Árið 2010 hlýjast samkvæmt NASA-GISS

Þessi pistill birtist áður á bloggsíðu Emils og hét þar Árið 2010 var hlýjasta árið ásamt 2005 samkvæmt NASA-GISS

Það er oft beðið með dálítilli eftirvæntingu eftir uppgjörum frá NASA-GISS stofnuninni sem er einn þeirra aðila sem meta hnattrænt hitafar. Nú hafa þeir reiknað út að meðalhitinn á jörðinni á liðnu ári hafi verið örlítið fyrir ofan hitann árið 2005 en munurinn það lítill að árin úrskurðast jafnhlý og eru þetta því tvö hlýjustu árin sem mælst hafa á jörðinni samkvæmt þeirra aðferðarfræði. Það þarf ekki að skoða myndina lengi til að sjá að ekkert lát er á hlýnun jarðar og ekki bólar mikið á þeirri stöðnun sem stundum er sögð vera á hlýnuninni.

Eins og önnur metár í gegnum tíðina fékk árið 2010 hjálp frá Kyrrahafsfyrirbærinu El Ninjo sem nú hefur snúist upp í andhverfu sína La Niña og því verður 2011 væntanlega heldur kaldara en nýliðið ár og ekkert óeðlilegt við það. Verst er þó með flóðin í Ástralíu sem núverandi ástand veldur.

Það þykir oft í tísku að efast stórlega um aðferðafræði NASA-GASA (Goddard Institute for Space Studies) en þeir hafa á síðari árum fengið út aðeins meiri hitaaukningu á jörðinni en aðrir rannsóknarhópar í sama bransa. Það sem veldur þessu lítilsháttar misræmi er sennilega það að NASA-GISS beitir þeirri aðferð að fylla inní eyður þar sem veðurathuganir eru af skornum skammti með því að notfæra sér gögn frá nálægustu stöðum. Þannig taka þeir t.d. með í dæmið nyrstu pólasvæðin sem hreinlega er sleppt í öðrum gagnaröðum eftir því sem ég kemst næst. Vegna hlýnunar og rýrnunar hafíssins á Norður-Íshafinu er niðurstaða NASA-GISS því ekki óeðlileg. Allar svona mælingar og mat er þó auðvitað háð einhverri óvissu en ætti þó ekki að breyta heildardæminu að ráði.

Þannig lítur hitadreifing ársins annars út. Eins og sést þá var mesta hitafrávikið á norðurslóðum þar sem fáir búa og því fáir til frásagnar.

Myndir eru frá NASA-GISS en fréttatilkynningu frá þeim má sjá hér:

http://www.giss.nasa.gov/research/news/20110112/

Athugasemdir

ummæli

About Emil Hannes Valgeirsson

Emil Hannes Valgeirsson er áhugamaður um veður og loftslagsmál og hefur skrifað fjölda pistla um þau mál á bloggsíðum Mbl.is. www.emilhannes.blog.is