þá ætti kalkið að leysast upp fyrir neðan þetta dýpi (blátt svæði). Hér er sýnd mettun kalkgerðarinnar aragóníts í Atlantshafi og Kyrrahafi. Þegar sjórinn súrnar mun dýpið þar sem kalk verður undirmettað grynnka. (Mynd er úr skýrslunni, IPCC fourth assessment report: climate change 2007, sem finna má á vefslóðinni: http://www.ipcc.ch/)

    Auk koltvíoxíðs (CO2) hafa hitastig og dýpi (þrýstingur) áhrif á kalkmettun sjávar. Leysni kalks vex með lækkandi hitastigi og því er kalkmettun í hafinu norður af Íslandi talsvert minni en við t.d. miðbaug. Í ofanálag minnkar kalkmettun með dýpi og á ákveðnu dýpi færist kalk úr því að vera yfirmettað yfir í að vera undirmettað. Þetta dýpi er breytilegt og stjórnast helst af hitastigi, sýrustigi og eftir því hvaða kalkgerð á í hlut. Nú þegar hefur súrnunin valdið því að kalk er að verða undirmettað á minna dýpi en áður og með sömu þróun verður yfirborðsjór kaldra hafsvæða undirmettaður m.t.t. ákveðinna kalkgerða eftir fáa áratugi.

    Kalkmettun á köldum hafssvæðum er minni en á hlýjum hafssvæðum. Mettun kalkgerðarinnar aragónít er lág og ef spár ganga eftir mun aragónít verða undirmettað á köldum hafsvæðum eftir fáa áratugi.

    Ein bestu langtímagögn sem sýna grynnkun á mettunarlagi kalks koma frá Íslandi en CO2 hefur verið mælt í yfirborðssjó við Ísland frá árinu 1985 og úr vatnssúlunni á tveim stöðum við Ísland frá árinu 1994 (Ólafsson o.fl. 2009).  Á þessum gögnum má greinilega sjá hvernig kalk er að verða undirmettað á minna dýpi með tíma. Í Íslandshafi eru breytingarnar hraðar en kalkgerðin aragónít er undirmettuð undir 1700 metra dýpi og er þetta mettunarlag að grynnka um fjóra metra á ári, að meðaltali.

    Nú er í gangi vinna við að meta hver áhrif þessara breytinga í Íslandshafi gætu orðið fyrir þær lífverur sem mynda kalkgerðina aragónít en margar samlokur og sniglar eru dæmi um slíkar lífverur.  Þörf er á að útskýra betur muninn á milli þeirra kalkgerða sem lífverur mynda, og hvernig kalkgerðir geta skipt máli fyrir lífvænleika lífvera í súrnandi sjó.

    Kalkmyndandi lífverur og súrnun sjávar

    Kalkgerðin skiptir máli

    Kalkmyndandi lífverur mynda aðallega tvær kristalgerðir kalks (CaCO3), kalsít og aragónít, sem hafa ólíka eðliseiginleika. Aragónít er uppleysanlegra en kalsít og því er mettun kalsíts ávalt hærri en aragóníts í sjónum. Auk kalsíts og aragóníts er stundum rætt um magnesíum-ríkt kalsít sem þriðju kalkgerðina sem lífverur mynda, þá er hátt hlutfall af magnesíum á móti kalsíum (MgCO3/CaCO3) í kalsít kristalgerðinni. Á svipaðan hátt og aragónít, er magnesíumríkt kalsít (Mg-kalsít) uppleysanlegra en kalsít. Þetta leiðir af sér að þegar sýrustig (pH) sjávarins lækkar verður hann undirmettaður m.t.t. aragóníts og Mg-kalsíts nokkru áður en hann verður undirmettaður m.t.t. kalsíts.  Þess vegna eru þær lífverur sem mynda aragónít (t.d. lindýr og kóralar) og Mg-kalsít (t.d. skrápdýr og rauðþörungar) taldar viðkvæmari fyrir súrnun sjávar heldur en lífverur sem mynda kalsít. Á myndinni hér til hliðar má sjá hvaða kalktegundir helstu lífveruhópar mynda. Þær lífverur sem eru taldar í mestri áhættu vegna súrnun sjávar eru merktar með gulum lit.

    Kóralar (Anthozoa)

     

    Kóralrif eru ekki einungis ein fallegustu svæði á jörðinni heldur einnig þau mikilvægustu fyrir verndun líffræðilegs fjölbreytileika í hafinu.  Til dagsins í dag hafa kóralar verið sá lífveruhópur sem hefur verið mest rannsakaður m.t.t. súrnunar sjávar enda eru á margan hátt mikilvægir og mynda kristalgerðina aragónít. Þar sem stór kóralrif eru til staðar er aragónít mjög yfirmettað (ΩARAGÓNÍT = 3-5) og sjórinn er hlýr, en við skoðun hefur komið í ljós að hlýsjávarkóralrif finnast sjaldan þar sem mettun aragóníts er lægri en þrír (ΩARAGÓNÍT < 3). Ef útblástursspár á CO2 ganga eftir mun mettun aragóníts í hafinu verða að mestu undir þremur í byrjun næstu aldar (ΩARAGÓNÍT < 3) (Cao & Caldeira o.fl. 2008). Illmögulegt er að spá fyrir um afleiðingar þessara gríðarlegu umhverfisbreytinga en ekki er erfitt að átta sig á alvarleika málsins.

    Hlutþrýstingur CO2 hefur þegar hækkað úr 280 ppm fyrir iðnvæðingu í 380 ppm í andrúmslofti og mun líklega ná 550-750 ppm á þessari öld. Mettun aragóníts hefur þegar lækkað frá iðnvæðngu og mun lækka enn frekar á þessari öld. Hlýsjávarkórala er helst að finna þar sem aragónítmettun er hærri en þrír. (Cho & Caldeira, 2008).

    Mælingar hafa sýnt fram á að kalkmyndun kórala á The Great Barrier Reef hefur minnkað um 14% frá árinu 1990 (De’ath o.fl. 2009) sem skýrist líklega af samverkandi áhrifum súrnunar sjávar og hlýnunar. Silverman og fl. (2009) benda á að hlýsjávarkóralrif gætu hætt að vaxa, og jafnvel byrjað að leysast upp þegar hlutþrýstingur CO2 í andrúmslofti nær 560 ppm en ágætis líkur eru á að það muni eiga sér stað á þessari öld.

    Frá rannsóknarleiðangri á Bjarna Sæmunssyni, sumar 2010, þegar íslensk kóralrif voru mynduð og umhverfi þeirra mælt

    Kóralar finnast einnig á kaldari hafsvæðum og lifa þá ekki í sambýli við ljóstillífandi þörunga og geta því þrifist á mun meira dýpi en hlýsjávarkóralar, enda eru þeir ýmist nefndir kaldsjávarkóralar eða djúpsjávarkóralar. Kaldsjávarkóralrif er m.a. að finna á landgrunnsbrúninni suður af Íslandi og við Noregsstrendur. Því miður eru mörg þessara kóralsvæða ekki svipur hjá sjón í dag vegna margra áratuga togveiða, en þau eru vistfræðilega mikilvæg sem uppeldissvæði fyrir nytjafiska og hýsa mikinn fjölbreytileika lífvera.  Kaldsjávarkóröllum stafar mikil hætta af súrnun sjávar vegna þess að þeir finnast í köldum sjó og á miklu dýpi, en eins og áður sagði minnkar kalkmettun með lækkandi hitastigi og auknu dýpi.  Á ákveðnu dýpi byrjar aragónít að leysast upp, eða þegar mettun þess er undir 1 (ΩARAGÓNÍT<1) og er sá þröskuldur þar sem ΩARAGÓNÍT=1 að grynnka.  Það er talið líklegt að þessi þróun muni valda útdauða kórala úr dýpstu lögunum fyrst en þegar fram líða stundir er talið að djúpsjávarkóralar geti horfið alfarið af ákveðnum hafssvæðum.

    Íslenskir kóralar eru á norðurmörkum dreifingar kaldsjávarkóralrifja, enda finnast engin kaldsjávarkóralrif norður af Íslandi þar sem sjórinn er umtalsvert kaldari en sunnan við landið. Sumarið 2010 fór pistlahöfundur í leiðangur á rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni ásamt botndýrateymi Hafrannsóknarstofnunnar og var takmarkið að skoða þekkt íslensk kóralsvæði og að reyna að finna áður óþekkt kóralrif.  Til þess var notuð neðansjávarmyndavél en auk þess voru tekin sýni af sjó á mismunandi dýpi til þess að mæla CO2 í sjónum og fræðast um núverandi mettun aragóníts í umhverfi kóralanna. Enn er verið að vinna úr þeim gögnum sem þá fengust en ljóst er að mettun aragóníts umhverfis kóralana var lág (ΩARAGÓNÍT ≤ 2), en þegar aragónít er undir einum byrjar það að leysast upp. Vegna þeirra langtímamælinga á CO2 sem farið hafa fram við Ísland vitum við að kalkmettun í hafinu hér við land fer minnkandi og því er framtíð íslenskra kóralrifja í óvissu vegna súrnunar sjávar.

    Framhald af þessum pistli má sjá hér: Súrnun sjávar og lífríki hafsins II

  • Hlýnun jarðar, Cancun og ábyrgð Íslands í loftslagsmálum

    Hlýnun jarðar, Cancun og ábyrgð Íslands í loftslagsmálum

    Þessi pistill, eftir Mikael Lind, birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 2. desember.

    Mikael Lind

    Sendimenn frá fleiri en 190 löndum hafa komið saman í Cancun í Mexíkó til að ræða leiðir til að draga úr áhrifum frá hlýnun jarðar og er góð ástæða til. Árið 2010 er hið heitasta á plánetu okkar síðan mælingar hófust og í fréttunum getum við fylgst með afleiðingunum; skógareldar í Rússlandi sem kæfa íbúa Moskvu og flóð í Pakistan sem setja einn fjórða af landinu í kaf.

    Eins og blaðamaðurinn Johann Hari á The Independent bendir á þá er meiri ástæða að hræðast náttúruhamfarir en þær hagfræðihamfarir sem tröllriðið hafa heiminum undanfarið því það er tvennt ólíkt að bjarga bönkunum frá gjaldþroti og að bjarga náttúrunni frá eyðileggingu.

    Virtustu loftslagssérfræðingar heims hafa bent á að vatnsyfirborð jarðar gæti hækkað um u.þ.b. einn til einn og hálfan metra á þessari öld. Ef þessar spár reynast réttar mundi hafið kaffæra London, Bangkok, Feneyjar, Sjanghæ og Kairó. Rannsókn á plöntusvifum sýndi nýlega fram á að 40% þeirra hafa drepist síðan 1950 vegna hlýnunar hafsins. Þessi svif framleiða helminginn af súrefni jarðar og drekka í sig koltvísýringa sem hafa annars hlýnandi áhrif á jörðina.

    Eins og Noam Chomsky benti á í myndfyrirlestri sínum í Háskólabíói fyrir stuttu er það þannig að þrátt fyrir framsetningu margra fjölmiðla er meginmál umræðunnar um hlýnun jarðar varla eitthvert rifrildi á milli þeirra fræðimanna sem trúa að útblástur gróðurhúsagasa hafi hlýnandi áhrif á jörðina og þeirra sem trúa því ekki. Mjög fáir vísindamenn afneita að hlýnun jarðar er af manna völdum og sums staðar virðist lobbýismi olíufyrirtækja vera partur af spilinu hjá þeim sem þverneita að viðurkenna vandann. Alvöru umræðan í vísindaheiminum á sér stað á milli loftslagsfræðimanna um hversu slæmar afleiðingarnar verða. Það að það verði afleiðingar er þegar álitið sem staðreynd.

    Þrátt fyrir að vera lítið land ber Ísland ábyrgð ásamt öllum öðrum löndum í heiminum. Það er stundum talað um þá sem vilja lifa “grænum lífsstíl” og þá sem vilja það ekki. En ég tel það líklegt að ef ástandið fari að versna samkvæmt spám fræðimanna þá mun varla vera um frjálst val að ræða miklu lengur. Er ekki það að passa vel upp á umhverfið frekar skylda gagnvart heiminum og sérstaklega börnum okkar sem erfa hann? Þynnkuna eftir náttúruhamfarir sem rekja má til kæruleysis í loftslagsmálum verður mun erfiðara að koma lagi á en bankakreppuna vegna kæruleysis stjórnmálamanna.

    Það er margt sem mátti betur fara á Íslandi og til að verða fyrirmyndarland verður að stefna hærra og ekki slaka á markmiðinu. Þar sem Ísland er mikil bílaþjóð verður að vera auðveldara fyrir Íslendinga að keyra á grænu eldsneyti eða rafmagni. Það verður einnig að auðvelda aðgengi fjölgandi hóps hjólafólks með því að byggja fleiri hjólabrautir. Í Reykjavík og stærri borgum vil ég sjá fleiri vistgötur og það þarf að hvetja fólk til þess að nota bílinn sjaldnar í miðborginni. (Strikið í Kaupmannahöfn er vel heppnuð göngugata; getum við ekki reynt að fylgja þessu dæmi eftir?) Æskilegt væri að framleiða eins mikið hér á landi og hægt er til að koma í veg fyrir mengandi innflutning. Fyrirtækin verða að axla ábyrgð og leggja sitt af mörkum í þróun græns hagkerfis.

    Ef horft er til framtíðar verður að skoða möguleika eins og að byggja lest frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar. Þannig mætti draga verulega úr mengun og einnig einfalda fyrir bæði Íslendinga og ferðamenn að ferðast á milli þessara staða á þægilegan hátt. Þetta og annað hefur verið rætt og tek ég því fagnandi, sem og frumlegum hugmyndum um notkun jarðvarma í stór gróðurhús varpað fram af Björk Guðmundsdóttur, John Perkins og fleiri. Þessi umræða verður að halda áfram og breiða úr sér. Setjum Ísland í fremstu röð grænna samfélaga!